Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 220

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2015, föstudaginn 13. febrúar var haldinn 220. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi og hófst hann kl. 11:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Eva Baldursdóttir, Tomasz Chrapek, Kjartan Magnússon, Björn Gíslason varamaður fyrir Mörtu Guðjónsdóttur og  Trausti Harðarson. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Kári Arnórsson fulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.  

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 23 jan. sl. vegna úttektar á stofnun SFS.  Jafnframt lögð fram skýrsla Intellecta um Skóla- og frístundasvið og bréf Innri endurskoðunar.  Á fundinn komu Hallur Símonarson Innri endurskoðandi og Kristján Einarsson frá Intellecta ehf. og kynntu skýrsluna.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðismanna:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir úttekt Intellecta á aðdraganda stofnunar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og sameiningarferli skóla. Úttektin staðfestir að illa var staðið að sameiningarferli skóla og frístundaheimila og öðrum kerfisbreytingum í skóla- og frístundamálum hjá Reykjavíkurborg á síðasta kjörtímabili. Í úttektinni kemur m.a. fram að fjárhagsleg markmið hafi verið óskýr í öllu vinnuferlinu og allt þar til lokaákvörðun var tekin í borgarráði en fagleg markmið hafi allan tímann verið óskýr. Þá kemur vel fram í umsögnum starfsmanna, að samráðið hafi verið algerlega ófullnægjandi auk þess sem skorti framtíðarsýn og faglegar og fjárhagslegar forsendur. Engum dylst að úttektin er áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili, sem ýmsir nefna ,,týnda kjörtímabilið“ í skóla- og frístundamálum hjá Reykjavíkurborg. Ljóst er að enn er glímt við neikvæðar afleiðingar breytinganna í mörgum skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir að úttektin sé vel unnin, er hún ekki gallalaus. Má m.a. af henni ráða að vel hafi verið staðið að samráði við hagsmunaaðila í tillögugerðinni, upplýsingagjöf til þeirra og eftirfylgni með framgangi verkefnisins. Engan veginn er hægt að taka undir þessi atriði enda hægt að sýna fram á hið gagnstæða með fjölda bókana frá fulltrúum foreldra, skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna borgarinnar, sem m.a. voru lagðar fram á fundum menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur á tímabilinu febrúar – apríl 2011. Í umræddum bókunum kemur fram hörð gagnrýni frá þessum aðilum vegna skorts á samráði, upplýsingagjöf o.fl. Hörð gagnrýni á þessi atriði kom einnig fram í víðtækri umfjöllun fjölmiðla um breytingarnar á sínum tíma þar sem rætt var við fjölda foreldra og starfsmanna.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Meirihlutinn þakkar fyrir skýrslu Intellecta ehf. um stofnun skóla – og frístundasviðs og sameiningarferli skóla á árunum 2010-2011. Skýrslan dregur fram ýmislegt sem vel var gert í ferlinu sem og annað sem betur mátti fara. Margir hlutar verkefnisins voru vel unnir og þá sérstaklega skipulagning, eftirfylgni með framgangi verkefnisins og upplýsingamiðlun. Í úttektinni kemur fram að samráð við hagsmunaaðila í tillögugerðinni var mjög umfangsmikið og upplýsingamiðlun mikil. Helstu veikleikarnir við framkvæmd verkefnisins voru í aðdraganda að stofnun skóla- og frístundasviðs og sameininga skóla. Aftur á móti gerði tiltölulega gott skipulag það að verkum að það tókst að klára framkvæmdina þrátt fyrir veikleikana. Það er umhugsunarefni að veikleikar ferlisins megi rekja til eðlis pólitísks umhverfis þar sem erfitt sé að sameina pólitískt bakland um stór breytingaverkefni. Þá er áréttað að almenn andstaða hafi verið við breytingarnar í röðum starfsmanna. Lærdómur verkefnisins er m.a. sá að mikilvægt sé að vera með fá en vel rökstudd sameiningarverkefni, gefa sér nægan tíma til undirbúnings og leggja sérstaka rækt við að skapa samstöðu meðal starfsmanna um breytingarnar og mikilvægi þeirra fyrir skólastarfið til framtíðar.

Lögð fram eftirfarandi gagnbókun fulltrúa Sjálftæðisflokksins:

Athygli vekur að Vinstri græn skuli nú taka undir það sjónarmið að margir hlutar umrædds verkefnis haf verið vel unnir og þá sérstaklega skipulagning, upplýsingamiðlun og eftirfylgni með framgangi verkefnisins. Á sínum tíma var það ekki síst slæm skipulagning, ófullnægjandi upplýsingamiðlun og léleg eftirfylgni sem borgarfulltrúi Vinstri grænna gagnrýndi harðlega í umræddu sameiningarferli og dró hvergi af sér í þeirri gagnrýni. 

Kl. 12:00 tók Marta Guðjónsdóttir sæti Björns Gíslasonar.

2. Lögð fram könnun Capacent fyrir sveitarfélögin um þjónustu o.fl.  

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, vinstri grænna og Pírata í Íþrótta- og tómstundaráði fagna nýútkominni könnun. Mikilvægt verður að teljast að hafa puttana á púlsinum og í því tilliti er sérstaklega gott að fá niðurstöðurnar brotnar niður á hverfi í borginni. Það er ástæða til að vekja athygli á því að málaflokkurinn er best metni einstaki málaflokkurinn í könnunninni í Reykjavík þrátt fyrir misjafna útkomu Reykjavíkur í málaflokknum. Fulltrúarnir meðtaka niðurstöður kannannarinnar og þá sérstaklega þeirri staðreynd að Grafarholt & Úlfarsárdalur koma áberandi verst út í henni. Nýleg, afar metnaðarfull, uppbyggingaráform á svæðinu eru sérstaklega vel til þess fallin að bæta aðstöðuna á þessu svæði borgarinnar. Að þessu sögðu telja fulltrúarnir að könnunin sjálf sé í raun ekki tæk sem þjónustukönnun. Aðferðafræði hennar gefur henni marktækt vægi sem almenn viðhorfskönnun en gefur ekki raunverulega mynd af ánægju notenda þjónustuþátta borgarinnar.

3. Rætt um Frístund fatlaða framhaldsskólanema í Hinu Húsinu.

Kl. 12:30 vék Eva Baldursdóttir af fundi. 

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 5. feb. sl. vegna sérstakra samstarfsverkefna í hverfum á grundvelli samþykktar borgarráðs, um stuðning við börn og ungmenni.

5. Lögð fram skýrsla og starfsáætlun vegna kynjaðrar fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar og ÍTR.

6. Lögð fram að nýju tillaga sjálfstæðismanna frá síðasta fundi varðandi stúkumál Fylkis:

Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að samningur milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Fylkis verði endurskoðaður með það að leiðarljósi að áhorfendastúka félagsins njóti sambærilegs stuðnings hlutfallslega og önnur slík mannvirki, sem reist hafa verið eða fyrirhugað er að reisa, á félagssvæðum íþróttafélaganna í Reykjavík.

Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

7. Lagt fram yfirlit um aðsókn í sundlaugar.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Á sama tíma og aðsókn í Vesturbæjarlaug, Laugardagslaug og Breiðholtslaug fer upp um tug þúsundir þá dettur aðsókn í Árbæjarlaug og Grafarvogslaug niður um nokkur þúsundir gesta. Það virðist liggja fyrir að skortur á vatnsrennibrautum og öðrum leiktækjum fyrir börn og unglinga hefur mikil áhrif á aðsókn í Árbæjarlaug og Grafarvogslaug og íbúar þessara hverfa þurfa að keyra til Mosfellsbæjar til að gefa börnum sínum upplifun þá sem börn vilja fá í Sundlaugum. Reykjavíkurborg verður að koma í móts við íbúa þessara hverfa og færa þessum sundlaugum tveimur vatnsrennibrautir og fleiri leiktæki fyrir börn.

Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn frá fulltrúa framsóknar og flugvallarvina:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um aðsókn í Árbæjarlaug frá mánuði til mánaðar 12 mánuðum áður en vatnsrennibraut  sundlaugarinnar bilaði og til dagsins í dag. 

8. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu dags. 30. janúar sl. varðandi tíma og verkáætlun fjárhagsáætlunar 2016-2019.

9. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu dags. 30. jan. sl. varðandi endurskoðun fjárhagsáætlunar 2014 vegna starfsmats.

10. Lagt fram bréf Hafna- og mjúkboltafélags Reykjavíkur dags. 27. janúar sl. varðandi innanhússaðstöðu fyrir tennis í Reykjavík.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 2. febrúar sl., svar við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina frá 14. nóvember sl. um aðstöðumál til íþróttaiðkunar.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Alls tók þrjá mánuði að fá svar við fyrirspurn. Það er auðsjáanlegt að nokkuð margar villur eru í skilagögnum þessum. Framsókn og flugvallavinir óska eftir því að farið verið í að laga þessi skilagögn strax og þeim komið til allra fulltrúa ráðsins hið fyrsta.

12. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því að Frístundamiðstöðvar og öll starfssemi þeirra verði færð aftur undir ÍTR. Í dag er undir Skóla og Frístundasviði allir leikskólar borgarinnar, allir grunnskólar borgarinnar og öll Frístundamiðstöðvar og öll starfssemi þeirra. Grunnskólarnir og leikskólarnir fá klárlega mesta athygli sviðsins og starfssemi Frístundamiðstöðvanna fær minni stuðning til daglegra starfa og stuðnings til framþróunar. Frístundamiðstöðvarnar og starfssemi þeirra mun klárlega fá meiri athygli og stuðning til meginsstarfssemi þ.e. frístundastarfs og tengingu við íþrótta- og tómstunda með því að vera hluti af ÍTR. 

Frestað.

13. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fullrúa Framsóknar og flugvallavina:

Í ljósi samanburði íþróttamannvirkja Reykjavíkur og helstu bæjarfélaga landsins og þess að yfirbyggðir knattspyrnuvellir eru að jafnaði byggðir í stærri bæjum sem hafa fimm þúsund manns eða fleiri eins og Reykjanesbæ, Grindavík, Akranesi, Akureyri og allt upp í tvo yfirbyggða knattspyrnuvelli í Kópavogi þá óska Framsókn og flugvallavinir eftir því að stjórnendur ÍTR áframsendi fyrirspurn til stjórna allra knattspyrnufélaga í Reykjavík, stjórnar ÍBR og stjórnar KSÍ og athugi þörf þess að byggð verði annar yfirbyggður knattspyrnuvöllur í Reykjavík þ.e. önnur Egilshöll. Óskað er eftir rökstuðning og tvær tillögur að staðsetningum ef stjórnir þessar telja þörf á nýju yfirbyggðu knattspyrnuhúsi í Reykjavík.

Fundi slitið kl. 13:20.

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Tomasz Chrapek

Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir

Trausti Harðarson

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 13.2.2015 - prentvæn útgáfa