Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 50

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2024, miðvikudaginn, 21. ágúst, var haldinn 50. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Suðurmiðstöð og hófst kl. 16.37. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Sara Björg Sigurðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir og Júlíus Þór Halldórsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Ásta Björg Björgvinsdóttir. Fundinn sat einnig Jóhannes Guðlaugsson. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021 – 2025. USK23090313 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts vill þakka fyrir upplýsandi og góða kynningu á hjólreiðaáætlun borgarinnar. Mikil uppbygging síðustu ára hefur skilað sér í stækkandi hópi hjólreiðafólks er stundar samgönguhjólreiðar allt árið um kring, sem hjálpar til við að draga úr umferð ökutækja. Telur ráðið brýnt að brugðist sé við ábendingum sem berast í gegnum ábendingavef borgarinnar er tengjast samgönguhjólreiðum og öryggi gangandi vegfarenda bæði hratt og vel. Brýnt er að halda dampi í uppbyggingu innviða tengt hjólreiðum í Breiðholti eins og að tengja Seljahverfið við stofnstíganet hjólreiða, stofnstíg í gegnum neðra Breiðholt úr Mjódd upp í efra Breiðholt (Vestur – Austur þverun) og þverun þvert í gegnum hverfið frá Elliðarárdal í gegnum holtið yfir í Seljahverfi (Norður – Suður þverun).

    -    Kl. 16.49 tekur Ásta Björg Björgvinsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

    Kristinn Jón Eysteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Breiðholts um safnstæði fyrir rafskútur í hverfinu:

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að koma fyrir safnstæðum fyrir rafskútur innan hverfisins á heitum stöðum þar sem mikil notkun er eins og við skiptistöðina í Mjódd, Sundlaugina í Breiðholti, Fjölbraut í Breiðholti, íþróttamannvirki ÍR og Leiknis og verslunarkjarna eins og við Lóuhóla, Mjódd, Völvufell og Seljabraut.

    Tillögunni fylgir greinargerð. MSS24080077
    Frestað.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Breiðholts um samþættingu vetrarþjónustu hjólastíga við Kópavogsbæ:

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að skoða möguleika á að samþætta forgangsröðun vetrarþjónustu við Kópavogsbæ á stofnstígum hjólreiða í samtali við hagaðila eins og Landsamtök hjólreiðamanna. Lagt er til að samþætting verði aðallega skoðuð við undirgöng yfir í Kópavog við Álfabakka og hjóla- og göngubrú yfir Reykjanesbraut fram hjá Stjörnugróf, Rósagarðinum og niður í Fossvogsdal og stígatengingu úr Kópavogi, þríhyrnd skörun stíganna samhliða sveitarfélagamörkunum inn á stofnbraut hjólastígs við Suður Mjódd hjá Garðheimum.

    Tillögunni fylgir greinargerð. MSS24080078
    Frestað.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um verk- og framkvæmdaáætlun vegna skiptistöðvar í Mjódd, sbr. 1. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts frá 3. apríl 2024. MSS24030167 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til borgarráðs að láta vinna tillögu að breytingum á skiptistöðinni í Mjódd og á nánasta umhverfi hennar þannig að aðstaða og umgjörð verði í senn aðlaðandi, aðgengileg, veiti viðskiptavinum, sérstaklega konum, meiri öryggistilfinningu og laði þannig að fleiri farþega. Þegar kostnaðarmetin tillaga liggur fyrir er gert ráð fyrir að verkefnið verði sett á fjárhagsáætlun og sá hlut framkvæmda sem tengjast öryggi og aðgengi verða sett í algeran forgang.

    Breytingartillagan er samþykkt. 

    Tillagan er samþykkt svo breytt. 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi íbúaráðs Breiðholts í júní sl. forgangsraðaði ráðið efst á fjárfestinga- og viðhaldsáætlun næsta árs, framkvæmdum á skiptistöðinni í Mjódd og nánasta umhverfi hennar. Með nýjum rekstraraðila hefur opnunartími, öryggisgæsla og aðstaða innan skiptistöðvarinnar batnað. Breytingatillagan nær til bæði skiptistöðvarinnar og nánasta umhverfis hennar. Mikil sóknarfæri liggja í að gera fjölmennustu skiptistöð höfuðborgarsvæðisins, æð almenningssamgangna út á landsbyggðina og nánasta umhverfi hennar mannvænni, öruggari og aðgengilegri fyrir öll, með það að markmiði að laða að enn fleiri farþega.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 14. ágúst 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. júní 2024, á tillögu að deiliskipulagi Breiðholts III, Fells vegna Völvufell. USK23120184 

    Fulltrúar Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og foreldrafélaga leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgaryfirvöld eru í lykilstöðu við að úthluta lóðum og hanna íbúðasamsetningu út frá eðli og þróun íbúasamsetningar innan hverfa borgarinnar til framtíðar sem og að brjóta upp íbúða og íbúa mynstur með blandaðri, fjölbreyttri byggð. Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs kemur fram að reynt var eftir mætti að halda í stúdentaíbúðir á þessum reit en að áhugi uppbyggingaraðila hafi ekki verið fyrir hendi. íbúaráð Breiðholts veit að mikil þörf er á íbúðum fyrir öll, sérstaklega nemendur, ungt fólk og fyrstu kaupendur. Í ljósi þessa finnst fulltrúum Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og foreldrafélaga, miður að ýjað sé að uppbyggingaraðilar stýri ferðinni í borgarþróun Breiðholtsins en ekki Reykjavíkurborg.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram fundadagatal íbúaráðs Breiðholts haust 2024. MSS22080127

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034

  8. Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi tillögu um samgöngutengingu í Mjódd::

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til borgarráðs að setja af stað vinnu í samstarfi við innviðaráðherra, um að sett verði ný almenningssamgöngutenging við landsbyggðarstrætó þar sem Leið 55B með upphaf og endi í Mjódd frá Leifsstöð og Keflavík verði komið á. Að ferðirnar geti þjónustað sérstaklega morgunflug flugfélaganna og að fjármagn verði tryggt til að halda úti opnunartíma skiptistöðvarinnar allan ársins hring.

    Tillögunni fylgir greinargerð. MSS24080075 
    Samþykkt.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18.44

Sara Björg Sigurðardóttir Ásta Björg Björgvinsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Júlíus Þór Halldórsson

Ágústa Ýr Þorbergsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 21. ágúst 2024