Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 51

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2024, miðvikudaginn, 11. september, var haldinn 51. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Suðurmiðstöð og hófst kl. 16.37. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Sara Björg Sigurðardóttir, Kjartan Magnússon, Þorvaldur Daníelsson, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og Frank Úlfar Michelsen. Fundinn sat einnig Óskar Dýrmundur Ólafsson. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning Suðurmiðstöðvar á Samstarfi og forvörnum vegna ofbeldis. MSS24080098

    Helgi Eiríksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts vill þakka fyrir kynningu á viðbrögðum vegna ofbeldis og vopnaburðar barna. Snemmtæk íhlutun, stuðningur og fræðsla til foreldra ásamt virkri inngildingu, með áherslu á þátttöku og tungumál, er lykill að farsæld barna og ungmenna. Samvinna þvert á stofnanir og stjórnsýslustig í þágu barna og ungmenna, eins og er á milli Suðurmiðstöð, Miðbergs og Fjölbrautarskólans í Breiðholti, er til fyrirmyndar en hana þarf að efla enn frekar og vill ráðið að það fjármagn sem veitt er til þjóðarátaks gegn ofbeldi verði notað til að auka samvinnuna, taka utan um fleiri börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu, fjölga fagfólki á gólfinu sem sinnir snemmtækri íhlutun eins og farteymi borgarinnar, tómstundafulltrúum og fræðslu til foreldra. Allt samfélagið sem kemur að málefnum barna og ungmenna þarf að vinna saman þannig að sá verknaður sem framinn var á Menningarnótt endurtaki sig aldrei aftur.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Breiðholts, dags. 21. ágúst 2024:

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að koma fyrir færanlegum loftgæðamæli sem yrði staðsettur í Breiðholti, fjölmennasta hverfi borgarinnar og loftgæði yrðu fyrst vöktuð við íþróttamannvirki ÍR við Suður Mjódd og heimili eldra fólks við Árskóga

    Tillögunni fylgir greinagerð. MSS24080076 
    Samþykkt.

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts telur mikilvægt að koma fyrir færanlegum loftgæðamæli sem yrði staðsettur í fjölmennasta hverfi borgarinnar þar sem loftgæði yrðu vöktuð við íþróttamannvirki ÍR við Suður Mjódd og heimili eldra fólks við Árskóga. Tíu ár eru liðin síðan loftgæði voru mæld í hverfinu þá við þrjá leikskóla. Síðan þá hefur bæði borgarbúum og ökutækjum fjölgað mikið á umræddu tímabili. Telur ráðið brýnt að hefja reglubundna vöktun loftgæða í hverfinu enda hefur svifryk sláandi áhrif og afleiðingar fyrir heilsu fólks, sérstaklega barna, eldra fólks og fólks með undirliggjandi sjúkdóma. Íþróttasvæðið liggur á milli tveggja þungra stofnbrauta, mikil uppbygging við Álfabakka kallar á aukna umferð og vill Íbúaráðið að loftgæðin verði mæld þar fyrst áður en mælirinn verði færður og staðsettur annarstaðar í hverfinu.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Breiðholts um samþættingu vetrarþjónustu hjólastíga við Kópavogsbæ, sbr. 3. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts frá 21. ágúst 2024. MSS24080078 
    Samþykkt.

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts telur mikilvægt að þjónusta fjölbreyttan hóp hjólreiðafólks er hjólar allt árið. Einn liður í því er að samþætta vetrarþjónustu við Kópavogsbæ á stofnstígum hjólreiða sem skilgreindir eru í fyrsta forgangi. Þegar vefsjár sveitarfélaganna eru rýndar sést að forgangshreinsun milli sveitarfélaganna eru ekki samræmdar eins og við og í gegnum undirgöngin við Álfabakka, fjölfarna leið vegfarenda sem koma til og frá skiptistöðinni í Mjódd. Hjóla- og göngubrúin yfir Reykjanesbraut við hliðinni á kanínubrekkunni er annar leggur sem þarf að samþætta þjónustu við Kópavog þannig að vegfarendur geti tengst inn á stofnstíg hjólreiða í Fossvogsdal með öruggari og hraðari hætti. Um er að ræða stutta leggi en skipta miklu máli bæði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og ýtir undir að fleiri notist við vistvæna ferðamáta.

    Fulltrúi íbúasamtaka leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Íbúasamtaka óskar eftir að einnig sé litið til stígs sem liggur frá Lambaseli og yfir að Salahverfi í Kópavogi. Þó nokkuð hefur borið á að stígurinn sé illa ruddur og jafnvel aðeins hjá öðru sveitarfélaginu sem nýtist því ekki sem skildi. Frábært væri að sjá aukið samstarf sveitarfélagana.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Breiðholts um safnstæði fyrir rafskútur í hverfinu, sbr. 2. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts frá 21. ágúst 2024. MSS24080077
    Samþykkt.

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts telur mikilvægt að tryggja betur öryggi gangandi og hjólandi með því að koma fyrir safnstæðum fyrir rafskútur innan hverfisins á heitum stöðum en heitir staðir eru staðir þar sem mikil notkun er á leigurafskútum eins og við skiptistöðina í Mjódd, verslunar- og þjónustukjarna, íþróttamannvirki og fjölmenna vinnustaði. Skúturnar yrðu skildar eftir á merktu stæði en ekki á víðavangi eða á stígum. Mikil hætta getur skapast ef skútur eru skildar eftir á stígum fyrir hópa sem eru með skerta hreyfifærni, þurfa notast við stoðtæki eins hjólastóla, göngugrindur eða eru með skerta sjón, sérstaklega þegar skyggja fer.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034

  6. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til borgarráðs að ráðist verði í lagningu gervigrasvallar fyrir æfingar og keppni á svæði Íþróttafélags Reykjavíkur við Skógarsel. Séð verði til þess að völlurinn standist kröfur Knattspyrnusambands Íslands um keppnisvelli svo tryggt verði að ÍR geti leikið heimaleiki sína á eigin félagssvæði. 
    Frestað. MSS24090062

  7. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til borgarráðs að gerður verði samningur við Íþróttafélagið Leikni um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins. Samningurinn taki mið af þeim samningum, sem þegar hafa verið gerðir við önnur hverfisíþróttafélög í borginni. 
    Frestað. MSS24090063

  8. Fulltrúi foreldrafélaga leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Fulltrúi foreldrafélaganna í íbúaráði Breiðholts óskar eftir svörum frá skóla- og frístundasviði um bókainnkaup á skólasöfn í Breiðholti. Hversu miklum fjármunum hafa skólar í Breiðholti varið til bókakaupa á skólabókasöfn í Breiðholti síðustu fimm árin miðað við aðra skóla í borginni? Svar óskast sundurliðað eftir upphæð fjármagns, skóla og ártali. Er eftirlit af hálfu sviðsins með bókakaupum skólabókasafna og hvort að skólar sinni því hlutverki?

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. MSS24090064

  9. Fulltrúi foreldrafélaga leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Fulltrúi foreldrafélaganna beinir fyrirspurn til skóla- og frístundarsviðs og velferðasviðs um starfsemi farteyma. Hvert er helsta hlutverk farteyma? Hvar eru þau staðsett? Hvernig eru þau samsett? Hver er fjölda stöðugilda að baki hverju farteymi síðustu 5 árin sundurliðað eftir staðsetningu. Hver fjölda mála sem farteymin hafa komið að sundurliðað eftir árum og staðsetningu farteyma. Er verklag milli farteyma samræmt milli borgarhluta þannig að þegar þungi er í einum borgarhluta er meiri samvinna fagfólks á milli teyma. Er eftirfylgni með þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa fengið þjónustu farteymisins? Ef svo er hvernig er því háttað? Hvernig er samstarfi skóla og farteyma háttað og hvert er hlutverk skóla eftir að vinnu farteyma er lokið?

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs. MSS24090065

Fundi slitið kl. 18.13

Sara Björg Sigurðardóttir Þorvaldur Daníelsson

Kjartan Magnússon Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Ágústa Ýr Þorbergsdóttir Frank Úlfar Michelsen

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 11. september 2024