Forsætisnefnd - Fundur nr. 370

Forsætisnefnd

Ár 2026, föstudaginn 30. janúar, var haldinn 370. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:02. Viðstödd voru Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtalinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Magnea Gná Jóhannsdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 3. febrúar 2026. MSS25010046

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um að gjaldfrjálst verði í Strætó fyrir reykvísk ungmenni á grunnskólaaldri
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um samstarf við atvinnulífið um lausn leikskóla- og daggæsluvandans
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um skoðanakönnun meðal íbúa um bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar um stofnun innviðasjóðs Reykjavíkur
    e)    Umræða um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
    f)    Tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um auglýsingu á samstarfi við vinnustaði um rekstur leikskóla og daggæslu á vinnustað
    g)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hverfislögreglustöð í Breiðholti
    h)    Umræða um öryggismál á skiptistöðinni í Mjódd (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins) MSS26010032

  2. Fram fer umræða um sameiginlegan fund borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 10. febrúar 2026. MSS26010032

  3. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 10. september 2025, varðandi breytingu á samþykkt endurskoðunarnefndar, ásamt fylgiskjölum, sbr. 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 12. september 2025.
    Vísað til borgarstjórnar með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Fulltrúi Framsóknarflokksins sat hjá við afgreiðslu málsins.

    Ebba Schram og Þorsteinn Gunnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23010279

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur til að 12. grein samþykktar um kjör og starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg verði svohljóðandi:
    III. kafli
    Um þóknun fyrir störf fyrstu varamanna framboðslista
    12. gr.
    Fyrsti varamaður hvers framboðslista eða sá fulltrúi framboðslista sem tilnefndur er sem slíkur og sinnir verkefnum fyrir framboðslistann samkvæmt ákvörðun hans sem fulltrúa á í borgarstjórn fær greidd föst laun sem nema 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa. Innifalið í þessu eru, á sama hátt og skv. 3. gr., greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar með þeim fyrirvörum sem þar eru tilgreindir, þ.m.t. um skerðingu grunnlauna. Ákvæði samþykktar þessar gilda að öðru leyti um starfskjör fyrstu varamanna framboðslista eftir því sem við á.

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar. MSS23010278

  5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að festa í sessi tilraunaverkefni um óundirbúnar fyrirspurnir sbr. 14. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 9. janúar 2026. Greinargerð fylgir tillögunni.
    Fellt með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS26010083

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkar forsætisnefndar telja ekki tímabært að festa óundirbúnar fyrirspurnir í sessi á fundum borgarstjórnar að svo stöddu. Margar aðrar leiðir standa borgarfulltrúum til boða til að leita upplýsinga og spyrja spurninga, þar á meðal með formlegum fyrirspurnum, sem og með umfjöllun í fagráðum. Jafnframt benda samstarfsflokkarnir á að dagskrá borgarstjórnarfunda er oft umfangsmikil og mikilvægt er að leitast við að fjalla um sem flest mál sem eru til umfjöllunar. Af þeim sökum ítreka samstarfsflokkarnir mikilvægi þess að fundir borgarstjórnar hefjist á réttum tíma, kl. 12, og að tíminn nýtist sem best til að tryggja megi vandaða umfjöllun um mál sem flokkarnir hafa sett á dagskrá og óskað eftir því að verði tekin til umfjöllunar. Þó er tekið undir að það er ástæða til að kanna það með hvaða hætti sé hægt að bæta fundi borgarstjórnar og efla það lýðræðislega samtal sem þar á sér stað, og beina fulltrúarnir þeim vinsamlegu tilmælum til næstu forsætisnefndar að þetta verði skoðað.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í ljósi þess að stutt er í borgarstjórnarkosningar hefði verið mikilvægt að taka upp óundirbúnar fyrirspurnir á borgarstjórnarfundum til að auka upplýsingaflæði til borgarbúa. Meirihlutaflokkarnir sýna svo ekki verður um villst að þeir hafa engan áhuga á að gera borgarstjórnarfundina skilvirkari og gagnsærri.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar samstarfsflokkanna í forsætisnefnd telja í ljósi reynslunnar síðustu mánuði, þar sem óánægja er með að málum á dagskrá hafi verið frestað vegna tímaskorts, að ekki fari vel á því að bæta nú við nýjum dagskrálið á fundi borgarstjórnar.

    Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn tekur undir mikilvægi þess að tengja borgarstjórnarfundi betur við það sem er að gerast í borginni og auka samtal á milli borgarfulltrúa og leggur því eftirfarandi til: Lagt er til að forsætisnefnd skipi spretthóp sem hafi það hlutverk að móta tillögur um hvernig megi tengja umræður í borgarstjórn betur við það sem er að gerast í borginni og efla samtal kjörinna fulltrúa á borgarstjórnarfundum. Verkefni spretthópsins verði að leggja mat á hvort taka eigi upp nýja umræðuliði, svo sem störf borgarstjórnarinnar eða óundirbúnar fyrirspurnir til borgarstjóra og formanna ráða. Spretthópurinn skal skila tillögum sínum fyrir lok febrúar 2026.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um trúnaðarmerkt gögn. MSS25030124

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að forsætisnefnd skipi spretthóp sem hafi það hlutverk að móta tillögur um hvernig megi tengja umræður í borgarstjórn betur við það sem er að gerast í borginni og efla samtal kjörinna fulltrúa á borgarstjórnarfundum. Verkefni spretthópsins verði að leggja mat á hvort taka eigi upp nýja umræðuliði, svo sem störf borgarstjórnarinnar eða óundirbúnar fyrirspurnir til borgarstjóra og formanna ráða. Spretthópurinn skal skila tillögum sínum fyrir lok febrúar 2026.

    Frestað. MSS26010165

  8. Forsætisnefnd leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Skrifstofu borgarstjórnar er falið að leggja fram tillögur til að bregðast við þegar brot á trúnaði á sér stað.

    Samþykkt. MSS25030124

Fundi slitið kl. 12:15

Sanna Magdalena Mörtudottir Guðný Maja Riba

Helga Þórðardóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð forsætisnefndar 30.01.2026 - Prentvæn útgáfa