Heilbrigðisnefnd
UMHVERFIS- OG HEILBRIGÐISNEFND
Ár 2001, fimmtudaginn 13. september kl. 12.00 var haldinn 79. fundur Umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að Skúlatúni 2, 5. hæð. Fundinn sátu Hrannar B. Arnarsson, Sólveig Jónasdóttir, Kolbeinn Proppé, Ragnheiður Héðinsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Enn fremur sátu fundinn Hjalti Guðmundsson, Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Heilbrigðismál:
1. Breytingar á samþykkt um hundahald. Lögð fram á ný drög að breytingum á samþykkt um hundahald í Reykjavík ásamt greinargerð og bréfi starfshóps um endurskoðun hundasamþykktar dags. 23. ágúst 2001. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
2. Loftgæðamælingar í Reykjavík. Lögð fram drög að samningi Umhverfis- og heilbrigðisnefndar og Hollustuverndar ríkisins um loftgæðamælingar í Reykjavík. Lúðvík E. Gústafsson, sviðstjóri, kom á fundinn. Guðlaugur Þór Þórðarson fór fram á að málinu væri frestað til næsta fundar. Formaðurinn félls ekki á að fresta málinu og bar samninginn upp til atkvæða. Samningurinn var samþykktur með 4 samhljóða atkvæðum, einn sat hjá.
3. Svínabúið Brautarholti. Lagt fram á ný bréf Lög ehf. f.h. Páls Ólafssonar, dags. 10. ágúst 2001. Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlitsins dags. 11. september 2001. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Umsögnin var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
4. Kæra vegna næturvinnu við Reykjvíkurflugvöll. Lagt fram bréf Lögreglustjórans í Reykjavík dags. 5. september 2001, ásamt fylgiskjölum. Enn fremur lögð fram drög að umsögn nefndarinnar, dags. 11. september 2001. Lúðvík E. Gústafsson, sviðsstjóri, kom á fundinn. Umsögnin var samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
5. Starfsleyfi RARIK. Lagt fram til kynningar bréf Umhverfisráðuneytisins dags. 15. ágúst 2001.
6. Áminningar skv. 26. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lagðar fram til kynningar 2 áminningar.
7. Samþykki fyrir rekstri hundasnyrtistofu að Erluhólum 7. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlitisins dags. 31. ágúst 2001. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi, kom á fundinn. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum. Svohljóðandi tillaga var borin fram: Umhverfis- og heilbrigðisnefnd samykkir að veita Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur heimild til þess að afgreiða veitingu samþykkis heilbrigðisnefndar fyrir starfrækslu hundasnyrtistofa og sambærilegrar starfsemi, sbr. 3. gr. í reglug. nr. 499/1997 um dýrahald í atvinnuskyni, á afgreiðslufundum. Framangreindar afgreiðslur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur skulu lagðar fram á næsta reglulega fundi Umhverfis- og heilbrigðisnefndar og bókaðar í fundargerð. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
8. Leigubann vegna heilsuspillandi húsnæðis. Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlitsins dags. 10. september 2001 varðandi Bergþórugötu 45. Rósa Magnúsdóttir, sviðsstjóri, kom á fundinn. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
9. Stjórnskipulag á sviði umhverfis- og tæknimála og skipulags- og byggingarmála. Lagt fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 6. september 2001. Formaður kynnti fyrirkomulag auglýsingar á nýjum forstöðumanni Umhverfis- og heilbrigðisstofu. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi bókun: Markmið breytinganna er að “þjónusta við nefndir verði sem best og að sem mest samsvörun sé á milli pólitískra nefnda og stjórnsýslustofnana á þessu sviði”. Það er skemmst frá því að segja að í þeim gögnum sem að lögð voru fram komu engin rök sem sýndu fram á að framkomnar tillögur myndu leiða til að þessum markmiðum yrði náð. Sömuleiðis er athyglisvert að markmiðið er að þjónusta nefndirnar sem best! Einhvern tímann hefði verið farið fram með stjórnkerfisbreytingar sem að hefðu það að markmiði að þjónusta við borgarbúa myndi batna eða til að auka skilvirkni og/eða hagkvæmni. Það er athyglisvert að markmiðið er að auka þjónustu við nefndir og í þessu tilefni Umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Málið hefur einu sinni verið tekið fyrir á fundi nefnndarinnar, fimmtudaginn 9. ágúst og átti að ljúka málinu þá. Ákveðið var þó að halda aukafund í nefndinni mánudaginn 13., en umbeðin gögn voru ekki send út fyrir fundinn og sá sem þetta skrifar er ekki enn búinn að fá þau gögn sem beðið var um. Af þeim gögnum sem að komu frá embættismönnum Heilbrigðiseftirlitsins sem og vegna þeirrar umræðu er fram fór í nefndinni er ekki hægt að greina ánægju með þessar breytingar. Með öðrum orðum það á að fara út í breytingar til að auka þjónustu við nefndina en nefndin hefur ekkert um þær að segja. Engir kostnaðarútreikningar fylgja fyrirhuguðum breytingum. Það kom þó fram í umræðum að kostnaður við hvern nýjan millistjórnanda væri svona sex miljónir króna á ári og gert er ráð fyrir að bæta við tveim slíkum og í greinargerð eru reifaðar hugmyndir um fleiri. Ekki er annað hægt að sjá en að stjórnkerfið verði flóknara verði fyrirhugaðar breytingar að veruleika. Fram til þessa hafa forsvarsmenn Garðyrkjudeildar, Hreinsunardeildar, Heilbrigðiseftirlits og Borgarverkfræðings verið tengiliðir nefndarinnar, en eftir breytingar verður ekki annað séð en að nefndin eigi að tala við þessa aðila í gegnum forstöðumann nýs sviðs: Umhverfis- og tæknisviðs! Nær hefði verið að skoða þætti eins og samspil verkefna Garðyrkjustjóra og Gatnamálastjóra en það virðist mega skoða hvort að verkefnaskipting á milli þessara stofnana er rökrétt. Til dæmis er sláttur í skrúðgörðum hjá Garðyrkjudeild en annars staðar í borginni hjá Gatnamálastjóra. Nýframkvæmdir og endurnýjanir á opnum leiksvæðum er hjá Garðyrkjudeild en viðhald sömu svæða hjá Gatnamálastjóra. Það liggur alveg fyrir að ekki er verið að fara út í þessar breytingar til að auka þjónustu við nefndir eins og haldið hefur verið fram. Enda ef svo hefði verið þá væru væntanlega viðkomandi nefndir með í ráðum. Mikil áhersla er á að þegar að núverandi Borgarverkfræðingur lætur af sínu starfi, þurfi ekki að ráða aðila með fagmenntun í hans stað. Verður ekki annað séð en að þarna er á ferðinni framtíðarembætti fyrir “litla borgarstjóra” og skipulagsbreytingarnar því miklu frekar liður í hrossakaupum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins heldur en eitthvað annað.
Hrannar B. Arnarsson, Kolbeinn Ó. Proppé og Sólveig Jónasdóttir óskuðu bókað: Bókun GÞÞ er óskiljanleg og þar er flestu snúið á haus. Breytingarnar á Umhverfis- og tæknisviði eru vel rökstuddar, þær hafa ekki í för með sér aukinn kostnað, þær hafa verð vel kynntar í nefndinni og fullt tillit tekið til ábendinga hennar í endanlegri afgreiðslu borgarstjórnar. Það er í raun dapurlegt að GÞÞ skuli kjósa sér það hlutskipti að gera þessar mikilvægu breytingar á Umhverfis- og tæknisviði tortryggilegar í stað þess að fagna því mikilvæga skrefi sem þær raunverulega eru í eflingu málaflokksins innan borgarinnar.
Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði bókað: Bókun meirihlutans samanstendur af fullyrðingum án nokkurs rökstuðnings. Undirritaður hvetur meirihlutann til að sýna fram á með málefnalegum rökum, hvað er rangt í minni bókun.
10. Útgefin hundaleyfi.
11. Listar frá afgreiðslufundum.
Umhverfismál:
12. Rannsóknarboranir á Hellisheiði, 2. áfangi. – Matsskylda. Lagt fram til kynningar bréf Náttúruverndar ríkisins dags. 17. ágúst 2001.
13. Staðardagskrá 21. Hjalti Guðmundsson kynnti hugmyndir um umhverfisvef Reykjavíkurborgar. Sólveig Jónasdóttir vék af fundi kl. 13.45.
14. Sjónvarpsþættir um umhverfismál – fjárveiting. Lagt fram til kynningar bréf Borgarstjórans í Reykjavík dags. 4. september 2001. Ragnheiður Héðinsdóttir vék af fundi kl. 14.20.
15. Lestrarátak á Haiti. Lagt fram bréf Friðriks V. Guðmundssonar dags. 30. ágúst 2001. Málinu vísað til umsagnar staðardagskrárfulltrúa og hreinsunardeildar.
16. Íslensk Ný Orka ehf. Kynning María H. Maack, fulltrú félagsins, kom á fundinn.
Önnur mál.
17. Fyrirspurn. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði fram svohljóðandi fyrirspurn: Elliðaár. 1. Hvað hefur verið sleppt mikið af seiðum undanfarin 3 ár? 2. Hvað veiddist mikið af laxi árin 2000 og 2001? 3. Hversu mikill hlut af þeim veidda laxi var vegna seiðasleppinga, það er lax af eldisuppruna?
Fundi slitið kl. 14.25
Hrannar B. Arnarsson Kolbeinn Ó. Proppé Guðlaugur Þór Þórðarson Sólveig Jónasdóttir Ragnheiður Héðinsdóttir