Borgarstjórn - Borgarstjórnarfundur

Borgarstjórn

4

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2002, fimmtudaginn 16. maí, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Guðlaugur Þór Þórðarsson og Jóna Gróa Sigurðardóttir. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. maí.

- Kl. 17.13 vék Hrannar Björn Arnarsson af fundi og Anna Geirsdóttir tók þar sæti.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 14. maí.

- Kl. 17.18 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Bryndís Þórðardóttir tók þar sæti. Jafnframt vék Kjartan Magnússon af fundi og Snorri Hjaltason tók þar sæti. - Kl. 17.58 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Snorri Hjaltason vék af fundi. Jafnframt vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Pétur Friðriksson tók þar sæti. - Kl. 18.03 var gert fundarhlé. - Kl. 18.23 var fundi fram haldið og vék þá Alfreð Þorsteinsson af fundi og Guðrún Jónsdóttir tók þar sæti. Jafnframt vék Steinun Valdís Óskarsdóttir af fundi og Kristín Blöndal tók þar sæti.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að fresta 29. lið fundargerðarinnar, umsögn borgarlögmanns um erindi allsherjargoða, það til síðar á fundinum.

- Kl. 19.26 tók Guðrún Pétursdóttir sæti á fundinum og Bryndís Þórðardóttir vék af fundi. Jafnframt vék Árni Þór Sigurðsson af fundi og Óskar Bergsson tók þar sæti. - Kl. 20.00 vék Sigrún Magnúsdóttir af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti.

3. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 8. maí.

4. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 13. maí.

- Kl. 21.44 vék Anna Geirsdóttir af fundi og Sólveig Jónasdóttir tók þar sæti. - Kl. 22.25 tók Alfreð Þorsteinsson sæti á fundinum og Kristín Blöndal vék af fundi.

5. Lögð fram fundargerð hafnarstjórnar frá 6. maí. Samþykkt með samhljóða atkvæðum.

6. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 8. maí.

7. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 8. maí. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

8. Breytingar á lögreglusamþykkt Reykjavíkur; síðari umræða. Breytingar á lögreglusamþykkt Reykjavíkur, merktar I-III í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 12. mars s.l., samþykktar með 14 samhljóða atkvæðum.

9. Lögð fram samþykkt fyrir Kirkjubyggingasjóð; síðari umræða. Jafnframt lagður fram 29. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. maí, frestað fyrr á fundinum. Samþykkt fyrir Kirkjubyggingasjóð samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 22.45 vék Helgi Hjörvar af fundi og Sigrún Magnúsdóttir tók þar sæti.

10. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001; síðari umræða. Jafnframt lögð fram endurskoðunarskýrsla Borgarendurskoðunar með ársreikningi og þróunar- og lykiltölur í rekstri Reykjavíkurborgar 1997-2001. Áður en umræða hófst tilkynnti forseti að fallið yrði frá takmörkun á ræðutíma.

- Kl. 22.53 vék Guðrún Jónsdóttir af fundinum og Rúnar Geirmundsson tók þar sæti. - Kl. 23.35 tók Helgi Hjörvar sæti á fundinum og Guðrún Erla Geirsdóttir vék af fundi. Jafnframt tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir sæti á fundinum og Sólveig Jónasdóttir vék af fundi. Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001 samþykktur með 8 samhljóða atkvæðum.

Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Í dag fer fram síðari umræða borgarstjórnar um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001. Meginniðurstöður ársreiknings borgarsjóðs eru eftirfarandi: Ársreikningur ársins 2001 sýnir stöðugleika í rekstri borgarinnar og að sú vinna sem lögð hefur verið í að efla áætlanagerð hefur skilað sér. Frávik frá fjárhagsáætlun í rekstri málaflokka eru mjög lítil og festa ríkir í fjármálastjórn. Með rammafjárhagsáætlun allra málaflokka er ábyrgð forstöðumanna á fjármálum einstakra málaflokka vel skilgreind og markmið um dreifstýringu tryggð. Rekstur málaflokka að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum hefur lækkað úr 85,7% skatttekna í 81,7%. Án lífeyrisskuldbindinga hefur hann lækkað úr 81,2% í 78,8% og hefur aldrei verið lægri á síðustu fimm árum. Rekstrargjöld málaflokkanna eru 0,4% undir áætlun en sé hækkun vegna áfallinna lífeyrisskuldbindinga tekin með þá voru rekstrargjöld borgarsjóðs 2% umfram áætlun. Gjaldfærð og eignfærð fjárfesting nemur 25,5% skatttekna sem er umtalsverð hækkun frá undanförnum árum. Fjárfestingar að frádreginni eignasölu voru 6.469 mkr. sem er 2.057 mkr. umfram áætlun. Skýringar á þessu eru einkum tvær. Annars vegar að áætlun um eignasölu gekk ekki eftir m.a. þar sem ekki varð af áformaðri sölu á húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar. Hins vegar urðu eignakaup talsvert umfram áætlun og vega þar þyngst kaup á eignarhluta Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu og ýmis lóða- og landakaup s.s. í hlíðum Úlfarsfells. Skatttekjur ársins 2001 voru 25.372 mkr. sem er um 300 mkr. umfram áætlun eða 1,5%. Skatttekjur á hvern íbúa nema 235 þkr. og hafa ekki verið hærri áður. Skuldir borgarsjóðs lækkuðu um 119 mkr. að raungildi sem er minni lækkun en útkomuspá ársins gerði ráð fyrir. Veldur þar mestu hækkun á útistandandi skatttekjum um áramót um rúmlega milljarð en hana varð að fjármagna með skammtímalánum. Hækkunin hefur ekki áhrif á hreinar skuldir borgarsjóðs eða peningalega stöðu. Heildarskuldir í árslok nema 15.004 mkr og hafa þrátt fyrir ofansagt lækkað milli ára. Skuldir borgarsjóðs hafa lækkað jafnt og þétt frá árinu 1997 og eru nú 57,2% skatttekna. Skuldir á hvern íbúa eru 134 þkr. og hafa ekki verið lægri síðustu fimm ár.

Samstæðureikningur borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar Samstæðureikningur sýnir að peningalegar eignir hafa minnkað um 1.483 mkr. að raungildi og skuldir aukist um 7.742 mkr. að raungildi. Peningaleg staða án lífeyrisskuldbindinga hefur því versnað um 9.225 mkr. og ef lífeyrisskuldbindingar eru meðtaldar um 10.528 mkr. að raungildi. Skuldaaukningu má aðallega rekja til lántöku Orkuveitu Reykjavíkur vegna virkjanaframkvæmda 6.341 mkr. og lántöku Félagsbústaða vegna íbúðakaupa 1.131 mkr. Gengistap ársins 2001 nam 2.933 mkr. en þess ber að geta að það sem af er þessu ári er gengishagnaður 2.270 mkr.

Verðmæti fastafjármuna hefur aukist um 42 milljarða á milli ára. Samanburður fjárhagsáætlunar og ársreiknings er flókið viðfangsefni og auðvelt að misstíga sig í þeim samanburði. Hitt er sýnu alvarlegra ef hin pólitíska umræða gengur út á hálfsannleik og beinar blekkingar. Um það er málflutningur sjálfstæðismanna lýsandi dæmi. Í þeirri kosningabaráttu sem nú stendur yfir hafa þeir linnulaust haldið þeirri röngu fullyrðingu að almenningi að skuldir fyrirtækja borgarinnar verði skattar framtíðarinnar. Í raun er það forkastanlegt að aðilar, sem sækjast eftir umboði kjósenda til að fara með borgarmálin, leyfi sér svona vinnubrögð þegar þeir vita fullvel að það eru aðeins skuldir borgarsjóðs sem greiðast með skattfé. Þeir halda þessu hins vegar að almenningi vitandi að áhrifamáttur auglýsinga sem að auki innihalda stighækkandi gröf og súlurit er mikill, jafnvel þegar framsetning þeirra er í besta falli villandi. Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að nýta sér mátt auglýsinga til að koma staðreyndum á framfæri. Það er hins vegar grafalvarlegt þegar aðilar nota þennan miðil til að koma á framfæri rangfærslum, hálfum sannleik og jafnvel hreinum ósannindum. Staðreyndirnar eru að skuldir borgarsjóðs, sem verða skattar framtíðarinnar, öfugt við skuldir fyrirtækjanna, hafa lækkað jafnt og þétt í valdatíð Reykjavíkurlistans. Verður ekki of oft minnt á að heildarskuldir borgarsjóðs voru 119,9% af skatttekjum 1994 en 57,2% árið 2001. Í árslok 1994 voru hreinar skuldir borgarsjóðs 11,3 milljarðar króna en í árslok 2001 voru þær 7,8 milljarðar. Fyrirtæki borgarinnar hafa fjárfest mikið í tíð Reykjavíkurlistans og því stofnað til skulda. Fyrirtækin eru sterk, þau hafa fjárfest til framtíðar og hafa alla burði til að greiða þessar skuldir niður þegar fjárfestingarnar fara að skila arði. Má enn og aftur minna á sterka stöðu Orkuveitunnar, sem m.a. hefur fjárfest í Nesjavallavirkjun. Sú fjárfesting skilar nú þegar milljarði á ári í tekjur til Orkuveitunnar og mun þegar fram í sækir skila árlega 1,8 milljarði króna í tekjur til fyrirtækisins. Sannleikurinn er að Reykjavíkurlistinn hefur fjárfest arðbærum framkvæmdum sem munu verða Reykvíkingum og börnum þeirra dýrmætt veganesti inn í framtíðina.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001 sýnir að fjármálastjórn R-listans hefur gersamlega farið úr böndum. Skuldaaukning borgarinnar á síðasta ári er meiri en nokkru sinni fyrr. Hreinar skuldir hækka að raungildi um 9,2 milljarða króna á árinu, sem svarar 25 milljónum króna á dag. Í upphafi valdaferils síns lagði R-listinn upp með það að stöðva ætti skuldasöfnun og greiða síðan niður skuldirnar. Á átta árum hafa skuldir hins vegar hækkað á sambærilegu verðlagi úr 4 milljörðum í 34 milljarða. Þetta gerist á sama tíma og mikil uppsveifla er í efnahagslífi þjóðarinnar og skatttekjur hafa stóraukist. Rekstur og framkvæmdir borgarsjóðs á síðasta ári fóru langt fram úr áætlun. Í stað 441 milljón króna afgangs varð hallinn 2,654 milljónir. Frávikið er rúmir 3 milljarðar króna. Orkuveita Reykjavíkur er nú rekin í fyrsta sinn með halla. Hallinn nemur 533 milljónum króna í stað 1.121 milljón króna hagnaðar sem ráð hafði verið gert fyrir. Frávikið er hvorki meira né minna en 1.650 milljónir króna. Í rekstri þessa öflugasta fyrirtækis borgarinnar hefur orðið alger viðsnúningur. Á valdatíma R-listans hafa skuldir fyrirtækisins hækkað úr 125 milljónum í 22.000 milljónir! Sautján þúsund milljónir hafa verið teknar út úr fyrirtækinu til að bæta stöðu borgarsjóðs. Orkuveitan hefur þegar verið látin bera 1.700 milljón króna skuldabyrði vegna Línu.Nets, og ekkert lát virðist á fjárþörf þess fyrirtækis, sem nú er enn komið með 1.600 milljón króna skuldahala. Ef fyrirtækin sem að stofnuð hafa verið út frá Línu.Net; Rafmagnslína og Tetra Ísland eru tekin með eru skuldirnar orðnar 2,600 milljónir króna. Framlög Orkuveitunnar til þessara fyrirtækja á árinu 2001 voru 1,006 milljónir króna og Orkuveitan hefur nú þegar skuldbundið sig til að setja aukna fjármuni í Tetra Ísland á þessu ári.

Annað öflugt fyrirtæki borgarinnar, Reykjavíkurhöfn, er nú annað árið í röð rekið með tapi. Stærsta skýring þess taps er sú skuldsetning sem fyrirtækið var sett í þegar það var látið kaupa eignir Stáltaks á verði sem var langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Niðurstaða ársreikningsins er í hróplegri mótsögn við staðhæfingar í kosningastefnuskrá R-listans fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, þar sem segir að ábyrg og traust fjármálastjórn sé forsenda þess að unnt sé að ná settum markmiðum. Það kunna að vera orð að sönnu, en jafnljóst er að R-listinn er ófær um að beita ábyrgri og traustri fjármálastjórn. Það sýnir ársreikningur Reykjavíkurborgar.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég tek í meginatriðum undir efnisatriði bókunar borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins varðandi slæma fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og óráðsíu með fjármuni Orkuveitu Reykjavíkur. Ég tel hins vegar að úr þessu verði ekki bætt nema að nýtt og óspillt afl komi að stjórnun borgarinnar, með því að F-listinn hljóti brautargengi í borgarstjórnarkosningunum 25. maí n.k. Auk þess vara ég sérstaklega við áformum um að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur og tilfærslu á eignarhaldi þessarar dýrmætu sameignar okkar Reykvíkinga í hendur einkaaðila.

Borgarfulltrúar gengu til áritunar ársreiknings.

Fundi slitið kl. 02.00.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson