Borgarstjórn - Borgarstjórn 7.1.2025

Borgarstjórn

Ár 2025, þriðjudaginn 7. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar:  Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Dís Skjalddal, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Pawel Bartoszek og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

     Lagt er til að innri endurskoðun borgarinnar verði falið að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd. Í úttektinni verði meðal annars tekið tillit til: 1. Ákvarðanatökuferlisins í málinu. 2. Tímalínu málsins, frá upphafi til loka. 3. Regluverksins og framkvæmdar þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum. 4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar. 5. Athugasemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim. Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -        Kl. 13:04 víkur Björn Gíslason af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur sæti.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

     Lagt er til að innri endurskoðun borgarinnar verði falið að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd. Í úttektinni verði meðal annars tekið tillit til: 1. Ákvarðanatökuferlisins í málinu. 2. Tímalínu málsins, frá upphafi til loka. 3. Regluverksins og framkvæmdar þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum 4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar. 5. Athugasemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim. Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni. Sömuleiðis er lagt til að hafin verði vinna við að endurskoða feril skipulagsmála innan borgarinnar til að tryggja frekari gæði við skipulagsgerð og ekki síst skilvirka innleiðingu borgarhönnunarstefnu sem liggur fyrir í drögum og verður samþykkt með vorinu. Stefnan verður lögð til grundvallar við alla deiliskipulagsvinnu. Nú þegar eru m.a. unnin skuggavörp og samgöngumat við skipulagsgerð en tilefni er til að gera frekari kröfur hvað varðar gæði og útfærslu mannvirkja sem og lóðahönnunar. Efla þarf áherslu á samspil mannvirkja við umhverfi sitt við breytingar á skipulagi ekki síður en við nýja skipulagsgerð. Fengin verði aðstoð sérfræðinga utan borgarinnar í arkitektúr og borgarhönnun. Meðal verkefna verði að tryggja í ferlinu að fyrir hendi sé öryggisventill svo hægt sé að grípa inn í ef verkefni stefna fyrirsjáanlega í neikvæða átt eftir samþykkt skipulags. Sömuleiðis verði skoðuð aðferðafræði sem gengur út á að hönnun stærri verkefna sé komin lengra í ferlinu við deiliskipulagsgerð svo ekki sé verið að samþykkja skipulagsheimildir sem ófyrirsjáanlegt er hvernig spilast úr. Skoðuð verði fordæmi og fyrirmyndir erlendis frá í þessu samhengi. Jafnframt er lagt til að auka strax gagnsæi skipulagsgagna með því að fara fram á það við deiliskipulagsvinnu umfram minniháttar breytingar að umfang og drög að ásýnd mannvirkis og samhengis þess við umhverfi sitt verði sett inn í þrívíddarmódel svo auðveldara sé að meta og skilja betur áhrif þess á nærumhverfið.

    -        Kl. 14:24 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    Breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar er samþykkt með sextán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er samþykkt svo breytt,

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24120135

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í dag í borgarstjórn skýra og skiljanlega tillögu um að gerð yrði ítarleg stjórnsýsluúttekt á því skipulagsslysi sem hefur undanfarnar vikur blasað við öllum landsmönnum að lóðinni að Álfabakka 2a, Suður-Mjódd. Sérstaklega hefur atburðarrásin í Suður-Mjódd haft ömurlegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa að Árskógum. Samkvæmt tillögu Sjálfstæðisflokksins átti innri endurskoðun Reykjavíkur að sjá um úttektina og við vinnslu úttektarinnar væri rammi athugunarinnar ótvíræður. Þótt ánægjulegt sé að meirihlutinn hafi fallist á að úttekt fari fram á málinu þá kaus hann að bæta við svo mörgum atriðum við úttektarbeiðnina að veruleg hætta er á að vinna innri endurskoðunar taki of langan tíma og verði ómarkvissari. Nauðsynlegt er að lýsing á staðreyndum málsins verði sem allra fyrst komið á blað af hálfu hlutlauss aðila á borð við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar en efnislega er mál þetta allt afar hryggilegt og hver svo sem lausn málsins verður, mun niðurstaðan hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir borgarsjóð, enda ber borgin óskipta ábyrgð á skipulagsslysinu. Málið allt fær falleinkunn fyrir bæði stjórnsýslu borgarinnar og borgarstjóra.

     Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar styðja stjórnsýsluúttekt á máli Álfabakka 2a. Það er mikilvægt að íbúar séu ávallt hafðir í öndvegi og þeir séu varðir fyrir mistökum sem þessum, því skipulag borgar þarf að miða að manneskjulegu umhverfi fyrir alla íbúa hennar. Þar sem athafna- eða iðnaðarsvæði og íbúðabyggð mætast þarf að vera til skipulagsleg skilgreining á jaðarsvæði sem er með ríkari skilyrðum til manneskjulegrar ásýndar og umhverfis, sem og takmörkun á starfsemi sem veldur hættu eða ónæði fyrir íbúðabyggðina. Sósíalistar hafa mælt fyrir því í umhverfis- og skipulagsráði og munu leggja fram tillögu um slíkt.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vöruhúsið í Álfabakka hefur margar hliðar. Það er ekki aðeins hörmulegt fyrir þá sem búa í blokkinni sem snýr að vöruskemmunni heldur öll nærliggjandi hús. Öll húsin í Árskógum eru byggingar fyrir 60 ára og eldri og sækja margir íbúanna þjónustu og félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4 en til þess þurfa íbúar að fara yfir götu. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær, þar býr fólk með göngugrindur, stuðningsstafi eða í hjólastólum. Í Búsetablokkinni sem fer verst út úr þessu er íbúakjarni fyrir fatlað fólk. Bak við húsin og við skemmuferlíkið er íþróttavöllur fyrir börnin í hverfinu. Þau fara því oft yfir götuna til að komast þangað. Umferð stórra vöruflutningabíla er óæskileg og beinlínis hættuleg innan um fullorðið fólk með skerta hreyfigetu og þar sem börn eru á ferð. Áhyggjur eru vegna umferðar stórra vöruflutningabíla til og frá skemmunni. Gatan er lítil og slysahætta mikil. Hópurinn sem býr þarna er einstaklega viðkvæmur fyrir slíku ónæði. Þar sem vöruskemman stendur var aðalgönguleið íbúanna. Áður voru þarna bekkir þar sem fólk gat sest og hvílt sig. Þessi ráðstöfun felur því í sér stórlega skert lífsgæði fyrir íbúana í Árskógum. Aðrar leiðir eru ekki í boði vegna umferðar í Mjódd eða umferðar á götunum í kring.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna telur afar mikilvægt að stjórnsýsluúttekt á málefnum Álfabakka 2a verði unnin skjótt og vel. Reykjavík á mikið undir því að traust ríki til skipulagsmála í borginni og til þeirra stofnana sem að þeim koma. Jafnframt er mikilvægt að borgin axli ábyrgð sína í málinu og hafi forgöngu um að finna á því lausn sem sé ásættanleg við alla þá aðila sem að því koma, en einkum þó íbúana.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eða öðrum óháðum aðila að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd, eða vöruskemmunni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni frá með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

     -        Kl. 16:00 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Guðný Maja Riba víkur af fundi. Á sama tíma víkur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir af fundinum og Helga Þórðardóttir tekur sæti. USK24120135

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar eða öðrum óháðum aðila að gera stjórnsýsluúttekt á skipulagsferli er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd, eða vöruskemmunni. Málið er grafalvarlegt enda um að ræða eitt mesta skipulagsslys meirihlutans og skipulagsyfirvalda sem munað er eftir. Það sem skiptir mestu máli nú er að framkvæmdir verði stöðvaðar til að lágmarka skaðann. Hefja þarf vinnu við að finna ásættanlega lausn á þessu máli, lausn sem íbúar geta unað við. Ákall er um að skemman verði rifin. Því fyrr sem framkvæmdir eru stöðvaðar því minna þurfa skattgreiðendur að borga í skaðabætur. Nóg er nú samt. Við íbúum blokkarinnar blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur. Íbúar þeirra íbúða sem snúa að skemmunni verða að fá birtuna aftur inn og útsýnið sitt aftur sem vöruskemman byrgir nú alfarið. Nágrennið allt er í hers höndum vegna þessarar framkvæmdar. Ábyrgðin er skipulagsyfirvalda og meirihlutans en samt virðast þau ekki vera að beita sér neitt í að stöðva þessa framkvæmd og einhenda sér í lausn sem varla getur verið önnur en að rífa skemmuna að hluta til eða alla. Eitthvað hálfkák, s.s. að setja 1-2 glugga, mun varla verða samþykkt sem alvöru lausn.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um skaðsemi þess að stórfyrirtæki reki leikskóla. MSS25010064

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er mótfallinn því að fyrirtækjaleikskólar verði eingöngu í boði fyrir börn starfsmanna. Það getur aukið stéttaskiptingu og mismunun milli fólks sérstaklega í þeim fyrirtækjum sem eru með menntað mið- og hátekjufólk hjá sér sem geta boðið upp á þessa þjónustu og geta þá líka boðið leikskólakennurum hærri laun. Ef opnað verður fyrir þennan möguleika þá gæti það leitt til þess að það verði erfiðara fyrir „opinbera“ leikskóla að fá góða kennara eða starfsfólk yfirhöfuð. Það yrði snöggtum betra ef fyrirtækjaleikskóla ef kalla má svo sé gert að taka við börnum án tillits til þess hvort foreldrar þeirra starfi hjá fyrirtækinu, t.d. börnum í hverfinu eða nærliggjandi hverfi. Best væri auðvitað að borgarmeirihlutinn hysjaði upp um sig buxurnar og setti málefni barna í algeran forgang þ.m.t. að ljúka við að brúa bilið og gera það með reisn þannig að það sé til pláss fyrir öll börn á leikskóla. Allir eiga að sitja við sama borð varðandi leikskólapláss. Mannekluvandinn verður leystur með því að gera fleirum kleift að ljúka leikskólakennaranámi og setja í launakerfið ýmsa hvata sem laðar að starfsmenn.

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að gera eftirfarandi ráðstafanir svo skapa megi aðgengilegra og sveigjanlegra umhverfi fyrir sjálfstæðan rekstur daggæslu og leikskóla á vinnustöðum borgarinnar, með það að markmiði að styðja enn frekar við fjölbreytt rekstrarform leikskóla og daggæslu í Reykjavík. 1. Við þjónustusamning milli Reykjavíkurborgar og sjálfstætt starfandi skóla bætist nýtt ákvæði 6.13, sem yrði svohljóðandi: „Heimilt er að víkja frá framangreindu ákvæði í gr. 6.3 þegar um er að ræða sjálfstætt starfandi leikskóla, sem rekinn er af vinnustað. Við slíkar aðstæður er heimilt að veita börnum starfsmanna viðkomandi vinnustaðar forgang við innritun.“ 2. Leitað verði samstarfs við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um annað hvort breytingu á reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu í heimahúsi, eða um innleiðingu sjálfstæðrar reglugerðar um daggæslu á vinnustað, með það að markmiði að kveða skýrlega á um heimildir til reksturs daggæslu á vinnustöðum. Skóla- og frístundasviði verði falin nánari útfærsla í samstarfi við hlutaðeigandi aðila.

     Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni frá með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. MSS25010063

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna frumkvæði atvinnulífsins í leikskóla- og daggæslumálum og telja mikilvægt að borgin stígi nauðsynleg skref til að einfalda regluverkið og tryggja aðgengilegan ramma fyrir fleiri að bjóða slíkar lausnir. Harma fulltrúarnir því sérstaklega að meirihlutinn hafi ekki treyst sér til að samþykkja fyrirliggjandi tillögu. Leikskólavandi borgarinnar hefur verið viðvarandi en hvert haust eru á bilinu 700 til 1.000 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Jafnframt eru árlega rúm 300 leikskólapláss ónothæf vegna viðhaldsvanda og í viku hverri eru fjölmörg börn send heima vegna manneklu. Þá hefur meirihlutanum tekist illa til við fjölgun leikskólaplássa á kjörtímabilinu, en þeim fjölgaði aðeins um 60 árið 2023 þrátt fyrir áform um 252 ný pláss, og þeim fjölgaði aðeins um 50 árið 2024, þrátt fyrir áform um 650 ný pláss. Samhliða hefur fækkað verulega í stétt dagforeldra síðastliðinn áratug. Það er alveg ljóst að meirihlutinn ræður illa við verkefnið, leikskóla- og daggæslumálum hefur hrakað verulega síðastliðinn áratug og betur má ef duga skal. Mikilvægt verður að tryggja frelsi og val í leikskóla- og daggæslumálum borgarinnar. Lykilforsenda valfrelsis er fjölbreyttara rekstrarform og fleiri valkostir – sveigjanlegt kerfi sem styður við framþróun og nýsköpun í skólastarfi og tryggir foreldrum ólíka valkosti í skólamálum barna sinna.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráð samþykkti í nóvember nýjan samningsramma við sjálfstætt starfandi leikskóla þar sem m.a. er kveðið á um skýran forgang reykvískra barna við innritun í þá skóla. Þessi samningsrammi tók gildi 1. janúar síðastliðinn, fyrir tæpri viku. Ekki er þörf á því að breyta reglum og samningsmarkmiðum sem samþykkt voru fyrir örfáum vikum og bjóða nægilegt svigrúm fyrir útfærslur eins og hér um er að ræða.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar leggjast alfarið gegn rekstri fyrirtækjaleikskóla eða daggæslu ungra barna starfsfólks á vegum vinnustaða þess. Menntun barna er best farið í höndunum á fagfólki sem til þess hefur menntun og metnað, og á forsendum samfélagsjöfnuðar, og daggæslu mjög ungra barna er sömuleiðis best farið í höndum þeirra eigin næstu aðstandenda. Lausnin er að lengja barneignaleyfi og að fyrirtækin viðurkenni skyldu sína til að taka þátt í að greiða fyrir hina félagslegu endursköpun sem og gott skólakerfi, sem sótt verði með réttlátari skatttekjum.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það hefur verið talsvert rætt og skrifað um ólík rekstrarform leikskóla og daggæslu í Reykjavík þegar sú frétt barst að lyfjafyrirtækið Alvogen og Arion banki munu fá að opna leikskóla fyrir börn í borginni á næstunni. Fyrir þessum hugmyndum hefur Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, meðal annars talað sem ekki kemur á óvart þar sem leikskólaúrræði skortir í Reykjavík. Margar áleitnar spurningar vakna þegar svona umræða fer af stað. Flokki fólksins sem berst fyrir jöfnuði og að börn og fjölskyldur sitji við sama borð finnst skipta máli að ef slíkur leikskóli sé settur á laggirnar verði hann einnig fyrir önnur börn en börn starfsmanna, t.d. börn í hverfinu og nærliggjandi hverfi við fyrirtækið. Leikskólinn þarf að vera undir sömu skilyrðum, reglugerðum og eftirliti og aðrir leikskólar. Sé um að ræða leikskóla aðeins fyrir börn starfsmanna er hætta á ójöfnuði. Líklegt má telja að starfsfólk fyrirtækjaleikskóla fái hærri laun og því munu þessir leikskólar laða til sín menntaða kennara. Hingað til hefur verið sátt innan samfélagsins um að leikskólarnir séu byggðir á samfélagslegum grunni líkt og grunnskólarnir. Áherslu þarf að leggja á að gera leikskólakennaranám og starf í leikskólum eftirsóknarverðara til að fjölga menntuðum leikskólakennurum og leysa þannig mannekluvandann í borginni.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

     Margt er á huldu varðandi hugmyndir Sjálfstæðisflokksins og borgarstjóra um fyrirtækjaleikskóla og hvaða vanda þeir eigi að leysa fyrir aðra en starfsmenn fyrirtækja sem hann reka. Vandi leikskólastigsins hérlendis og um allan heim er mönnunarvandi. Margt er varhugavert við þessar hugmyndir. Þær eru ekki sprottnar úr hugmyndafræðilegum jarðvegi um menntun ungra barna heldur vegna þeirra áskorana sem yfirvöld standa frammi fyrir í að brúa bilið og skapa jafnræði í inntöku barna í leikskólum borgarinnar. Margt er hægt að tína til hugmyndinni til foráttu, m.a. þann ójöfnuð sem þessi stefnubreyting kann að leiða af sér og að börnum í viðkvæmri stöðu verði mismunað t.d. vegna fötlunar, tekna foreldra eða barna sem þurfa mikla aðhlynningu – félagslega og námslega. Einkarekstur leikskóla er ekki algengur á Íslandi en hefur þó aukist síðari ár. Það er umhugsunarvert enda hafa dæmin allt í kringum okkur sýnt að ofuráhersla á „markaðsvæðingu menntakerfisins“ hefur beðið skipbrot og það kann ekki góðri lukku að stýra að feta þá slóð eins og margir flokkar í borgarstjórn gæla nú við að gera.
     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra að ganga til viðræðna við nágrannasveitarfélögin um að unnt verði að nýta afsláttarkort í sundlaugum þvert á sveitarfélagamörk og vinna að útfærslu þess.

     Frestað. MSS25010065

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 19. desember sl.
    6. liður fundargerðarinnar, Veðurstofureitur, deiliskipulag, er samþykktur með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

     Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

    Hér er mikið byggingarmagn, allt að 300 íbúðir. Fækka á bílastæðum. Fjöldi athugasemda hefur borist, þar með talið frá Heilbrigðiseftirliti. Áhyggjur eru af aðgengi og miklum þrengslum. Hvað með skuggavarp, liggur ljóst fyrir að þarna leynist ekki einhver myrkrakompa? Gleðjast má yfir því að þriðjungur byggingarmagns fari til Bjargs íbúðafélags. Fram kemur í kynningu skipulagsyfirvalda að búið sé að vinna málið vel og því megi treysta að ekkert eigi eftir að koma á óvart. Flokkur fólksins vonar að það sé rétt. Mikið virðist vanta upp á að bílastæðamál séu leyst með fullnægjandi hætti í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Hætt er við að íbúar hverfisins leitist við að leggja bifreiðum sínum í Stigahlíð og öðrum nærliggjandi götum verði bílastæðamál ekki leyst með fullnægjandi hætti. Það gæti leitt til þess að umferðarþungi í næstu götum aukist til muna með óæskilegum afleiðingum. Tekið er undir áhyggjur Veðurstofunnar um að ekki sé nægilegt tillit tekið til starfsemi hennar í deiliskipulagstillögunni. Huga þarf að innviðum þegar um er að ræða svo mikla fjölgun íbúa á þéttingarreitum. Nú anna skólar hverfisins ekki eftirspurn og íþróttaaðstaða mætti vera betri. Fjölga þarf rýmum verulega í leikskólum og grunnskólum hverfisins vegna hinnar miklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á Veðurstofureit og Kringlureit.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 3. janúar 2025, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. desember 2024, stafræns ráðs frá 11. desember 2024 og umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember 2024. MSS25010033

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

     Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi viðauka við samning knattspyrnufélagsins Fram og Reykjavíkurborgar. Viðaukinn er efnislega í samræmi við tillögu Sjálfstæðisflokksins sem flutt var í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur 8. desember 2023 en vísað frá af meirihlutanum 26. janúar sl. Umrædd tillaga Sjálfstæðisflokksins fól í sér að þegar yrði hafinn undirbúningur að byggingu knatthúss Fram ásamt áhaldahúsi, byggingarframkvæmdir hæfust á árinu 2025 og að húsin yrðu tilbúin til notkunar á árinu 2026. Vinstri meirihlutinn kýs hins vegar að draga lappirnar í málinu en tillaga hans felur í sér að knatthúsið verði ekki tilbúið fyrr en árið 2029. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hvetja því til þess að tímarammi samkomulagsins verði endurskoðaður til að flýta byggingu húsanna í samræmi við framkvæmdaáætlun, sem gerð var í tengslum við áðurnefndan samning árið 2017. Í þeirri áætlun var skýrt kveðið á um að knatthúsið yrði byggt á árunum 2019-2020 og felur fyrirliggjandi viðauki því í sér seinkun um næstum því áratug að umrædd mannvirki Fram verði tekin í notkun. Löngu er orðið tímabært að Reykjavíkurborg standi við samninginn að þessu leyti gagnvart Fram og íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal. Gerð er athugasemd við að umræddur viðauki hafi ekki verið kynntur í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði áður en hann var afgreiddur í borgarráði 7. nóvember 2024.

     Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar stafræns ráðs:

     Fulltrúa Flokks fólksins finnst óþolandi hvað gengur hægt að koma í loftið lausnum sem lúta að þjónustu við börn. Enn þann dag í dag eru umsóknir, beiðnir og samningar sem tengjast dagforeldra starfsstéttinni á pappír. Þetta veldur óáreiðanleika gagna Reykjavíkurborgar og skilar sér í lengri boðleiðum. Það þarf að koma á koppinn lausnum sem bæta þjónustu við forsjáraðila barna, t.d. gera umsóknir aðgengilegar á stafrænu formi og að forsjáraðilar geti óskað eftir niðurgreiðslu rafrænt. Á meðan þetta gengur á hraða snigilsins og þ.m.t. skólalausnin Búi þá er eins og allt púður fari í óþarfa, allavega ekki knýjandi verkefni akkúrat núna. Hér má nefna Great Place to Work vottun til að sýna fram á að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé góður vinnustaður. Þetta kallar á árlega úttekt sem kostar tíma og fé. Reykjavíkurborg gerir árlega ítarlegar starfsánægjukannanir sem sýna þróun á vinnustað sem ættu að duga þjónustu- og nýsköpunarsviði eins og öðrum sviðum meðan svo brýn stór og verkefni bíða á sviðinu. Leggja þarf áherslu á aðalatriðin og hætta að eyða fjármagni i óþarfa. Það er komið nóg af eyðslu á þessu sviði. Milljarðar hafi fokið út í vindinn sem ekki er hægt að sjá að skili árangri.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 19:13

Magnea Gná Jóhannsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.1.2025 - Prentvæn útgáfa