No translated content text
Forsætisnefnd
B O R G A R R Á Ð
Ár 2011, mánudaginn 28. mars, var haldinn 5158. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.08. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Þórhildur L. Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Rætt um fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur. R10100312
- Kl. 12.20 er fundi frestað.
- Þriðjudaginn 29. mars kl. 10.00 er fundi fram haldið og mættir eru sömu fulltrúar og í gær. Við fundarritun tók Kristbjörg Stephensen.
Fram er haldið umræðu um fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur.
Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 9. þ.m.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 28. þ.m. ásamt greinargerð og fylgigögnum:
Lagt er til að borgarráð samþykki fyrir sitt leyti áætlun Orkuveitu Reykjavíkur um aðgerðir til að leysa fjárþörf fyrirtækisins og tryggja rekstur þess til framtíðar, sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar 23. þ.m. og bréf forstjóra, dags. s.d. Borgarráð heimili jafnframt fyrir sitt leyti endurnýjaðan og stækkaðan rekstrarlánasamning við Arion banka hf., sbr. bréf forstjóra Orkuveitunnar dags. 9. þ.m.
Lánveiting:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg veiti Orkuveitu Reykjavíkur lán að fjárhæð átta milljarðar króna hinn 1. apríl 2011 og að fjárhæð fjórir milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2013 í réttu hlutfalli við eignarhlut Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu í samræmi við framlagða lánaskilmála auk eftirfarandi skilyrða:
Sala eigna:
Áskilið er að stjórn undirbúi sölu allra eigna utan kjarnastarfsemi, í samræmi við fimm ára áætlun Orkuveitu Reykjavíkur frá 23. mars 2011. Eigendum hefur þegar verið boðinn hluti eignanna til kaups, sbr. fyrri samþykktir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og er umfjöllun eigenda ekki lokið. Jafnframt komi til skoðunar að skilgreindur verði forkaupsréttur eigenda í völdum tilvikum. Einnig verði kannaður fýsileiki þess að eigendur kaupi hús Orkuveitunnar að Bæjarhálsi og endurleigi fyrirtækinu til langs tíma. Þá verði kannaður möguleiki þess að Gagnaveitan, sem skilgreind hefur verið sem hluti kjarnastarfsemi Orkuveitunnar, verði grunnur að sameiginlegu grunnneti landsins í gagnaflutningum, sem tryggi hagstætt verð, opna samkeppni og meirihlutaeign almennings.
Eigendastefna:
Nánar verði kveðið á um áhættustefnu Orkuveitu Reykjavíkur, hvaða ákvarðanir eigi að koma til kasta eigenda, samskipti og skýrslugjöf fyrirtækisins til eigenda í nýrri eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur sem unnið er að í eigendanefnd, sbr. samþykkt borgarráðs frá 8. júlí 2010.
Jafnframt lögð fram drög að samningi milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar vegna lánafyrirgreiðslu og fjármögnunar fyrirtækisins 2011-2016. Einnig eru lögð fram minnisblöð fjármálastjóra Reykjavíkurborgar varðandi nauðasamninga/gjaldþrot í stað aðgerðaáætlunar, áhrif væntanlegra lánveitinga skv. aðgerðaáætlun á fjárhag borgarinnar og mat áhrifa um lánveitingar til Orkuveitu Reykjavíkur í fjárhagsáætlunarlíkani borgarinnar, dags. 26. og 28. þ.m. R11030049
Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkvæðum
Vísað til borgarstjórnar
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Frá því að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við stjórn Reykjavíkurborgar síðastliðið sumar hefur skuldastaða Orkuveitu Reykjavíkur og endurfjármögnun hennar verið forgangsverkefni. Þannig var nýrri stjórn fyrirtækisins gefið sérstakt veganesti með bókun nýs meirihluta borgarráðs þann 24. júní 2010:
„Veganesti borgaryfirvalda til nýrrar stjórnar Orkuveitunnar er að snúa sér þegar í stað að eftirfarandi verkþáttum:
Skilgreina skal úttekt á rekstrinum með það að markmiði að skýra stöðu mála og draga fram þær áskoranir og þá möguleika sem eru í stöðunni. Meta þarf ýmsa þætti í skipulagi og rekstri starfseminnar þegar í stað, með það fyrir augum að komast hjá frekari vanda. Í úttektinni verður að taka á skipulagi, rekstri og stöðu framkvæmda þannig að ljóst sé við hvaða búi er tekið.
Fjármögnun verður sérstakur þáttur í starfi stjórnar. Bráðavanda Orkuveitunnar má ekki vanmeta. Mikilvægt er að ná utan um þau mál hratt og örugglega. Ná verður ásættanlegu jafnvægi milli tekna og gjalda sem allra fyrst.“
Ýtarlegar úttektir á rekstri og fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur leiddu því miður í ljós að staða fyrirtækisins er ennþá þrengri en áður hafði verið talið. Á fyrstu mánuðum þessa árs var ljóst að ekki yrði unnt að fjármagna framkvæmdir og endurfjármagna lán án aðkomu eigenda. Áhættumat á hugsanlegri aðkomu eigenda hafði staðið frá því sl. sumar með skipan áhættustýringarhóps Reykjavíkurborgar sem hafði stöðu Orkuveitu Reykjavíkur sem forgangsverkefni. Samstarf nýrrar forystu Orkuveitunnar, áhættustýringarhóps og rýnihóps allra eigenda, ásamt vinnu fjölda annarra, hefur skilað sér í því að nú hefur tekist að setja fram áætlun um að tryggja fjármögnun og rekstur Orkuveitu Reykjavíkur til 2016, án erlendra lána. Meirihlutinn vill færa öllum þeim sem komið hafa að þessari vinnu þakkir.
Með lánum eigenda og frekari útfærslu þeirra aðgerða sem kynntar voru síðastliðið haust er fyrirtækinu tryggð fjármögnun þeirra 50 milljarða sem skortir til 2016. Ljóst er að verulega mun reyna á stjórnendur og starfsfólk við vandasama rekstrarhagræðingu, frestun framkvæmda, sölu eigna og gjaldskrárhækkanir. Meirihlutinn vill ítreka stuðning sinn við nýja stjórn og stjórnendur fyrirtækisins við að innleiða nýja og hófsamari sýn á verkefni og þjónustuhlutverk Orkuveitu Reykjavíkur. Þau voru þannig skilgreind í áðurnefndu veganesti stjórnar OR:
„Borgaryfirvöld vilja tryggja að Reykvíkingar og aðrir viðskiptavinir Orkuveitunnar njóti þess um ókomna tíð að eiga aðgang að öruggri orku, vatni, gagnaveitu og frárennsli. Sammæli eru um að þessu markmiði sé best náð með því að OR sé áfram í eigu almennings. Hlutverk OR er fyrst og fremst að sinna þörfum íbúa fyrir orku, vatn, frárennsli og gagnaveitu. Þátttaka í áhættusömum framkvæmdum kann að vera spennandi en á ekki að vera þáttur í reglulegri starfsemi OR. Kjarnastarfsemi er almannaþjónusta. Almannahagsmunir koma fyrst. Lykilatriði í starfi stjórnar er að leita allra leiða til að styrkja rekstur Orkuveitunnar, að halda Orkuveitunni í eigu almennings og tryggja grunnþjónustu á sanngjörnu verði.“
Unnið er að útfærslu þessarar stefnu í eigendanefnd sem mikilvægt er að leggi fram nýja eigendastefnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur hið fyrsta.
Að lokum vill meirihlutinn, sem fulltrúi eigenda, leggja á það mikla áherslu að flýta vinnu við að skipa nefnd óháðra sérfræðinga sem rannsaki orsakir þeirrar fjárhagslegu stöðu sem Orkuveita Reykjavíkur hefur ratað í. Enda nauðsynlegt að skapa frið um fyrirtækið, eyða tortryggni og auka traust.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Nauðsyn þess að styrkja rekstrarhæfi Orkuveitu Reykjavíkur verður ekki dregin í efa, né heldur mikilvægi þess að eigendur leggi sitt af mörkum til að svo megi verða. Áætlun um slíkt krefst mikils og ýtarlegs undirbúnings af hálfu kjörinna fulltrúa í öllum flokkum og samkomulags þeirra á milli um hlutverk og kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur enga aðkomu átt að gerð aðgerðaáætlunarinnar, heldur hefur meirihlutinn unnið hana einn og ber því á henni alla ábyrgð. Mikilvægt er að tilgreina þær eignir sem til stendur að selja og að sameiginlegur skilningur verði bókaður um almannahlutverk og kjarnastarfsemi fyrirtækisins til framtíðar. Það hefur ekki verið gert, heldur vekur bókun meirihlutans fleiri spurningar en hún svarar. Að sama skapi hefði þurft mun ýtarlegri umræður um það með hvaða hætti eigendur leggja fyrirtækinu til fé og lánasamninginn sem slíkan, hvernig gjaldskrárhækkanir verða innleiddar og í hverju rekstrarhagræðing á að felast. Brýnt er að borgarráð geri sér grein fyrir áhættuþáttum áætlunarinnar og geri ráðstafanir til að mæta því sem upp kann að koma á næstu fimm árum og getur haft veruleg áhrif á borgarsjóð. Bókun meirihuta Besta flokks og Samfylkingar um ákvæði í nýrri eigendastefnu er ekki trúverðugt enda hefur vinna við hana legið niðri um margra mánaða skeið og fátt sem bendir til þess að hún verði samþykkt á næstunni. Rétt er þó að taka undir þann hluta bókunarinnar sem snýr að mikilvægi þess að flýta vinnu við að skipa nefnd óháðra sérfræðinga, enda nauðsynlegt að rannsaka orsakir þeirrar fjárhagslegu stöðu sem nú blasir við Orkuveitu Reykjavíkur. Þó áætlun meirihlutans hafi verið kynnt borgarráði með reglubundnum hætti er mörgum spurningum ósvarað. Áætlunin hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma og enn hafa ekki verið lögð fram öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur ítrekað óskað eftir frekari umfjöllun, enda ríkur vilji til að ná samstöðu um málið. Slíkt krefst meiri tíma og yfirvegaðri skoðunar sem ekki hefur verið gefið færi á og því situr borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hjá við afgreiðslu málsins til borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Nú liggur fyrir að áform síðustu mánaða um leiðir til að tryggja endurfjármögnun OR hafa ekki gengið eftir. Ástæða þess er ekki að fullu skýrð, en eins og fram kemur í samantekt forstjóra OR virðast þau vilyrði sem fyrirtækið hafði fyrri hluta árs 2010 um fyrirgreiðslu lánastofnana hafa ,,gjörbreyst til hins verra“ síðari hluta sama árs svo vitnað sé beint til orða forstjórans. Þessi staða er því miður hvorki í samræmi við fyrri væntingar né áform núverandi stjórnar sem hefur nú í tæpt ár farið með verkefnið og m.a. gripið til harkalegra aðgerða gagnvart borgarbúum með þeim rökum að það myndi tryggja endurfjármögnun. Þær yfirlýsingar hafa ekki gengið eftir og því verða eigendur nú að finna aðrar leiðir en lántökur til að fjármagna fyrirtækið næstu árin. Þær aðgerðir sem meirihlutinn hefur nú kynnt gera ráð fyrir að það geti gengið eftir, sem segir talsvert um styrk fyrirtækisins, sem forsvarsmenn sama meirihluta hafa kosið að tala um með óábyrgum og óvönduðum hætti allt frá því þeim var falið að leiða það stóra verkefni. Einnig sýnir það hversu sterkur bakhjarl borgarsjóður er, sem ræðst einkum af því að strax eftir efnahagshrun hóf Reykjavíkurborg að byggja upp sérstakan sjóð sem hefði yfir að ráða 10-12 milljörðum til að verja fyrirtækið. Sú fyrirhyggja sem borgarstjórn sýndi með þeirri aðgerð nýtist nú og mun, miðað við útreikninga fjármálastjóra, ekki ógna lausafjárstöðu borgarinnar eða þeirri ávöxtun sem borgin á að njóta af slíkri fjárhagsstöðu. Um það er ekki deilt að OR verður að endurskoða allan sinn rekstur, hagræða á öllum sviðum og tryggja að rekstur fyrirtækisins snúist um kjarnastarfsemi þess og ekkert annað. Þetta hefði þurft að gera óháð þeirri stöðu sem nú er upp komin enda er það eina færa leiðin fyrir fyrirtækið. Áform um áframhaldandi hagræðingu, sölu eigna og frestun framkvæmda virðast því skynsamleg þrátt fyrir að nákvæmar upplýsingar liggi ekki fyrir. Víkjandi lán eigenda til fyrirtækisins virðist einnig geta nýst fyrirtækinu, þrátt fyrir að erfitt sé á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að meta hvort nákvæmlega þetta fyrirkomulag sé hentugast fyrir borgarsjóð. Hvað varðar endurteknar og stórfelldar hækkanir á borgarbúa er hér alltof langt gengið, en miðað við þær upplýsingar sem fengist hafa munu þær hækkanir auka kostnað meðalfjölskyldu í borginni um 18–30.000 kr. á ári. Áhrifin á fyrirtæki liggja ekki ljós fyrir. Slíkar hækkanir, sem allar koma til framkvæmda strax, munu bitna illa á borgarbúum og eru óverjandi. Farsælla hefði verið að fara hægar í slíkar hækkanir eða hraða öðrum aðhaldsaðgerðum fyrirtækisins. Frá efnahagshruni 2008 hefur það verið verkefni borgaryfirvalda að tryggja rekstur OR og minnkandi umsvif í góðu samstarfi og með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi. Þetta hefur að mestu tekist, þrátt fyrir ólíkar pólitískar skoðanir um hlutverk fyrirtækisins og umfang. Núverandi meirihluti hefur því miður kosið að fara aðrar og sínar eigin leiðir í þessu máli, líkt og svo mörgum öðrum. Aðgerðirnar sem hér eru kynntar hafa þannig því miður fengið ónóga umfjöllun, bæði í stjórn OR og í borgarráði, auk þess sem þær hafa hvorki verið kynntar né ræddar á vettvangi borgarstjórnar. Skortur á samráði, lítil aðkoma minnihlutans og vöntun á nauðsynlegum upplýsingum um svo stóra ákvörðun, valda því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki tekið þátt í því að vísa málinu til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að framlengja umsagnarfrest skólaráða grunnskóla borgarinnar sem rann út þann 25. mars sl., enda greinilegt að margar þeirra byggja á misvísandi upplýsingum frá formönnum menntaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Engin ákvörðun hefur verið tekin um skipurit grunnskóla og frístundaheimila verði yfirstjórnir þeirra sameinaðar, enda vinnur starfshópur að því að meta kosti og galla tillögunnar og mögulegt fyrirkomulag. Formenn ráðanna sendu frá sér tilkynningu um að skólastjórar séu óyggjandi yfirmenn á hverjum stað og að það sé ósk starfshópsins að verkefnisstjórar frístundaheimilanna verði hluti af stjórn skólans, t.d. deildarstjórar frístundastarfs, svo tryggja megi að faglegar áherslur frístundastarfsins verði ríkjandi í samþættum skóla- og frístundadegi barna. Ítrekað er að starfshópurinn er enn að vinna að fyrirkomulagi breytts skipurits og hafa engar ákvarðanir verið teknar þar að lútandi. Borgarráð felur því sviðsstjóra menntasviðs að leiðrétta misskilninginn, senda út réttar upplýsingar og veita skólaráðunum frest til 1. apríl nk. til að endurskoða umsagnir sínar ef þurfa þykir með tilliti til þessara leiðu mistaka. R11010176
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 12.50
Dagur B. Eggertsson
Einar Örn Benediktsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir