Borgarstjórn - 18.10.2022

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2022, þriðjudaginn 18. október var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um samræmda móttöku Reykjavíkurborgar á flóttafólki. MSS22100157

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg er ekki með gildan samning um þjónustu við fólk á flótta frekar en nokkurt sveitarfélag á Íslandi. Hins vegar var í gildi samningur við ríkið um að þjónusta 700 manns á flótta sem rann út 1. apríl. Nú þegar er borgin að þjónusta mun fleira flóttafólk eða um 1300 manns og er mikilvægt að samningar náist um áframhaldandi þjónustu. Mikil þekking og faglegt starf er í velferðar- og skólakerfi Reykjavíkurborgar varðandi móttöku flóttafólks. Hins vegar er alvarlegur skortur á fjármagni frá ríkinu til að gera sveitarfélögum kleift að sinna börnum á flótta og jafna stöðu þeirra og tækifæri til jafns við önnur börn. Það er mikilvægt að leysa sem og að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni að taka á móti fólki á flótta. Hingað til hafa aðeins fimm sveitarfélög tekið þátt af sextíu og fjórum. Stærsta hindrunin er að kostnaður við móttöku barna á flótta lendir nánast alfarið á sveitarfélögum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Staðan í samræmdri móttöku flóttafólks er alvarleg. Í samningi Reykjavíkurborgar við félags- og vinnumálaráðuneytið er ekki gert ráð fyrir þeim mikla fjölda flóttafólks sem nú sækir um þjónustu. Miðstöðvar borgarinnar eru að kikna undan álagi vegna þessa mikla fjölda. Skortur er á starfsfólki, úrræðum og fjármagni. Það að bjarga mannslífum má ekki vera eins og heit kartafla sem menn kasta á milli sín. Sú staða sem upp er komin kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Flokkur fólksins kallar eftir nýrri nálgun þar sem fólk er sett í fyrsta sæti. Reykjavíkurborg þarf að vinna í fjölbreyttum lausnum til að unnt verði að taka vel á móti þeim fjölda barna sem fylgir inn í grunn- og leikskóla borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur vissulega gert margt og er með mörg úrræði en það þarf að gera betur. Sennilega mun fjöldi tvítyngdra nemenda í grunnskólum Reykjavíkur fara yfir 3200 á þessu ári. Þessi hópur hefur litlar forsendur til þess að taka þátt í almennu grunnskólastarfi með jafnöldrum sínum án sérstakrar aðlögunar og stuðnings til að ná tökum á íslenskunni. Flokkur fólksins bendir á að nú eru þegar langir biðlistar í íslenskuver borgarinnar og að fjölga þurfi íslenskuverum sem hafa gefið góða raun.

2.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að styrkja þau íþróttafélög í Reykjavík sem komið hafa á fót rafíþróttadeildum innan sinna vébanda. Lagt er til að veitt verði 20 m.kr. árlega til þeirra íþróttafélaga sem nú starfrækja rafíþróttadeildir. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar verði falin nánari útfærsla á stuðningi borgarinnar við íþróttafélögin sem starfrækja deildirnar, að undangengnu samráði við umrædd félög.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2023.
MSS22100158

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að málinu hafi verið vísað til fjárhagsáætlunar. Vinsældir rafíþrótta hafa vaxið mikið um allan heim. Hérlendis hafa vinsældir rafíþrótta verið sömuleiðis sívaxandi og greinin fest sig í sessi. Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur tekið rafíþróttir undir sinn hatt og starfa þær nú innan vébanda bandalagsins líkt og aðrar íþróttagreinar. Þá hefur ÍSÍ tekið greinina sömuleiðis inn í sitt samband. Alþjóðaólympíunefndin er jafnframt opin fyrir því að taka greinina inn á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028. Hér eru heilmikil sóknarfæri fyrir hendi til að draga úr félagslegri einangrun sumra barna og ungmenna, finna ástríðu og áhugamálum þeirra farveg undir leiðsögn og tengja þau betur í annað íþrótta- og tómstundastarf í borginni. Rafíþróttir eru þannig eins og hefðbundnar íþróttir að iðkendur hittast á æfingum og keppa á mótum. Þannig gefst ungmennum tækifæri til að hitta aðra einstaklinga og mynda félagsleg tengsl. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að styðja við viðleitni íþróttafélaga, eða annarra, sem hyggjast bjóða upp á rafíþróttir í tengslum við starf sitt til að greinin fái að blómstra til framtíðar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Uppgangur skipulagðs starfs rafíþrótta hefur verið mjög hraður hér á landi og hafa íþróttafélög í Reykjavík tekið þátt í þeirri uppbyggingu. Áframhaldandi stuðningur við rafíþróttir er sérstaklega mikilvægur til að ná til þeirra ungmenna sem hafa ekki áhuga eða finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum og stuðla þannig að aukinni vellíðan barna bæði andlega og líkamlega en ekki síst til að styrkja félagslega færni barna sem mörg hver þurfa á því að halda. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar sósíalista styðja það að íþróttafélög sem hafa komið á fót rafíþróttadeildum innan sinna vébanda verði styrkt. Mikilvægt er að hægt sé að æfa í skipulögðu, öruggu umhverfi. Sósíalistar telja einnig mikilvægt að efla og styrkja þau félög sem vilja bjóða upp á rafíþróttaaðstöðu en geta það ekki, því skortur er á fjármagni. Einnig er mikilvægt að tryggja að slíkt starf sé í boði í tekjulægri hverfum þar sem þetta er mjög dýrt sport.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Rafíþróttir virðast ná til ákveðins hóps barna sem ekki eru í öðrum íþróttum. Rafíþróttir virðast líka höfða til barna sem ekki færu í annað tómstundastarf og jafnvel höfða til jaðarsettra hópa. Flokkur fólksins styður að tillögunni verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar. 

3.    Fram fer umræða um aðgerðir til að mæta stöðu heimilislausra. MSS22100159

-    Kl. 16:20 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Pawel Bartoszek víkur af fundi.
-    Kl. 16:25 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur þar sæti.
-    Kl. 17:05 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Birna Hafstein tekur þar sæti.
-    Kl. 17:10 víkur Björn Gíslason af fundi og Helga Margrét Marzellíusardóttir tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ekki er hægt að halda áfram á sömu braut þar sem heimilislausir karlmenn hafa ekki í viðeigandi skjól að leita á þeim tíma sem neyðarskýlin eru lokuð. Samtökin Viðmót sem hafa staðið fyrir setuverkföllum í neyðarskýli borgarinnar hafa bent á að Kaffistofa Samhjálpar og Hjálpræðisherinn eru opin að hluta til á daginn en þessi úrræði eru mataraðstoð og geta ekki mætt þörfum þeirra fyrir öruggan stað á daginn. Hér er mikilvægt að taka fram að Kaffistofa Samhjálpar er þar að auki bara opin til klukkan 14:00, en gistiskýlið opnar ekki fyrr en þremur tímum síðar, klukkan 17:00. Fulltrúar sósíalista í borgarstjórn óskuðu eftir umræðu í borgarstjórn um aðgerðir sem væri hægt að ganga strax í til að mæta þeim vanda sem heimilislausir greina frá. Þar hefur verið kallað eftir dagsetri og mikilvægt er að mæta þeirri kröfu þannig að enginn þurfi að vera úti yfir daginn. Veturinn er nú þegar farinn að bíta og verði ekki tekið í taumana er heimilislausum mikil hætta búin.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Heimilisleysi er staðreynd í íslensku samfélagi og aukin ásókn í neyðarskýli Reykjavíkur sýnir umfang vandans. Um þriðjungur þeirra sem leitað hafa í neyðarskýli borgarinnar það sem af er þessu ári eru frá öðrum sveitarfélögum, auk þess sem stór hluti þeirra sem leita í neyðarskýlin eru í þörf fyrir langtímaúrræði innan heilbrigðiskerfisins. Reykjavík hefur sett sér metnaðarfulla stefnu og aðgerðaáætlun en vandamálið er stærra en svo að það verði leyst einungis í borginni. Því skorar borgarstjórn á ríkisvaldið að bregðist við, móta stefnu í því hvernig koma á í veg fyrir heimilisleysi á Íslandi og hvernig ríkið ætlar að styðja við sveitarfélög þannig að þau geti staðið undir þessari mikilvægu þjónustu. Þá skorar borgarstjórn á önnur sveitarfélög að bjóða upp á þjónustu og úrræði fyrir íbúa sína og taka virkan þátt í frekari uppbyggingu þeirra.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Sósíalistar taka undir mikilvægi þess að skorað verði á þau sem eiga að koma að uppbyggingu. En það leysir ekki þann bráðavanda sem nú er uppi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram tillögur um að gistiskýlum borgarinnar verði ekki lokað yfir daginn. Viljum við að dagsetur sé opið í borginni ef ekki er hægt að halda neyðarskýlum opnum yfir daginn? Á velferðarráðsfundi 5. október fengu fulltrúar kynningu á stöðu mála hjá gistiskýlum borgarinnar. Samkvæmt nýjustu tölum frá velferðarsviði er staðan mjög erfið. Mikil aukning hefur verið á nýtingu skýlanna. Í gistiskýlinu við Lindargötu hefur nýtingin verið vel yfir 100% frá því í apríl. Öll rúm nýtt ásamt neyðarplássum í sófa og stólum. Staðan hjá gistiskýlinu við Grandagarð er mun verri en þar var nýtingin í ágúst 146%. Staðan í Konukoti hefur líka versnað en þar fór nýtingin í 103% í ágúst. Aðstaðan í Konukoti er mjög slæm hvað varðar húsakost og þarf velferðarsvið sem fyrst að finna annað og hentugra húsnæði undir starfsemi Konukots. Flokkur fólksins hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna skorts á heilbrigðisþjónustu við skjólstæðinga neyðarskýlanna. Þar dvelja oft mjög veikir einstaklingar og eru sumir jafnvel á líknandi meðferð. Ekkert heilbrigðisúrræði er fyrir þennan hóp og þarf að ráða bót á því eins fljótt og auðið er.

4.    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

Bylgja ofbeldis hefur riðið yfir á meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Einnig meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum. Hópurinn myndi hafa það hlutverk að koma með drög að hugmyndum um hvernig bregðast megi við auknum vopnaburði hjá ungu fólki sem er mikið áhyggjuefni. Tölulegar staðreyndir sýna að útköllum lögreglu og sérsveitar hefur fjölgað í meira magni vegna eggvopna þar sem ungt fólk kemur við sögu sem gerendur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og leggist yfir stöðuna, viðbrögð, aðgerðir og forvarnir sem lúta að þessari neikvæðu þróun. Verið er að undirbúa breytingu á vopnalögum. Reglur eru þegar vissulega strangar en engu að síður er aukning í að ungt fólk grípi til hnífa með það að markmiði að skaða annan einstakling. Erfitt er að ná utan um skráningu eggvopna. Sá hópur sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar mun hafa samvinnu við skóla- og frístundasvið, velferðarsvið og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð og aðra eftir atvikum. Kjarnaspurningin er: Hvernig getur Reykjavíkurborg beitt sér vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu?

Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22100160
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.

-    Kl. 17:50 er gert hlé á fundi.
-    Kl. 18:15 er fundi framhaldið og hefur þá Sandra Hlíf Ocares vikið af fundinum og Þorkell Sigurlaugsson tekið þar sæti. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg gangi rösklega til verks, hefji umræðuna og markvissa vinnu til að sporna við þessari þróun. Þessi tillaga er liður í því að fá upp á borð hugmyndir að fjölbreyttum aðgerðum sem hafa það að markmiði að ná til barnanna, foreldra og annarra sem tengjast börnum í starfi þeirra. Þessi neikvæða þróun kallar enn frekar á að Reykjavíkurborg hraði innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll börn sem beita ofbeldi þurfa hjálp og hlúa þarf að foreldrum þeirra með ráðgjöf og stuðningi. Mál barna og ungmenna sem beita ofbeldi af einbeittum ásetningi er áfall, ekki aðeins fyrir foreldra og fjölskyldu heldur okkur öll. Í svona málum er ekkert einfalt og varast þarf að draga ályktanir eða dæma. Ótal margt kemur vissulega upp í hugann þegar fréttir berast af börnum sem fara út með vopn í hendi til þess eins að skaða, meiða annan einstakling s.s. Hver er áhrifavaldurinn? Hvaða tilfinningar og aðstæður liggja að baki? Flokki fólksins finnst það of mikil einföldun að kenna netinu og samfélagsmiðlum um allt þótt þar megi án efa finna sterkan áhrifavald. Allt of stór hópur barna er á samfélagsmiðlum sem hafa ekki aldur til þess og eftirlit foreldra með börnum á netmiðlum er mismunandi.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við sósíalistar viljum brýna á þeirri staðreynd að tekju- og eignaójöfnuður, misskipting í samfélaginu, er stór þáttur í aukningu glæpa og ofbeldis og á það jafnt við um ofbeldi meðal ungmenna sem heilla samfélaga. Þegar rætt er um ofbeldi og glæpi er lítið minnst á þessa staðreynd. Ísland er farið að sýna æ meiri sjúkdómseinkenni misskiptingar. Börn lifa við sívaxandi streitu og öfga í sínu lífi. Hlutfall barna sem býr við fátækt eða skort er hærra en það hlutfall meðal almennings alls. Þetta er sjónarmið sem þarf að fá umfjöllun þegar ofbeldi meðal barna og ungmenna er rætt.

5.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarstjórn samþykkir að veita aukin fjárframlög úr borgarsjóði með þeim börnum sem lögheimili eiga í Reykjavík og sækja nám í sjálfstætt starfandi leikskóla eða grunnskóla í borginni. Markmiðið verði að treysta rekstrargrundvöll skólanna, þannig að sjálfstætt starfandi grunnskólar þurfi ekki að innheimta skjólagjöld og sjálfstætt starfandi leikskólar þurfi ekki að notast við hærri gjaldskrár, fyrir nemendur búsetta í Reykjavík. Þannig verði efnahagur foreldra ekki ákvarðandi ástæða við skólaval. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra viðeigandi reiknilíkan vegna breyttra framlaga. Breytingar verði gerðar á samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla og grunnskóla og breytingarnar taki gildi frá og með 1. janúar 2023.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa málinu til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100161

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að málið hafi fengið jákvæða afgreiðslu og munu fylgja því eftir í borgarráði. Þá undirstrika fulltrúarnir mikilvægi þess að jafna stöðu borgarrekinna og sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla í Reykjavík svo styrkja megi rekstrargrundvöll sjálfstætt starfandi menntastofnana. Með auknum framlögum með börnum í sjálfstætt starfandi skólum geta skólarnir látið hjá líða að innheimta skólagjöld. Þannig verður efnahagur foreldra ekki lengur ákvarðandi forsenda við skólaval.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Í samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna er að finna eftirfarandi verkefni: Fjármögnun sjálfstætt starfandi grunnskóla verði endurskoðuð með það að markmiði að þeir verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og hinir borgarreknu en innheimti þess í stað ekki skólagjöld, inntaka barna sé sambærileg og að aukið fjármagn frá borginni sé nýtt í skólaþróun en sé ekki tekið út sem arður. Það liggur því fyrir að markmiðið er að sjálfstætt starfandi skólar verði fjármagnaðir með sambærilegum hætti og hinir borgarreknu en vinnan við það er eftir.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er mikilvægt að staða barna sé jöfn og að engar gjaldskrár séu í skólum. Það sem komið hefur fram við skoðun innri endurskoðunar, og sósíalistar hafa vakið máls á, er að einkareknir leikskólar hafa verið að greiða sér út háar arðgreiðslur úr skólakerfinu og við því eru ekki neinir varnaglar. Í ljósi þess ætti ekki að veita meira af opinberu fé til þeirra fyrr en búið er að girða fyrir það í reglum borgarinnar að taka megi fé úr skólastarfinu til slíkra greiðslna. Sjálfstætt starfandi skólar eru misjafnir, með mismunandi áherslur og rekstrarform og mikilvægt er að ekki sé ýtt undir einkavæðingu skólastarfsins.

6.    Samþykkt að taka kosningu í borgarráð á dagskrá.
Lagt er til að Trausti Breiðfjörð Magnússon taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Andreu Helgadóttur.
Samþykkt.

-    Kl. 18:30 víkur Einar Þorsteinsson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur þar sæti. 

7.    Lagt er til að Trausti Breiðfjörð Magnússon taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ásta taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Andreu Helgadóttur.
Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. október.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. október:

Öryggismál borgarinnar hvað varðar gagnaleka eru áhyggjuefni. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt niðurlagningu starfs öryggisstjóra sviðsins árið 2020 og telur að með því hafi ekki verið tekið skref til aukins öryggis gagna borgarinnar. Áfram segist sviðið vera í tilraunastarfsemi og sé að þróa öryggismál. Það er orðið brýnt að innri endurskoðun kafi ofan í ýmsa þætti hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði eða að utanaðkomandi aðili verði fenginn til þess að fara yfir öryggismál sviðsins og Reykjavíkurborgar í heild. Liður 13 í fundargerð borgarráðs 13. október; Flokkur fólksins fagnar tillögu um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings. Flokkur fólksins lagði til svipaða tillögu um endurskoðun reglna um sérstakan húsnæðisstuðning í borgarráði 30. júní 2022. Það vakti furðu að þegar Flokkur fólksins lagði til samskonar tillögu var kostnaðurinn metinn á 24-30 m.kr. á ári og metið sem svo að auka þyrfti fjárheimildir. Umsögn velferðarsviðs barst Flokki fólksins 14. september. Það er athyglisvert að nú aðeins fjórum vikum síðar er samskonar aðgerð meirihlutans metin innan fjárheimilda. Þetta er allsérkennilegt en viðhorfsbreytingu meirihlutans er vissulega fagnað.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. október, skóla- og frístundaráðs frá 3. október, stafræns ráðs frá 5. og 12. október og umhverfis- og skipulagsráð frá 5. og 12. október.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar stafræns ráðs: 

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að nýr vefur Reykjavíkurborgar er einfaldur og fallegur. Einnig er gott að vita að leitarvél vefsins er á pari við erlend einkafyrirtæki en þannig er það vissulega með flesta nýrri vefi hins opinbera sem og einkafyrirtækja hér á landi. Nægir þar að nefna island.is og heilsuvera.is. Í fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins er spurt um almennt notagildi en ekki útlit. Alveg frá því að nýr vefur borgarinnar fór í loftið hefur hann ítrekað vísað á gamla vefinn þegar leitað er eftir fundargerðum og öðrum geymslugögnum. Þar kemur upp gluggi þar sem stendur orðrétt: „Við yfirfærslu fundargerða yfir á nýja vefinn fór ýmislegt úrskeiðis og vantar upp á að fundargerðir séu birtar með réttum hætti. Við biðjumst velvirðingar á þessu, unnið er að lagfæringu en við bendum á að allar eldri fundargerðir eru aðgengilegar á eldri vef.“ Fulltrúi Flokks fólksins hefur í langan tíma einmitt verið að benda á að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur varið miklum fjármunum í útlit á kostnað bæði innihalds og notagildis þeirra lausna sem beðið hefur verið eftir.

Fundi slitið kl. 19:12

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Aðalsteinn Haukur Sverrisson    Sanna Magdalena Mörtudóttir