No translated content text
Forsætisnefnd
Leiðrétt
FORSÆTISNEFND
Ár 2010, föstudaginn 29. janúar, var haldinn 92. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.15. Viðstaddir voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson. Jafnframt sátu fundinn Þorleifur Gunnlaugsson, Gunnar Eydal, Anna Karen Kristinsdóttir og Ólafur Kr. Hjörleifsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram yfirlit móttökufulltrúa yfir móttökur Reykjavíkurborgar, dags. 28. þ.m.
2. Kynnt er vinna við undirbúning stefnumörkunar fyrir Höfða.
- Kl. 10.22 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 10.24 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.
- Kl. 10.39 víkur Anna Karen Kristinsdóttir af fundi.
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 28. þ.m. þar sem hann kynnir þá ákvörðun að frá 1. febrúar nk. verði tekið gjald fyrir afnot af svokölluðum borgarráðsbústað við Úlfljótsvatn, sem fylgi gjaldskrá orlofshúsa Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sbr. 1. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. s.m.
Forsætisnefnd staðfestir ákvörðun skrifstofustjóra fyrir sitt leyti.
4. Lögð fram að nýju svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna við fjárhagsáætlun ársins 2010, sem vísað var til forsætisnefndar á fundi borgarstjórnar 15. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. s.m.:
Lagt er til að sérfræðiaðstoð til borgarstjórnarflokka verði lækkuð um 15.000 þ.kr. Sparnaður verði færður á liðinn ófyrirséð.
Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar um málið, dags. 27. þ.m.
Afgreiðslu málsins er frestað.
Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Fram hefur komið að greiðsla Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka hækkaði úr 13,9 milljónum króna árið 2006 í 32,75 milljónir árið 2007. Undanfari þessarar hækkunar var að árið 2006 var ákveðið að ýmis kostnaður sem áður féll á sveitarfélög við alþingis- og forsetakosningar skyldi framvegis greiddur af ríkissjóði en vafasamt er að réttlæta það að þessar breytingar leiddu af sér færslu fjármuna til stjórnmálaflokka í Reykjavík. Það hefur einnig komið fram að framlög Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka eru meira en helmingi hærri en framlög annarra sveitarfélaga, svo sem Kópavogs, Akureyrar og Garðabæjar ef miðað er við höfðatölu. Það er hinsvegar ljóst að Reykjavíkurborg er skylt skv. lögum að veita þeim stjórnmálasamtökum, sem uppfylla skilyrði ákvæðisins, fjárframlög til starfsemi sinnar, og skal heildarfjárhæðinni skipti milli þeirra í hlutfalli við atkvæðamagn í næstliðnum borgarstjórnarkosningum en í lögum er ekki getið um upphæð framlagsins. Færa má rök fyrir því að borgarstjórnaflokkar, sérstaklega þeir sem eru í minnihluta, þurfi á fjárframlögum að halda til þess að sækja sérfræðiaðstoð en sú mikla hækkun sem orðið hefur á framlögum undanfarin ár er langt umfram þá þörf. Lækkun framlaga til stjórnmálaflokka svarar kalli tímans þegar mikill niðurskurður kallar á forgangsröðun í þágu velferðarmála. Skerðing á fjármagni til stjórnmálaflokka, hvort sem það er frá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum, færir þá nær þeim tíma þegar starfsemin var fyrst og fremst byggð á félögunum í flokkunum sjálfum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Júlíus Vífill Ingvarsson óska bókað:
Fulltrúar allra flokka í borgarstjórn tóku þátt í eða gerðu ekki athugasemdir við þá ákvörðun að hækka framlög til borgarstjórnarflokkanna árið 2007, þ.á.m. fulltrúar Vinstri grænna. Það er því líkast því að athugasemdir Þorleifs Gunnlaugssonar komi nú fram í aðdraganda prófkjörs VG og beri að skoðast með tilliti til þess.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég tel það óhæfu að fjórflokkarnir séu enn að nýju að úthluta sér milljóna framlögum sem koma úr vasa borgarbúa vegna ársins 2010. Gera verður kröfu til þess að fjórflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur geri grein fyrir því hvernig hann ráðstafar milljónatugum á sama tíma og engir styrkir eru ætlaðir til F-listans í Borgarstjórn Reykjavíkur.
- Kl. 11.30 víkja Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Dagur B. Eggertsson af fundi.
Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:
Tillaga borgarstjórnarflokks Vinstri grænna um lækkun framlaga til borgarstjórnarflokka var lögð fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í desember sl. Henni var vísað til forsætisnefndar og forseti borgarstjórnar ákvað sjálfur að setja hana á dagskrá þessa fundar. Bókun fulltrúa VG ætti því ekki að koma á óvart og fullyrðingum um það að hann sé að nýta sér nefndina í persónulegu hagsmunaskyni er vísað til föðurhúsanna. Þar að auki skal það áréttað að allar ákvarðanir um fjármál borgarinnar sem teknar voru árið 2007 ber að endurskoða, þó ekki væri nema vegna þess að síðan þá hefur fjárhagur Reykjavíkur breyst til hins verra, eins og öllum ætti að vera kunnugt.
Fundi slitið kl. 11.40
Júlíus Vífill Ingvarsson