Forsætisnefnd - Fundur nr. 316

Forsætisnefnd

Ár 2022, föstudaginn 30. desember, var haldinn 316. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í fjarfundi og hófst kl. 10:06. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Einar Þorsteinsson, Geir Finnsson, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 3. janúar 2023 
     
    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: 
    a)    Umræða um fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins) 
    b)    Umræða um baráttuna gegn spilakössum (að beiðni borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands) 
    c)    Umræða um ofbeldi og vopnaburð ungmenna og áhrif samfélagsmiðla (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins) 
    d)    Umræða um loftgæði í Reykjavík í kringum áramót (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna) 
    e)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætta aðstöðu strætisvagnafarþega í Mjódd 

    Lögð fram ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um taka á dagskrá borgarstjórnar umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf. 
    Forsætisnefnd hafnar því að taka málið á dagskrá þessa fundar með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 10. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og 27. gr. sveitarstjórnarlaga. 
    Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákaflega mikilvægt er að borgarstjórn ræði málefni fyrirtækja í eigu borgarinnar eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Í því samhengi er þó rétt að umræðunni sé valin hentug tímasetning, sem meðal annars getur ráðist af sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi fyrirtæki og/eða viðkvæmri stöðu þeirra tilteknu mála sem eftir atvikum stendur til að ræða og varða umrætt fyrirtæki. Borgarfulltrúar eiga vissulega rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess en mikilvægt er að hafa í huga að það er borgarstjórn sjálf með aðkomu forsætisnefndar sem hefur um það endanlegt vald hvaða mál verða tekin á dagskrá fundar. Þrátt fyrir að það geti verið um að ræða mál sem á undir verksvið borgarstjórnar, þ.e. varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess, getur málum verið þannig háttað að ekki verður hjá því komist að fresta umræðunni eða jafnvel taka ákvörðun um að umræða fari fram fyrir luktum dyrum. Telur meirihluti forsætisnefndar því rétt að málefni Ljósleiðarans verði rædd við fyrsta tækifæri um leið og hægt er og aðstæður bjóða.  
     
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
     
    Með því að hafna því enn og aftur að setja málefni fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar á dagskrá borgarstjórnar hefur leyndarhyggja Viðreisnar, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata náð nýjum hæðum. Fyrir slíkum einræðistilburðum eru engin fordæmi í sögu Reykjavíkur. Málefni Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja hafa oft og iðulega verið á dagskrá borgarstjórnar og sú umræða hefur verið gagnleg og stundum nauðsynleg. Við það verður ekki unað að fulltrúar flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn geti í skjóli síns bandalags komið í veg fyrir að borgarfulltrúar utan meirihlutans geti sinnt sínu lögboðna starfi. Það samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar. Borgarfulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata vilja koma sér undan umræðu sem varðar grundvallarsjónarmið um rekstur fyrirtækja í eigu almennings, milljarða lántökur og viðskiptasamninga sem þarfnast miklu nánari skoðunar. Afstaðan sem hér kemur fram undirstrikar mikilvægi þess að upplýst verði allt sem snýr að þessum samningum. 
     
    Þórdís Lóa Þórhallsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

Fundi slitið kl. 10:53

Einar Þorsteinsson Geir Finnsson

Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 30.12.2022 - Prentvæn útgáfa