Forsætisnefnd - Fundur nr. 342

Forsætisnefnd

Ár 2024, föstudaginn 3. maí, var haldinn 342. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:05. Viðstaddar voru Magnea Gná Jóhannsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 7. maí 2024. MSS24010053
  Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: 
  a)    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2024 – fyrri umræða 
  b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar yfir skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur
  c)    Kosning í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð
  d)    Kosning í skóla- og frístundaráð
  e)    Kosning í stjórn Strætó bs.

 2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. maí 2024, varðandi breytingu á samþykkt fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð.
  Vísað til borgarstjórnar. MSS23010279

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Nýjar reglur, samþykkt fyrir innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar, voru samþykktar í borgarráði 2. maí 2024. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnaði því á sínum tíma að endurskoða ætti reglurnar. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar. Skemmst er að minnast þess að innkaupareglur í braggamálinu voru brotnar og gera má ráð fyrir að slíkt hafi átt sér stað víðar í borgarkerfinu. Ekki síst er nauðsynlegt að auka áherslu á eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs. Sviðin þurfa einnig að hafa skýrt ferli og fylgja reglum í hvívetna. Eitt mikilvægasta atriðið er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Í umsögn Innri endurskoðunar og ráðgjafar er bent á sem dæmi að skýra þurfi betur valdsvið innkaupadeildar, það er hvenær deildin hefur heimild til að gefa sviðum/skrifstofum fyrirmæli um innkaup í því skyni að samræma innkaup borgarinnar betur en nú er og ná þannig meiri hagkvæmni. Í breytingum felst nú að innkaupa- og framkvæmdaráði er veitt svigrúm til að ákveða hverju sinni hvernig hátta skuli eftirliti með innkaupum Reykjavíkurborgar þannig að ráðið geti sagt til um hvað skuli koma fram í yfirlitum.

  Fylgigögn

 3.  Fram fer kynning á Iceland Innovation Week.

  -    Kl. 10:29 tekur Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.
  -    Kl. 10:41 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.
  -    Kl. 10:45 tekur Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði

  Hulda Hallgrímsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22090037

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Kynnt er dagskrá og umgjörð utan um þátttöku Reykjavíkurborgar á Iceland Innovation Week 2024. Það hefði verið gott að fá öll gögn fyrir þennan lið fyrirfram, t.d. hvað meirihlutinn ætlar að gera með þessa viku. Borgarráð samþykkti að styrkja þetta um 2,5 m.kr. 2023-2024.

 4. Samþykkt að taka á dagskrá bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 29. apríl 2024, varðandi tillögu stýrihóps um mótun tillagna vegna aðgerða í lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar um skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur.
  Samþykkt að vísa tillögum í samráðsferli á samráðsgátt Reykjavíkurborgar. MSS24040172

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram tillaga um skipulagðar skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem einungis 9. bekk er boðið að koma í Ráðhúsið og þiggja þar fræðslu um borgarstjórn. Flokkur fólksins vill í þessu sambandi minna á tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 12. desember 2023 að marka árlegan heimsóknardag fyrir börn að heimsækja Ráðhúsið, hafa eins konar opið hús. Þessi tillaga er einföld í útfærslu og útilokar engan. Hugsunin er sú að borgarfulltrúar og starfsfólk muni taka á móti börnum, sýna þeim húsið og segja frá starfinu í Ráðhúsinu. Foreldrar og kennarar eru vissulega velkomnir líka. Þessi tillaga mun ekki leiða af sér háan kostnað. Markmiðið er að dýpka þekkingu barna á hlutverki borgarstjórnar og veita börnum innsýn í ólík störf hjá Reykjavíkurborg. Börnin, þau yngri í fylgd foreldra, fá tækifæri til að ganga í bæinn, skoða rýmin og máta sig í sæti í sal borgarstjórnar.

  Fylgigögn

 5. Samþykkt að taka á dagskrá bréf mannréttinda og lýðræðisskrifstofu, dags. 29. apríl 2024, varðandi tillögu stýrihóps um mótun tillagna vegna aðgerða í lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar um borgaraþing.
  Samþykkt að vísa tillögunni í samráðsferli á samráðsgátt Reykjavíkurborgar. MSS24040172

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. maí 2024, varðandi breytingu á áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði. MSS22060046

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:15

Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 3.5.2024 - Prentvæn útgáfa