Forsætisnefnd - Fundur nr. 315

Forsætisnefnd

Ár 2022, föstudaginn 16. desember, var haldinn 315. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:11. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Magnea Gná Jóhannsdóttir og Magnús Davíð Norðdahl. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Ólöf Magnúsdóttir og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 20. desember 2022.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
    a) Umræða um framtíðarþjónustu við eldri fólk í Reykjavík
    b) Tillaga um álagningahlutfall útsvars 2023
    c) Kosning þriggja fulltrúa í umdæmisráð Barnaverndar Reykjavíkur og þriggja til vara; formannskjör, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember 2022
    d) Kosning fjögurra fulltrúa í stjórn Faxaflóahafna sf. og fjögurra til vara, formannskjör, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember 2022
    e) Kosning fimm fulltrúa í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sf. og fimm til vara, formannskjör, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. desember 2022

    Lögð fram ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um taka á dagskrá borgarstjórnar umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf.
    Forsætisnefnd hafnar því að taka málið á dagskrá þessa fundar með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar gegn atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sbr. 10. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og 27. gr. sveitarstjórnarlaga.

    -    Kl. 10:31 tekur Stefán Pálsson sæti á fundinum.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ákaflega mikilvægt er að borgarstjórn ræði málefni fyrirtækja í eigu borgarinnar eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Í því samhengi er þó rétt að umræðunni sé valin hentug tímasetning, sem meðal annars getur ráðist af sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi fyrirtæki og/eða viðkvæmri stöðu þeirra tilteknu mála sem eftir atvikum stendur til að ræða og varða umrætt fyrirtæki. Borgarfulltrúar eiga vissulega rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess en mikilvægt er að hafa í huga að það er borgarstjórn sjálf með aðkomu forsætisnefndar sem hefur um það endanlegt vald hvaða málefni verða tekin á dagskrá fundar. Þrátt fyrir að það geti verið um að ræða mál sem á undir verksvið borgarstjórnar þ.e. varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess, getur málum verið þannig háttað að ekki verður hjá því komist að fresta umræðunni eða jafnvel taka ákvörðun um að umræða fari fram fyrir luktum dyrum. Telur meirihluti forsætisnefndar því rétt að málefni Ljósleiðarans verði rædd sem fyrst á nýju ári um leið og hægt er og aðstæður bjóða. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með því að hafna því að að setja málefni fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar á dagskrá borgarstjórnar hefur leyndarhyggja Viðreisnar, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata náð nýjum hæðum. Fyrir slíkum einræðistilburðum eru engin fordæmi í sögu Reykjavíkur. Málefni Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja hafa oft og iðulega verið á dagskrá borgarstjórnar og sú umræða hefur verið gagnleg og stundum nauðsynleg. Við það verður ekki unað að fulltrúar flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn geti í skjóli síns bandalags komið í veg fyrir að borgarfulltrúar utan meirihlutans geti sinnt sínu lögboðna starfi. Það samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar. Borgarfulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata vilja koma sér undan umræðu sem varðar grundvallarsjónarmið um rekstur fyrirtækja í eigu almennings, milljarða lántökur og viðskiptasamninga sem þarfnast miklu nánari skoðunar. Afstaðan sem hér kemur fram undirstrikar mikilvægi þess að upplýst verði allt sem snýr að þessum samningum.

  2. Lagt fram fundadagatal borgarstjórnar fyrir árið 2023.

  3. Lögð fram tillaga að viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fullnaðarafgreiðsluheimilda Barnaverndarþjónustu Reykjavíkur, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 13. desember 2022.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um samþykktir fjölmenningarráðs og öldungaráðs vegna opinna funda með Borgarstjórn Reykjavíkur.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar, dags. 14. desember:

    Forsætisnefnd leggur til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 3. janúar 2023 með vísan til heimildar 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011 í samræmi við fundadagatal borgarstjórnar fyrir starfsárið 2023.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2022, varðandi afgreiðslu skóla- og frístundaráðs frá 21. nóvember 2022 á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um að bjóða upp á hinsegin fræðslu fyrir foreldra og forráðamenn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill þakka fyrir tillögu frá fulltrúum í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða um hinsegin fræðslu fyrir foreldra krakka í grunn- og leikskólum borgarinnar. Börn og ungmenni hafa verið að biðja um meiri hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum. Sjálfsagt er að leggja áherslu á rafræna fræðslu en einnig er mikilvægt að bjóða upp á samtal. Rafrænar leiðir koma aldrei í staðinn fyrir að eiga samtal, geta spurt spurninga, fengið svör og átt samræður. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á tillögu frá Flokki fólksins um að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Tillagan var felld. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynja en í ljós hefur komið að kynja- og hinseginfræði er af skornum skammti. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. desember 2022, varðandi beiðni Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur varaborgarfulltrúa Pírata um tímabundna lausn frá störfum.
    Vísað til borgarstjórnar.

  8. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. desember 2022, varðandi stofnun Áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins.
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er ávallt áhugasamur um hvað svona lagað kostar enda mikilvægt að horfa til þess vegna fjárhagsvanda Reykjavíkur. Fram kemur að miðað við forsendur sem lagðar eru fram í skýrslunni, þ.e. að starfsemi áfangastaðastofu verði byggð upp á árinu 2023 og að fullri starfsemi verði komið á árinu 2024, er gert ráð fyrir að heildarkostnaður sem skiptist milli sveitarfélaganna á árinu 2023 nemi 39.590.000 kr., og er þar miðað við tiltekið hlutfall, eða 37%, af kostnaði við fulla starfsemi samkvæmt fyrirliggjandi rekstrargreiningu KPMG. Hlutur Reykjavíkur er 56,33%, 22.301.047. Nú liggur fyrir að fjárhagur borgarinnar er kominn fram á heljarþröm og ekki króna eftir til að greiða af lánum. Þá veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvernig á að fjármagna þetta, hvaðan eiga þessir peningar að koma?  Vissulega er hægt að lækka rekstrarkostnað, finna þarf leiðir til þess. Jákvætt er þó að sjá í gögnum að skipa á í stjórn eftir stærð sveitarfélaganna.

    Þorsteinn Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á húsreglum Ráðhúss Reykjavíkur.

    Þorsteinn Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga forseta borgarstjórnar, dags. 14. desember 2022, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að forsætisnefnd samþykki aðgerðaáætlun atvinnu- og nýsköpunarstefnu 2023-2024. Aðgerðaáætlunin inniheldur 23 aðgerðir sem skiptast niður á sex stefnuáherslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.
    Atvinnu- og borgarþróunarteymi er falið að leita umsagna hjá hagsmunaaðilum.  

    Hulda Hallgrímsdóttir og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram bréf borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2022, varðandi hóteluppbyggingu og þróun gistinátta á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2022, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. nóvember 2022.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það verður að tryggja stöðugt framboð á lóðum fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að mati Flokks fólksins. Ferðamannabransinn á Íslandi er sveiflukenndur og einkennist af offjárfestingu þegar vel gengur. Ferðamannabransinn er sannarlega mikilvægur okkur Íslendingum en allir Íslendingar þurfa einnig að hafa þak yfir höfuð sitt. Hver einasta lóð sem fer undir nýtt hótel er lóð sem ekki verður hægt að nýta til uppbyggingar íbúða. Ef illa gengur í ferðamannabransanum munu þessi hótel ekki nýtast undir íbúðir, heldur munu þau standa auð – það sáum við í COVID. Á meðan húsnæðisverð er jafn hátt og raun ber vitni og útilokað er fyrir venjulegt fólk að safna fyrir útborgun á íbúð ætti ekki að úthluta lóðum undir hótel í borginni. Flokkur fólksins vill huga að þörfum borgarbúa fyrst og síðast og setur fæði, klæði og húsnæði í forgang.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:42

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Dagskrá forsætisnefndar 16. desember 2022