Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 120

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 11. október var haldinn 120. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 08:20. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson, Kristinn Jón Ólafsson og Kjartan Magnússon.  Pawel Bartoszek og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti.  Jafnframt: Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, Atli Steinn Árnason og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á útkomuspá 2024 - trúnaðarmál  MIR24100006

    Andres B Andreasen situr fundinn undir þessum lið. 

  2. Fram fer kynning á Borgarbókasafni - kynning MIR24100005

    Barbara Guðnadóttir og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svofellda bókun:

    Við þökkum Borgarbókasafninu fyrir sitt góða og framsýna starf í því að efla bókasöfnin sem upplýsinga-, menningar-, hringrásar- og samfélagsmiðstöðvar um alla borg. Ánægjulegt er sjá að íbúar og gestir safnsins eru að sýna umframopnun í Kringlusafni og Sólheimum mikinn áhuga og í Gerðubergi hefur verið opnuð fyrsta Fríbúðin þar sem íbúar eru miklir þátttakendur og byggja upp ný félagsleg tengsl, ásamt því að boðið er upp á skilakassa í anda hringrásarhagkerfisins. Áskoranir hafa fylgt sumarlokun bókasafna og mikilvægt er að rýna þá reynslu vel til betrumbóta fyrir næsta sumar. Tækifæri felast í því að íbúar kynnast þá öðrum bókasöfnum í borginni og hvetjum við bókasafnið að skoða fjölbreyttar lausnir til þess að mæta þörfum íbúa allt árið um kring, t.d. með sjálfsafgreiðslu bókaboxalausnum þar sem fólk getur pantað bækur í, sótt og skilað. Hönnun Grófarhúss er í spennandi farvegi og viljum við hrósa sérstaklega fyrir öflugt notendasamráð, mikla áherslu á endurnýtingu og fagleg vinnubrögð þar sem m.a. hönnun er stöðugt uppfærð út frá kostnaðarmati og stefnt er að grænni fjármögnun.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svofellda bókun:

    Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fluttu í Grófarhús um síðustu aldamót, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu í þágu safnanna. Grófarhús þjónar hlutverki sínu vel og er því ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar stefnir að.

    Samkvæmt minnisblaði dags. 8. október 2024 er heildarkostnaður við umbreytingu hússins nú áætlaður 5.324 milljónir króna. Athygli vekur að kostnaður við hönnun og verkefnastjórn er áætlaður 1.165 milljónir króna eða 22% af heildarkostnaði við verkefnið. Reynslan sýnir að slík endurbyggingarverkefni fara oft hressilega fram úr áætlunum. Hafa ber í huga að á þessu stigi hönnunar eru vikmörk enn mikil vegna óvissuþátta, sem gera má ráð fyrir að gætu numið +50% samkvæmt svari við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið frá 19. apríl 2023. Ljóst er að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verður gífurlegur.

    Furðu sætir að slík framkvæmd sé sett í forgang vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og uppsafnaðrar viðhaldsskuldar sem nemur tugum milljarða króna. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði borgarinnar liggur víða undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi og mygluskemmdir há skólastarfi.

     

     

    • kl. 09:35 vikur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 8. október 2024 ásamt drögum að samningi við Icebike um lagningu gönguskíðabrauta til tveggja ára. MIR24030002

    Samþykkt.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svofellda bókun:

    Við fögnum auknu samstarfi og möguleikum borgarbúa til útivistar að vetri til. Hólmsheiði er dýrmætt en viðkvæmt svæði, á sama tíma og mikilvægt er að auka aðgengi borgarbúa og sjálfbæra nýtingu þá er mikilvægt að fylgjast vel með allri starfsemi þar með tilliti til umhverfissjónarmiða og vatnsverndar.

     

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf stýrihóps um framtíðarsýn um Viðey dags. 8. október 2024 varðandi veðurstöð í Viðey. MIR24080006

    Fylgigögn

  5. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað vegna umbreytingar Grófarhúss.

Fundi slitið kl. 09:49.

Skúli Helgason Pawel Bartoszek

Sabine Leskopf Kristinn Jón Ólafsson

Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. október 2024