No translated content text
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
Ár 2021, fimmtudaginn 11. mars var haldinn 37. fundur, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Fundurinn var haldinn í fjarfundi í Ráðhúsi og hófst kl.13.02. Fundinn sátu Dóra Björt Guðjónsdóttir Geir Finnsson, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Örn Þórðarson og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir og Karen María Jónsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. febrúar 2021, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi m.a. vegna notkun fjarfundabúnaðar, ásamt fylgiskjölum. R18060129
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á tilfærslu Umboðsmanns borgarbúa til Innri endurskoðunar. R21030020
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Árið 2020 var sameinuð á einum stað starfsemi eftirlitseininga með það að markmiði að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Um leið var lögð áhersla á að standa vörð um mismunandi eiginleika og hlutverk þessara eftirlitseininga, bæði hvað varðar innra eftirlit og persónuvernd og að umboðsmaður borgarbúa væri áfram aðgengilegur vettvangur sem borgarbúar geti leitað til með sínar ábendingar þar sem þeim er komið í skýrt ferli. Markmiðið var að tryggja að á vegum Reykjavíkurborgar starfi ein öflug eftirlitsheild sem með virku eftirliti getur dregið úr áhættu sem getur hamlað að borgin nái tilætluðum árangri. Í sameinaðri einingu getur farið fram öflugra starf en hjá smáum og dreifðum einingum með betri yfirsýn yfir stöðu þeirra mála sem lúta að málefnum Reykjavíkurborgar. Á fundinum var innleiðingin kynnt og virðist vera í góðum farvegi.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í fyrra 2020 var skrifstofu Umboðsmann borgarbúa og hlutverkið fært undir skrifstofu Innri endurskoðunar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort og í hversu miklu mæli borgarbúar hafi áttað sig á þessari breytingu. Umboðsmaður borgarbúa var orðinn vel þekktur og var afar vel liðinn eftir því sem heyrðist. Einhvern veginn heyrist ekki mikið um sambærilegt hlutverk hjá Innri endurskoðun. Eitthvað þarf að gera í þessu. Það er mjög mikilvægt að borgarbúar ekki aðeins hafi möguleika á að fara með mál sín til óháðs aðila telji þau brotið á sér heldur að þeir viti af breytingunni á úrræðinu þótt umboðsmaður borgarbúa sé ekki lengur til í þeirri mynd sem hann var.
Hallur Símonarson, Dagbjört Hákonardóttir og Íris Arnlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins frá 28. janúar 2021, um úttekt á jafnréttisfræðslu, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021. R21010298
Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að Reykjavíkurborg geri úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi í ljósi þess að fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn sem lögð er til grundvallar afgreiðslunni er sagt frá verkefnum starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi og sé talið að þau verkefni nái að mestu yfir tillögur Flokks fólksins utan úttektar á hvernig jafnréttisfræðsla hefur þróast undanfarna áratugi. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki sammála að í verkefnum þeirra felist beinlínis að gera úttekt á þessum málum í þeim skilningi. Hópurinn ætlar að kortleggja kennsluefni, leggja mat á stöðu fræðslunnar, rýna í námsefni og leggja fram tillögu til að efla þekkingu starfsfólk og auka fræðslu til barna. Í úttekt myndi hins vegar felast að skoða hvernig fræðslunni er háttað á öllum stöðum þar sem hún er við lýði. Fulltrúi Flokks fólksins vill einnig að talað verði við krakkana sjálfa og foreldra þeirra og þau spurð hvað þeim finnst gagnlegt og hvað mætti bæta og hvað hreinlega vantar? Í verkefnalista stýrihópsins er ekki beint séð að ræða eigi við ungmennin sjálf eða foreldra þeirra hvað þeim finnst vanta, þurfi að breyta eða sé einfaldlega í góðu horfi.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá með vísan í umsögn starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi þar sem fram kemur að verkefni og hlutverk starfshópsins ná að mestu yfir tillögur Flokks fólksins um úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum. Starfshópurinn var settur á laggirnar á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs 25. júní 2020 til að vinna að aukinni kynja- og hinseginfræðslu og undirbyggja þá vinnu með þeim greiningum sem þörf er á. Því er litið svo á að málið sé þegar í skýrum farvegi.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tillögunni kemur fram skýr áhugi á jafnréttisfræðslu í skólum sem og vilji til að bæta þá fræðslu. Tillagan talar inn í þann þverpólitíska vilja sem margoft hefur komið fram á fundum í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Í tillögunni er ávarpaðir vankantar á stöðu jafnréttisfræðslumála í skólum og bent á leiðir. Allir þessir þættir hafa verið ræddir á fjölmörgum fundum og vettvangi innan borgarkerfisins, ávallt í fullkominni þverpólitískri sátt. Því vekur það furðu að meirihlutinn kjósi að vísa tillögunni frá. Eðlilegra hefði verið að taka vel undir hana og samþætta við þá vinnu sem allir eru sammála um að framundan þurfi að vera til að bæta jafnréttisfræðslu í skólum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins frá 11. febrúar 2021, um samræmingu á jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021. R21010298
Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð hvetji til þess að kannað verði hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla er samræmd í leik- og grunnskólum. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn sem lögð er til grundvallar afgreiðslunni er ekki fjallað um þessa tillögu sem varðar skoðun á hvort jafnréttisfræðsla sé samræmd í leik- og grunnskólum. Bent er á verkefni stýrihóps um kynja- og hinseginfræðslu og að þau dekki tillögu Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins telur svo ekki vera. Hvergi í erindisbréfi starfshópsins er minnst á að skoða hvort og þá hversu mikið jafnréttisfræðsla er samræmd. Fræðslan getur því vel verið með afar ólíkum hætti milli skóla. Nú er jafnréttisfræðsla lögbundin og því mikilvægt að hvorki magn, gæði eða innihald sé háð því í hvaða skóla barn gengur. Í þessu sem öðru eiga börn að sitja við sama borð. “Að auka og efla” er allt annað en að hvort fræðslan sé samræmd milli skóla. Eins og með sérkennsluna og sálfræðiaðstoð og annað sem við bjóðum börnunum í borginni þurfum við að geta verið nokkuð örugg um að það sé svipað milli skóla/hverfa. Ella eru börn sem búa í hverfum þar sem fræðsla eða þjónusta er lakari að bera skertan hlut frá borði.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögunni er vísað frá með vísan í umsögn starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi þar sem fram kemur að verkefni og hlutverk starfshópsins ná að mestu yfir tillögur Flokks fólksins um úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum. Starfshópurinn var settur á laggirnar á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs 25. júní 2020 til að vinna að aukinni kynja- og hinseginfræðslu og undirbyggja þá vinnu með þeim greiningum sem þörf er á. Því er litið svo á að málið sé þegar í skýrum farvegi.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tillögunni kemur fram skýr áhugi á jafnréttisfræðslu í skólum sem og vilji til að bæta þá fræðslu. Tillagan talar inn í þann þverpólitíska vilja sem margoft hefur komið fram á fundum í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Í tillögunni er ávarpaðir vankantar á stöðu jafnréttisfræðslumála í skólum og bent á leiðir. Allir þessir þættir hafa verið ræddir á fjölmörgum fundum og vettvangi innan borgarkerfisins, ávallt í fullkominni þverpólitískri sátt. Því vekur það furðu að meirihlutinn kjósi að vísa tillögunni frá. Eðlilegra hefði verið að taka vel undir hana og samþætta við þá vinnu sem allir eru sammála um að framundan þurfi að vera til að bæta jafnréttisfræðslu í skólum borgarinnar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á notendaráði félagsstarfs aldraðra hjá velferðarsviði. R21030070
- Kl. 14.03 víkur Sigríður Arndís Jóhannsdóttir og Ellen J. Calmon tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna. Í bókun þessari er kannski meira af spurningum en venja er í bókun en það kemur til af því að margt í þessu er frekar ruglingslegt og óskýrt. Notendaráð eru starfandi á 12 af 17 félagsmiðstöðvum og kallast þau ýmsum nöfnum; notendaráð, íbúaráð, heimilisráð, æðsta ráð, stjórn, opinn fundur. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvers vegna eru Notendaráð ekki starfandi í öllum 17 félagsmiðstöðvum? Eins liggur ekki ljóst fyrir hvað ræður því hvort kosið sé í ráð eða fólk beðið um að starfa þar? Allt ferlið og framkvæmdir þurfa að vera gegnsæjar. Eins væri ráðlegt að hafa eitt samheiti yfir þessi störf, en ekki sex nöfn eins og hér er talið upp. Það er heldur ekki ljóst hvað ræður fjölda stöðva. Er það fjöldi íbúa eða þátttakenda? Fulltrúi Flokks fólksins mun ekki að sinni leggja þessar spurningar fram með formlegum hætti en vonast til að þær verðar skoðaðar með það í huga að gera breytingar til hins betra.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Birna Róbertsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta, frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna þann 12. maí 2020, um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021. R20050131
Vísað til starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu.Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Í kjölfar fundar borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna þar sem tillögu ungmennaráðs Árbæjar og Holta um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni var vísað til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs var ákveðið á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs 25. júní 2020 að ráðast í heildstæða vinnu við aukna kynja-, hinsegin- og jafnréttisfræðslu þar sem kveikjan var tillaga ungmennaráðsins. Í því samhengi var stofnaður starfshópur um kynja- og hinseginfræðslu sem er falið að gera nauðsynlegar greiningar og vinna að tillögum að því hvernig best sé að auka og efla kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi. Vegna Covid-19 náðist ekki að funda með fulltrúum ungmennaráða á sama fundi og starfshópurinn var skipaður en tillagan var sannarlega kveikjan að þessari vinnu og er henni því hér með formlega vísað til úrvinnslu starfshópsins sem er að leggja grunn að meiri og betri jafnréttis-, kynja- og hinseginfræðslu fyrir börn og ungmenni. Með þessari afgreiðslu er lýst fullum stuðningi við þau sjónarmið sem koma fram í tillögu ungmennaráðsins.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að ungmenni biðji um aukna jafnréttisfræðslu hvort sem það sé vegna þess að hún sé ekki næg eða að þau vilji einfaldlega meiri og dýpri fræðslu um einstaka þætti. Í umsögn jafnréttis- lýðræðis- og mannréttindateymis kemur fram það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af sem er að „þrátt fyrir að jafnréttisfræðsla sé lögbundin er enginn ábyrgðaraðili til staðar sem tryggja á að fræðslunni sé sinnt í skólakerfinu og fyrir vikið má teljast afar líklegt að misjafn sé á milli skóla hversu mikla og hversu markvissa jafnréttisfræðslu nemendur fá“. Þetta er ástæða tillagna Flokks fólksins í lið 3 og 4 á sama fundi um að gerð verði sérstök úttekt og könnun á samræmingu á jafnréttisfræðslu í skólum og frístund. Þeim tillögum var vísað frá. Stýrihópur hefur verið settur á laggirnar sem m.a. á að kortleggja jafnréttisfræðslu í skóla- og frístund. Niðurstöður þeirra mun varpa ljósi á margt en eftir stendur áfram sú staðreynd að það er enginn ábyrgðaraðili til staðar sem tryggja á að fræðslunni sé sinnt í skólakerfinu. Þess vegna er afar brýnt að gerð verði kerfisbundin úttekt á fræðslunni og það skoðað hversu samræmd hún er milli staða.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða, frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna þann 12. maí 2020, um aukna fræðslu um fólk á flótta, ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs dags. 23. febrúar 2021. R20050127
Vísað til fjölmenningarteymis skóla- og frístundasviðs.Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Í umsögn skóla- og frístundasviðs er lagt til að fjölmenningarteymi skóla- og frístundasviðs vinni með ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða að aukinni fræðslu um fólk á flótta og tekið er vel í þá tillögu að farvegi málsins. Því er tillögunni vísað til úrvinnslu fjölmenningarteymis skóla- og frístundasviðs. Með þessari afgreiðslu er lýst fullum stuðningi við þau sjónarmið sem koma fram í tillögu ungmennaráðsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram umsókn um skyndistyrk til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. R21020040
Hafnað. -
Lagt fram bréf stjórnar Neyðarlínu ehf. dags. 21. janúar 2021, vegna ályktunartillögu Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands frá 28. maí 2020. R20050329
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs harmar að fulltrúar Neyðarlínunnar hafi ekki þegið boð um að fylgja bréfinu eftir á fundi ráðsins enda ýmis atriði málsins enn talin óútskýrð af hálfu stjórnar Neyðarlínunnar. Mikilvægt er að hafið sé yfir allan vafa að verklag Neyðarlínunnar byggi á virðingu fyrir þeim sem leita þurfa á náðir hennar og endurspegli hluttekningu og skilning á aðstæðum þeirra.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundinum er lagt fram bréf Neyðarlínunnar dagsett 21. janúar sl. þar sem þakkað er fyrir ábendingu fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands. Þar kemur einnig fram að ekki hafi verið skýrt óskað svara. En að beiðni fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Neyðarlínunnar hafi verið brugðist við tillögunni og skýrir það þann drátt sem varð á svari Neyðarlínunnar. En í megindráttum segir að ferlar 112 séu í stöðugu endurmati í góðu samráði við viðbragðsaðila með það að markmiði að geta sem best leyst úr þeim vanda sem við er að etja. Mikið traust ríkir í garð Neyðarlínunnar og er það fyrirtækinu kappsmál að viðhalda eða auka traust almennings. Ábendingar og kvartanir eru teknar alvarlega, greindar og ferlar lagfærðar ef þörf er á. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks þakkar þessi svör og þann áhuga sem bréf Neyðarlínunnar vitnar um, að geta sem best leyst úr þeim vanda sem fyrirtækið þarf að takast á við sem viðbragðsaðili við erfiðar og flóknar aðstæður.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um valnefnd mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar og hvatningaverðlauna 2021. R21030018
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands:
Óskað er eftir upplýsingum um aðgengi fatlaðs fólks að þjónustu Strætó og vagnaflota Strætó bs. Hversu margir strætisvagnar eru í umferð sem nú uppfylla kröfur um aðgengi hreyfihamlaðs fólks? Hversu margir strætisvagnar uppfylla ekki kröfur um aðgengi t.d. hjólastóla? Hvernig er verklagi háttað í þeim tilfellum þegar farþegi getur ekki nýtt sér þjónustu vegna þess að vagninn er ekki búinn til að taka við farþega sem er hreyfihamlaður og notast við göngugrind eða hjólastól? Hverjar eru verklagsreglur varðandi aðstoð bílstjóra við fatlaða farþega svo sem þá sem notast við göngugrind, hjólastól eða hvíta stafinn? Einnig er óskað eftir upplýsingum um framtíðarsýn og stefnumörkun Strætó í málaflokki er varðar þjónustu við fatlað fólk, er vinna í gangi við að auka aðgengi þessa hóps bæði að vögnum og veittri þjónustu vagnstjóra? Hvenær stendur til að skipta út þeim vögnum sem ekki uppfylla aðgengiskröfur? R21030025
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins stendur ekki á sama um fjármuni borgarbúa og telur að allt of miklum fjármunum sé varið í allskyns óhlutlæg verkefni eins og gríðarleg ráðgjafarkaup og hugmyndavinnu ýmiss konar sem lítið virðist skilja eftir sig í raunverulegum vörum eða hagræðingu. Borgarfulltrúa finnst eins og á þessu sviði sé einhvers konar hugmyndasmíð í gangi sem ekki er séð hverju skilar nema fjárútlátum í stað afurða í formi lausna fyrir Reykvíkinga. Það eru Reykvíkingar sem eru að greiða fyrir þessi stafrænu verkefni sem kynnt hafa verið að undanförnu og undanfarin ár án þess að ávinningur sé beinlínis sýnilegur eða áþreifanlegur. Vegna þessa spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins um kostnað embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs við ferðir erlendis: ráðstefnur, námskeið, námsferðir eða nám. Spurt er um kostnað síðustu 4 ár. R21030125
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins spyr um snjalllausnir og hvað langan tíma tekur að gera þær áþreifanlegar. Á heimasíðu Atvinnuleysistryggingasjóðs er að finna Snjallmennið Vinný sem svarar fyrirspurnum fljótt og vel. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að leita að sambærilegri snjalllausn á vef Reykjavíkurborgar en finnur ekkert slíkt þrátt fyrir að keypt hefur verið ráðgjöf frá ýmsum fyrirtækjum eins og frá Capacent og Gartner Group. Spurt er: Hversu mörg ár í viðbót þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið á ráðgjafarþjónustu og hugmyndavinnu að halda áður en sambærileg snjalllausn verður komin í notkun á vef borgarinnar sem væri þá afurð í líkingu við snjallmennið Vinný? R21030126
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins:
Fyrirspurn um Rafræna Reykjavík umsóknarvef Reykjavíkurborgar: Þrátt fyrir að til sé heil skrifstofa undir þjónustu- og nýsköpunarsviði sem heitir Stafræn Reykjavík sem á að sjá m.a. um vefþróun og stafræna þróun, hefur umsóknarvefur Reykjavíkurborgar Rafræn Reykjavík lítið sem ekkert breyst eða þróast í mörg ár jafnvel þótt keypt hafi verið umtalsverð ráðgjöf og hugmyndavinna innan og utanlands undanfarin ár. Þess vegna er spurt: Eru líkur á því að borgin geti nýtt sér að einhverju leyti alla þá aðkeyptu ráðgjöf og afrakstur hugmyndavinnustofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem nú þegar er búið að greiða fyrir varðandi áframhaldandi þróun á þessari þjónustugátt Rafræn Reykjavík og öðrum vefjum borgarinnar? R21030127
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Fundi slitið klukkan 16:18
Dóra Björt Guðjónsdóttir Skúli Helgason
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
PDF útgáfa fundargerðar
mnl_1103.pdf