Hverfisráð Miðborgar - 19. fundur

Hverfisráð Miðborgar

HVERFISRÁÐ MIÐBORGAR
Ár 2004, mánudagurinn 28. júní, var haldinn 19. fundur hverfisráðs miðborgar. Fundurinn hófst kl. 10 að Pósthússtræti 7. Viðstaddir voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorleifur Gunnlaugsson, Gísli Marteinn Baldursson, Felix Bergsson, Þorbjörg Vigfúsdóttir og Kristín Einarsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Stefán Haraldsson kynnti samþykkt samgöngunefndar um gjaldskyldu við Grettisgötu og framkvæmdir við bílakjallara á Stjörnubíósreit. Ekki voru gerðar athugasemdir en Gísli Marteinn Baldursson vísar til afstöðu sinnar í samgöngunefnd.
2. Margrét Þormar og Stefán Finnsson kynntu tillögu að deiliskipulagi og umferðarskipulagi við Hlemm sem nú er í hagsmunaaðilakynningu. Bent var á að huga þyrfti að umferð gangandi yfir götur nálægt fyrirhuguðu Skúlatorgi og öðrum torgum sem gerð verða. Einnig var bent á að skoða þyrfti vel hvernig beina mætti umferð um Höfðatún fremur en Skúlatún og tryggja þyrfti að gatnamót Höfðatúns og Laugavegar verði ekki of mikil hindrun fyrir þá sem erindi eiga á Laugaveginn. Gísli Marteinn Baldursson lýsti yfir andstöðu við hugmyndirnar og vísar til bókunar sinnar í samgöngunefnd.
3. Hverfisráðinu barst til umsagnar erindi frá menningarmálanefnd um staðsetningu útilistaverksins ,,Friðarsteinn frá Hiroshima”. Hverfisráðið gerir ekki athugasemdir við fyrirhuga staðsetningu við suðvesturhorn Tjarnarinnar.
4. Í bréfi frá samgöngunefnd er óskað umsagnar hverfisráðs um breytingar á vegvísakerfi höfuðborgarsvæðisins sem samþykktar voru í nefndinni 16. júní sl. Hverfisráðið gerir ekki athugasemdir við breytingar sem varða miðborgina en bendir á að skoða þurfi merkingar sem vísa á miðborgina frá ýmsum aðkomuleiðum að borginni.
5. Lagt fram afrit að bréfi foreldraráðs Austurbæjarskóla til Fræðslumiðstöðvar um húsnæðismál skólans. Hverfisráðið óskar eftir upplýsingum frá Fræðslumiðstöð um stöðu mála.
6. Lagt fram afrit af bréfi til borgarstjóra frá íbúum í grennd við Skothúsveg vegna fyrirhugaðra breytinga á leiðakerfi Strætó sem fela í sér verulega aukningu umferðar um götuna. Hverfisráðið beinir þeim tilmælum til samgöngunefndar að hún hugi sérstaklega að leiðarkerfinu með hliðsjón af þeim ábendingum sem koma fram hjá bréfriturum.
7. Samþykkt að boða til næsta fundar þann 16. ágúst kl. 10.00.
Fundi slitið kl. 11:30


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Þorleifur Gunnlaugsson Gísli Marteinn Baldursson