Mannréttindaráð
Ár 2025, fimmtudaginn 24. júlí var haldinn aukafundur fundur mannréttindaráðs nr. 8. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Borgarráði og hófst kl. 14.00. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Sabine Leskopf, Oktavía Hrund Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Kjartan Magnússon. Einnig sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar fjölmenningarráðs: Mouna Nasr. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ellen J. Calmon, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Einar Þorsteinsson. Einnig sat fundinn eftirfarandi embættismenn og starfsfólk: Anna Kristinsdóttir með rafrænum hætti.
Guðný Bára Jónsdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgastjórnar dags. 27. júní 2025, um að Kjartan Magnússon taki sæti í mannréttindaráði í stað Björn Gíslasonar. MSS25020083
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um nýjar vendingar í umræðunni um stöðu innflytjenda í borginni. MSS25070085
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkar mannréttindaráðs lýsa yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar þróunar að öfgahópar merktir þekktum fasískum táknum skuli taka sér hlutverk lögreglu og ógna íbúum, einkum íbúum af erlendum uppruna. Samstarfsflokkarnir fagna því að bæði lögregluyfirvöld og dómsmálaráðherra hafi nú lýst því yfir opinberlega að þessir hópar hafi engar heimildir til slíks. Það er hins vegar áhyggjuefni að hvergi kemur skýrt fram til hvaða aðgerða eigi að grípa til að sporna við þeim samfélagsmeinum sem rasismi og útlendingaandúð eru. Samstarfsflokkarnir hvetja öll stjórnvöld til að ávarpa áhyggjur innflytjenda sem upplifa sig óörugga í íslensku samfélagi og það sé skýrt að ofbeldisfullir öfgahópar séu ekki liðnir hér. Ljóst er að þörf er á margþættum viðbrögðum við auknum rasisma, útlendingaandúð og ofbeldi í garð innflytjenda og því brýnt að bregðast við. Lögregluyfirvöld þurfa að tryggja öryggi innflytjenda, þá þurfa öll stjórnvöld að leggja aukna áherslu á skýra stefnumörkun gegn rasisma og útlendingaandúð. Fylgja þarf slíkri stefnumörkun tafarlaust eftir með aðgerðum sem vinna markvisst gegn hatursorðræðu og ofbeldi í garð innflytjenda sem og jaðarsetningu þeirra. Reykjavík er fjölmenningarborg og því ber að fagna. Stjórnmálamenn bera ábyrgð með orðum sínum og eiga aldrei að tala inn í óttann við hið ókunnuga eða kynda undir öfgafulla þjóðernishyggju.
Áheyrnarfulltrúi Samtaka kvenna af erlendum uppruna, W.O.M.E.N leggur fram svohljóðandi bókun:
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi eru uggandi vegna uppgangs "verndarhópa" á borð við “Skjöldur Íslands”. Þessir hópar, sem nú eru virkir á samfélagsmiðlum eins og TikTok, lýsa sjálfum sér sem hetjur eða fólk með húmor. En á bak við þessa ímynd er hættuleg hugmyndafræði sem elur á ótta, normalíserar hatur og grefur undan lýðræðinu. Þetta snýst ekki um öryggi – þetta snýst um útilokun. Við hvetjum mannréttindaráð Íslands, Reykjavíkurborg og allar lýðræðislegar stofnanir til að: 1. Nefna þetta sem ógn við lýðræðislegt skipulag. 2. Fordæma opinberlega og skipuleggja mótaðgerðir. 3. Vernda konur af erlendum uppruna og öll viðkvæm samfélög. 4. Hafa samfélög sem verða fyrir áhrifum með í mótun viðbragða. Þetta er persónulegt. Mörg okkar flúðu lönd þar sem lög og stjórnvöld náðu ekki að vernda okkur. Við munum ekki þegja þegar svipuð dýnamík kemur fram hér. Við stöndum sem konur, mæður, leiðtogar og eftirlifendur – staðráðnar að búa í réttlátu Íslandi. Við væntum þess að stjórnvöldin okkar standi með okkur.
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks lýsa yfir áhyggjum af því að einstaklingar og hópar í samfélaginu taki lögin í sínar hendur. Lögregla hefur það verkefni að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglum hér á landi eins og fram kemur í 1. gr. lögreglulaga. Lögreglan hefur jafnframt gefið það út að hún muni bregðast við ef að einstaklingar eða hópar taka sér völd umfram það sem þeim er heimilt ásamt því að stemma stigu við afbrotum eins og lög kveða á um. Borgarfulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hvetja stjórnvöld til að hlusta á og bregðast við þeim áhyggjum sem margir innflytjendur lýsa yfir um að þeir upplifi sig ekki örugga í borginni okkar. Það þarf að koma skýrt fram að ofbeldisfullir öfgahópar eigi sér hvorki samastað né séu liðnir í íslensku samfélagi. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að fólk treysti réttarríkinu og upplifi öryggi í nærumhverfi sínu. Það skiptir miklu máli að allir sem dvelja í Reykjavíkurborg bæði íbúar og gestir borgarinnar geti treyst því að yfirvöld tryggi öryggi þeirra og að lög gildi jafnt fyrir alla. Borginni ber að leggja sig fram um samstarf við lögregluyfirvöld til að tryggja að öryggistilfinning almennings skerðist ekki í Reykjavík.
Fundi slitið kl.14.39
Sabine Leskopf Ellen Jacqueline Calmon
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns
Friðjón R. Friðjónsson Kjartan Magnússon
Einar Þorsteinsson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttindaráðs frá 24. júlí 2025