Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
Ár 2024, föstudaginn 13. september var haldinn 118. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson, Kristinn Jón Ólafsson og Kjartan Magnússon. Jafnframt: Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, Helga Friðriksdóttir, Atli Steinn Árnason og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á Útilísfborginni – MIR24090003.
- kl. 09:15 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks leggja svo svohljóðandi bókun:
Ráðið þakkar fyrir fróðlega og skemmtilega kynningu á fjölmörgum viðfangsefnum Útilífsborgarinnar sem býður fjölbreytta útiveru sem bætir, hressir og kætir andann um leið og hún er mikilvægur liður í að efla lýðheilsu borgarbúa hvort sem litið er til Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Frístundagarðsins í Gufunesi, Ylstrandar og starfsemi Sigluness og Brokeyjar í Nauthólsvík eða skíðasvæðanna í borginni. Eitt helsta verkefni Útilífsborgarinnar verður uppbygging Vetrargarðsins í Breiðholti sem mun bæta til muna aðstöðu fyrir borgarbúa til að renna sér á skíðum, sleðum og brettum í hjarta borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram viljayfirlýsing milli forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Reyjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ dags. 2. september 2024 um uppbyggingu þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. MSS24080032
Þorvaldur Örlygsson og Eysteinn Pétur Lárusson frá Knattspyrnusambandi Íslands taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja svo svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni fyrir íslenska knattspyrnu að samkomulag hafi náðst milli Reykjavíkurborgar, ríkisins og Knattspyrnusambands Íslands um endurbætur á Laugardalsvelli með lagningu á hybridgrasi og tilheyrandi framkvæmdum, svo völlurinn geti nýst allt árið um kring. Velgengni landsliða Íslands í kvenna – og karlaflokki auk íslenskra félagsliða á alþjóðavettvangi hefur verið mikil og vaxandi, nú síðast Víkings sem vann sér keppnisrétt í deildakeppni Sambandsdeildar Evrópu fyrst reykvískra liða. Reykjavíkurborg á Laugardalsvöll og fjármagnar reksturinn að verulegu leyti og er því eðlilegur þátttakandi í meiriháttar endurbótum á vellinum. Mikilvægt er að finna framtíðarlausn varðandi þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum en mennta- og barnamálaráðherra mun skipa starfshóp þar um með aðkomu borgarinnar. Samhliða er eðlilegt að borgin leggi aukinn þunga í viðræður við ríkið um breytingu á eignarhaldi vallarins þar sem um þjóðarleikvang er að ræða sem ekkert félagslið í Reykjavík notar lengur sem sinn heimavöll.
- kl.10:15 víkur Atli Steinn Árnason af fundi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Óperudögum, sem er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar sem fram fer 23. október til 3. nóvember 2024.
Guja Sandholt tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 11. september 2024 um skipun í faghóp vegna úthlutunar styrkja menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs úr borgarsjóði til menningar og lista 2025 með tilnefningum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Trúnaðarmál fram að úthlutun styrkja.
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram starfsáætlun menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 2024. MIR24080005
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja svo svohljóðandi bókun:
Meirihluti ráðsins leggur hér fram starfsáætlun fyrir komandi haustmisseri þar sem er að finna helstu áherslur í starfi ráðsins til áramóta. Þarna ber hæst ýmis lykil stefnumál úr málefnasáttmála meirihlutans er tengjast pólitískri forgangsröðun og stefnumótun, helstu framkvæmdir er tengjast uppbyggingu íþróttamannvirkja, aðstöðumál sviðslista og kynningar á helstu verkefnum og framtíðarsýn lykilstofnana á sviði menningar- og íþróttamála. Starfsáætlun endurspeglar kraftmikið starf stofnana og embættismanna sviðsins og metnað ráðsins til að sækja fram í þessum málaflokkum sem gera lífið í borginni innihaldsríkara og skemmtilegra.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að samþykkt MÍT. MIR24080008
-
Rætt um opinn fund ráðsins í október – MIR24090004
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sýningu á grænlenskri og færeyskri myndlist í Listasafni Reykjavíkur sbr. 117. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs liður 11. MIR24080012
Jafnframt lögð fram umsögn safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 10. september 2024.
Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja svo svohljóðandi bókun:
Tillagan felur í sér tilmæli til stjórnenda Listasafns Reykjavíkur um að haldin verði sýning á grænlenskri og færeyskri myndlist. Sem slík er hugmyndin góðra gjalda verð en skv. samþykkt um Listasafn Reykjavíkur er það hlutverk ráðsins að gera tillögur til borgarráðs um stefnumörkun, hafa eftirlit með rekstri og að samþykktum og stefnu sé fylgt. Stjórn safnsins er að öðru leyti í höndum safnstjóra skv. samþykkt um Listasafn Reykjavíkur, sem ber ábyrgð á faglegu starfi safnsins, skipuleggur sýningar þess o.s.frv. Það er því almennt ekki hlutverk ráðsins gera tillögur að einstaka sýningum á vegum safnsins. Á þeim forsendum er tillögunni vísað frá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Bersýnilega er ætlunin með fyrirliggjandi tillögu að koma þeirri hugmynd á framfæri við stjórnendur Listasafns Reykjavíkur að efnt verði til sýninga á færeyskri og grænlenskri myndlist í því skyni að efla menningartengsl við þessar grannþjóðir okkar. Sannarlega er listastefna safnsins ákvörðuð af safnstjóra óháð hugmyndum stjórnmálamanna enda er ekkert sem segir að safnstjóra sé skylt að fylgja ábendingunni þó ráðið samþykki að beina hugmyndinni að Listasafni Reykjavíkur. Það vekur furðu að fulltrúar Samfylkingar, Pirata og Viðreisnar í ráðinu skuli kjósa að misskilja tillöguna þannig að hún vegi sjálfstæði listasafnsins og vísa henni frá á þeim forsendum. Afgreiðslan dæmir sig sjálf.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra dags. 10. september 2024 við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lokun undirganga við Nauthólsveg frá 25. ágúst 2023 liður 11. ITR23080012
- kl. 11:10 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofustjóra íþróttaborgar dags. 10. september 2024 við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fyrirkomulag íþróttastrætós. MIR24080013.
Fylgigögn
-
Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svo svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs óskar eftir því að fá samantekt frá Menningar- og íþróttasviði um þátttökuhlutfall fatlaðra barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi í Reykjavík. Hvaða gögn eru fyrirliggjandi um þessa þátttöku, er unnt að bera hana saman við það sem gerist í öðrum sveitarfélögum eða nágrannalöndum og hvaða leiða hefur verið leitað af hálfu borgarinnar til að auka hana? MIR24090006
Fundi slitið kl. 11:30
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. september 2024