Forsætisnefnd - Fundur nr. 266

Forsætisnefnd

Ár 2020, föstudaginn 17. janúar, var haldinn 266. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:31. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Marta Guðjónsdóttir og Dóra Magnúsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Líf Magneudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 21. janúar 2020.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a)    Umræða um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna)
    b)    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að fallið verði frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur
    c)    Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins um að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum
    d)    Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfisins
    e)    Umræða um niðurstöður PISA 2018 og framistöðu íslenskra nemenda í lesskilningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    f)    Umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokks, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins)
    g)    Tilllaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um frestun áforma um nýja íbúabyggð í Skerjafirði
    h)    Lausnarbeiðni Magnúsar Más Guðmundssonar
    i)    Kosning í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð. R20010182

  2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2020, þar sem lagt er til að forsætisnefnd samþykki að flytja fyrirhugaðan fund forsætisnefndar frá 28. febrúar nk. til 27. febrúar nk. vegna vetrarfrís í grunnskólum Reykjavíkur. R20010186
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2020, þar sem lagt er til að forsætisnefnd samþykki að flytja fyrirhugaðan fund borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna sem fyrirhugaður var þann 11. febrúar nk. til 10. mars nk. m.a. vegna vetrarfría í grunnskólum Reykjavíkur. R20010186
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúa Pírata og Vinstri grænna:

    Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar sæki um í nýsköpunarsjóð námsmanna vegna sumarstarfa háskólanema sumarið 2020. R20010186

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 14. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um slembival í íbúaráð, sbr. 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. nóvember 2019. R18060129

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta eru ásættanlegar upphæðir miðað við umfang verkefnisins. Allt aðrar tölur birtust útsvarsgreiðendum þegar glansmynda fasteignasölubæklingur útsvarsgreiðenda Reykjavíkur var prentaður og honum dreift í hvert hús. Sá pakki allur kostaði 9 milljónir.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lækkun kostnaðar við útsendingu af fundum borgarstjórnar , sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019. Einnig lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2020. R19120123
    Samþykkt að vísa tillögunni frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar því að loksins eigi að leita tilboða í tæknilega þjónustu við opna fundi borgarstjórnar.  Tillögu Flokks fólksins er vísað frá á þeim rökum að nú þegar hefur verið ákveðið að bjóða þjónustuna út og útboð stendur yfir. Á það skal minnst að 14. júní sl. lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurnir og tillögu um að leita leiða til að draga úr kostnaði á tækni- og upptökum m.a. vegna opinna funda borgarstjóra. Víst má telja að í kjölfar þeirrar vinnu hafi borgarstjóri og hans fólk talið sig knúin til að skoða þessi mál fyrir alvöru.  Í bókun meirihlutans frá 14. júní við tillögu Flokks fólksins, sem var felld segir „að ávallt sé reynt að halda kostnaði vegna opinna funda og funda borgarstjóra í lágmarki. Flokkur fólksins bendir á að á þessu svari fyrir ári var greinilega ekkert  í gangi með að lækka þennan kostnað og stóð ekki til að gera. Enda þótt þessi tillaga Flokks fólksins  sé einnig felld  nú er augljós tenging milli fyrri tillögu 2019 og að nú skuli loks eiga að leita tilboða. Vinna Flokks fólksins er vonandi að skila sér eitthvað þótt flest mál hans séu ýmist felld eða vísað frá.

    Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Áréttað er að verkefnið hefur áður verið boðið út, það var á síðasta kjörtímabili.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 16. janúar 2020, þar sem tilkynnt er að skrifstofu borgarstjórnar hafi borist tilkynning frá Ásgerði Jónu Flosadóttur, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins um veikindaleyfi til og með 29. febrúar 2020, ásamt fylgiskjölum. R20010227

    -    Kl. 10:45 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum 

    Fylgigögn

  8. Lagt fram yfirlit, ódags., yfir opinberar móttökur Reykjavíkurborgar. R18110189

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í mars 2019 lagði Flokkur fólksins fram bókun þess efnis að ávallt komi fram í yfirliti sundurliðaður kostnaður við móttökur og að fram komi hver (hverjir) óskuðu eftir að móttakan færi fram og í hvaða tilgangi. Í yfirliti sem nú er birt kemur fram hvaða móttaka um er að ræða, hvar og hvenær og tengiliður hennar, sem væntanlega er þá sá sem biður um móttökuna?. Tíu móttökur eru samþykktar og tveimur synjað.  Kostnaður kemur fram en ekki sundurliðaður. Hvað varðar fjórar móttökur sem allar eru afstaðnar er aðeins birtur áætlaður kostnaður. Tvær af 10 móttökum kostuðu yfir 800.000. Flokki fólksins finnst þetta mikill peningur og vill enn og aftur gera kröfu um að fá að sjá allan kostnað sundurliðaðan.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram að nýju tillaga forseta borgarstjórnar um aðstöðu vegna athafna á borð við hjónavígslur, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember 2019. Einnig lögð fram umsögn viðburðarstjórnar ráðhúss, dags. 14. janúar 2020.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga forsætisnefndar:

    Lagt er til að almenningur geti leigt út herbergin Turn og Tjarnarbúð fyrir athafnir á borð við hjónavígslur á föstum tímum 2-3 svar í viku. Gætt skal að því að athafnirnar rekist ekki á við önnur fundarhöld. Viðburðarstjórnar Ráðhússins er falið að sjá um að semja reglur og annast útleiguna í samræmi við umsögn hennar frá 14. janúar sl. Meta skal reynslu af verkefninu að ári liðnu, í janúar 2021. R19110094

    Samþykkt.
    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að allir borgarbúar eiga Ráðhúsið og hvað varðar umræðu um aðstöðu vegna athafnar-, trúar- og lífsskoðunarfélaga í Ráðhúsinu er mikilvægt að fólk fái rúmt val um hvar í húsinu athöfnin sjálf fer fram. Borgarstjórnarsalurinn á að vera meðal möguleika enda gætu margir viljað velja hann. Enda þótt athöfn fari fram í borgarstjórnarsalnum er engin þörf á að tæma hann sem er eðli málsins samkvæmt mjög erfitt. Einhverjir gætu engu að síður vilja velja þann sal fyrir athöfn sem þessa.

    Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Rétt þykir að byrja á að gera tilraun með að leigja út Turn áður en opnað er á fleiri möguleika. Turn er fallegt herbergi sem mun vonandi nýtast vel til slíkra athafna og skilja eftir margar fallegar minningar. Tilraunin er hugsuð til reynslu en endurskoða má fyrirkomulagið að ári liðnu.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. desember 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda viðburða, sbr. 11. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019. R19120124

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var hvort það væri rétt mat að móttökum hafi fækkað. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir að Flokkur fólksins hóf að gera ítrekaðar athugasemdir og spyrja áleitinna spurninga er varða kostnað í tengslum við  viðburði á vegum borgarinnar var þess vænst að farið yrði að kafa ofan í fjölda viðburða sér í lagi þeirra sem kostnaður fylgir. Í umsögn má sjá að móttökum hefur fækkað um 9 frá 2018 ef sama tímabil er borið saman 2019. Lengi hefur verið bruðlað á allt of mörgum sviðum í borginni enda þótt eitthvað minna sé um eyðslu og sóun síðustu ár, ef borið er saman við árin fyrir hrun.

    Fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Heildarkostnaður við viðburði nemur um 16 mkr. á ári. Það telst varla bruðl þegar um er að ræða viðburðarkostnað höfuðborgar.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. janúar 2020, þar sem tilkynnt er að Þór Elís Pálsson taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í skipulags- og samgönguráði í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060086

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. janúar 2020, þar sem tilkynnt er að Þór Elís Pálsson taki sæti sem áheyrnarfulltrúi til vara í borgarráði í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060082

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. janúar 2020, þar sem tilkynnt er að Þór Elís Pálsson taki sæti sem áheyrnarfulltrúi til vara í forsætisnefnd í stað Ásgerðar Jónu Flosadóttur. R18060080

  14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hverjir sóttu kvöldverð sem útsvarsgreiðendur greiddu fyrir rúma hálfa milljón þann 1. nóvember sl. í Höfða í tilefni af samgöngusáttmála? Hver tók ákvörðun um þessa móttöku? R18110189

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara.

    -    Kl. 11:05 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.
    -    Kl. 11:08 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum

Fundi slitið klukkan 11:33

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_1701.pdf