Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - 158. fundur

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2012, föstudaginn 9. mars var haldinn 158. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst kl. 11.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Stefán Benediktsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Geir Sveinsson, Kjartan Magnússon og Björn Gíslason. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Frímann Ari Ferdinardsson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 5. mars sl. vegna skila á gögnum í mars vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2013-2017.

Kl. 11.15 kom Karl Sigurðsson á fundinn.

2. Lagt fram bréf Landssambands hestamanna dags. 13. febrúar sl. vegna leigu á Skautahöllinni.
Vísað til framkvæmdastjóra ÍTR og ÍBR til skoðunar.

3. Skipun í þjóðhátíðarnefnd. Samþykkt að Eva Einarsdóttir verði formaður. Jafnframt sitji í nefndinni Stefán Benediktsson og Óttarr Guðlaugsson.

Kl. 12.00 vék Björn Gíslason af fundi. 

4. Lögð fram drög að þjónustusamningi milli Reykjavíkurborgar og ÍBR f.h. íþróttafélaganna.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 kom fram að á árinu 2012 yrðu ekki gerðir þjónustusamningar við íþróttafélög eins og verið hefur. Heldur yrði gerður samningur við ÍBR vegna ársins 2012 líkt og gert var sl. ár og að ÍBR muni síðan semja við íþróttafélögin á grundvelli fjárveitinga Reykjavíkurborgar til verkefnisins. Íþrótta- og tómstundaráð fagnar þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir milli Reykjavíkurborgar og ÍBR, f.h. íþróttafélaganna og þeirri sátt sem hefur náðst um málið og frekari vinnu við framtíðarsýn við stefnumótun og gerð samninga til næstu þriggja ára. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir samningsdrögin fyrir sitt leyti og leggur til við borgarráð að það samþykki samninginn.
Samningsdrögin samþykkt með fjórum atkvæðum Besta flokksins og Samfylkingar.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hafi í hyggju að hverfa frá fyrri ákvörðun um að verðbæta í engu framlög til íþróttafélaga í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012. Þessi sinnaskipti koma í kjölfar afar harkalegra viðbragða reykvískra íþróttafélaga þegar í ljós kom að meirihlutinn ætlaði ekki að verðbæta framlög til félaganna samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun 2012. Eins og kunnugt er, neituðu forsvarsmenn íþróttafélaganna að skrifa undir þjónustusamninga við borgina í ljósi þessarar vanhugsuðu ákvörðunar meirihlutans enda sáu þeir sér ekki fært að halda úti óbreyttri starfsemi fyrir börn og unglinga og hugmyndir voru uppi um það að hætta rekstri einstakra íþróttamannvirkja, sem hefði valdið neyðarástandi í íþróttamálum í borginni. Þá höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði harðlega gagnrýnt meirihlutann fyrir þá ákvörðun að verðbæta ekki framlög til reykvískra íþróttafélaga, framlög sem nýtt eru í þágu barna- og unglingastarfs, á sama tíma og margvísleg starfsemi, sem starfrækt er eða styrkt á vegum borgarinnar, t.d. menningarstarfsemi í þágu fullorðinna, var verðbætt á milli ára. Umrætt viðbótarframlag er því skref í rétta átt en nemur þó aðeins hluta af þeirri skerðingu, sem íþróttafélögin hafa þurft að taka á sig á undanförnum árum.

Kl. 12.15 vék Gísli Árni Eggertsson af fundi.

5. Lagt fram bréf Rugby Ísland dags. 1. mars sl. vegna aðstöðumála.
Vísað til framkvæmdastjóra og Skipulagssviðs til skoðunar.

6. Lagt fram bréf Framkvæmda- og eignasviðs dags. 6. mars sl. vegna aðstöðu í kjallara IMA og Breiðholtslaugar og mögulegra framkvæmda.
Íþrótta- og tómstundaráð tók jákvætt í hugmyndina.
Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkir að hafinn verði undirbúningur að byggingu húsnæðis fyrir líkamsræktarstöð við Breiðholtslaug. Útfærðir verði möguleikar á samstarfi við einkaaðila um fjármögnun verkefnisins og rekstur stöðvarinnar, líkt og gert hefur verið með góðum árangri í tengslum við nokkrar sundlaugar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Framkvæmdastjóri ÍTR leggi tillögur um fyrirkomulag verkefnisins fyrir ráðið þar sem m.a. verði gert ráð fyrir því að samstarfsaðili verði valinn í viðurkenndu ferli að undangenginni auglýsingu. Í tengslum við þessa vinnu verði auglýst eftir hugmyndum frá íbúum um framtíðarfyrirkomulag líkamsræktarstöðvarinnar og Breiðholtslaugar og við þróun verkefnisins verði lögð áhersla á að samtvinna rekstur íþróttamannvirkja við Austurberg með það að markmiði að efla enn frekar íþróttastarfsemi, æskulýðsstarf og mannlíf í Breiðholti. 
Frestað.

7. Lagt fram minnisblað ÍTR dags. 6. mars sl. vegna sumarráðninga og fjárveitingu vegna ÍTR af lið atvinnumála.

8. Lögð fram ábending af samráðsvefnum Betri Reykjavík - #GLSensual sundlaugar, ilmolíur, litir, tónlist, róandi lýsing#GL 
Í rekstri lauganna er alltaf verið að leita leiða til að auka þjónustu og bæða aðstöðu fyrir þá fjölmörgu gesti sem laugarnar heimsækja. Sumt í tillögunni er vert að skoða hvort hægt verði að koma í framkvæmd. Hugmyndinni er vísað í starfshóp um framtíð sundlauga í Reykjavík, sem er starfandi.

9. Lögð fram ábending af samráðsvefnum Betri Reykjavík - #GL Stækka Klifurhúsið!#GL
Stjórn íþrótta- og tómstundaráðs hefur á sínum fundum rætt húsnæðismál Klifurfélagisns og hefur falið Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar að finna hentugt húsnæði fyrir klifuríþróttina. Vonir standa til að tillögur liggi fyrir mjög fljótlega.
Þess ber að geta að ÍTR hefur þegar veitt styrki til Klifurfélagsins sem nýst hefur núverandi starfsemi félagsins.

Fundi slitið kl. 12:55

Eva Einarsdóttir

Karl Sigurðsson Stefán Benediktsson
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson