No translated content text
Borgarstjórn
Ár 2024, þriðjudaginn 9. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Friðjón R. Friðjónsson, Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Stefán Pálsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um ferðaþjónustu í höfuðborginni og áhrif hennar á mannlíf, umhverfi og fjárhag.
- Kl. 12:34 tekur Andrea Helgadóttir sæti á fundinum og Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir víkur af fundi. MSS24040051
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil innviðauppbygging hefur átt sér stað á undanförnum árum í kjölfar þróunar ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ásamt fyrirtækjum í ferðaþjónustu hafa nú stofnað markaðs- og áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins. Áhersla er lögð á að þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild. Unnið er að áfangastaðaáætlun 2023-2026, stefnumörkun um áfangastaðinn, mælikvörðum og almannatengslum undir merkjum Visit Reykjavík. Einnig verður lögð áhersla á þróun áfangastaða og samtal við hagaðila. Verið er að greina segla höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að dreifa ferðamönnum um allt höfuðborgarsvæðið ásamt því að þróa kjarna- og ferðaleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að þróa útivistarvef í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að samtal er hafið við hagaðila á Hallgrímskirkjusvæðinu svo eitthvað sé nefnt. Vinna við stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík er hafin og gerð verður viðhorfsrannsókn á meðal íbúa um viðhorf til ferðaþjónustu nú í apríl. Mikilvægt er að skapa hér samfélagslega sátt um þessa atvinnustarfsemi og taka áhyggjur Reykvíkinga af loftslagsmálum og loftgæðum í borginni alvarlega. Brýnt er að auka stuðning við samfélagslega inngildingu starfsfólks í ferðaþjónustu. Síðast en ekki síst er lykilatriði að standa áfram vel að verki í menningarmálum og framboði á heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem sundlaugar borgarinnar gegna lykilhlutverki.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Vandi borgarbúa er ekki að það sé útbreitt atvinnuleysi, vandi borgarbúa er skortur á íbúðarhúsnæði og óviðráðanlegur húsnæðiskostnaður sem af honum hlýst. Húsnæðiskostnaður er orðinn íþyngjandi fyrir reykvísk heimili almennt og mjög alvarlegur baggi á útgjöldum láglaunaheimila sem eru í auknum mæli að upplifa efnislegan skort eða beinlínis fátækt. Stór hluti þeirra sem starfa í þjónustustörfum sem tengjast ferðaþjónustu er meðal þeirra síðarnefndu. Það er mikilvægt fyrir borgarstjórn að halda fókus á það sem er allra brýnast að leysa hverju sinni og ekki að skapa meiri vandamál í málaflokki sem nú þegar er illviðráðanlegur og fer versnandi ár frá ári. Reykjavík ætti því að tryggja að framboð á húsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir láglaunafólk sé ávallt vel umfram þörf áður en hún beitir sér fyrir meiri vexti ferðaþjónustu í borginni, enda reiðir ferðaþjónusta sig mjög á vinnu fólks á lágum kjörum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ferðaþjónusta þarf að vera í jafnvægi og sátt við íbúa og náttúru höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt spálíkani er gert ráð fyrir að árið 2024 komi rúmlega 2,4 milljónir ferðamanna til landsins. Að sama skapi gerði spáin ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í fyrra, þ.e. árið 2023, hefði verið tæplega 2,3 milljónir. Samkvæmt þessu eru ferðamenn u.þ.b. sexfaldur íbúafjöldi landsins. Það er augljóst að slíkur fjöldi skapar álag á innviði landsins. Rannsóknamiðstöð ferðamála gerði athyglisverða könnun haustið 2023 á viðhorfi til ferðamanna skemmtiferðaskipa hjá íbúum stærstu móttökuhafna skemmtiferðaskipa á Íslandi, þ.e. í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði. Í Reykjavík voru flestir svarendur könnunarinnar á því að borgin réði almennt vel við að þjónusta farþega af skemmtiferðaskipum og að hafnaryfirvöld réðu vel við að taka á móti skipunum. Reykvíkingar voru þó síður en íbúar á Akureyri og á Ísafirði á því að skipin væru efnahagslega mikilvæg fyrir borgina. Aðeins um einn af hverjum fjórum svarendum í Reykjavík taldi íbúa í borginni verða fyrir ónæði af komum skemmtiferðaskipa, sem var nokkuð minna en á hinum stöðunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur svona könnun mikilvæga til að fylgja eftir viðhorfi heimamanna til ferðaþjónustunnar og að hún gangi ekki freklega á innviði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að leita samstarfs við að lágmarki fimm grunnskóla í Reykjavík um tilraunaverkefni með svokallaða fimm ára bekki. Markmið tilraunaverkefnisins verði að tryggja aukna tengingu milli leik- og grunnskóla, styðjast við kennsluaðferðir beggja skólastiga og hugsa menntun barna með heildstæðum hætti allt frá unga aldri til loka grunnskólagöngunnar. Fyrirkomulag tilraunaverkefnisins gefi foreldrum kost á að sækja um að skólaganga barna þeirra hefjist við fimm ára aldur í hlutaðeigandi þátttökuskólum og að henni ljúki á fimmtánda aldursári í stað þess sextánda. Við val á þátttökuskólum verði tekið mið af biðlistum leikskóla og þeir skólar settir í forgang sem staðsettir eru innan hverfa þar sem leikskólavandinn er mestur. Með tilraunaverkefninu megi því samhliða rýma aukinn fjölda leikskólaplássa og bregðast að hluta við biðlistavanda leikskólanna. Tilraunaverkefnið hefjist haustið 2024 og verði endurmetið að ári liðnu. Skóla- og frístundaráð skipi samhliða þriggja manna starfshóp sem fylgi verkefninu eftir og dragi saman niðurstöður eigi síðar en vorið 2025. Tilraunaverkefnið hefjist haustið 2024 og verði endurmetið að ári liðnu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24030105Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar því að Sjálfstæðismenn leggi fram tillögur er snúa að nýsköpun í skólastarfi. Hins vegar er hér gert ráð fyrir víðtækri kerfisbreytingu á skólastigi barna með það til hliðsjónar að leysa úr vanda er snýr að „fjölda leikskólaplássa“. Einnig er tilgreint markmið tillögunnar að tryggja aukna tengingu milli leik- og grunnskóla með því að styðjast við kennsluaðferðir beggja skólastiga. Er þetta vel og í raun það sem unnið hefur verið að með auknu samstarfi skólastiganna og frístundar í gegnum verkefnið Betri borg fyrir börn, tilraunaverkefnið „fyrr í frístund“ og samstarf leikskólanna Holt og Ösp við Fellaskóla. Þessa mikilvægu tengingu er því hægt að vinna með án þess að stíga svo afgerandi skref að breyta skilum skólastiga leik- og grunnskóla. Allt faglegt skólastarf þarf að byggja á forsendum lærdóms og greiningar á kennslu og þekkingu. Ekki er skynsamlegt að breyta uppbyggingu menntakerfis með það til hliðsjónar að leysa ákveðinn „fjölda leiksskólaplássa“ samtímans heldur þurfa faglegar forsendur að vera lagðar til grundvallar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til að sett verði í gang tilraunaverkefni um að koma á fót fimm ára bekkjum í að minnsta kosti fimm grunnskólum borgarinnar. Flokkur fólksins er sammála þeirri nálgun. Mikilvægt er að tilraunaverkefnið verði unnið í nánu samráði við foreldra og skólasamfélög leik- og grunnskóla. Þetta gæti verið góð tenging milli þessara skólastiga – sem einhverskonar forskóli. Börn eru misjafnlega tilbúin til að hefja skólagöngu og mun þetta úrræði því ekki henta öllum börnum – ef til vill ekki þeim sem eru fædd seint á árinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki eigi að vera markmið í sjálfu sér að stytta skólagöngu barna heldur væri þarna um viðbót að ræða og aukið val. Á þessum aldri læra börn mikið í gegnum leik og er því mikilvægt að halda í kennsluaðferðir leikskólastigsins þar sem leikur er í forgrunni í náminu. Einnig má benda á að með þessu myndi jafnvel losna um einhver leikskólapláss í leiðinni – sem ekki er vanþörf á miðað við þá slæmu stöðu leikskólamála sem hefur verið viðvarandi alltof lengi í Reykjavík.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að stefna að flutningi fimm ára barna milli skólastiga er vanreifuð og skammsýn að mati fulltrúa Vinstri grænna. Það er ekki á hendi einstakra sveitarfélaga að taka fram fyrir hendurnar á aðalnámskrá, auk þess sem tillagan virðist fela í sér tilraun til að tefla fram óraunhæfri töfralausn á mönnunarvanda í skólakerfinu. Minnt er á að nú þegar eru fimm ára bekkir í boði í fáeinum reykvískum skólum og bendir aðsóknin í þá ekki til þess að um mikla eftirspurn sé að ræða.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að Reykjavíkurborg taki sjálf yfir rekstur á skiptistöðinni Mjódd að Þönglabakka 4. Opnunartími skiptistöðvarinnar verði sá sami og aksturstími vagnanna, hún opni þegar akstur hefst að morgni, loki ekki fyrr en síðasti vagn hefur yfirgefið skiptistöðina og sé opin um helgar á meðan vagnar eru í umferð. Tryggt verði að salerni skiptistöðvarinnar verði ávallt aðgengileg og gjaldfrjáls fyrir farþega strætó sem fara um svæðið á opnunartíma. Aðstaðan verði gerð hlýleg og aðlaðandi og sniðin að þörfum strætófarþega. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að innleiða efni þessarar tillögu í samvinnu við aðila innan borgarinnar sem og strætónotenda. Lagt er til að kröfur um eðlilega kostnaðarskiptingu verði sendar Strætó bs. og Vegagerðinni þannig að aðrir sem koma að starfseminni greiði eðlilegt þjónustugjald með rekstrinum. Nauðsynlegt er að farþegar á höfuðborgarsvæðinu hafi góða aðstöðu á stærstu skiptistöð þess.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:40 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir tekur þar sæti.
Tillögunni er vísað frá með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. MSS24040053
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar leggja fram þá einföldu kröfu að farþegar Strætó geti gengið að því vísu að þeir hafi not af stærstu skiptistöð borgarinnar á meðan á akstri stendur. Aðstaðan, sem rekin er í húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar, þarf að vera miðuð að þörfum farþeganna og standast lágmarkskröfur hvað þær varðar. Úrbætur á aðstöðu, opnunartíma og þjónustu þurfa að vera gerðar strax en ekki þegar eða ef rekstraraðilar svara mögulega kallinu.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er til af hálfu Sósíalistaflokksins að Reykjavíkurborg taki yfir rekstur á skiptistöðinni Mjódd. Flokkur fólksins styður þessa tillögu vegna þess að lengi hefur verið ljóst að aðstaða strætisvagnafarþega í Mjódd er algjörlega óviðunandi. Flokkur fólksins studdi tillögu meirihlutans á sínum tíma um að finna ábyrgan rekstraraðila til að reka skiptistöðina. Það hefur ekki gengið og því þarf að leita annarra lausna. Ófremdarástand hefur ríkt í skiptistöðinni í Mjóddinni. Opnunartími hennar verður að vera sá sami og aksturstími vagnanna. Mikilvægt er að farþegar hafi ávallt skjól frá veðri og vindum á meðan beðið er eftir vagni. Huga þarf einnig mun betur að þrifum salerna og á staðnum verður að vera öryggisvörður á vakt. Einnig þarf að stórbæta alla upplýsingagjöf á staðnum og taka þarf sérstakt tillit til þeirra sem ekki tala íslensku. Það er í raun óskiljanlegt að Reykjavíkurborg hafi leyft þessu ófremdarástandi að viðgangast eins lengi og raun ber vitni. Tillögur til úrbóta hafa einfaldlega verið of máttlausar til þess að leysa vandann með viðunandi hætti.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sósíalistaflokksins um rekstur skiptistöðvarinnar í Mjódd tekur á tekur á mikilvægu málefni. Ástand skiptistöðvarinnar hefur lengi verið bágt og ítrekað ratað inn á borð borgarstjórnar. Borgaryfirvöld hafa lengi og árangurslaust reynt að leita lausnar á stöðunni með aðkomu einkaaðila. Sú leið virðist fullreynd og því tilefni til þess að borgin höggvi á hnútinn og sinni verkefninu sjálf með þeim hætti að sómi sé að.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um tækifæri sem felast í innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum Reykjavíkurborgar. MSS24040054
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Gríðarleg tækifæri felast í innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum. Auk þess að vera mikilvægt félagslegt réttlætismál og stórt umhverfismál, geta skólamáltíðirnar orðið lýðheilsu- og menntamál sem skiptir sköpum fyrir þroska nemenda og námsárangur þeirra. Við þá vinnu sem nú stendur fyrir dyrum er afar mikilvægt að horft verði til reynslu þeirra sem bestum árangri hafa náð á þessu sviði og má þar sérstaklega benda á áratugalanga reynslu Finna.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar fagna því að skólamáltíðir verði loksins gerðar gjaldfrjálsar fyrir öll börn og óska verkalýðshreyfingunni til hamingju með þann sigur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Frumkvæði um fríar skólamáltíðir fyrir börn þeirra verst settu kom frá Flokki fólksins fyrst árið 2018. Samhliða auknum ójöfnuði í Reykjavík og vaxandi fátækt hefur Flokkur fólksins þó meira horft til þess að gripið verði til sértækra aðgerða og að börn tekjulágra foreldra fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Þó skal ítreka að eina raunverulega leiðin til að fullvissa sig um að ekkert barn sé svangt í skólanum, er að hafa fríar skólamáltíðir fyrir alla. Efnahagur fjölskyldna er misjafn. Fjöldi foreldra er vel stæður og vill gjarnan greiða fyrir mat fyrir börn sín. Annar hópur, því miður allt of stór, er hins vegar efnalítill og jafnvel sárfátækur. Það verður þó að taka fram að ekki eru allir eins efnalitlir og fátækir foreldrar sem njóta fjárhagsaðstoðar. Það er þessi hópur sem þarf að vera settur í forgang og þjónusta við börn þeirra að vera að fullu greidd af sveitarfélaginu.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarstjórn samþykkir að gerð verði óháð úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar borgarráðs. MSS24040055Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Árangur af þeirri stafrænu þjónustuumbreytingu sem unnin hefur verið á þjónustu- og nýsköpunarsviði á síðustu árum hefur verið gífurlegur og langt fram úr væntingum. Það hefur bætt þjónustu við íbúa og gert borginni kleift að nýta betur tíma, fjármagn og mannauð, auk þess sem gagnainnviðir borgarinnar eru loksins komnir á þann stað að þeir bæti starfsemi, auki yfirsýn og geri úrbætur og samþættingu auðveldari. Farið hefur verið í úttektir á sviðinu, bæði af hálfu innri endurskoðunar og ytri aðila, og þær hafa nýst vel til að bæta starfsemina. Ekkert er hæft í síendurteknum ásökunum Flokks fólksins um misferli eða óráðsíu og sú vegferð er óþolandi aðför að fagfólki og embættismönnum borgarinnar. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að þessu máli sé vísað til borgarráðs þar sem hægt er að leggja fram til upplýsingar samantekt á þeim úttektum sem gerðar hafa verið.
Fylgigögn
-
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarstjórn samþykkir að kalla eftir tafarlausri afléttingu trúnaðar yfir skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar frá nóvember 2023 um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Skýrslan skal verða gerð opinber í heild sinni.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta málinu. MSS24020040
Fylgigögn
-
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra að falla frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitusamstæðuna og hafna þar með arðgreiðslutillögu stjórnar OR á komandi aðalfundi 17. apríl nk. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir sex milljarða króna arðgreiðslu til eigenda, en fjárhæðin nemur nær öllum hagnaði samstæðunnar fyrir rekstrarárið 2023. Tillaga stjórnar verður að teljast óábyrg á tímum orkuskorts og mikils álags á orkuinnviði landsins. Ekki síður með hliðsjón af álagi á veitukerfi og aðra innviði. Fyrirhugaðar fjárfestingar OR á árunum 2024 til 2028 munu nema um 229 milljörðum króna samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Hér er um að ræða gríðarlega fjárfestingu í mikilvægum innviðum samfélagsins. Hvorki afkoma OR-samstæðunnar né heldur kjör á fjármagnsmörkuðum gefa tilefni til að greiða svo ríflegan arð til eigenda. Ekki síst með hliðsjón af þeirri gríðarlegu innviðauppbyggingu sem fyrirhuguð er. Jafnvel þó eigendur OR vilji njóta ávöxtunar af því fjármagni sem bundið er í rekstri samstæðunnar er eðlilegt að þau sjónarmið víki fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem borgarbúar eiga undir traustum innviðum samfélagsins.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta málinu. MSS24040056T
Fylgigögn
-
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gatnaþrif verði aukin í Reykjavík í því skyni að bæta hreinlæti í borginni og draga úr svifryksmengun. Stofnbrautir og tengigötur verði þvegnar a.m.k. nokkrum sinnum á ári til viðbótar hefðbundinni götusópun.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta málinu. MSS24040057Fylgigögn
-
Lagt er til að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur.
Samþykkt. MSS22060044 -
Lagt er til að Halldóra Jóhanna Hafsteinsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur. MSS22060048
Samþykkt. -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. mars og 4. apríl. MSS24010001
19. liður fundargerðarinnar frá 21. mars; reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, er samþykktur með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. VEL22110033
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðarinnar frá 21. mars:
Fjárhagsaðstoð er fyrir þau sem hafa ekkert annað að leita í og eru upphæðirnar svo lágar að fólk lifir oft ekki af. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af málsgreininni „Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram nema lögmæt forföll hamli því, s.s. veikindi eða fötlun.“ Gera á þá breytingu að ef einstaklingur mætir ekki í boðað viðtal eða námskeið og eða staðfestir ekki atvinnuleit, nú eða hafnar vinnu, verði grunnfjárhæð skert um 50% en heimilt sé að skerða eingöngu um 15% ef viðhlítandi skýringar eða veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. Það er mat Flokks fólksins að of mikill ótti ríkir um að fólk sé að misnota kerfið. Kannski er aðeins of mikil harka í þessum reglum. Sumt er einnig of matskennt og getur reynst erfitt fyrir starfsfólk að komast að niðurstöðu. Finna þarf leið til að hafa reglurnar sveigjanlegar en þó ekki opnar fyrir geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Reglurnar þurfa að vera sanngjarnar til að fólk sem sækir um aðstoðina upplifi öryggi og stuðning sveitarfélagsins í stað þess að finnast það vera tortryggt.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 5. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. apríl og velferðarráðs frá 3. apríl.
3. liður fundargerðar forsætisnefndar, lausnarbeiðni Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur, er samþykktur. MSS24010034Fylgigögn
Fundi slitið kl. 18:36
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Alexandra Briem
Friðjón R. Friðjónsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 9.4.2024 - Prentvæn útgáfa