Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 116

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 116

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 27. júní var haldinn 116. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Sabine Leskopf, Kristinn Jón Ólafsson. Frímann Ari Ferdinardsson áheyrnarfulltrúi ÍBR og Jónína Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL.  Stefán Pálsson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir varamaður fyrir Pawel Bartoszek tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti.   Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir  og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram tillaga faghóps dags. 25. júní 2024 um styrki til myndríkrar miðlunar um sögu Reykjavíkur.  MIR23030001

    Samþykkt.

    Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns og Inga María Leifsdóttir verkefnisstjóri á skrifstofu menningarborgar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 26. júní 2024 um Tjarnarbíó ásamt drögum að rekstrarsamningi um Tjarnarbíó. MIR24060013.

    Samningsdrögin samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 13. júní 2024 varðandi endurskoðun málsmeðferðarreglna borgarráðs um veitinga- og gististaði.  Óskað er eftir endurskoðun á ákvæðum um áfengisveitingar í íþróttamannvirkjum í tengslum við íþróttaviðburði. MSS23080053.

    Samþykkt að óska eftir umsögn hjá ÍBR, ÍSÍ, UMFÍ, Embætti landlæknis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barnaheill, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Alþýðusambandi Íslands, Umboðsmanni barna, Félagi áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, IOGT, Reykjavíkurráði ungmenna, velferðarráði og mannréttindaráði. 

    - kl. 09:22 tók Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir sæti á fundinum og aftengdist fjarfundabúnaðinum.

    - kl. 09:30 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf Íþróttabandalags Reykjavíkur dags. 11. júní vegna gjaldskrár fyrir afnotaleyfi viðburða í borgarlandi.  MIR2406012.

    Samþykkt að óska eftir fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs á næsta fund ráðsins.

     - kl. 09:35 tekur Andrés B Andreasen sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 12. júní 2024.  MIR24060010

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur til við borgarráð að gjaldskrá sundlauga Reykjavíkurborgar verði breytt með það að meginmarkmiði að sækja tekjur af eldri ferðamönnum sem hingað til hafa notið gjaldfrjáls aðgengis að sundlaugum borgarinnar.

    Tekið verði upp sérstakt árskort fyrir eldri borgara á verði sem jafngildi þremur stökum ferðum fullorðinna í sund eða kr. 4.000.- samkvæmt núverandi gjaldskrá. Gestir sem orðnir eru 67 ára og eldri greiði stakt gjald fullorðinna og gjaldflokkurinn eldri borgarar verði tekinn úr gjaldskránni. Öryrkjar fái áfram frían aðgang að sundlaugum borgarinnar gegn framvísun öryrkjakorts.

    Breytingin taki gildi frá 1. ágúst 2024. Ný árskort fyrir eldri borgara taki gildi 1. október 2024, fram að þeim tíma geti eldri borgarar framvísað sundkortum sem nú eru í gildi.

    Greinargerð fylgir tilllögunni. 

    Samþykkt með 5 atkvæðum Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn 1 atkvæði Sjálfstæðisflokksins.

    Jafnframt lagðar fram umsagnir öldrunarráðs dags. 24. júní 2024 og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis dags. 25. júní 2024 um gjaldskrá sundstaða.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sundlaugamenning hérlendis er einstök á heimsvísu. Góð aðsókn eldra fólks í sund hefur haft frábær lýðheilsuáhrif og þann árangur þarf að viðhalda. Að jafnaði eru ferðir í sundlaugar borgarinnar niðurgreiddar um helming en sundferðir 67 ára og eldri hafa verið niðurgreiddar að fullu. Ein afleiðing þess er að borgin verður af tugmilljóna tekjum árlega vegna ferðamanna 67 ára og eldri. Við teljum eðlilegt að breyta gjaldskránni svo eldri borgarar greiði í sund eins og aðrir aldurshópar, eins og víða tíðkast hérlendis og erlendis. Hins vegar er mikilvægt að koma til móts við þá eldri borgara sem sækja sund sér til heilsubótar allan ársins hring og er því lagt til að tekið verði upp árskort eldri borgara í sund á hóflegu verði eða kr. 4000 á ári, sem svarar til þriggja sundferða á fullu verði. Að auki teljum við rétt að auka stuðning við heilsueflingu eldri borgara í samráði við ÍBR og er stefnt að því að slík tillaga verði lögð fram í haust í tengslum við fjárhagsáætlun næsta árs.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eldri borgarar hafa áratugum saman haft endurgjaldslausan aðgang að sundlaugum Reykjavíkur. Það fyrirkomulag var tekið upp að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins en er nú afnumið af meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur mótmælt umræddri gjaldtöku harðlega og m.a. bent á að sundiðkun sé mikilvægt lýðheilsumál fyrir þennan aldurshóp. Fyrir marga sé hún að auki veigamikill þáttur við að rjúfa félagslega einangrun.

    Fylgigögn

  6. Rætt um fjármál íþróttafélaga.  MIR24050009

    kl. 09:55 tekur Birna Hafstein sæti á fundinum

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 23. maí 2024 þar sem vísað er til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs samþykkt öldungaráðs  frá 8. maí 2024 um samræmda upplýsingagjöf til eldra fólks um heilsueflingu og afþreyingu á vegum Reykjavíkurborgar.  MSS24030074

    Fylgigögn

  8. Lögð fram drög að umsögn sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 25. júní 2024 varðandi Félagsmiðstöðvar, samfélags- og menningarhús – tillögur og ábendingar starfshóps – MSS24060032.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Umrædd skýrsla virðist fela í sér hugmyndir um að draga úr þjónustu í fimm almennum félagsmiðstöðvum velferðarsviðs. Ljóst er að slík þjónustuskerðing mun helst beinast gegn eldri borgurum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast eindregið gegn hugmyndum um slíka þjónustuskerðingu.

    • kl. 10:06 víkur Andrés B Andreasen af fundi.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tillaga fulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar.

    Lagt er til að samþykkt verði að ráðast í endurgerð gamla vatnspóstsins í Aðalstræti með það að markmiði að koma honum í horf sem prýði verður að. Borgarsögusafni verði falið að leiða þá vinnu í samvinnu við skrifstofu borgarlands á umhverfis- og skipulagssviði. Verkefnið verði fjármagnað af skrifstofu borgarlands. MSS24040007

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi ráðsins 10. maí lagði fulltrúi Vinstri grænna fram tillögu um að hafinn yrði undirbúningur að endurbótum á vatnspósti í Aðalstræti, sem skemmtilegu tákni um horfna menningu varðandi vatnsöflun borgarbúa. Sú vinna leiddi í ljós að góður grundvöllur væri fyrir endurgerðinni og þar sem kostnaðurinn er viðráðanlegur leggur meirihlutinn til í samvinnu við málshefjanda að ráðist verði í verkefnið hratt og vel svo vatnspósturinn í Aðalstræti megi verða borgarprýði um ókomin ár eins og efni stóðu til.

    Jafnframt lagt fram bréf Borgarsögusafns dags. 26. júní 2024 varðandi endurgerð vatnspósins.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um íþróttafulltrúa hjá Leikni sbr. 6. liður 112. fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.  MIR24060009

     Jafnfram lagt fram minnisblað sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 24. júní 2024 varðandi Leikni.

    Tillögunni er vísað frá með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar gegn 2 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Íþróttafélagið Leiknir í Efra Breiðholti hefur starfað í 50 ár og nýtur þjónustustyrks frá borginni sem nemur ígildi hálfs stöðugildis íþróttafulltrúa. Í bókun stjórnar ÍBR við erindi Leiknis frá 29. maí sl. kemur fram að Leiknir njóti nú þegar hlutfallslega hærri styrkja en önnur íþróttafélög borgarinnar í ljósi þeirrar sérstöðu sem félagið hefur í hverfinu. Hins vegar uppfyllir félagið ekki skilyrði sem koma fram í viðmiðum ÍBR um skilyrði fyrir heilu stöðugildi íþróttafulltrúa, s.s. um lágmarksfjölda iðkenda og að boðið sé upp á æfingar fyrir bæði stráka og stelpur. Mikill meirihluti iðkenda í félaginu stundar knattspyrnu en einungis er boðið upp á æfingar fyrir stráka. Hins vegar standa yfir aðgerðir á vegum borgarinnar og ÍBR til að efla þátttöku barna í frístundastarfi í Breiðholti þar með talið íþróttum og standa vonir til þess að með þeim muni fjöldi iðkenda í Leikni og framboð á greinum fyrir bæði kyn aukast.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um tíu þúsund manns búa nú í Efra Breiðholti og íbúum þar fer fjölgandi. Íþróttafélagið Leiknir hefur í rúma hálfa öld sinnt mikilvægu hlutverki í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í hverfinu og starfrækir nú fimm íþróttagreinar. Rétt er að líta til þeirrar starfsemi, sem og íbúafjölda, þegar ákvarðanir eru teknar um stuðning Reykjavíkurborgar við starf íþróttafulltrúa í hverfum borgarinnar.

    Oft er rætt um félagslega sérstöðu Efra Breiðholts og miklvægi þess að fjölga iðkendum íþrótta þar. Leiknir gegnir lykilhlutverki varðandi íþróttastarf barna og ungmenna í hverfinu og hefur fullan hug á að fjölga iðkendum. Það háir þó starfsemi félagsins að hafa ekkiíþróttafulltrúa í fullu starfi. Ljóst er að slíkur fulltrúi myndi gagnast vel til að styrkja starfsemi félagsins og koma henni á fastari grundvöll, t.d. með því að fjölga iðkendum af báðum kynjum, sem og af erlendum uppruna.Með íþróttafulltrúa í fullu starfi yrði Leikni þannig gert kleift að efla starfsemi félagsins og fjölga íþróttaiðkendum í Efra Breiðholti.

    Þrátt fyrir að þörfin sé augljós kýs meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar að hafna tillögu Sjálfstæðisflokksins um fulla stöðu íþróttafulltrúa Leiknis. Slík afstaða ber vott um skilningsleysi á mikilvægi þess að efla íþróttastarf barna og ungmenna í Efra Breiðholti.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að lengja opnunartíma sundlauga sbr. 4. liður 114. fundargerðar fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. MIR24060011.

    Tillagan er felld með 4 atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Fulltrúi Vinstri grænna sigur hjá við afgreiðslu málsins.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Opnunartími sundlauga Reykjavíkurborgar er lengri en í flestum ef ekki öllum sveitarfélögum landsins og þó víðar væri leitað. Í sjö af átta sundlaugum borgarinnar er opnunartíminn á kvöldin um helgar 1-3 klst. lengri en hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Nýr opnunartími sundlauga um helgar tók gildi í byrjun apríl og verður reynslan metin af þeirri framkvæmd í haust, en opnunartíminn er í sífelldri endurskoðun byggt á gögnum um aðsókn sundlaugagesta. Ekki er tímabært að breyta opnunartímanum þegar einungis rúmir 2 mánuðir eru liðnir frá innleiðingu breytinganna. Sérstakur stýrihópur vinnur nú að endurskoðun og einföldun gjaldskráa sviðsins og er eitt af markmiðum þeirrar vinnu að auka tekjur og svigrúm til að bæta þjónustuna. Þá verður m.a. horft til opnunartíma sundlauga, en mikilvægt er að árétta að sundlaugar Reykjavíkurborgar eru með lengsta opnunartíma á landinu og stenst þjónustan sömuleiðis prýðilega alþjóðlegan samanburð, bæði varðandi gæði og opnunartíma.

Fundi slitið kl. 11:05

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Sabine Leskopf Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Kjartan Magnússon Birna Hafstein

PDF útgáfa fundargerðar
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð 28.6.2024 - prentvæn útgáfa