Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
Ár 2024, föstudaginn 8. nóvember var haldinn 121. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir varamaður fyrir Kristinn Jón Ólafsson Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Pawel Bartoszek og Kjartan Magnússon. Stefán Pálsson tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði. Jafnframt: Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL og Frímann Ari Ferdinardsson varaáheyrnarfulltrúi ÍBR. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarborgar dags. 6. nóvember 2024 varðandi aðstöðumál í Tjarnarbíói og sviðslistir í borginni. MIR24110005.
Samþykkt að Vigdís Jakobsdóttir verði ráðin í að vinna úttekt og þarfagreiningu á aðstöðu sviðslistafólks á höfuðborgarsvæðinu.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarborgar dags. 6. nóvember 2024 varðandi aðstöðu fyrir tónlist í Reykjavík. MIR24110008
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Tónleikastöðum hefur fækkað í borginni á undanförnum árum og er brýnt að bregðast við þeirri þróun og leita leiða til að snúa vörn í sókn í samvinnu við ríkið og tónlistargeirann. Tónlistarborgin Reykjavík vinnur nú að gerð kynningarmyndbanda um þá tónleikastaði sem eru starfandi í borginni en jafnframt er unnið að kortlagningu og þarfagreiningu á vegum borgarinnar, ríkisins og rannsóknaseturs skapandi greina. Mikilvægt er að styrkja samstarf þessara aðila og stuðla að samhentu átaki sem skili sér í betra rekstrarumhverfi og fjölgun tónleikastaða í borginni.
- kl. 09:30 tekur Andrés B Andreasen sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á stöðu undirbúningsvinnu og hugmyndasamkeppni um útfærslu á Hafnarhúsi. MIR24110003
Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Ólöf Kristín Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- kl. 09:40 víkur Stefán Pálsson af fundi.
- kl. 09:50 tekur Stefán Pálsson sæti á staðfundinum.
-
Lagt fram erindisbréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 6. nóvember 2024 vegna starfshóps um staðarvalsgreiningu í bókasafni í Árbæ. MIR24110004.
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í meirihlutasáttmálanum var boðað að unnið yrði að staðarvalsgreiningu fyrir nýtt bókasafn í Árbæ og hér er lögð fram tillaga um skipan starfshóps sem mun rýna núverandi aðstöðu og vinna þarfagreiningu fyrir bókasafn á nýjum stað í hverfinu. Núverandi staðsetning safnsins þykir að ýmsu leyti óheppileg og er verkefnið framundan að skoða og leggja til staðsetningu sem gefi færi á að þjóna Árbæingum enn betur, þar sem horft verði til þróunar bókasafna sem upplýsinga-,menningar-,hringrásar- og samfélagsmiðstöðva.
- kl. 10:20 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á undirbúningsvinnu við fjölnota íþróttahúsi KR. MIR24110006
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil uppbygging er framundan hjá KR í Vesturbænum með stuðningi borgarinnar en í vikunni var lokið við að endurnýja gervigrasvöll fyrir yngri flokka félagsins og auglýst var alútboð fyrir bygginu fjölnota íþróttahús sem mun nýtast fjölmörgum deildum félagsins. Loks standa yfir viðræður um endurbætur á aðalvelli félagsins sem vonandi skilar niðurstöðu á allra næstu vikum. Samandregið hyllir því undir verulegar endurbætur á aðstöðu félagsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi hugmyndir um byggingu knatthúss ásamt viðbyggingu á svæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur á grundvelli tillögu félagsins. Mikilvægt er að draga lærdóm af vandkvæðum, sem upp hafa komið við alútboð vegna áður byggðra knatthúsa í borginni. Vanda þarf til verka við útboð verksins, samningagerð og eftirlit á framkvæmdatíma.
KR glímir við mikinn aðstöðuvanda og er því frekari uppbygging íþróttamannvirkja í Vesturbænum löngu tímabær. Hins vegar er óeðlilegt að gera þá kröfu að KR gangi á takmarkað athafnasvæði sitt með byggingu fjölbýlishúsa í því skyni að fjármagna uppbyggingu íþróttamannvirkja. Eru slíkar kröfur að jafnaði ekki gerðar til hverfisíþróttafélaga í borginni vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja á félagssvæðum þeirra til framtíðar. Rétt er að hafa í huga að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar og fjölgun íbúa í Vesturbænum á næstu árum. Slík fjölgun mun stórauka kröfur til KR og er því mikilvægt að félaginu sé tryggt nægilegt athafnarými til framtíðaraukningar.
-
Lagt fram bréf fjármálastjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 7. nóvember 2024 vegna gjaldskrá meindýravarna. MIR24110007
Frestað.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 7. nóvember 2024 þar sem óskað er eftir að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð tilnefni þrjá fulltrúa í styrkjahóps ráðsins vegna íþrótta- og æskulýðsmála.
Samþykkt að tilnefna Kristinn Jón Ólafsson, Sabine Leskopf og Friðjón R.Friðjónsson i hópinn. MIR24110001
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við Grófarhús. MIR 24100007
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Kostnaður vegna fyrirhugaðrar umbreytingar Grófarhúss er kominn í tæplega tvö hundruð milljónir króna. Er það gífurlegur kostnaður þegar haft er í huga að verkefnið er enn á hugmyndastigi. Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fluttu í Grófarhús, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu. Þótt þörf sé á ákveðnu viðhaldi er ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar stefnir að. Í október sl. var heildarkostnaður við umbreytingu hússins áætlaður 5.324 milljónir króna. Athygli vekur að kostnaður við hönnun og verkefnastjórn er áætlaður 1.165 milljónir króna eða 22% af heildarkostnaði við verkefnið. Reynslan sýnir að slík endurbyggingarverkefni fara jafnan langt fram úr áætlunum. Á þessu stigi hönnunar eru vikmörk mikil vegna óvissuþátta, sem gera má ráð fyrir að gætu numið +50% samkvæmt samantekt um málið frá 19. apríl 2023. Ljóst er að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verður gífurlegur. Furðu sætir að slík framkvæmd sé sett í forgang vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og uppsafnaðrar viðhaldsskuldar sem nemur tugum milljarða króna. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði borgarinnar liggur víða undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi og mygluskemmdir há starfi í mörgum skólum.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki er rétt að framkvæmdir vegna Grófarhúss hafi verið settar "í forgang". Að undanförnu hefur staðið yfir hugmyndavinna og ákveðin vinna við hönnun og forhönnun. Ekki stendur til að ráðast í framkvæmdir í húsinu í á næstu mánuðum en skynsamlegt er að búa í haginn til að hægt sé að ganga til verka þegar fjárfestingarsvigrúm er orðið meira.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksin leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að efnt verði til samráðs um yfirstandandi breytingar á gufubaðstofu Vesturbæjarlaugar við notendur hennar. Kannað verði viðhorf fastagesta til umræddra breytinga, kynskiptra búningsklefa og æskilega stærð gufubaðklefa. Markmið samráðsins er að komast að því hvaða fyrirkomulag sé æskilegt varðandi þessa þjónustu til framtíðar í því skyni að tryggja góða þjónustu og ánægju viðskiptavina laugarinnar.
Frestað.
Fundi slitið kl. 11:15
Skúli Helgason Pawel Bartoszek
Ásta Björg Björgvinsdóttir Sabine Leskopf
Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Stefán Pálsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. nóvember 2024