Forsætisnefnd - Fundur nr. 291

Forsætisnefnd

Ár 2021, föstudaginn 28. maí, var haldinn 291. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í borgarráði og hófst kl. 10:31. Viðstödd voru Alexandra Briem, Sabine Leskopf, Elín Oddný Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Eyþór Laxdal Arnalds og Diljá Ámundadóttir Zoëga. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Bjarni Þóroddsson, Ólöf Magnúsdóttir og Ívar Vincent Smárason sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. maí 2021, um kosningu forseta borgarstjórnar á fundi borgarstjórnar þann 18. maí 2021 þar sem kemur fram að Alexandra Briem hafi verið kjörin forseti borgarstjórnar. R18060080

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. maí 2021, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 18. maí 2021 hafi verið samþykkt að Diljá Ámundadóttir Zoëga taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd. R18060080

    -    Kl. 10:33 tekur Sanna Magdalena Mörtudóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. maí 2021, þar sem tilkynnt er að Diljá Ámundadóttir Zoëga taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd. Jafnframt að Pawel Bartoszek taki sæti sem áheyrnarfulltrúi til vara. R18060080

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 1. júní 2021. R21010074

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Umræða um stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins um útboð á ljósastýringum, raforkukaupum og LED-lýsingu gatna
    c)    Umræða um lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030 (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um átak til að jafna stöðu barna í tómstundastarfi í ljósi skýrslu UNICEF
    e)    Umræða um Fossvogsskóla (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
    f)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að að frítt verði í sund fyrir börn og fólk á endurhæfingarlífeyri
    g)    Umræða um 10 milljarða fjárútlát þjónustu- og nýsköpunarsviðs á næstu þremur árum (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins)
    h)    Kosning varamanns í forsætisnefnd
    i)    Kosning í stjórn SORPU bs.

  5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. maí 2021, varðandi starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Einnig lögð fram starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. nóvember 2020. R21030227

    Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kemur ekki vel út, enda allir mælikvarðar undir viðmiðum. Mikilvægt er nýta niðurstöðurnar til nauðsynlegra úrbóta á starfsaðstæðum og starfsumhverfi viðkomandi starfsstaðar og þannig vinna með niðurstöðurnar með markvissum hætti.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfsánægjukönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sýnir mjög alvarlegt ástand meðal starfsfólksins. Allir mælikvarðar eru undir viðmiðum og er því ljóst að hér er meira en lítið að. Eðlilegt væri að utanaðkomandi aðili greini vandann svo unnt sé að endurheimta starfsánægju og bæta menningu á þessum mikilvæga vinnustað.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kolsvört – eða réttara sagt eldrauð starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kynnt og trúnaði af henni aflétt á fundi forsætisnefndar. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur kallað eftir henni í marga mánuði. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020. Á henni er augljóst að ekki er hægt að kenna COVID-19 um lélegan vinnuanda innan slökkviliðsins. Stofnaðir voru úrbótahópar í maí 2019 sem komu með tillögur að úrbótum sem greinilega hafa misst marks því í nóvember 2020 eru allir þættir sem spurt var um komnir á rautt sem flokkast meðalgóður árangur og undir. Gríðarleg óánægja er með starfshætti innan slökkviliðsins. Borgarstjóri er formaður stjórnar Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Það er hreint með ólíkindum að hann hafi ekki tekið af málinu með festu og axlað ábyrgð.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sú  starfsánægjukönnun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sem lögð er hér fram lýsir óviðunandi ástandi í starfsmannamálum slökkviliðsins. Skýrslan spannar tímabilið frá maí 2019 til nóvember 2020.  Lengi vel hefur heyrst að mörgum líður illa á þessum vinnustað en engan óraði fyrir slíkri útkomu. Allir kvarðar eru á eldrauðu ef svo má að orði komast. Óánægja er með starfshætti og samskipti við yfirmenn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur kallað eftir nánari upplýsingum  m.a. um fjölda eineltistilkynninga og um hvort  niðurstöður starfsánægjukönnunarinnar hafi verið ræddar meðal starfsmanna og hvort liggi fyrir viðbrögð þeirra við henni. Einnig veltir fulltrúi Flokks fólksins fyrir sér hvernig starfsandinn sé núna og hvernig samskipti ganga við yfirmenn. Þeirri spurningu er velt upp hvort slökkviliðsstjóri þurfi ekki hreinlega að segja af sér enda sá aðili sem er ábyrgur fyrir ástandinu. Það skiptir sennilega hvergi eins miklu máli að starfsmenn upplifi yfirmenn sína umvefjandi, hlýja og sanngjarna eins og á vinnustað sem þessum þar sem starfsmenn eru í mörgum útköllum í beinni lífshættu. Borgarstjóri er formaður stjórnar slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf að efast um að hann hafi vitað af þessum vanda sem gegnsýrt hefur starfið í langan tíma, kannski árum saman.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, dags. 18. maí 2021, varðandi samþykkt fyrir innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar og innri endurskoðanda, ásamt fylgiskjölum. R21050256

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lögð fram samþykkt innri endurskoðunar og ráðgjöf Reykjavíkur fyrir borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst hann ekki mikið vita hvernig innri endurskoðun vinnur, hvað mörg mál hún fær og hvernig svörun er. Til dæmis eru tilfelli um að erindum er ekki svarað eða svarað seint. Fólk er hvatt til að senda inn ábendingar og áhyggjur sínar og fær strax sjálfvirkt svar um að erindið er móttekið en heyrir svo ekkert meir. Þetta er ekki gott og ekki til þess fallið að skapa traust til innri endurskoðunar sem nú hefur tekið yfir hlutverk umboðsmanns borgarbúa en það embætti var lagt  niður. Ef þetta á að virka þarf embættið að vera aðgengilegt þannig að borgarbúum finnst það vera einhver mekanismi sem stendur vörð um réttaröryggi þeirra.

    Hallur Símonarson og Sigrún Jóhannesdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. maí 2021, varðandi sameiginlegan fund borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna. R16080033
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um öryggismál í Ráðhúsi Reykjavíkur. R21020173

    Þorsteinn Gunnarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    -    Kl. 12:03 víkur Ívar Vincent Smárason af fundinum og Bjarni Þóroddsson tekur við fundarritun.
    -    Kl. 12:16 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum.
    -    Kl. 12:18 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.

  9. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvaða reglur gilda um hvaða mál séu gerð trúnaðarmál og hvar er þessar reglur að finna? Mál eru ítrekað trúnaðarmerkt í ráðum og nefndum borgarinnar. Í sumum tilfellum er ljóst að trúnað þurfi að halda þegar um er að ræða viðkvæm persónuleg málefni. Í öðrum tilfellum er óljóst hvað ræður. Það er því nauðsynlegt í nafni gagnsæis og lýðræðis að reglur um leyndar upplýsingar í nafni trúnaðar séu skýrar gagnvart almenningi og kjörnum fulltrúum. Gild rök þurfa að vera fyrir leynd og þurfa reglur um allt slíkt að vera opinberar. R21050282

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir að kjörnir fulltrúar í minnihluta fái starfsaðstöðu í Ráðhúsinu líkt og kjörnir fulltrúar meirihlutans. Lagt er til að minnihlutinn hafi fasta starfsaðstöðu í Pollinum. Pollurinn er vannýtt húsnæði í Ráðhúsinu þannig að auðveldlega ætti að vera hægt að verða við þessari ósk. R21050283

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:24

Alexandra Briem Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_2805.pdf