Forsætisnefnd - Fundur nr. 48

Forsætisnefnd

Menntaráð

Ár 2007, miðvikudaginn 31. janúar kl. 15:00 var haldinn 48. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Oddný Sturludóttir og Svandís Svavarsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigrún Ólafsdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Óskar Einarsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristín Sigurðardóttir, starfandi sviðsstjóri, Birna Sigurjónsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundargerð ritaði Guðbjörg Jónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram umsögn um skýrslu Invis ehf. um mat á mögulegum leiðum til að haga stjórnskipan velferðarmála. Óskað var eftir umsögn þessari með bréfi frá skrifstofu borgarstjóra dags. 8. desember sl. sem lagt var fram á fundi menntaráðs 15. janúar sl.
Fulltrúar Samfylkingar,Vinstri grænna og F-lista óskuðu eftir því að umsögn þeirra um skýrslu Invis ehf. sem lögð var fram á síðasta fundi menntaráðs verði lögð fram til stjórnkerfisnefndar jafnhliða umsögn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Áheyrnarfulltrúi foreldra lagði fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi foreldra telur nauðsynlegt að starfsemi þjónustumiðstöðvanna verði skoðuð í heild sinni áður en ákvörðun verður tekin um breytingar á skipan þeirrar þjónustu sem þær hýsa í dag. Nauðsynlegt er að kanna viðhorf meðal starfsmanna þjónustumiðstöðvanna, íbúanna og þeirra stofnana hverfisins er þjónustan er hugsuð fyrir. Jafnframt er mikilvægt að meta reynslu af samstarfinu meðal starfsmanna þeirra sviða sem gert hafa þjónustusamninga við þjónustumiðstöðvarnar. Framlögð skýrsla um stjórnskipan velferðarmála byggir á fáum og afmörkuðum þáttum í starfsemi þjónustumiðstöðvanna. Skýrsluhöfundur bendir sjálfur á fyrirvara sem að mati áheyrnarfulltrúa eru þess eðlis að óábyrgt væri af borgaryfirvöldum að taka ákvörðun í þessu máli byggða á niðurstöðum þessarar takmörkuðu úttektar. Auk þess er meira en lítið undarlegt að nýbreytni, eins og þjónustumiðstöðvarnar eru, fái aðeins tæp tvö ár til að sanna tilverurétt sinn.
Greinargerð fylgir.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Sé umsögn meirihluta menntaráðs um stjórnskipan velferðarmála borin saman við umsögn meirihluta velferðarráðs vakna upp áhyggjur um að tilfærsla þjónustumiðstöðvanna undir Velferðarsvið verði að bitbeini milli fagsviða. Fulltrúar meirihluta velferðarráðs segja í sinni umsögn að kostir þjónustumiðstöðva sem snúa flestir að íbúum hverfanna muni halda sér ef þjónustumiðstöðvar verða færðar undir Velferðarsvið. Eins kemur fram í sömu umsögn að breytingin muni engin áhrif hafa á starfsmenn þjónustumiðstöðvanna og að þjónustusamningar munu áfram vera við Menntasvið. Augljóst er af umsögn meirihluta menntaráðs að hann telur sérfræðiþjónustu grunnskóla betur komið undir Menntasviði og því er ljóst að ekki ríkir full eining innan meirihluta borgarstjórnar um hvernig þjónustu við borgarbúa skuli háttað. Að öðru leyti vísum við í framlagða bókun fulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista úr velferðarráði þann 24. janúar sl.

Fundi slitið kl. 15:40

Júlíus Vífill Ingvarsson
Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Oddný Sturludóttir Svandís Svavarsdóttir