Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur nr. 44
Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 12. desember var haldinn 44. fundur mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi, Tjarnarbúð og hófst kl. 13.00. Fundinn sátu eftirfarandi fulltrúar: Magnús Davíð Norðdahl, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir og Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Unnur Þöll Benediktsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 10. desember 2024, um aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025 – 2028. Jafnframt er lögð fram umsögn velferðarráðs dags. 9. desember 2024. MSS24060082
Samþykkt.Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Linda Dröfn Gunnarsdóttir og Jenný I. Ingudóttir með rafrænum hætti.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að loksins sé verið að afgreiða aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2028 Fulltrúi Flokks fólksins telur ýmislegt í umsögn velferðarsviðs um áætlunina afar gagnlegt. Í umsögn segir: Meðal hlutverka mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs er að vera vegvísir í baráttunni gegn ofbeldi, vera ráðgefandi fyrir starfsemi borgarinnar í málaflokknum og stuðla að upplýstri umræðu um ofbeldi á öllum sviðum borgarinnar. Um er að ræða mjög mikilvæg verkefni. Vert er að velta upp hvort hlutverk ráðsins mætti einnig felast í að hafa frumkvæði að því að lagt verði heildstætt mat á þær aðgerðir sem til staðar eru nú þegar, greina hvað betur má fara, hverju þarf að gera meira af og hvaða nýju aðgerðum þurfi að bæta við til að tryggja árangur. Fulltrúi Flokks fólksins var sérlega áhugasamur um aðgerð átta í aðgerðaráætluninni en þar er lagt til að stofnaður tímabundinn starfshópur sem fær það hlutverk að greina stöðu barna og ungmenna í tengslum við ofbeldi og setja fram tillögur um sameiginlegt verklag. Flokkur fólksins telur að þessi aðgerð sé mjög mikilvæg og þörf. Flokkur fólksins lagði reyndar til svipaða aðgerð fyrir rúmum tveimur árum. Í umsögn velferðarsviðs er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þessarar aðgerðar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu á verkefninu Ungir leiðtogar. MSS24030087
Guðrún Elsa Tryggvadóttir, Guðný Bára Jónsdóttir, Noah Newton Obermair, Eydis Elide Sæmundsdóttir Sartori, Nikola Klimaszewska og Mia Ðuric taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 2. desember 2024 um skýrslu starfshóps um endurskoðun stefnu Reykjavíkurborgar í túlka- og þýðingarmálum. MSS22030274
Samþykkt að fela mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að kostnaðarmeta og forgangsraða tillögum skýrslunnar fyrir árið 2025.Joanna Marcinkowska tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Flokk fólksins leggur fram svohljóðandi bókun
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar um túlka-og þýðingarmál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið nokkrar kvartanir frá notendum túlkaþjónustunnar um galla á þjónustunni. Kvartanirnar voru af ýmsum toga eins og að túlkar væru slakir í því máli sem þeir væru að túlka og þannig kæmust upplýsingar ekki til skila og einnig eru kvartanir um að túlkar tali ekki íslensku. Leiðbeiningar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar byggir á stefnu frá 2017 en þar segir að gerð sé krafa um að túlkar hafi haldgóða þekkingu á íslensku og því tungumáli sem er til túlkunar. Unnið hefur verið að fyrstu stefnu í málefnum innflytjenda á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Þar er ánægjulegt að sjá að í umsögn Reykjavíkurborgar um stefnuna kemur fram að Reykjavíkurborg vill gera meiri kröfur til starfandi túlka- og þýðendaþjónustu um gæði og fagmennsku. Vonandi verður því framfylgt. Fulltrúa Flokks fólksins líst sérstaklega vel á tillögu hópsins um íslenskukennslu fyrir foreldra barna í leik-og grunnskólum. Stefnt er að því að hafa verkefnið sem tilraunaverkefni í einum grunnskóla og einum leikskóla í Reykjavík. Markmið verkefnisins er að veita foreldrum sem hafa önnur önnur samskiptatungumál en íslensku tækifæri til að læra orðaforða tengdan grunn- og leikskóla.
Fylgigögn
-
Lagðar fram styrkumsóknir til mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. ÞON24080006
Samþykkt að veita verkefninu Druslugangan, styrk að upphæð kr. 800.000,-
Samþykkt að veita verkefninu Sjúkást og Sjúktspjall, styrk að upphæð kr. 3.500.000,-
Samþykkt að veita verkefninu Vændi vitundarvakning, styrk að upphæð kr. 700.000,-
Öðrum styrkumsóknum er hafnað.Fulltrúar Samfylkingar, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun á skráningarferlum vegna ofbeldis í garð starfsfólks grunnskóla, sbr.7. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 14. nóvember 2024. MSS24090153
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð vísar tillögu Flokks fólksins til skóla- og frístundaráðs til meðferðar. Er það von ráðsins að skóla- frístundaráð taki tillöguna til meðferðar sem allra fyrst enda mikilvægt að skráning slíkra mála sé gerð með fullnægjandi hætti á grundvelli skýrra verkferla.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að tilmælum yrði beint til skóla-frístundaráð um að endurskoða skráningarferla í því skyni að bæta til muna skráningu á því ofbeldi sem kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla verða fyrir af hendi nemenda eða annarra sem tengist starfi þeirra. Einnig að bæta tryggingar ef starfsfólk verður fyrir ofbeldi. Tillögunni er vísað til skóla og frístundaráðs til umsagnar. Í þriðju drögum að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2028 segir: Verkferlar verði innleiddir á hverju sviði en einnig verði unnir gátlistar/leiðbeiningar fyrir starfsfólk sem vinnur störf þar sem það getur orðið fyrir ofbeldi af hálfu þjónustuþega. Búið er að vinna á mannauðs- og starfsumhverfissviði verkferil vegna ofbeldis sem starfsfólk verður fyrir. Þessi verkferill verði innleiddur á hverju sviði fyrir sig. Einnig verði á sviðunum búinn til gátlisti/leiðbeiningar um leiðir til að auka öryggi starfsfólks og farið yfir það með starfsfólki með reglubundnum hætti og alltaf við nýráðningar.Fulltrúa Flokks fólksins finnst jákvætt að þessi aðgerð sé í drögunum en telur jafnframt að mikilvægt sé að fylgja málinu eftir.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 2. desember 2024, um yfirlit yfir ferðir mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu erlendis nóvember 2023 – nóvember 2024. MSS22120013
Fylgigögn
-
Lagt fram fundadagatal mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs vor 2025. MSS22060205
Fylgigögn
Fundi slitið kl.16.12
Magnús Davíð Norðdahl Þorvaldur Daníelsson
Unnur Þöll Benediktsdóttir Friðjón R. Friðjónsson
Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir Helga Þórðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. desember 2024