Forsætisnefnd - Forsætisnefnd 31. janúar 2025

Forsætisnefnd

Ár 2025, föstudaginn 31. janúar var haldinn 352. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:07. Viðstaddar voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem og Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Magnea Gná Jóhannsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.
 

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 4. febrúar 2025.
    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
    a) Umræða um atvinnulífið í borginni, staða, áherslur og tækifæri (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)
    b) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði
    c) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um leiðir til að styðja við nærþjónustu í göngufjarlægð innan hverfanna
    d) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að skora á ríkisstjórnina að gert sé ítarlegt mat á færniþörf á vinnumarkaði
    e) Umræða um verðmætasköpun listamanna í höfuðborginni (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna)
    f) Tillaga borgarfulltrúa Flokks Fólksins um Elliðaárdal sem áfangastað
    g) Skýrsla um stefnumótun um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa, sbr. 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. janúar
    h) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnaðarmat á mögulegum sviðsmyndum varðandi stálgrindarhúsið við Álfabakka
    i) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að tryggja atvinnustarfsemi á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri
    j) Kosning í almannavarnarnefnd
    k) Kosning í umhverfis- og skipulagsráð
    l) Kosning í menningar- og íþróttaráð
    m) Kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð
    n) Kosning í íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts
    o) Kosning í velferðarráð
    p) Kosning í skóla- og frístundaráð
    q) Kosning í forsætisnefnd
    r) Kosning í stafrænt ráð
    s) Kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð
    t) Kosning í íbúaráð Breiðholts
    u) Kosning í íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals
    v) Kosning íbúaráð Kjalarness
    x) Kosning í íbúaráð Laugardals
    y) Kosning í öldungaráð MSS25010046
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það sætir furðu að forseti borgarstjórnar taki sér það vald að raða málum Sjálfstæðisflokks á dagskrá borgarstjórnar eftir eigin geðþótta, í stað þess að fylgja röðun sem flokkurinn óskaði eftir. Enda samkomulag um að stærsti flokkurinn eigi alltaf mál nr. 2 á dagskrá borgarstjórnar. Virðist sem forsetinn sé á flótta undan umræðu um Álfabakkamálið. Til marks um það setti forseti sig í samband við tillöguflytjanda, tveimur dögum fyrir fund forsætisnefndar, þegar hún sá frétt í Morgunblaðinu um að tillaga um málið yrði lögð fram á fundi borgarstjórnar. Þar tjáði hún tillöguflytjanda að málið yrði sett aftast á dagskrána og því yrði frestað, með þeim rökum að það samræmdist ekki þema fundarins, sem átti að fjalla um atvinnumál í Reykjavík. Sú röksemdafærsla stenst enga skoðun, enda snýr málið beinlínis að atvinnustarfsemi í borginni. Það jafngildir því í raun synjun á að taka málið á dagskrá borgarstjórnar. Það er brot á sveitarstjórnarlögum, enda tók forseti einhliða ákvörðun, tveimur dögum áður, án undangenginnar umræðu um dagskrána í forsætisnefnd. Vinnubrögð þessi eru í hæsta máta óeðlileg. Af þessum sökum mun fulltrúi Sjálfstæðisflokks senda inn kvörtun til innviðaráðuneytisins í þeirri viðleitni að leita álits vegna þessara óeðlilegu stjórnsýsluhátta sem viðhafðir eru í tengslum við dagskrá borgarstjórnar, þegar um óþægileg mál er að ræða.

    Forseti borgarstjórnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Forseti setur sig oft og iðulega í samband við borgarfulltrúa úr öllum flokkum við undirbúning borgarstjórnarfunda og upplýsir um röð mála eða hver tímaröðun gæti verið. Þá upplýsir forseti gjarnan ef líklegt er að máli verði frestað ef tímarammi fundar er slíkur. Við það er ekkert óeðlilegt og í því felast engar hótanir.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Viðreisnar og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Því skal haldið til haga að forseti borgarstjórnar hefur óskorað vald til þess að ákveða dagskrá borgarstjórnarfunda, að teknu tilliti til þess að borgarfulltrúar hafa heimild til þess að setja mál á dagskrá. Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að á þessum fundi borgarstjórnar væri ætlunin að til umræðu væru atvinnumál í borginni sem yrðu þema fundarins, og myndu tillögur eða umræður sem fylgdu því þema raðast ofar. Borgarfulltrúar hafa eigi að síður óskoraðan rétt til að leggja fram mál, en heimild forseta til að ákveða uppröðun mála er algjörlega skýr. Þau mál sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur hér fram tengjast atvinnumálum ekki beint, þó titlum þeirra hafi verið stillt upp til að svo mætti virðast, heldur er um að ræða skipulagsmál í báðum tilfellum. Aukinheldur hafa þau bæði verið til umræðu í borgarstjórn nýlega og ítrekað.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það heyrir til tíðinda að meirihlutaflokkarnir telji lóðamál og skipulagsmál ekki vera atvinnumál. Það skýrir sennilega skortinn á atvinnulóðum í borginni og flótta fyrirtækja úr borginni á undanförnum árum.

  2. Fram fer kynning á niðurstöðum borgaraþings um leikskóla og umönnun ungra barna sem fram fór 8. júní 2024. MSS23040113

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. janúar 2025, varðandi stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2024.
    Vísað til borgarstjórnar MSS24030066

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 29. janúar 2025, varðandi beiðni Pawels Bartoszek varaborgarfulltrúa Viðreisnar um lausn frá störfum til loka kjörtímabils.
    Vísað til borgarstjórnar. MSS25010208

    Fylgigögn

  5. Samþykkt að halda vinnudag forsætisnefndar föstudaginn 16. maí 2025. MSS24020171

    -    Kl. 11:35 víkur Sabine Leskopf af fundinum.

Fundi slitið kl. 11:44

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 31.1.2025 - Prentvæn útgáfa