Forsætisnefnd - Fundur nr. 333

Forsætisnefnd

Ár 2023, föstudaginn 1. desember, var haldinn 333. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:04. Viðstaddar voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Andrea Jóhanna Helgadóttir og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Alexandra Briem, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Bjarni Þóroddsson og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 5. desember 2023.
  Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
  a) Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs, síðari umræða, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. nóvember
  b) Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2024-2028, síðari umræða, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. nóvember
  c) Kosning í borgarráð
  d) Kosning í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
  e) Kosning í umhverfis- og skipulagsráð
  f) Kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð MSS23010044

 2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. nóvember 2023, varðandi aukafund borgarstjórnar 16. janúar 2024.

  -    Kl. 10:26 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.
  -    Kl. 10:29 tekur Sanna Magdalena Mörtudóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti og Andrea Jóhanna Helgadóttir víkur af fundi. MSS23010044

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. nóvember 2023, varðandi drög að verklagsreglum fyrir meðferð fyrirspurna og tillagna í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS23090170

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst ansi mikið af skerðingum í þessum tillögum og vill nefna sem dæmi að stundum er nauðsynlegt að hafa smá formála að fyrirspurn eða tillögu ef því er að skipta. Það er ótækt að banna það algerlega. Athuga ber einnig að borgarfulltrúi situr ekki í öllum ráðum en á rétt á að koma fyrirspurn eða tillögu til allra ráða ef því er að skipta engu að síður. Hafa þarf skýran verkferil í þessum tilfellum, s.s. að hægt sé þá að leggja málið fram í borgarráði sem vísar málinu til viðeigandi ráðs/sviðs. Varðandi „greinargerð með fyrirspurn“ er fráleitt að takmarka hana við eina málsgrein. Einnig er fráleitt að ætla að miða við að hægt sé að svara fyrirspurn í stuttu og hnitmiðuðu svari. Hér er verið að tala um afstæð hugtök. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika en ekki njörva niður hvert smæsta atriði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst einnig tímamörkin til að svara fyrirspurn og/eða tillögu til 30 daga ívið of löng. Hér mætti miða við þrjár vikur að hámarki.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um meðferð fyrirspurna, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. nóvember 2023.

  Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðislfokksins að fresta afgreiðslu tillögunnar. MSS23040017

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér liggur fyrir skýr tillaga sem lögð var fram í borgarstjórn 4. apríl 2023  um að miðað skal við að fyrirspurnum sé svarað eigi síðar en fjórum vikum eftir að þær eru lagðar fram. Það er óásættanleg að tillögunni skuli ekki hafa verið vísað af fyrr borgarstjórn  til meðferðar forsætisnefndar en sjö mánuðum eftir að hún var lögð fram. Þá er það sömuleiðis óásættanlegt að tillögunni skuli síðan vera frestað þegar hún kemur loks til meðferðar forsætisnefndar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst 30 daga tímamörk til að svara fyrirspurn eða tillögum ívið of löng. Hér mætti miða við þrjár vikur að hámarki.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram álit innviðaráðuneytisins, dags. 13. nóvember 2023, vegna stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í máli IRN22120090.

  -    Kl. 10:47 víkur Líf Magneudóttir af fundinum. MSS23010066

  Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata:

  Í áliti innviðaráðuneytisins er að finna afar gagnlegar leiðbeiningar varðandi framkvæmd á ótvíræðum rétti borgarfulltrúa til að setja á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni Reykjavíkurborgar eða verkefni þess. Taldi ráðuneytið að staðfesting borgarstjórnar á afgreiðslu forsætisnefndar væri ekki fullnægjandi þar sem það er borgarstjórnarinnar sjálfrar að taka afstöðu til beiðninnar á borgarstjórnarfundi. Er um að ræða afar góðar ábendingar ráðuneytisins sem auðvelt er að koma til móts við ef sambærileg mál koma upp. Jafnframt er ljóst að taka þarf tillit til ábendinga ráðuneytisins í undirbúningi funda fagráða Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjórnar falið að aðstoða við útfærslu á uppfærðu verklagi til samræmis.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti forsætisnefndar Borgarstjórnar Reykjavíkur hafnaði í tvígang beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Mörtu Guðjónsdóttur, um að setja umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnarfunda þann 20. desember 2022 og aftur þann 3. janúar 2023. Marta kærði þau viðbrögð forsætisnefndar til innviðaráðuneytisins. Samkvæmt úrskurði þess er nú ljóst að nefndin hafði enga lagalega heimild til að hafna þessari beiðni borgarfulltrúans. Með þeirri ákvörðun braut meirihluti forsætisnefndar gegn þeim skýlausa rétti borgarfulltrúa, að leggja fram mál á dagskrá borgarstjórnar, eins og þeim rétti er skilmerkilega lýst í 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Kjörnum fulltrúum ber að standa vörð um grundvallarréttindi sín svo þeir geti sinnt sinni eftirlitsskyldu. Auk þess er það eitt af mikilvægustu hlutverkum forseta borgarstjórnar að standa vörð um rétt borgarfulltrúa í fjölskipuðu stjórnvaldi og sjá til þess að sveitarfélag hans fari að samþykktum um stjórn borgarinnar og fundarsköpum borgarstjórnar. Hvort tveggja eru megin forsendur lýðræðislegrar stjórnskipunar. Niðurstaða innviðaráðuneytisins er þýðingarmikil og fordæmisgefandi um skýlausan rétt borgarfulltrúa á að leggja fram mál í öllum ráðum og stjórnsýslunefndum Reykjavíkurborgar. Því er það afar ámælisvert að forseti borgarstjórnar hafi í tvígang brotið á rétti borgarfulltrúa með því að hafna þeim rétti hans að setja mál á dagskrá borgarstjórnar.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins telur afar mikilvægt að hafa fengið þetta úrskurðarálit. Mörg dæmi eru um að minnihlutaflokkum hafi verið meinað að setja mál á dagskrá, slík beiðni hreinlega hundsuð. Samkvæmt úrskurði innviðaráðuneytis er nú ljóst að það er engin lagalega heimild til að hafna beiðni um að setja mál á dagskrá. Niðurstaða innviðaráðuneytisins er þýðingarmikil og fordæmisgefandi.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, varðandi þátttöku í UA-CITITNET.

  Kristrún Th. Gunnardóttir og Harpa Sif Eyjólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090048

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, varðandi þátttöku í GreenInCities.

  Kristrún Th. Gunnardóttir og Harpa Sif Eyjólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23070077

 8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. nóvember 2023, varðandi þátttöku í NetZeroCities – Twin program.

  Kristrún Th. Gunnardóttir og Harpa Sif Eyjólfsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090049

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2023, varðandi veikindaleyfi Trausta Breiðfjörð Magnússonar borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. MSS22090101

  Fylgigögn

 10. Lagður fram breytingatillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024.
  Vísað til borgarstjórnar. FAS23010019

  Fylgigögn

 11. Lagður fram breytingatillögur borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024.
  Vísað til borgarstjórnar. FAS23010019

  Fylgigögn

 12. Lagður fram breytingatillögur borgarfulltrúa Flokks fólksins við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024.
  Vísað til borgarstjórnar. FAS23010019

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:35

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf