No translated content text
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2021, fimmtudaginn 9. desember var haldinn 51. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13:02. Fundinn sat Dóra Björt Guðjónsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Ellen J. Calmon, Aron Leví Beck, Anna Wojtynska og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Örn Þórðarson. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir og Karen María Jónsdóttir sat fundinn með fjarfundarbúnaði.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 9. desember 2021, þar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar þann 7. desember sl., að Anna Wojtonska taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Daníels Arnar Arnarsonar. MSS21120110
Fylgigögn
-
Lagt fram til upplýsingar fundadagatal mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs vor 2022. R20010319
Fylgigögn
-
Lagðar fram til afgreiðslu styrkumsóknir til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R2112000
Samþykkt að veita verkefninu Léttir, styrk að upphæð kr. 273.800 -,
Samþykkt að veita verkefninu Kynvitund og kyntjáning, styrk að upphæð kr. 2.700.000-,
Samþykkt að veita verkefninu Hjólakraftur og Rauði krossinn, styrk að upphæð kr. 500.000 -,
Samþykkt að veita verkefninu Hennar Rödd, styrk að upphæð kr. 750.000-,
Samþykkt að veita verkefninu Fræðsluátak um málefni fólks á flótta, styrk að upphæð kr. 600.000 -,
Samþykkt veita verkefninu Ungt fólk og ofbeldisfull öfgahyggja, styrk að upphæð kr. 1.700.000 -,
Samþykkt að veita verkefninu Fræðsluefni fyrir fólk af erlendum uppruna, styrk að upphæð kr. 400.000 -,
Samþykkt að veita verkefninu Ungt fólk til ábyrgðar, styrk að upphæð kr. 450.000Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
Dóra Björt Guðjónsdóttir víkur af fundinum undir afgreiðslu á styrkumsóknum frá Solaris hjálparsamtökum og Semu Erlu Serdar Serdaroglu.
Fylgigögn
-
Lagðar fram umsóknir um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
R21020040Samþykkt að veita verkefninu Málþing í tilefni af 40 ára stofnun Kvennaframboðsins í Reykjavík, styrk að upphæð kr. 150.000-,
Samþykkt að veita verkefninu Táknmálstúlkuð leiksýning, styrk að upphæð kr. 180.000-, -
Lögð fram umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs dags. 9. desember 2021, um drög að stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf. R21100283
Samþykkt.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það sem fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á er að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri. Skoða má hvort hægt er að breyta eldri leikskólum með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli. Til eru leikskólar sem hafa verið hannaðir með þessa þætti í huga og má nefna Múlaborg. Taka má hönnun Múlaborgar til fyrirmyndar og gera fleiri í sömu mynd. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi að svo mörgu leyti. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda. Ástandið er sérlega slæmt þar sem er mikil mannekla, þá reynir á samskiptin. Þar sem vel hefur tekist til með hönnun er að öll starfsmannaklósett eru inni í kennslustofum nemenda, fatahengi barna eru inni í kennslustofu barna, hver kennslustofa hefur sér útihurð til að komast að leikvellinum og sameign er hönnuð þannig að starfsmenn hafi ávallt yfirsýn yfir börnin.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 7. desember 2021, um drög að atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar til umsagnar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R20120043
Samþykkt að fela Diljá Ámundadóttur og Ellen J. Calmon, að gera drög að umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fyrir næsta fund ráðsins 13. janúar 2022.Fylgigögn
-
Fram fer kynning á endurskoðun þjónustustefnu Reykjavíkurborgar ásamt stöðumati og drögum að aðgerðaráætlun. ÞON21070032
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í þessari kynningu kjarnast flest það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að bóka um í þessum málum. Ekki vantar háfleygt orðalag svo sem „Þjónustustefnan markaði þáttaskil í þjónustuveitingu“. Samt er aðeins örfá verkefni kláruð, flest í einhverjum fasa eða hafa tafist von úr viti. Hlaðan er rétt að byrja í innleiðingu og hefur fulltrúi Flokks fólksins áhyggjur af hvernig það muni ganga. Það verða mikil vonbrigði ef eitthvað klikkar eftir allan tíma sem beðið er eftir Hlöðunni. Fram kemur að hver hugsar um sína þjónustu, eins og ábyrgð á útstreymi fjármagnsins sé sviðunum að kenna. En hver stýrir þá hvernig 10 milljarðarnir eru notaðir? Stefnan sem hér um ræðir er ekki málið heldur hversu skammt á veg hin stafræna umbreyting er komin í ljósi þess óheyrilegs fjármagns sem hefur verið sett í umbreytinguna. Fjármagnið hefur farið mest í að þenja út sviðið sjálft. Eftir því er tekið að Gróðurhúsið er ekki nefnt. Þegar talað er um námskeið í notendamiðaðri hönnun er hálft í hvoru eins og haldið sé að borgarstarfsmenn sem vinna við að þjónusta fólk, viti ekkert í sinn haus. Fram kemur að verið sé að prófa, að læra. Í prófanir hefur einmitt farið tugir milljóna og það er vandinn í hnotskurn.
- Kl. 14.30 tekur Óskar J. Sandholt sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.
- Kl. 14.52 víkur Anna Kristinsdóttir af fundinum.Guðbergur Ragnar Ægisson og Valý Ágústa Þórsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 9. desember 2021, um 9 mánaða uppgjör þjónustu- og nýsköpunarsviðs. ÞON21020041
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði leggur fram eftirfarandi bókun; Á lista yfir innkaup miðlægrar starfsemi Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins kemur fram að samanlögð upphæð innkaupa er 767.838.235,- kr. Athygli vekur að til meginþorra þessara innkaupa er stofnað með „beinu sambandi“, eins og það er skilgreint í útskýringum. Um er að ræða verulega háa upphæð og því eðlilegt að kanna hvort ekki sé hægt að viðhafa annað vinnulag við innkaup af þessu tagi og ná þannig hagkvæmari niðurstöðu fyrir innkaup miðlægrar starfsemi borgarinnar.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Athygli vekur að laun og launatengd gjöld fara 23.5% umfram fjárheimildir. Það er réttlætt með því að tekjur hafi einnig hækkað um 23.6% vegna aukinnar þjónustu við fagsvið. En slíkar tekjur eru ekki tekjur vegna aukinnar sölu út á við heldur er um að ræða innri viðskipti milli sviða sem þýðir aukinn kostnað fyrir borgina eins og fulltrúi Flokks fólksins sér þetta. Spurning er hvort einhvers staðar hafi verið tekin formleg ákvörðun um aukningu á mannafla eða aukna yfirvinnu sem nemur 23.5% frá fjárheimildum? Einnig þarf að fara gaumgæfilega ofan í hvort um óeðlilegar yfirborganir sviðsins séu að ræða vegna ráðningar sérfræðinga í samkeppni við einkafyrirtæki. Síðan vekur þetta athygli: Laun og launatengd gjöld voru 1.253 m.kr. eða 238 m.kr. umfram fjárheimildir vegna eignfærsluverkefna. Hvað er átt við með eignfærsluverkefnum? Áður var búið að segja að tekjur hafi aukist um 23.6% vegna aukinnar þjónustu við fagsvið. Þjónusta við fagsvið er sem sagt eignfærsluverkefni? Hvar eru teknar ákvarðanir í þessum efnum? Eftir er að skýra út af hverju kostnaður við verkefni sem tengjast stafrænni umbreytingu sem er í raun ekkert annað en innleiðing á nýju vinnulagi á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er færður í eignasjóð (ES) og afskriftir síðan færðar sem kostnaður á rekstrarreikningi?
Þorgeir Hafsteinn Jónsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 21. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um tilbúnar afurðir, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. nóvember sl. R21030087 - ÞON21100045
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að þetta svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs er með öllu ófullnægjandi og svarar ekki því sem spurt var um. Spurt var um hversu margar lausnir sviðið hefur nú þegar klárað og gert aðgengilegar fyrir borgarbúa? Í stað þess að svara þessu beint er settur fram verkefnalisti þar sem er að finna upptalningu allskyns verkefna sem að meirihluta eru enn í hugmynda- eða þróunarfasa. Á þessum lista er enga flokkun að finna eftir mikilvægi og öllu hrært saman í einn graut alveg óháð því hvað raunverulega er tilbúið og hvað ekki. Spurt var um það sem er tilbúið og komið í fulla notkun, en ekki hálfklárað eða enn á hugmynda eða þróunarstigi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í langan tíma gagnrýnt það hversu ómarkviss stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar undir forystu þjónustu og nýsköpunarsviðs er. Það virðist vera lítil yfirsýn og oft skortir nákvæma framkvæmdaáætlun og tímasetningar.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 14. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um verkefni og verk þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 11. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 14. október sl. R21030087 - ÞON21100044
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram nokkrar spurningar um verkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs m.a. hvort fjárfestingarverkefni séu ekki alltaf skilin frá almennum rekstrarkostnaði. Svarið við þessu er “jú”. En samt má sjá að kostnaður við verkefni sem tengjast stafrænni umbreytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er færður í eignasjóð (ES) og afskriftir eru síðan færðar sem kostnaður á rekstrarreikningi. 10 milljarða kostnaður við breytingar á stjórnsýslu er eignfærður en fer ekki í rekstrarreikning. Þetta er sérkennilegt því að margt af stafrænu umbreytingunni snýst um innleiðingu nýs vinnulags. Fram kemur í svari við spurningunni: hvaða verkefni eru fjármögnuð með styrkveitingu frá Bloomberg? Segir að ÞON eigi að skila inn tillögum til Bloomberg sem geti nýst öðrum borgum. Segir einni að erindi Reykjavíkur með öðrum stórborgum sé fjórþætt: Að vinna að hagsmunum borgarinnar á alþjóðavettvangi, að styrkja ímynd borgarinnar og markaðsstarf á alþjóðavettvangi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér sé talað um Reykjavík eins og stórt einkafyrirtæki sem komið sé á markað og sem þarf að vera samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. Er ekki búið að missa sjónar af hvað Reykjavík er? Reykjavík er lítið sveitarfélag í alþjóðlegu samhengi. Það er algjörlega óvíst hver raunverulegur ávinningur borgarinnar er af allri þessari útrás.
Fylgigögn
-
11. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 19. október 2021, við við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ársskýrslu, 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. september sl. R21090039 - ÞON21100042Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Spurt var um kostnað við prentun ársskýrslunnar sem var greinilega prentuð úr besta fáanlega pappír. Gott er að heyra að hún var ekki prentuð í stóru upplagi. Við afhendingu fylgdi ekki sögunni hvað mörg eintök voru prentuð. Eins og með Byggingarblað borgarstjóra sem fór í hvert hús í Reykjavík, vænti fulltrúi Flokks fólksins þess allt eins að þessi skýrsla yrði einnig borin inn í hvert hús í Reykjavík. Slíkur hefur uppgangurinn verið hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Það er taktlaust hjá sviði sem hefur verið svo harðlega gagnrýnt fyrir að fara með fjármagn af lausung að skutla skýrslu úr glanspappír á borð mannréttindaráðs. Eðlilegra hefðir verið að prenta hana úr endurnýjuðum pappír og með því, að sýna lítillæti og hógværð. Það vekur sérstaklega athygli þegar sviðsstjóri fer miklum lofsyrðum um ágæti og árangur þess sviðs sem hann stýrir í ljósi gagnrýni flokka minnihlutans, Samtaka Iðnaðarins og fleiri. Er þar á ferðinni vægast ansi hlutdræg umfjöllun sem ekki er hægt samþykkja athugasemdalaust.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 5. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um samstarf við Stafrænt Ísland, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september sl. R21090010 - ÞON21100038
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svari við fyrirspurn Flokks fólksins um af hverju þjónustu og nýsköpunarsvið hafi ekki samnýtt afurðir Stafræns Íslands eru athyglisvert. Ástæðan er sögð vera að um sitthvort stjórnsýslustig sé að ræða. Það skal áréttað að Stafrænt Ísland (SÍ) hefur það hlutverk að „þróa og reka miðlægar lausnir sem gagnast öllum þvert á ríkið og styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum á sama tíma.“ Það er einu sinni svo að sveitarfélagið Reykjavík er á engan hátt frábrugðið öðrum sveitarfélögum á Íslandi fyrir utan stærð. Það eru að stærstum hluta sömu verkefni og sama þjónusta sem sveitarfélag þarf að veita sínum notendum. Ef skynsemi væri í þessum málum þá ætti að byrja á því að samhæfa sveitarfélögin hér á Reykjavíkursvæðinu þegar kemur að stafrænum lausnum. Reykjavíkurborg hefði átt að hafa frumkvæði að því að fá nágrannasveitarfélögin til samstarfs um stafræna umbreytingu strax í byrjun og deila bæði ábyrgð og kostnaði. Það hefði verið stórt skref varðandi sparnað sveitarfélaga með þeim samlegðaráhrifum sem af samhæfingu kerfa og annarra þátta myndi verða með slíkri samvinnu.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 2. september 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna rafrænnar upplýsingagjafar, sbr. 18. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. maí sl. R19050087 - ÞON21070016
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 21. nóvember 2021, við framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um Gróðurhúsið, sbr. 13. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. september sl. R21040037 - ÞON21050017
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Af svari má skilja að það sé þá sama hvað t.d. upplýsingafulltrúa eða sviði/deil finnst sniðugt að gera að þá er það samþykkt að þjónustu- og nýsköpunarsvið setji í það milljónir í tilraunar- og þróunarfasa? Þá spyr fulltrúi Flokks fólksins hver sé að stýra því í hvað þessir 10 milljarðar fara sem ÞON hefur úr að spila? Annað dæmi sem er nefnt hvernig sviðin eða deildir ráði hvaða verkefni eða stafrænar lausnir fái framgang er beiðni um betri Framkvæmdasjá. Við því var orðið og var málið sent í framhaldinu í Gróðurhúsið. Gróðurhúsið er sagt að veiti innsýn inn í framtíðina og að starfsmenn sem vilja tileinka sér aðferðir sem boðaðar eru í þjónustustefnu borgarinnar eru hvattir til að ganga í Gróðurhúsið. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað var svo gert við Framkvæmdasjánna í Gróðurhúsinu? Hver er hinn áþreifanlegi ávinningur? Þarna er um að ræða hugmyndasmiðjur og tilraunir sem er algjörlega óvíst hvað kemur út úr. Þetta er áhættuhegðun og þeir fjármunir sem verið er að eyða í, í hugmyndaleiki sem þessa má flokka sem áhættufjármagn. En það er ekki hlutverk opinberra aðila að stunda slíka leiki með almannafé. Vel er hægt að kaupa þær verkefnatengdu ferlagreiningar sem þarf hverju sinni af einkafyrirtækjum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 1. desember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um verkefni kostuð af Bloomberg, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. nóvember sl. R21110113 - ÞON21120006
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í svari kemur m.a. fram að styrkurinn frá Bloomberg á að kosta laun nokkra sérfræðinga og er það um 50% af styrknum. Borgin á að reiða fram tillögur að þremur verkefnum sem gagnast á öðrum borgum. Að öðru leyti segir að ýmis sérverkefni eru kostuð af styrk Bloomberg sem og ráðstefna í lok verkefnisins 2023. Hver er ávinningur hins almenna borgara af Bloomberg þátttökunni? Fyrir hvern eða hverja er þetta í raun? Það læðist að fulltrúa Flokks fólksins sá grunur að það sem þarna býr að baki sé þörf borgarstjóra og sviðsstjóra þjónustu og nýsköpunarsviðs, að fá að sitja við fótskör stærri borga sem í raun eiga samt fátt sameiginlegt með hinni litlu Reykjavík. Það eru engir peningar að koma inn í rekstur borgarinnar vegna þessa. Þetta er ein stór tilraunasmiðja sem virðist vera orðin þungamiðjan í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar undir forystu þjónustu og nýsköpunarsviðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs dags. 29. nóvember 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um skýrsluna Snjöll og jöfn, sbr. 6. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 23. september sl. R21090215 - ÞON21100041
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um ókláruðu tilraunaverkefni sem rætt hefur verið um. Eitt af verkefnunum var Snjallborgina sem átti að vera vel útfærð Snjallborgaráætlun. Verkefnið Snjallborgin setti af stað ýmis tilraunaverkefni í Reykjavík en mörg þeirra voru ekki kláruð (Óskar Sandholt, munnleg heimild, 15. júní, 2021). Týnt er til í svari ýmsir þættir sem áætlunin um Snjallborgarverkefnið átti að ná til og má segja að fátt sé undanskilið. Snjallborgin “sameinar gögn, bætir þjónustu, eykur lífsgæði, dregur úr sóun, stuðlar að skilvirkum samgöngum, bættum rekstri, aukinni umhverfisvitund og betri nýtingu orkugjafa.” Nú spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort borgarbúar sem þetta lesi eigi að geta séð þetta fyrir sér? Þetta tilraunaverkefni sem kostar sitt var síðan leyst upp. Er þetta ekki skýrt dæmi um hvernig fjármagni hefur verið sóað í allskonar tilraunastarfsemi og sem hefur í raun lítið ef nokkuð skilið eftir sig? Það sama á við um Gróðurhúsið en ekkert áþreifanlegt virðist hafa komið út úr því eftir margra ára hugmyndaleikjasmiðjur. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort önnur sveitarfélög eða ríkið sé búið að halda úti ámóta tilraunasmiðjum til margra ára eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur gert. Það er fulltrúa Flokks fólksins stórlega til efs að svo sé.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verkefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2021 - 2022. ÞON21120016
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir ítarlega yfirferð á stöðu verkefna sem hófust á árinu og halda áfram á nýju ári. Þessi verkefni eru hluti af stóra átaki Reykjavíkur í stafrænni umbreytingu. Síðast var farið yfir verkefnin sem eru að klárast á árinu. Er um mikinn fjölda mikilla verkefna að ræða sem munu bæta þjónustu við íbúa, auka skilvirkni innan starfseininga borgarinnar og minnka sóun og mengun. Nú er fyrsta heila árinu í þessu mikla átaki í stafrænni umbreytingu að ljúka, hluti árs fór í undirbúning átaksins en nú sjáum við þess skýr merki að átakið hefur sannarlega tekið flugið. Meðal verkefna eru Gagnsjá Reykjavíkur, nýtt mælaborð, átak í teikningaskönnun, prentþjónusta sem mun minnka sóun verulega og ýmis verkefni sem munu auka yfirlit og innsýn sem leggur grunn að upplýstri ákvarðanatöku. Öflugu starfsfólki sviðsins er kærlega þakkað fyrir mjög góð störf á árinu.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ráðist hefur verið í hugbúnaðarframleiðslu með tilheyrandi tilraunastarfsemi og þenslu á mörgum verkefnum sem ýmist eru til annars staðar eða mættu í það minnsta bíða betri tíma. Á meðan er sárlega beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum t.d. að fullklára Mínar síður, að fullklára innleiðingu Hlöðunnar sem er nýtt upplýsingastjórnunarkerfi og Gagnsjánna sem er upplýsingamiðlunarkerfi en beðið hefur verið eftir þessum lausnum í amk þrjú ár. Dæmi um verkefni sem ekki eru akút reru ýmis mælaborð; Kosningakort; Sorphirðudagatal (sem var til fyrir); Samþættingar og ferlakerfi einhvers konar; Gæðastýring; Hugmyndasmiðjur um borgaraleg réttindi; Þekkingarbrunnur; Ferlateikningakerfi; Þróunarlínu og innviðir (hefði mátt bíða); Gagnvirk framsetning á skipuriti borgarinnar; Hvirfill, viðburðardagatal (sem var til fyrir); Miðlægt fræðslukerfi. Minnt er á að verið er að sýsla með útsvarsfé borgarbúa og ekki eru til endalaust fjármagn í tilraunir og til að gera mistök. Áfram er reiknað með að taki einhver ár að fá þessi verkefni í gang samkv. kynningu. Samtök Iðnaðarins og fleiri hafa stigið fram og furðað sig á aðferðarfræði ÞON og það mikla fjármagni sem farið hefur í umbyltinguna sem þó er ekki komin lengra en þetta. Á meðan á öllu þessu stendur bíða 1680 börn eftir fagþjónustu í borginni. Vísað er í tillögur með greinargerða Flokk fólksins frá borgarstjórn 7.12.
- Kl. 15.25 tekur Anna Kristinsdóttir sæti á fundinum.
Arna Ýr Sævarsdóttir, Friðþjófur Bergmann, Inga Rós Gunnarsdóttir, Óskar Þór Þráinsson og Þröstur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúa Sjálfstæðisflokks óskar eftir því að skýrt verði nánar hvers vegna stofnað hafi verið til meginþorra innkaupa fyrir miðlæga starfsemi Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins, að upphæð 767.838.235,- kr, með svokölluðu „beinu sambandi“ eins og það er skilgreint í framlögðu yfirliti 9 mánaða uppgjöri þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Með fyrirspurninni er verið að óska eftir almennu sjónarmiði sviðsins varðandi innkaup af því tagi sem yfirlitið nær yfir, fyrst og fremst hvort ekki sé hægt að ná fram hagstæðari innkaupum með öðru vinnulagi eða innkaupaferlum fyrir miðlæga starfsemi borgarinnar. MSS21120169
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
- Kl. 15.58 víkur Diljá Ámundadóttir af fundinum.
- Kl. 16.00 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 16:03
Dóra Björt Guðjónsdóttir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
mnl_0912.pdf