Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 61

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2008, föstudaginn 22. febrúar var haldinn 61. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Hinu Húsinu og hófst kl. 12:00. Mættir: Bolli Thoroddsen formaður, Kjartan Magnússon, Björn Gíslason, Stefán Jóhann Stefánsson, Hermann Valsson og Oddný Sturludóttir. Jafnframt: Sigfús Ægir Árnason áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 13. febrúar sl. varðandi nefndir og ráð borgarinnar og megináherslur varðandi fundi, fundarsetu o.fl.

2. Lögð fram tillaga Erum arkitekta dags. 6. febrúar sl. að deiliskipulagi Suður-Mjóddar (ÍR svæði) sbr. fundargerð skipulagsráðs dags. 13. febrúar sl.

3. Lagt fram bréf skipulagsráðs dags. 14. febrúar sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs tillögu Landmótunar ehf. dags. 2. okt. 2007 að deiliskipulagi á útivistarsvæði í Úlfarsárdal, Fram svæði.

4. Lagt fram bréf skipulagsráðs dags. 14. febrúar sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs uppdrættir Erum arkitekta dags. 19. nóv 2007 ásamt bréfi skipulagsfulltrúa varðandi fyrirhugað athafnasvæði Fylkis við Hádegismóa.

Íþrótta- og tómstundaráð gerir ekki athugasemdir við þær tillögur að deiliskipulagi sem lagðar eru fram á fundi varðandi svæði ÍR í S-Mjódd, Fylkis við Hádegismóa og Fram í Úlfarsárdal, enda verði haft samráð við íþróttafélög og íbúa eftir því sem við á.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að fela framkvæmdastjóra ÍTR að kynna tillögurnar fyrir viðkomandi hverfisráðum.

- kl. 12:10 kom Reynir Ragnarsson á fundinn.

5. Lagt fram afrit af bréfi Framkvæmdasviðs dags. 4. febrúar til stjórnar Eignasjóðs Reykjavíkurborgar vegna Tónabæjar. Jafnframt lagt fram afrit af bréfi framkvæmdastjóra ÍTR til Framkvæmdasviðs dags. 16. janúar sl.

- kl. 12:15 kom Egill Örn Jóhannesson á fundinn.

6. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 14. febúar sl. vegna samninga við ÍBR um Reykjavíkurmaraþon.
Samþykkt.

- kl. 12:25 kom Soffía Pálsdóttir á fundinn.

7. Lögð fram bréf Knattspyrnufélagsins Þróttar dags. 6. febrúar sl. vegna vallarmála félagsins í Laugardal.
Jafnframt lögð fram drög að svarbréfi ÍTR vegna málsins.
Vísað til Eignasjóðs.

8. Lagt fram bréf Fjölnis dags. 15. febrúar sl. varðandi vallarmál félagsins við Dalhús.
Vísað til Eignasjóðs.

9. Lagt fram bréf skólastjóra Víkurskóla dags. 4. feb. sl. vegna sparkvallar á lóð skólans.
Vísað til Eignasjóðs.

10. Rætt um norrænar vinabæjar- og höfuðborgarráðstefnur í haust.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 14. febrúar sl. vegna samnings við Fjörefli vegna Gufuness.
Samþykkt að óska eftir kynningu á fyrirhugaðri starfsemi Fjöreflis á næsta fundi.

12. Lagt bréf framkvæmdastjóra ÍBR dags. 18. febrúar sl. vegna alþjóðaleika ungmenna 2008 með ósk um styrk.
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf fræðslustjóra dags. 14. febrúar sl. þar sem fram kemur að tillaga um stofnun starfshóps um ráðningar starfsmanna í grunnskólum og á frístundaheimilum hafi verið samþykkt.

14. Áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks lagði fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn ÍTR samþykkir að beina því til Umhvefis- og samgöngusviðs Reykjavíkur og Stjórnar Strætó bs. að leiðakerfi strætisvagna verði endurskoðað með tilliti til aukinna og breyttra þarfa ungmenna á almenningssamgöngum. Sérstaklega skulu kannaðir möguleikar á að breyta leiðum vagnanna svo þeir þjóni enn betur íþrótta- og tómstundastarfi í borginni en nú er.
Samþykkt samhljóða.

15. Lögð fram drög að þriggja ára áætlun.

Lögð fram eftirfarandi bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Þær upplýsingar sem liggja fyrir sýna að núverandi meirihluti ætlar að skerða framlög vegna stofnframkvæmda íþróttafélaga um 30#PR á næsta ári og 15#PR á árinu 2010. Ljóst er að loforðalistinn sem sjálfstæðismenn gáfu fyrir kosningarnar 2006 með Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í fararbroddi er orðinn æði þunnur. Á næstu tveimur árum á að skera niður í stofnframkvæmdum um hátt í milljarð króna. Auk þess á að færa til framkvæmdafé frá íþróttafélögum til annarra þátta, þannig að félögin í borginni koma til með að finna verulega fyrir skerðingunni. Meirihlutinn hreykir sér hins vegar af miklum framkvæmdum í íþróttamálum í ár, en hafa ber í huga að þær voru samþykktar í fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, F-lista og Framsóknarflokks.

Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Í áhersluatriðum og forgangsröðun fulltrúa F-listans og Sjálfstæðisflokks í málefnum íþrótta- og tómstundaráðs sem kynnt var á fundi ráðsins 8. febrúar sl. segir m.a: “Ljúka vinnu og gerð samninga um uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá ÍR, Fram, Fylki, Fjölni, Þrótti og KR#GL.
Meirihluti íþrótta- og tómstundaráðs mun standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um uppbyggingu íþróttamannvirkja í borginni, en telur nauðsynlegt að fara yfir þau mál, vel og vandlega með félögunum með tilliti til forgangsröðunar og á hvern hátt skuli staðið að þeirri miklu uppbyggingu sem óskað hefur verið eftir. Auk þess sem ábyrg fjármálastjórn er lykilatriði í stefnu núverandi meirihluta og miða þarf útgjöld borgarinnar við áætlaðar framtíðartekjur.
Vinna við skipulagsmál á svæðum félaga er nú í fullum gangi, sem sjá má m.a. í fundargerð síðasta fundar Skipulagsráðs 13. febrúar 2008:
En þar er tekið fyrir íþróttahús ÍR í S-Mjódd, íþróttahús og vellir Fram í Úlfarsárdal og fimleikahús, vellir og stúka fyrir Fylki.
Í farvegi eru einnig breytingar á vallarmálum Þróttar í Laugardal og uppbygging hjá Fjölni við Dalhús og á Gufunesi. Þá eru viðræður við KR hafnar.
Ekki liggur fyrir endanlega með hvaða hætti skipulag þessara svæða verður og ekki liggur heldur fyrir endanlega með hvaða hætti þessi mannvirki verða byggð, hvort þau verða byggð á vegum borgarinnar, á vegum félaganna með samningum við borgina eða með öðrum hætti.
Nú verður af hálfu ÍTR, Skipulagssviðs og Eignasjóðs Reykjavíkur farið í viðræður við þessi félög um skipulagsmál, hönnun mannvirkja, framkvæmdaröðun, fjármögnun og aðra þætti sem m.a gætu snúið að samnýtingu mannvirkja eins og t.d knattspyrnuvalla með stúku, sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur KSÍ.
Þess má þó geta að íþróttaframkvæmdir borgarinnar á árinu 2008 munu kosta um 1180 milljónir.
Þar af fara 790 milljónir í eftirfarandi: gervigrasvöll fyrir Víking og Fram í Úlfarsárdal, bætta aðstöðu Leiknis, þ.e. bað- og búningsklefa og félagshús á svæði Leiknis við Austurberg, frístundamiðstöð í Gufunesi, endurbætur á gervigrasvelli í Laugardal, fimm battavellir verða lagðir, en það eru opnir fótboltavellir í hverfum borgarinnar við Hamraskóla, Hólabrekkuskóla, Langholtsskóla, Klébergsskóla og Breiðholtsskóla.
Loks fara 390 milljónir í hönnun, undirbúning og framkvæmdir ma. fyrir Fjölni, ÍR, Fylki, KR og Fram.

Lögð fram fyrirspurn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Hvaða forsendur liggja að baki í þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar árin 2009-2011 um þróun vergrar landsframleiðslu, verðbólgu, atvinnuleysi? Hvernig eru þær forsendur fundnar út? er byggt á opinberum spám viðurkenndra aðila eða eru þetta forsendur sem meirihlutinn ákveður að gefa sér?

Lögð fram fyrirspurn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Samkvæmt áætlun Menntasviðs mun nýr skóli opna í Úlfarsárdal í janúar árið 2010. Mikið samráð var haft við ÍTR um að íþróttahús myndi rísa samhliða í Úlfarsárdal, á vegum Fram, enda gríðarlega mikilvægt að íþróttaaðstaða sé til staðar fyrir nýja nemendur fyrsta grunnskólans í Úlfarsárdal. Því spyrja fulltrúar minnihlutans: Eiga nýjir nemendur grunnskólans í Úlfarsárdal von á því að íþróttahús verði risið þegar þeir hefja skólagöngi sína í hverfinu?

Lögð fram bókun áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokks:
Réttur mánuður er síðan forystu Framsóknarmanna í málefnum Íþrótta- og tómstundamála í Reykjavík lauk. Flokkurinn var í farsælu samstarfi við aðra flokka um þennan málaflokk allt frá 2004 og frá kosningum 2002 þar til fyrir um mánuði síðan skipaði Framsóknarmaður forystusæti ÍTR. Einkenni þessa tímabils eru miklar framkvæmdir á vegum íþróttafélaga í borginni, svo og hafa mörg stór íþróttamanvirki risið á vegum Reykjavíkurborgar og einkaaðila. Þá hefur bylting orðið í fjármálum íþrótta- og æskulýðsfélaga með tilkomu rekstrarsamninga við fjölmörg félög. Mörg önnur framfaramál má telja upp varðandi þennan málaflokk, svo sem Frístundakortið.
Ljóst er með tilkomu nýs meirihluta í Reykjavíkurborg án aðildar Framsóknarflokksins að þeir flokkar, sem að nýja meirihlutanum standa, telja nú að of mikið renni af fjármunum í íþrótta- og æskulýðsmál í borginni. Þar með má sjá hver #GLdró vagninn#GL frá síðustu kosningum í þessum málaflokki.
Sérlega varhugavert er ef framkvæmdum í nýjum hverfum verður frestað, því það kallar einungis á vandamál í framtíðinni. Sporin hræða, og má minnast þeirra daga þegar margar kynslóðir barna og unglinga ólust upp í Breiðholtinu án þess að nokkur frambærileg íþróttaaðstaða væri til staðar í hverfinu.

16. Lögð fram eftirfarandi bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Það vekur athygli hversu lítið er fjallað um starfsemi íþróttafélaganna í borginni í stefnu núverandi meirihluta, enda hefur komið á daginn að ætlunin er að skera stórlega niður framlög til framkvæmda á þeirra vegum á næstu árum. Áhersluatriði F-lista og Sjálfstæðisflokks í málefnum ÍTR 2009-2011 einkennast að öðru leyti af almennum yfirlýsingum og góðum óskum um áframhaldandi gott starf á vegum ÍTR í borginni. Rætt er um að skoða möguleika á ýmsum atriðum eða kanna hitt og þetta. Fátt nýtt er þarna að finna, nema ef vera skyldi aukin áhersla á einhvers konar einkarekstur í íþótta- og tómstundastarfi. Á meðan ætlar meirihlutinn íþróttafélögunum að bíða í fulkominni óvissu um efndir á loforðum og fyrirheitum.

Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokksins og F-lista:
Í áhersluatriðum og forgangsröðun fulltrúa F-listans og Sjálfstæðisflokks í málefnum Íþrótta- og tómstundaráðs sem kynnt var á fundi ráðsins 8. febrúar sl. kemur mjög skýrt fram m.a: “Ljúka vinnu og gerð samninga um uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá ÍR, Fram, Fylki, Fjölni, Þrótti og KR#GL.
Varðandi þær upphæðir sem koma fram í þriggja ára áætlun þar eru það þær upphæðir sem við treystum okkur til að skuldbinda borgina á þessari stundu. Margt er óunnið í skipulagsmálum og samningum við félögin.
Sú vinna er hafin. Málin munu skýrast eftir því sem líður á árið.
Ábyrg fjármálastjórn er lykilatriði í stefnu núverandi meirihluta og miða þarf útgjöld borgarinnar við áætlaðar framtíðartekjur.
Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks hefur sett fram áhersluatriði sín þar sem koma fram metnaðarfull markmið m.a. að efla lýðheilsu og auka möguleika allra til þátttöku í íþróttum og útivist, gera þjónustuna fjölbreyttari, hagkvæmari og sveigjanlegri.

Lögð fram eftirfarandi bókun samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Við ítrekum það sem fram kemur í fyrri bókun og minnum á að núverandi meirihluti ætlar að skera fjárfestingafé til íþróttafélaga um milljað króna næstu tvö árin.

17. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Meirihlutinn í borgarstjórn hyggst setja á laggirnar fimm ára deildir við nokkra grunnskóla borarinnar. Ljóst er að fimm ára gömul börn þurfa á skipulagðri frístundavistun að halda að skóla loknum en í dag ennþá eru fjölmörg börn á biðlista eftir frístundaheimili. Því spyrja fulltrúar minihlutans:
1. Var samráð haft við starfsmenn ÍTR um frístundatilboð fyrir þennan aldur áður en málið var sett á dagskrá?
2. Hyggur meirihlutinn á samráð við ÍTR vegna málsins og þá hvernig?
3. Hvernig sér meirihlutinn fyrir sér að örugg frístundavistun verði í boði fyrir fimm ára gömul börn í grunnskólum?
Skrifleg svör óskast.

- kl. 14:00 véku Gísli Árni Eggertsson, Steinþór Einarsson, Ómar Einarsson, Reynir Ragnarsson, Oddný Sturludóttir og Egill Örn Jóhannesson af fundi.

Fundi slitið kl. 14:40.

Bolli Thoroddsen
Kjartan Magnússon Björn Gíslason
Stefán Jóhann Stefánsson Hermann Valsson