Borgarstjórn - Borgarstjórn 2.5.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 2. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Sara Björg Sigurðardóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram að nýju ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2022, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023, ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 13. apríl 2023, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2022, dags. 13. apríl 2023, greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 13. apríl 2023. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2022, dags. 27. apríl 2023, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2022, dags. 24. apríl 2023. Einnig er lögð fram að nýju yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 13. apríl 2023, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023, bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 28. febrúar 2023 og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. apríl 2023, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl 2023.

    -    Kl. 15:08 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur þar sæti.

    Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar 2022 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer á aukafundi 9. maí nk.

    -    Kl. 15:20 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti. FAS23020020

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verðbólga, hækkandi vextir og vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks hefur áhrif á ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022. Vegna rekstrarhalla og þessara erfiðu aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi fór Reykjavíkurborg í umtalsverðar aðgerðir strax síðasta haust. Brugðist var við með samdrætti í fjárfestingum og þar með lántökuþörf, gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi verðbólgu og samræmdar reglur settar um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára áætlun fyrir árin 2023-2027, sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember sl., tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu. Borgin er þó jafnframt í örum vexti. Haldið verður áfram að fjárfesta í uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, viðhaldi og nýbyggingum fyrir grunn- og leikskóla og stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Fjármálastefna Reykjavíkurborgar 2023-2027 var samþykkt samhliða fjárhagsáætlun síðasta haust en í henni er lögð áhersla á að hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verði mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélag til lengri tíma en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma. Með markvissum aðgerðum í rekstri er stefnt að jákvæðri niðurstöðu A-hluta frá 2025.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 dregur fram dökka mynd af rekstri borgarinnar. Rekstrarhalli nam 15,6 milljörðum, sem er 13 milljörðum verri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vísa á bug ósmekklegum fullyrðingum meirihlutaflokkanna þess efnis að framúrkeyrsluna megi rekja til lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, enda fór sá málaflokkur aðeins 664 milljónir umfram fjárheimildir og nam því einungis um 5% af framúrkeyrslunni. Samhliða jukust skuldir borgarsjóðs um 30 milljarða milli ára en skuldir samstæðunnar um nær 40 milljarða. Hlutfall launakostnaðar af samanlögðum útsvars- og jöfnunarsjóðstekjum nam 89%, og hefur starfsmönnum A-hluta fjölgað um 25% á fimm ára tímabili, langt umfram lýðfræðilega þróun. Ef tímabilið frá 2014 til 2022 er skoðað, sem er sá tími sem Dagur B. Eggertsson hefur setið í borgarstjórastól, vekur sérstaka athygli að skuldir á hvern borgarbúa hafa aukist um 76,4% að raunvirði, og skattbyrði á hvern íbúa aukist um nær 20% að raunvirði. Tekjutuskan er undin til fulls, skuldir aukast á ógnarhraða, arðgreiðslur úr fyrirtækjum í eigu borgarinnar hækka í sífellu, en samt skilar borgin fordæmalausum rekstrarhalla. Vandi borgarinnar er nefnilega ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvandanum. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, ráðast í eignasölu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að efla tekjustofna borgarinnar. Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga: 60,6% af rekstrartekjum Reykjavíkur árið 2022. Útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur og telja Sósíalistar mikilvægt að borgin setji þrýsting á Alþingi um að það verði gert. Þegar skattar voru lækkaðir á atvinnuhúsnæði árið 2021 varð borgin af um 450 m.kr. á verðlagi ársins 2021. Í kjölfarið var seilst lengra í vasa almennings með tveimur gjaldskrárhækkunum árið 2022. Þó eru aðrir þættir ekki leiðréttir líkt og lág upphæð fjárhagsaðstoðar. Mikilvægt er að aðstöðugjöld séu aftur sett á fyrirtæki innan Reykjavíkur og þau séu þrepaskipt. Eðlilegt er að smærri fyrirtæki greiði minna en þau stöndugri. Sósíalistar tala fyrir því að ekki verði litið á niðurskurð í grunnþjónustu sem hagræðingu. Hin sanna hagræðing felst þess í stað í því að fjárfesta í innviðum og þjónustu, því það skilar sér margfalt til baka. Nauðsynlegt er að borgin nýti stöðu sína til að fara í öfluga félagslega húsnæðisuppbyggingu fyrir fólkið í þörf fyrir húsnæði. Eigið fé Félagsbústaða hækkar vegna matsbreytinga á eignum Félagsbústaða, nýta ætti góða stöðu þeirra til að standa undir uppbyggingu félagslegs húsnæðis en við árslok 2022 voru 872 á biðlista eftir félagslegu húsnæði, þar sem beðið er til lengdar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ársreikningar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 hafa verið lagðir fram til fyrri umræðu. Í ljós kemur að fjárhagsstaða A-hluta borgarsjóðs hefur versnað frá fyrra ári. Hallarekstur hefur vaxið og taka verður lán í vaxandi mæli til að fjármagna afborganir lána og fjárfestingar. Minna má á að fyrir ári síðan, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, var því þráfaldlega haldið fram af hálfu þáverandi meirihluta að rekstur borgarsjóðs stæði styrkum fótum. Nú liggja staðreyndir málsins fyrir svo ekki verður um deilt. Veltufé frá rekstri A-hluta á árinu 2022 er rétt um 400 milljónir en þyrfti að vera nær 14 milljarðar. Lausaskuldir nálgast það að verða hærri en lausafé. Afborganir langtímalána hækka um 44% milli ára. Langtímaskuldir A-hluta borgarsjóðs hafa hækkað um 22% frá síðasta ári. Sérstakt er að málefni fatlaðs fólks séu tekin sérstaklega fyrir og þeim kennt um hallarekstur Reykjavíkurborgar. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar tóku fullan þátt í samningum um yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna og bera því ábyrgð á stöðunni. Það verður ekki lengur deilt um að fjárhagur A-hluta borgarsjóðs, kjölfestan í rekstri borgarinnar, nálgast hættustig. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur vakið athygli á stöðunni. Viðbrögð borgarstjóra voru að gera lítið úr störfum eftirlitsnefndarinnar. Það lýsir betur en flest annað skilningsleysi borgarstjórnarmeirihlutans á fjárhagsstöðunni.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Nýbirtur ársreikningur hefur sýnt okkur að stjórnvöld í Reykjavík standa frammi fyrir ærnu verkefni næstkomandi ár sem er að taka á þrálátum hallarekstri borgarinnar. Þó það megi tína til margvíslegar ástæður sem kunna að útskýra vonda niðurstöðu ársreikningsins þá stendur það eftir að vandinn er ofvaxinn þeim meirihluta sem nú stýrir Reykjavík. Ekkert bendir til þess að það muni breytast fyrr en hann staldrar við, viðurkennir vandann og tekur síðan til gagngerrar endurskoðunar fjármálastefnu sína. Þó COVID, verðbólgan, stríðið í Úkraínu og ýmsar útistandandi skuldir við ríkið (sem verið er að greiða úr) gætu átt þátt í að útskýra þetta erfiða árferði þá er það nú samt svo að stjórnvöld í Reykjavík hafa verið of útgjaldaglöð og ekki sýnt ráðdeild og veitt kerfinu aðhald. Ef fer sem horfir þá heldur rekstrarvandi Reykjavíkurborgar áfram að vera viðvarandi og ástandið mun versna ef ekkert verður að gert. Í komandi tiltekt leggja Vinstri græn höfuðáherslu á að vernda grunnþjónustu, velferð og menntun borgarbúa og standa vörð um verkefni sem stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram tillaga borgarstjóra um hækkun hlutafjár Ljósleiðarans ehf., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum.
    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu vegna fundarskapa:

    Lagt er til að mælendaskrá verði opnuð að nýju svo borgarfulltrúar fái notið þess málfrelsis sem þeim er áskilið skv. samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Tillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að fresta endanlegri afgreiðslu á tillögu um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans og samþykkir jafnframt að skora á Alþingi að biðja um undanþágu frá EES-tilskipunum um fjarskipti, sem gera ráð fyrir markaðs- og samkeppnisvæðingu þeirra. Nýjasta útgáfa laga sem byggja á þeim grunni eru lög nr. 70/2022 um fjarskipti. Slík undanþága myndi tryggja að innviðir sem tryggja íbúum internet séu ekki settir í heftandi samkeppnisrekstur, sem leiðir til fákeppni og opnar á einkavæðingu. Hlutafjáraukning verði ekki afgreidd fyrr en niðurstaða Alþingis hefur skilað sér.

    Málsmeðferðartillagan er felld með nítján atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að Orkuveita Reykjavíkur ráðist í hlutafjáraukningu Ljósleiðarans án aðkomu þriðja aðila, borgi niður skuldir félagsins og endurmeti í framhaldinu fyrirkomulag starfseminnar, stjórnarhætti og fjármagnsskipan dótturfélagsins með hagsmuni almennings í fyrirrúmi.

    Tillagan er felld með nítján atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillaga borgarstjóra um hækkun hlutafjár Ljósleiðarans ehf., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. apríl 2023, er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010191

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er mat fulltrúa meirihlutans að miðað við þau gögn sem farið var yfir í rýnihópi borgarráðs sé það ljóst að Ljósleiðarinn þurfi að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði sem orsakast af kaupum Ardian á Mílu og þeim innviðum sem þangað voru fluttir frá Símanum. Miðað við þau gögn sem fyrir liggja er ekki hægt að fara í nauðsynlega uppbyggingu með aukinni lántöku. Eins fylgir því of mikil áhætta að fjármagna þá uppbyggingu innan úr samstæðu Orkuveitunnar að ógleymdri lagalegri óvissu um hvort slíkt yrði samþykkt af hálfu Fjarskiptastofu og Eftirlitsstofnun EFTA. Það er niðurstaða áhættumats fjármála- og áhættustýringarsviðs að hlutafjáraukning sem samsvarar 33,3% eignarhlut nægi vel til að Ljósleiðarinn ehf. nái markmiðum sínum. Leiði ytri aðstæður eða aðrir viðburðir til þess að sækja þurfi aukið hlutafé að nýju þá telja fulltrúar meirihlutans í rýnihópi borgarráðs rétt að þá komi fyrst til skoðunar að Orkuveita Reykjavíkur, stærsti eigandi Ljósleiðarans ehf., leggi til fjármagn.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla stórfelldri hlutdrægni, sem forseti borgarstjórnar hefur sýnt á yfirstandandi fundi borgarstjórnar vegna umræðna undir 2. og 3. lið, þar sem rætt er um fyrirhugaða einkavæðingu hlutafjár í Ljósleiðara Orkuveitunnar. Þær takmarkanir á málfrelsi sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sætt undir þessum liðum brjóta gegn samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samkvæmt 1. mgr. 22. greinar samþykktarinnar má hver borgarfulltrúi tala þrisvar við hverja umræðu máls. Forseti getur ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að taka þann rétt af borgarfulltrúum með því að loka mælendaskrá, jafnvel þótt umræðuefni kunni að vera óþægilegt. Takmörkun á umræðu samkvæmt 25. grein samþykktarinnar á því aðeins við ef umræður hafa dregist úr hófi fram. Ef forseti leggur til við fundinn að umræðu skuli lokið á ákveðnum tíma þarf skýr atkvæðagreiðsla að eiga sér stað um slíka tillögu en svo var ekki í þessu tilviki.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð um takmarkaða umræðu. Með vísan í tilraunaverkefni borgarstjórnar um að gera borgarstjórn að fjölskylduvænum vinnustað og 2. mgr. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar lagði forseti til að umræðu um annan og þriðja dagskrárlið yrði lokið eftir tvo klukkutíma. Var borgarfulltrúum heimilt að hreyfa við því andmælum en svo var ekki gert. Mælendaskrá var þá lokað með hefðbundnum hætti þ.e.a.s. að lokinni ræðu. Höfðu því borgarfulltrúar þann tíma er ræðan tók til að komast á mælendaskrá. Ekki er því um ómálefnalega takmörkun á ræðutíma borgarfulltrúa eða hlutdrægni forseta að ræða við takmörkun á ræðutíma eins og haldið er fram. Engir tilburðir eru hér með þöggun eða aðrar dylgjur. Rangfærslur felast í bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er afar skýr en verður ekki túlkuð eftir hentistefnu Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar sósíalista hafna einkavæðingu en lagt er til að selja hlut af opinberu félagi til einkaaðila. Um þetta er fjallað í tillögu borgarstjóra sem og í umsögn meirihluta rýnihóps borgarráðs um erindi Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu. Ljósleiðarinn, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, byggir upp og rekur ljósleiðaranet fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir. Mikilvægt er að rekstur slíkra grunninnviða sé á vegum hins opinbera. Fulltrúar sósíalista hvetja borgaryfirvöld til að sækjast eftir undanþágu frá hamlandi tilskipunum EES-samningsins sem fela í sér að rekstur félaga sem sjá um fjarskipti og net verði að vera á samkeppnismarkaði. Hér er um mikilvæga grunninnviði að ræða sem mikilvægt er að verði reknir á samfélagslegum grunni. Vísað er til umsagnar og tillagna borgarfulltrúa sósíalista, Trausta Breiðfjörð Magnússonar, sem átti sæti í rýnihópi um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, frá 11. apríl 2023, en þar er fjallað með ítarlegri hætti um afstöðu sósíalista til þessa máls. Finna þarf lausn á stöðunni, m.a. með því að þrýsta á ríkisvaldið til að falla frá heftandi lögum um samkeppni sem leiða til þess að opinber félög fara á svið einkavæðingar í leit að fjármögnun. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Slæm staða Ljósleiðarans hefur legið fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2019 og jafnvel fyrr. Félagið er skuldsett og er eiginfjárhlutfall hættulega lágt. Eigendur, að stærstum hluta Reykjavíkurborg, voru ekki upplýstir um slæma stöðu fyrirtækisins þegar hún lá fyrir. Í rýnihópi borgarráðs hafa ýmsar sviðsmyndir verið skoðaðar svo sem hlutafjáraukningu, en engin sviðsmynd er án óvissu og þær krefjast allar frekari skuldsetningar félagsins. Ýmsar aðrar hugmyndir hafa heyrst sem hægt er að vera sammála að hluta. Það er gilt sjónarmið og eitthvað sem fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að Reykjavíkurborg á ekki að vera í samkeppnisrekstri. Til eru fyrirtæki sem borgin á og rekur sem vel mætti rökstyðja að ættu að vera í einkarekstri en varla Ljósleiðarinn sem heild. Flokkur fólksins er á þeirri línu að sveitarfélag reki innviði sem snúa að grunnþjónustu við fólk. Flokkur fólksins hefur óttast útboðsgleði borgarinnar í ýmsum málum eins og að bjóða út akstur Strætó. En að vera alfarið á móti útboðum og einkavæðingu er jafn öfgafullt og að vilja einkavæða nánast allt. Vega og meta þarf hvert mál fyrir sig. Mikil leynd hefur ríkt yfir gögnum. Samningar við Sýn verða alltaf leynigagn. Ámælisvert er að slæmri stöðu Ljósleiðarans var haldið frá eigendum.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Margt í ferli þessa einkavæðingarmáls vekur upp áleitnar spurningar m.a. um skyldur og aðhald eigenda gagnvart félögum sínum en líka hvernig umboði stjórna er háttað sem ekki eru skipaðar kjörnum fulltrúum og eru í mikilli fjarlægð frá þeim sem að lokum bera ábyrgðina. Sala og einkavæðing á innviðum í almannaeigu er ekki smámál heldur umfangsmikið samfélagsmál sem á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Ekki verður séð fyrir endann á framvindu málsins og það er dapurleg staðreynd að flokkar sem helst hafa staðið gegn sölu á mikilvægum innviðum í eigu almennings hafa tekið kúvendingu. Farsælast hefði verið að halda Ljósleiðaranum í eigu almennings með því að Orkuveitan veitti dótturfélagi sínu hlutafjáraukningu á markaðsvirði og bæði fjárhagsleg og stjórnunarleg endurskipulagning færi fram. Þá er brýnt að fara í saumana á t.d. eigendasamkomulagi og öðru sem liggur til grundvallar starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga hennar. Eins verður fróðlegt að fylgjast með hvernig hinu opinbera og einkaaðilum tekst að samræma hugmyndir sínar um rekstur Ljósleiðarans ehf. Eftir stendur hins vegar að með þessu er verið að einkavæða Ljósleiðarann og selja þannig eignir almennings.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn beinir því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Andvirði sölunnar verði notað til að lækka skuldir Orkuveitunnar. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að stuðla að því að Orkuveita Reykjavíkur fái sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. með beinni sölu eða hugsanlegri sameiningu við önnur fyrirtæki. Einnig má skoða hvort rétt sé að selja umrætt hlutafé í áföngum.

    Tillagan er felld með fimmtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Viðreisnar og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010191

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun vegna fundarskapa og fundarstjórnar forseta undir þessum lið:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla stórfelldri hlutdrægni, sem forseti borgarstjórnar hefur sýnt á yfirstandandi fundi borgarstjórnar vegna umræðna undir 2. og 3. lið, þar sem rætt er um fyrirhugaða einkavæðingu hlutafjár í Ljósleiðara Orkuveitunnar. Þær takmarkanir á málfrelsi sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sætt undir þessum liðum brjóta gegn samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samkvæmt 1. mgr. 22. greinar samþykktarinnar má hver borgarfulltrúi tala þrisvar við hverja umræðu máls. Forseti getur ekki ákveðið upp á sitt eindæmi að taka þann rétt af borgarfulltrúum með því að loka mælendaskrá, jafnvel þótt umræðuefni kunni að vera óþægilegt. Takmörkun á umræðu samkvæmt 25. grein samþykktarinnar á því aðeins við ef umræður hafa dregist úr hófi fram. Ef forseti leggur til við fundinn að umræðu skuli lokið á ákveðnum tíma þarf skýr atkvæðagreiðsla að eiga sér stað um slíka tillögu en svo var ekki í þessu tilviki.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð um takmarkaða umræðu. Með vísan í tilraunaverkefni borgarstjórnar um að gera borgarstjórn að fjölskylduvænum vinnustað og 2. mgr. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar lagði forseti til að umræðu um annan og þriðja dagskrárlið yrði lokið eftir tvo klukkutíma. Var borgarfulltrúum heimilt að hreyfa við því andmælum en svo var ekki gert. Mælendaskrá var þá lokað með hefðbundnum hætti, þ.e.a.s. að lokinni ræðu. Höfðu því borgarfulltrúar þann tíma er ræðan tók til að komast á mælendaskrá. Ekki er því um ómálefnalega takmörkun á ræðutíma borgarfulltrúa eða hlutdrægni forseta að ræða við takmörkun á ræðutíma eins og haldið er fram. Engir tilburðir eru hér með þöggun eða aðrar dylgjur. Rangfærslur felast í bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er afar skýr en verður ekki túlkuð eftir hentistefnu Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Á undanförnum tuttugu árum hefur Ljósleiðarinn, og fyrirrennarar þess, tryggt öfluga uppbyggingu ljósleiðara á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur markaður á sviði fjarskipta gjörbreyst, hvort heldur í heildsölu eða á smásölumarkaði með sölu Símans á Mílu. Öflug uppbygging fjarskiptainnviða skiptir lykilmáli fyrir samkeppnishæfni höfuðborgarinnar og landsins alls. Viðreisn leggur áherslu á að uppbygging styðji við öflugt samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði, að hún eigi sér stað á markaðsforsendum og að hið opinbera tryggi örugga og skilvirka grunninnviði um allt land. Það er einnig skoðun Viðreisnar að besta leiðin til að tryggja samkeppni sé með traustu umhverfi samkeppnislaga sem sporna við einokun, fremur en með opinberu eignarhaldi á stöku aðila á markaði. Því telur Viðreisn það jákvætt skref að fá trausta einkafjárfesta inn í Ljósleiðarann, sem til þessa hefur verið í 100% eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Við stöndum því bak við niðurstöðuna sem er afrakstur rýnihóps borgarráðs en jafnframt er það stefna Viðreisnar í Reykjavík að skoða megi í framtíðinni sölu þeirra eininga innan Orkuveitu Reykjavíkur sem starfa á samkeppnismarkaði, líkt og Ljósleiðarinn er dæmi um.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að selja allt hlutafé í Ljósleiðaranum ehf. Fulltrúi Flokks fólksins telur það varla til hagsbóta fyrir þann sem íhugar að selja að láta vita strax að það eigi að selja hlutinn, hvað sem á gengur. Það veikir samningsstöðuna. Selja á ef það reynist hagstæður kostur, líka fyrir kaupandann, en annars ekki. Hver vill kaupa slæma vöru? Þess vegna er þessi tillaga ekki til framdráttar við að leysa úr slæmri stöðu Ljósleiðaramálsins alls. Væri hér um að ræða fyrirtæki í góðri stöðu myndi öðru máli gegna.

    Fylgigögn

  4. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 27. apríl.
    - 4. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga varðandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er lagður fram.
    - 6. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er samþykktur.
    - 9. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; nýi Skerjafjörður – 1. áfangi – deiliskipulag, er samþykktur með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010191
    - 10. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; Einarsnes – hagkvæmt húsnæði – úthlutun lóðar og sala byggingarréttar, er samþykktur með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. MSS23010191
    - 22. liður fundargerðarinnar frá 27. apríl; Strætó bs. – heimild til endurútboðs, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl:

    Borgarstjórn samþykkir nú breytingu á deiliskipulagi sem var frestað eftir athugasemdir innviðaráðuneytis á vormánuðum í fyrra. Fyrir liggur nú ítarleg skýrsla um áhrif byggðarinnar í nýja Skerjafirði á flugvöllinn og niðurstaðan er sú að ekki sé þörf á að hætta við uppbyggingu hverfisins. Þó þurfi að huga að mótvægisaðgerðum vegna vindafars til þess að tryggja rekstaröryggi flugvallarins eins og gert er með áréttingu í samþykktu deiliskipulagi. Ný byggð í Skerjafirði er mikilvægur þáttur í öflugri húsnæðisuppbyggingu. Byggðin verður græn og styður við öflugt mannlíf. Hér er um að ræða tiltölulega litlar breytingar á því sem áður er samþykkt en í tillöguna hafa verið færðar mótvægisaðgerðir sem bent er á í skýrslunni að væru skynsamlegar. Mikilvægt er enda að halda til haga að við uppbyggingu húsa, gróðursetningar eða annað sem haft getur áhrif á vindafar sé litið til niðurstöðu skýrslu starfshóps um Skerjafjörð, ásamt skýrslu hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar, og þess gætt að áhrif á vindafar séu innan marka og að gætt sé að mótvægisaðgerðum þar sem þess er þörf. Það er afar ánægjulegt að þessi uppbygging geti nú farið í gang af fullum krafti.

    Björn Gíslason, Helgi Áss Grétarsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. og 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl:

    Hér liggur fyrir í dag tillaga um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar á flugvallarsvæðinu í Skerjafirði. Þá eru hér einnig til afgreiðslu breytingar á deiliskipulagi nýja Skerjafjarðar. Það er með ólíkindum að þetta hvort tveggja sé til afgreiðslu hér á þessum fundi borgarstjórnar þar sem skýrsla um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar er nýkomin út og var gerð opinber áður en borgarfulltrúar fengju tækifæri til að kynna sér hana eða hún tekin til umfjöllunar á vettvangi borgarstjórnar. Skýrslan var lögð fram sl. fimmtudag í borgarráði en var ekki í útsendum gögnum. Öðrum borgarfulltrúum var ekki kynnt skýrslan áður en hún var gerð opinber heldur var send út einhliða fréttatilkynning á fjölmiðla með túlkun borgarstjóra og formanns borgarráðs. Sú túlkun á niðurstöðum skýrslunnar er röng og afar villandi. Í fréttatilkynningunni er skautað fram hjá helstu aðfinnslum skýrslunnar en á sama tíma gert mikið úr sérbókun fulltrúa borgarinnar í starfshópnum. Vel að merkja þá stóð fulltrúi Reykjavíkurborgar einn að þessari bókun sem aðrir fulltrúar í starfshópnum tóku ekki undir. Niðurstaða skýrslunnar er skýr en þar kemur fram að byggðin muni hafa neikvæð áhrif á flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. 

    Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. apríl:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks líta það alvarlegum augum að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi sent Reykjavíkurborg bréf, þar sem á það er bent að borgin falli á öllum þremur lágmarksviðmiðum sem nefndin hefur eftirlit með, þ.e. framlegð, rekstrarniðurstöðu og veltufé frá rekstri. Í bréfinu kemur fram að Reykjavíkurborg uppfylli að óbreyttu ekki fjármálareglur sveitarfélaga sem skilgreindar eru í lögum og reglum, enda gera áætlanir borgarinnar ráð fyrir taprekstri, lítilli framlegð og verulegri skuldaaukningu næstu árin. Þá gera fulltrúarnir jafnframt alvarlegar athugasemdir við að bréfið hafi ekki verið tekið tafarlaust til umfjöllunar í borgarstjórn og kynnt fumlaus viðbrögð við þeim athugasemdum sem þar birtust.

    Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar frá 27. apríl: 

    Borgarstjórnarflokkur Framsóknar fagnar niðurstöðu skýrslu starfshóps innviðaráðherra um áhrif húsnæðisuppbyggingar í nýja Skerjafirði á Reykjavíkurflugvöll. Niðurstaðan sýnir ótvírætt að óhætt er að hefja uppbyggingu hverfisins að teknu tilliti til mótvægisaðgerða sem starfshópurinn bendir á. Framsókn telur afar mikilvægt að tryggja við útfærslu mótvægisaðgerða að rekstraröryggi flugvallarins sé tryggt í samræmi við samkomulag ríkis og borgar. Næstu misseri á meðan unnið er að flutningi flugvallargirðingar og jarðvegsskiptum á byggingarlandinu mun gefast góður tími til að útfæra mótvægisaðgerðir. Á sama tíma fagnar borgarstjórnarflokkur Framsóknar fyrirhugaðri húsnæðisuppbyggingu enda gríðarlega mikilvægt að hraða henni eins mikið og kostur er. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 6., 10. og 22. lið fundargerðarinnar frá 27. apríl: 

    Viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023. Jákvætt er að halda eigi starfinu áfram í Siglunesi, tímalengd námskeiðsins hefði þó átt að halda og tryggja þarf að starfsfólk hafi það sem þarf til starfsins. Bókun við 10. lið; Einarsnes – hagkvæmt húsnæði – úthlutun lóðar og sala byggingarréttar: Ekki er hægt að samþykkja þessa tillögu um að svokallað hagkvæmt húsnæði verði byggt í nýja Skerjafirði. Miðað við áætlanir um söluverð á íbúðunum er ljóst að þetta er ekki hagkvæmt húsnæði. Söluverð á hvern fermetra er varla lægra en á markaði, en verðið mun hækka eftir því sem á líður í takt við vísitölu byggingarkostnaðar. Álagning á hvern fermetra er u.þ.b. 150% miðað við byggingarkostnað. Uppbygging til að tryggja þurfandi íbúum þak yfir höfuðið á ekki að vera tækifæri til að innheimta okurhagnað. Lágmark er að þegar borgin veiti félagi sem þessu ívilnanir til húsnæðisbyggingar, sé krafa um hámarksálag á söluverði miðað við byggingarkostnað íbúða. Bókun við 22. lið; Strætó bs. – heimild til endurútboðs: Útboð hefur leitt til lakari grunnlauna þeirra vagnstjóra sem eru ráðnir inn í gegnum útvistun, í samanburði við vagnstjóra sem eru fastráðnir hjá Strætó bs. Vinda þarf ofan af útvistun til að vinna gegn ójöfnum kjörum vagnstjóra.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar frá 27. apríl: 

    Það er mat hóps sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í nýja Skerjafirði en að fara þurfi í mótvægisaðgerðir. Umhverfis- og skipulagssvið hefur þess utan lagt fram 17 mótvægisaðgerðir vegna vindafars. Það á eftir að koma í ljós hvað mikið fjármagn hefur tapast í alls konar teikniverkefni/verkfræðilega og tæknilega vinnu sem unnin hefur verið og er byggð á eldri uppbyggingaráformum sem ekki er hægt að notast við vegna breytinga sem gera þarf í ljósi mótvægisaðgerðanna. Nú liggur fyrir að hin nýja byggð mun hafa áhrif á flug, byggðin dregur úr nothæfi vallarins því byggðin þrengir að. Ekki verður hægt að nota flugvöllinn eins mikið. Byggðin mun skerða rekstrarskilyrði flugvallarins eitthvað. Öryggishlutfallið er því ekki það sama fyrir vikið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alltaf sagt að bíða ætti með uppbygginguna í ljósi óöryggis við flugvöllinn og óvissu um framtíðarstaðsetningu hans. Samkvæmt samkomulagi milli ríkis og borgar frá 2019 er stefnt að því að ákveða fyrir lok næsta árs hvort flugvöllur verði byggður í Hvassahrauni. Eftir því átti að bíða.

    Fylgigögn

  5. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. apríl, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 13. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl, stafræns ráðs frá 12. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. apríl og velferðarráðs frá 26. apríl. MSS23010061

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar stafræns ráðs: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis tjáð sig um að nýsköpun á ekki að vera á vegum sveitarfélags. Sveitarfélag á að leggja alla áherslu á að þjóna þegnum sínum. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið ómælt fjármagn til að leika sér í uppgötvunar-, tilrauna- og þróunarleikjum sem eru hlutverk einkageirans en ekki sveitarfélags. Þjónusta við fólkið hefur liðið fyrir slíkan leikaraskap á vakt þessa og síðasta meirihluta. Hvar eru afurðirnar sem lofað var, hver er afraksturinn? Hvar er t.d. gagnsjáin? Hvern hefði órað fyrir að eftir að hafa horft á eftir á annan tug milljarða renna til málaflokksins að enn þurfi foreldrar að handskrifa 6-7 blaðsíður ef þeir ætla að innrita barn sitt í leikskóla? Áfram heldur þenslan. Nú er þjónustu- og nýsköpunarsvið að auglýsa eftir enn fleira starfsfólki, þróunarstjóra og tæknistjóra stafrænna lausna, í miðjum sparnaðarleiðangri borgarinnar sem þarf að taka lán til að greiða af lánum. Það er skoðun borgarfulltrúa Flokks fólksins að opinn tékki frá meirihlutanum til þjónustu- og nýsköpunarsviðs til að leika sér í tilraunasmiðjum undanfarin ár eigi stóran þátt í þeim fjárhagserfiðleikum sem Reykjavík glímir við núna. Á meðan lengjast biðlistar og líðan barna versnar ef marka má rannsóknir og kannanir.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 21:31

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Helgi Áss Grétarsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 2.5.2023 - Prentvæn útgáfa