Forsætisnefnd - Fundur nr. 201

Forsætisnefnd

FORSÆTISNEFND
Ár 2016, föstudaginn 12. ágúst, var haldinn aukafundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.05. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Halldór Halldórsson, Helga Björk Laxdal, Bjarni Þóroddsson og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer umræða um fyrirhugaða fjölgun borgarfulltrúa sem tekur gildi árið 2018.

Samþykkt að vísa framkomnum útfærslum forsætisnefndar til rýningar hjá fjármálaskrifstofu. Jafnframt samþykkt að samráðsfundur forsætisnefndar og borgarfulltrúa verði 16. september 2016.
Áheyrnafulltrúi Sjálfstæðisflokks, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að tillögur forsætisnefndar geti nýst sem ágætur grunnur undir umræðu á vettvangi borgarstjórnar um breytingar sem fylgja sveitarstjórnarlögum frá 2011 þar sem kveðið er á um að borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar skuli að lágmarki vera 23 frá og með vori 2018. Minnt er á tillögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um áskorun til Alþingis um að endurskoða lagaákvæðið um fjölgun borgarfulltrúa í lögunum þannig að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Tillögur um að fækka hverfisráðum þarf að rýna sérstaklega vel og gæta samráðs við hverfisráðin í dag. Mikilvægt er að þær breytingar sem ákveðnar verði að lokum muni auka áhrif og völd hverfa Reykjavíkurborgar en ekki draga úr þeim. Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að verði af fjölgun borgarfulltrúa í 23 eigi að nota tækifærið og binda kosningu ákveðins fjölda borgarfulltrúa við hverfin í borgarstjórnarkosningum í þeim tilgangi að auka áhrif íbúanna á ákvarðanatöku og stytta enn frekar boðleiðir milli kjörinna borgarfulltrúa og íbúanna.

Forsætisnefnd ásamt áheyrnarfulltrúa Samfylkingar, Magnúsi Má Guðmundssyni, og áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur, leggja fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd tekur undir mikilvægi þess að víðtækt samráð verði haft um þær tillögur sem hér hafa komið fram, enda stendur það til. Hugmyndir um breytingar á hverfisráðum hafa þegar verið ræddar í öllum hverfisráðum og frekara samráð fyrirhugað, auk þess sem nú hefst samtal innan flokka og milli flokka samkvæmt ákvörðun nefndarinnar á þessum fundi.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. október 2015, með tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um óbreyttan fjölda borgarfulltrúa, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 20. október 2015.

Tillagan er felld.
Forsætisnefnd ásamt áheyrnarfulltrúa Samfylkingar, Magnúsi Má Guðmundssyni, leggja fram svohljóðandi bókun:

Forsætisnefnd telur ekki ástæðu til að skapa frekari óvissu um hvort borgarfulltrúum fjölgar eða ekki. Ný og endurskoðuð sveitarstjórnarlög voru samþykkt af fulltrúum allra flokka árið 2011 eftir ítarlega vinnu. Fyrirhuguð fjölgun borgarfulltrúa hefur legið fyrir síðan og mun ganga í gildi að öllu óbreyttu vorið 2018. Reykjavíkurborg hefur lagt töluverða vinnu í undirbúning þessarar lögbundnu fjölgunar og búast má við að henni ljúki á næstu mánuðum. Miðað hefur verið við að halda kostnaði við fjölgunina í lágmarki enda býr borgin nú þegar í raun við tvöfalt kerfi þar sem margir launaðir pólitískir fulltrúar sem þó eru ekki borgarfulltrúar sitja í ráðum og nefndum. Þannig hafa flokkarnir þurft að sækja fólk út fyrir raðir borgarstjórnarhópa sinna til að manna fastanefndir en þurfa ekki að gera það þegar þeir hópar stækka með fjölgun borgarfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir vonbrigðum með afgreiðslu forsætisnefndar á tillögu Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki. Mun lýðræðislegra og eðlilegra er að borgarstjórn sjálf taki slíka ákvörðun frekar en að það sé bundið í lög.
3. Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. júní 2016, með viðmiðunarlaunatöflu fyrir fulltrúa í sveitarstjórnum.

4. Fram fer umræða um yfirlit yfir mætingar kjörinna fulltrúa í nefndir og ráð borgarinnar.

Forsætisnefnd óskar eftir því að endanlegt yfirlit verði lagt fram á næsta fundi nefndarinnar.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar, dags. 12. ágúst 2016:

Lagt er til að næstu sameiginlegir fundir borgarstjórnar verði á eftirfarandi dagsetningum: öldungaráð 27. september 2016, fjölmenningarráð 22. nóvember 2016, Reykjavíkurráð ungmenna 21. febrúar 2017, bæjarstjórn Akureyrar 3. mars 2017 og ofbeldisvarnarnefnd 30. maí 2017.
Frestað.

6. Fram fer umræða um fyrirhugaða tillögu forsætisnefndar um staðsetningu embættis umboðsmanns borgarbúa í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Frestað.
Fundi slitið kl. 12.05

Sóley Tómasdóttir

Elsa H. Yeoman Halldór Auðar Svansson