Borgarstjórn - Borgarstjórn 20.1.2026

Borgarstjórn - Borgarstjórn 20.1.2026

Borgarstjórn

Ár 2026, þriðjudaginn 20. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Ellen Jacqueline Calmon, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um skýrslu nefndar um heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins (upptökuheimili barna) 1974-1979. MSS26010078

    Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn biður öll þau sem vistuð voru sem börn á Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins á árunum 1974 til 1979 og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri meðferð barnanna sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar. Þrátt fyrir að vöggustofubörnin hafi ekki sætt illri meðferð í skilningi laganna, þá var vissum þáttum varðandi meðferð barnanna ábótavant. Þar má nefna að ekki var hugað að því með faglegri vinnu eða greiningum að mæta sérþörfum barna, s.s. þeirra sem voru fötluð, þeirra sem voru eldri og þeirra sem komu úr sérstaklega erfiðum aðstæðum eða voru vistuð oft. Dæmi eru um að barn hafi verið vistað í fjögur ár á vöggustofunni og elsta barnið sem var vistað var 15 ára. Afdrif vöggustofubarnanna eru sláandi. Af þeim 149 börnum sem dvöldu á vöggustofunni í einn mánuð eða lengur eru 60 skráð öryrkjar, eða 40,3%, en hlutfall meðal jafnaldra er 20%. Þá er dánartíðni umtalsvert hærri á meðal fyrrum vöggustofubarna eða 13,4% borið saman við einungis 4,8% hjá jafnöldrum. Borgarstjórn vill þakka vöggustofunefndinni fyrir umfangsmikla, vandaða og vel rökstudda skýrslu. Borgarstjórn er einnig þakklát hvatamönnum þess að ráðist var í gerð beggja vöggustofuskýrslnanna, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni. Tveir af þessum heiðursmönnum eru fallnir frá. Borgarstjórn tekur heilshugar undir tillögur vöggustofunefndar og vinnsla þeirra er þegar í farvegi, m.a. um að Reykjavíkurborg tryggi vöggustofubörnum geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu þeim að kostnaðarlausu líkt og gert var þegar fyrri vöggustofuskýrslan kom út 2023. Borgarstjórn skorar jafnframt á dómsmálaráðuneyti að ljúka við gerð frumvarps um sanngirnisbætur sem fyrst til að leitast við að skýra leiðir til að rétta hlut þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins í formi skaðabóta.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjórnar:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að tryggja þeim sem dvöldu á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1974-1979 ókeypis geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu eða aðra sértæka aðstoð sem er í samræmi við tillögu sjálfstæðrar og óháðrar nefndar sem gerði athugun á starfsemi vöggustofunnar. Þetta er sambærileg þjónusta og var samþykkt í borgarráði í kjölfar athugunar fyrri vöggustofunefndar á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árunum 1949-1973. Tillagan verði fjármögnuð af liðnum ófyrirséð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS23120162

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á reit M9c (Bauhaus-reit), sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg og Vesturlandsveg. Nú er óheimilt að vera með matvöruverslun á umræddum reit samkvæmt aðalskipulagi.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Fram fer nafnakall um afgreiðslu tillögunnar að ósk fjögurra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins með vísan til ákvæða 3. mgr. 28. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 
    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS24110023

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður þessa sjálfsögðu tillögu um að heimila að byggð verði matvöruverslun á Bauhaus-reit. Meirihlutinn hefur beðið um árabil eftir því að lágvöruverslun opni í því húsnæði sem er til staðar í Úlfarsárdal en það hefur ekki gengið því húsnæðið sem völ er á í hverfinu er of lítið. Meirihlutinn vísar tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs en það er að mati Framsóknar tilgangslaust enda kom fram í umræðunni að meirihlutinn styður ekki að í Úlfarsárdal rísi verslun af þeirri stærð sem verslunarkeðjurnar hafa lýst að þær þurfi til þess að þær beri sig. Framsókn styður stefnu um 15 mínútna hverfið en telur hins vegar mikilvægt að bregðast við ákalli íbúa í Úlfarsárdal um lágvöruverslun.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um uppbyggingu félagslegs húsnæðis:

    Samstarfsflokkarnir, Samfylkingin, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands, Flokkur fólksins og Vinstri græn leggja fram svohljóðandi tillögu í fjórum liðum til að styrkja fjárhagslega sjálfbæra uppbyggingu Félagsbústaða og fjölga félagslegum leiguíbúðum i Reykjavíkurborg. 
    1.    Eiginfjárframlag Reykjavíkurborgar til fimm ára til fjölgunar íbúða:  Lagt er til að Reykjavíkurborg skuldbindi sig til að veita 513 milljónum í árlegt eiginfjárframlag næstu þrjú árin og 263 milljónum á ári næstu tvö ár þar á eftir. Auk þess er lagt til að veita 300 milljónum á árinu 2025 með viðauka. Lagt er til að borgarstjóra verði falið að útfæra nýtingu eiginfjárframlags með Félagsbústöðum.
    2.    Nýtt uppbyggingarlíkan til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða: Lagt er til að fela borgarstjóra í samstarfi við stjórn Félagsbústaða að leita nýrra leiða til þess að hraða uppbyggingu félagslegs húsnæðis í borginni. Í því samhengi væri borgarstjóra meðal annars falið að kanna sérstaklega fýsileika þess að Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir eða nýtt félag á þeirra vegum, kæmi með beinum hætti að uppbyggingarverkefnum sem leiða til fjölgunar félagslegra íbúða. Einnig er lagt til að farið verði í lagalega rýni á slíkri uppbyggingu og öðrum þeim leiðum sem borgarstjóri leggur til.
    3.    Uppbygging fjölbreyttara búsetuforms: Lagt er til að fela borgarstjóra í samvinnu við velferðarsvið að greina þörf fyrir fjölbreyttara búsetuform fyrir ákveðna hópa, svo sem samfélagsbúsetu.
    4.    Þjónustuíbúðir á vegum Félagsbústaða: Lagt er til að fela borgarstjóra í samvinnu við Félagsbústaði og velferðarsvið að móta aðgerðaáætlun til að mæta þörf fyrir þjónustuíbúðir og yfirfara núverandi húsnæði og skoða hvort það mæti nútíma þörfum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 15:40 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum og Þorvaldur Daníelsson víkur af fundinum.
    -    Kl. 16:45 víkur Guðný Maja Riba af fundinum og Pétur Marteinn Urbancic tekur þar sæti. 
    -    Kl. 18:04 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur þar sæti.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja til að tillögunni verði frestað. 
    Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.

    Er þá gengið til atkvæða um hvern lið tillögunnar fyrir sig.

    1. Eiginfjárframlag Reykjavíkurborgar til fimm ára til fjölgunar íbúða.
    Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

    2. Nýtt uppbyggingarlíkan til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða.
    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

    3. Uppbygging fjölbreyttara búsetuforms.
    Samþykkt. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

    4. Þjónustuíbúðir á vegum Félagsbústaða.
    Samþykkt. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar. MSS26010116

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Til þess að ná markmiðum borgarinnar um að fjölga félagslegu húsnæði, án þess að stofna fjárhagslegri sjálfbærni Félagsbústaða í hættu, og án þess að fara í frekari hækkun á leigu, er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Nú eru tæplega 600 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði og það verður að gera Félagsbústöðum kleift að fjölga íbúðum hraðar. Þær íbúðir sem Félagsbústaðir eiga forkaupsrétt á í gegnum 5% á nýjum uppbyggingarsvæðum, vegna samningsmarkmiða borgarinnar, duga ekki til að halda í við þörf fyrir félagslegt húsnæði. Til þess að takast á við þá stöðu að þær aðferðir sem stuðst hefur verið við mæta ekki allri þörfinni, viljum við kanna fýsileika þess að borgin geti, annað hvort beint, eða í gegnum Félagsbústaði eða annað félag, komið að uppbyggingu.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki stutt tillögu meirihlutans um aukin framlög og víðtækari hlut borgarinnar í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Tillagan felur í sér áframhaldandi meðgjöf sem skekkir markaðinn, veikir hvata til uppbyggingar á almennum markaði og dregur úr ábyrgð á hagkvæmri nýtingu fjármuna. Í stað þess að bregðast við rót vandans, skorti á framboði, þungu regluverki og hægagangi í skipulagi, er valin leið sem eykur beinan fjárhagslegan og rekstrarlegan hlut borgarinnar í húsnæðismálum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja eðlilegt að tryggja heilbrigðan húsnæðismarkað og vilja leggja aukna áherslu á séreignastefnu á húsnæðismarkaði enda séreign besta leiðin til að tryggja fólki öruggt húsnæði og efnahagslegt sjálfstæði.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Framsóknar telja afar ábyrgðarlaust að ákveða með þessum hætti að setja tæpa 2,5 milljarða inn í Félagsbústaði án þess að fyrir liggi opinber greining á fjárhagsstöðu Félagsbústaða, áhættumat á ráðstöfun þessara fjármuna og nákvæm áætlun um hvernig þessum fjármunum verður varið. Framsókn vekur athygli á því að aðeins er liðinn einn mánuður síðan fjárhagsáætlun fyrir þetta ár og fjármálastefna fyrir næstu 5 ár var samþykkt. Framsókn telur einnig algjörlega óútskýrt og óútfært hvernig eigi að standa að þessum uppkaupum á íbúðum, hvaða áhrif þau hafa á fasteignaverð og sjóðsstreymi Félagsbústaða. Þá er óskýrt í tillögu 2 hvernig Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir eða nýtt félag á þeirra vegum kæmi með beinum hætti að uppbyggingarverkefnum á félagslegum íbúðum. Það er ólýðræðislegt að kynna slík áform ekki í borgarráði áður en tekin er afstaða til slíkra grundvallarmála í borgarstjórn. Framsókn styður að stutt verði við Félagsbústaði í þeirri vegferð að rekstur þeirra verði sjálfbær en stjórnsýsla meirihlutans er óboðleg. Framsókn krefst þess að skýrslur um fjárhagslega endurskipulagningu Félagsbústaða verði gerðar opinberar áður en þessar ákvarðanir eru teknar. Því leggur Framsókn til frestun á málinu.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar styður markmið um aukið framboð hagkvæmra og félagslegra íbúða í Reykjavík. Þörfin er brýn og kallar á raunhæfar, sjálfbærar og skilvirkar lausnir. Hins vegar er ekki sama hvaða leiðir eru farnar til að ná þessum markmiðum. Við mótmælum tillögu nr. 2 um að kanna fýsileika þess að Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir eða nýtt félag á þeirra vegum komi með beinum hætti að uppbyggingu íbúða. Slík tillaga felur í sér grundvallarbreytingu á hlutverki borgarinnar, þar sem hún færist frá því að vera stefnumótandi yfir í að verða framkvæmdaraðili á húsnæðismarkaði. Viðreisn hafnar þeirri vegferð. Reykjavíkurborg á ekki að verða byggingarfélag. Verkaskipting hefur verið skýr. Markaðurinn byggir, borgin stýrir með skipulagi, kröfum og samningum. Með því að færa borgina inn í beinan rekstur uppbyggingar eykst fjárhagsleg áhætta, ábyrgð verður óljósari og kostnaður lendir að lokum á útsvarsgreiðendum. Borgarfulltrúi Viðreisnar telur að borgin eigi að einbeita sér að því sem hún gerir best: að nýta skipulagsvald sitt af festu, efla samstarf við markaðinn og tryggja félagsleg markmið án þess að taka yfir framkvæmdina sjálfa. Góð markmið réttlæta ekki ranga leið, og mikilvægt er að standa vörð um ábyrgð, sjálfbærni og heilbrigða verkaskiptingu í húsnæðismálum Reykjavíkurborgar.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að láta framkvæma skoðanakönnun á meðal íbúa um bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar. MSS26010117

    Frestað með með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.

    Fylgigögn

  6. Umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25110070

  7. Umræðu um íbúalýðræði í Reykjavík er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030069

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri.

    Frestað með með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090069

  9. Umræðu um nýtt deiliskipulag við Holtsgötu 10-12 og Brekkustíg 16 er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25120074

  10. Umræðu um öryggismál á skiptistöðinni í Mjódd er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25120075

  11. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 15. janúar 2026. MSS26010002

    Fylgigögn

  12. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. janúar, mannréttindaráðs frá 8. janúar, menningar- og íþróttaráðs frá 9. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 12. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. janúar og velferðarráðs frá 14. janúar. MSS26010022

  13. Á fundi borgarstjórnar þann 13. janúar 2026 var tilgreint undir 11. lið fundargerðarinnar að seinni umræða hefði farið fram um breytingu á viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, sbr. 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 12. desember 2025 og 19. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 16. desember 2025, og að liðurinn hefði verið samþykktur. Í fundargerð frá 16. desember láðist að vísa málinu til seinni umræðu borgarstjórnar. Því skoðast umræða á fundi þann 13. janúar 2026 sem fyrri umræða og leiðréttist það hér með. Afgreiðslan er jafnframt leiðrétt og er liðnum vísað til borgarstjórnar til seinni umræðu.
    Jafnframt er samþykkt að taka á dagskrá til seinni umræðu breytingu á viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, sbr. 11. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 13. janúar 2026 og 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 9. janúar 2026. MSS23010279
    Breyting á viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 er samþykkt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  14. Fram fer kosning i skóla- og frístundaráð, stafrænt ráð og velferðarráð. Kosningin er ógild og fer fram að nýju. MSS22060048

  15. Lagt er til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Helga Áss Grétarssonar. 
    Samþykkt. MSS22060048

  16. Lagt er til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar.
    Samþykkt. MSS22060050

  17. Lagt er til að Kjartan Magnússon taki sæti í velferðarráði í stað Helga Áss Grétarssonar. 
    Samþykkt. MSS22060049

Fundi slitið kl. 19:00

Sanna Magdalena Mörtudottir Andrea Helgadóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 20.01.2026 - Prentvæn útgáfa