Forsætisnefnd - Fundur nr. 277

Forsætisnefnd

Ár 2020, föstudaginn 25. september, var haldinn 277. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í borgarstjórnarsal í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:39. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Kristín Soffía Jónsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um ummæli oddvita Pírata um oddvita Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar þann 15. september 2020. R20010186

    Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins leggur til að umræðu um trúnað á fundum ráða og nefnda verði frestað.
    Tillagan er felld.

    -    Kl. 12:20 tekur forseti fundarhlé.

    Forsætisnefnd leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna:

    Það er mikilvægt að virða siðareglur borgarstjórnar og að borgarfulltrúar gæti sanngirni í sínum málflutningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands lýsa yfir sterkum vilja til að breyta menningunni og stuðla þannig að bættu vinnuumhverfi í borgarstjórn sem mun skila sér í betri vinnu í þágu borgarbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á borgarstjórnarfundi 15. september sl. hafði Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi uppi afar alvarleg, óviðeigandi og órökstudd brigsl og dylgjur í garð Eyþórs Laxdal Arnalds sem áttu ekkert erindi í borgarstjórn. Borgarfulltrúi Miðflokksins harmar þessa alvarlegu aðför að sóma og virðingu borgarstjórnar. Það er alveg skýrt að víta hefði átt borgarfulltrúann af þessu tilefni skv. 17. gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sem á sér stoð í 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í 17. gr. samþykktarinnar segir orðrétt: „Skylt er borgarfulltrúa að lúta valdi forseta í hvívetna varðandi það að gætt sé góðrar reglu. Ef borgarfulltrúi ber aðra menn brigslum eða víkur verulega frá umræðuefninu skal forseti víta hann.“ Dóra Björt Guðjónsdóttir fór augljóslega gegn samþykktinni í báðum þessum tilfellum. Umrætt atvik er enn alvarlegra með hliðsjón af því að hún er fyrrverandi forseti borgarstjórnar og er formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs. Það hlýtur að vera markmið forseta borgarstjórnar og forsætisnefndar allrar að stöðva og kæfa í fæðingu hatursorðræðu af þessu tagi sem borgarfulltrúinn Dóra Björt Guðjónsdóttir viðhafði á þessum fundi. Við öllu er að búast af borgarfulltrúanum og hefur hún haft uppi mjög óviðeigandi ummæli og brigsl um eins og t.d. Neyðarlínuna, Lögregluna og fleiri aðila.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins harmar hvernig oddviti Pírata sem er einnig fyrrverandi forseti borgarstjórnar og ætti því að gerþekkja fundarsköp og sem er auk þess formaður mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs hefur misnotað aðstöðu sína sem borgarfulltrúi og svert borgarstjórn með því að draga inn persónuleg málefni annarra borgarfulltrúa. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum og hefur forseti borgarstjórnar gefið viðkomandi borgarfulltrúa frítt spil til að lesa skrifaða persónulega hatursræðu um borgarfulltrúa minnihlutans. Gengið hefur verið út fyrir velsæmismörk þar sem dylgjað er um persónuleg málefni sem tengjast engan veginn borgarmálunum. Siðareglur sem viðkomandi borgarfulltrúi stóð sjálf  að því að semja hafa verið þverbrotnar. Þar sem um ítrekað brot er að ræða væri eðlilegast að viðkomandi borgarfulltrúi leitaði sér aðstoðar til að ná betri yfirvegun í vinnu sinni í borgarstjórn. Einnig er komið tilefni til að borgarfulltrúinn íhugi að stíga til hliðar sem formaður mannréttindaráðs enda samræmist hegðun hennar ekki því ábyrgðarhlutverki sem formennska ráðsins krefst.

  2. Fram fer umræða um trúnað á fundum ráða og nefnda. R20010186
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:53

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir