Borgarstjórn - Borgarstjórn 1. 10.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 1. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sabine Leskopf, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um stefnumótun í málefnum innflytjenda og úttekt OECD.

    -     Kl. 13:24 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Halldóra J. Hafsteinsdóttir tekur sæti. MSS24090078

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nýútkomin skýrsla OECD um málefni innflytjenda í íslensku samfélagi er mikilvægt framlag til stefnumótunar í þessum mikilvæga málaflokki og hefur að geyma upplýsingar sem ættu að gagnast Reykjavíkurborg vel á mörgum sviðum. Skýrslan leggur mikla áherslu á málefni íslenskukennslu á öllum skóla- og aldursstigum, en ekki hvað síst þó í leikskólanum. Skýrslan bendir á mismunun sem útlendingar telja sig sæta í íslensku samfélagi, þar á meðal á húsnæðismarkaði þar sem umtalsvert hærra hlutfall útlendinga en heimafólks býr við lélegt og þröngt húsnæði. Ábyrgð Reykjavíkurborgar sem vinnuveitanda og kaupanda þjónustu er sömuleiðis rík og tækifærin til að stuðla að inngildingu mikil.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    OECD-skýrslan sem liggur fyrir fundinum geymir vandaða umfjöllun og mikilvægar samanburðarrannsóknir sem spila munu lykilhlutverk í stefnumótun í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem er framundan hjá borginni. Þar verður lögð áhersla á inngildingu, virka þátttöku allra íbúa, hvata og tækifæri til að læra íslensku og hvernig hægt er að stuðla að því að allir íbúar búi við jöfn tækifæri til að nýta sína hæfileika og þekkingu. Stærsti mælikvarði á frammistöðu borgarinnar mun þó alltaf vera hvort okkur takist að láta fjölmenningarleg gildi endurspeglast í allri stefnumótun borgarinnar og hvort okkur takist að tryggja það að börn af erlendum uppruna njóti sín hér til fulls.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skýrsla OECD um stöðu innflytjenda á Íslandi gefa skýra mynd af stöðu mála í þessum málaflokki. Það er sláandi að hlutfall þeirra sem segjast hafa góða kunnáttu í tungumálinu er lægst hér á landi á meðal svarenda í OECD-ríkjum eða 18% samanborið við 60% að meðaltali innan Evrópska efnahagssvæðisins. Námsárangur barna sem fædd eru á Íslandi en eiga foreldra með erlendan bakgrunn er áhyggjuefni. Meira en helmingi þessara barna gengur illa í PISA-könnuninni sem þýðir að þau eiga erfitt með verkefni á borð við að skilja og túlka einfalda texta. Umræða um íslensku, íslenskukennslu og þjálfun fólks af erlendum uppruna hefur verið tekin í borgarstjórn að frumkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. Umræðan hefur m.a. snúist um hver sé ábyrgð Reykjavíkurborgar og hvað er hægt að gera betur. Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarið í Reykjavík og eru nú rúmlega 20% af íbúum. Þörf er á að aðstoða þá sem ætla að búa hér við að skilja og tala íslensku svo þeir geti aðlagast sem best íslensku samfélagi. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er lykillinn að farsæld og framgangi þeirra í þjóðfélaginu.

    Fylgigögn

  2. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að leggja til við svæðisskipulagsnefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að hefja viðræður um endurskoðun vaxtarmarka þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu til að unnt verði að auka framboð lóða til íbúðauppbyggingar í Reykjavíkurborg.

    -     Kl. 14:25 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Stefán Pálsson víkur af fundi.

    -     Kl. 14:30 tekur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir sæti á fundinum og Helga Þórðardóttir víkur af fundi.

    -     Kl. 14:55 víkur borgarstjóri af fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir tekur sæti.

    -     Kl. 15:07 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Pawel Bartoszek víkur af fundi.

    Samþykkt með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa málinu til meðferðar borgarráðs.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24090172

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að forsendur Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins eru brostnar og tímabært er að endurskoða vaxtarmörk þéttbýlis á svæðinu. Mannfjöldatölur að baki vaxtarmörkunum eru verulega vanáætlaðar og breytt samfélagsgerð hefur leitt af sér breytt búsetuform. Lækkandi fæðingartíðni og öldrun þjóðar leiða til þess að til framtíðar verða færri um hverja íbúð en áður. Forsendur að baki nýsamþykktum samgöngusáttmála gera ráð fyrir um 50.000 fleiri íbúum á höfuðborgarsvæðinu árið 2040, heldur en forsendur svæðisskipulagsins gera. Þá er ljóst er að hátt í 10 þúsund íbúðir sem eru í áætlunum borgarinnar verða ekki byggðar fyrir lok skipulagstímans 2040. Munar þar mestu um 7500 íbúðir sem ætlun var að byggja á Reykjavíkurflugvelli. Þá er ótalin íbúðaskuldin sem nú þegar er til staðar. Skortsstefna Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum, húsnæðisstefna Samfylkingarinnar, er einn veigamesti þátturinn í háu vaxtastigi. Úr skortinum verður ekki leyst nema með því að byggja meira og ódýrar en stefna meirihlutans býður upp á. Til þess mun reynast nauðsynlegt að útvíkka vaxtarmörkin og skipuleggja fleiri lóðir undir íbúðarhúsnæði í Reykjavík.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í upphafi þessa kjörtímabils samþykkti Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins einróma að vinna áfram með gildandi svæðisskipulag, en ráðast ekki í heildarendurskoðun þess. Í svæðisskipulagsnefnd sitja fulltrúar sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu. Þó var ákveðið að meta einstakar beiðnir um breytingar og undanþágur hverju sinni að því tilskildu að þær samræmist meginmarkmiðum svæðisskipulagsins. Ekkert er því til fyrirstöðu að sveitarfélög sem falast eftir slíkri undanþágu sendi inn tillögu um það. Í tillögu Sjálfstæðisflokksins er engin ákveðin uppbygging eða undanþága tilgreind sem falast væri eftir, né eru færð rök fyrir því að nauðsynlegt sé að færa út vaxtarmörkin almennt. Til er nægt rými fyrir um 60.000 íbúðir innan núgildandi vaxtarmarka.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins telur nauðsynlegt að brjóta nýtt land undir byggð. Það hefur verið hangið of stíft í þéttingarstefnunni til að geta sett sem flesta í kringum framtíðarborgarlínu. Þétting byggðar var vissulega nauðsynleg og enn má þétta t.d. í Grafarvogi. Sú uppbygging sem væntanleg er í Grafarvogi og Úlfarsárdal hefði mátt hefjast fyrir löngu en vandinn er að uppbyggingin þar er aðeins dropi í hafið. Slík er stærðargráða húsnæðisvandans. Reykjavíkurborg hefur aldrei haldið í við þörfina eftir íbúðarhúsnæði og lengi var hrein og klár stöðnun. Þetta hefur leitt til mikils óstöðugleika þar sem hærra húsnæðisverð veldur verðbólgu og leiðir til hærra vaxtastigs. Borgin hefur legið á lóðum til einstaklinga og smærri hópa sem vilja byggja sjálfir yfir sig og sína. Hræðslan við að borgin verði dreifðari hefur haldið öllu niðri. Skapa þarf betri skilyrði til uppbyggingar, einfalda regluverk og stjórnsýslu og bæta starfsskilyrði byggingariðnaðar. Nú eru vísbendingar um samdrátt í verkefnum meðal arkitekta og verkfræðinga sem þýðir minna framboð á íbúðarhúsnæði sem eykur vandann. Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort sem byggja á íbúðir til kaups eða leigu, þá hefur lóðaskortur heft íbúðauppbyggingu. Vaxtarmörk svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins hafa ekki tekið mið af fólksfjölgun í Reykjavík.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur að þær forsendur sem liggja fyrir í tillögu Sjálfstæðismanna standist ekki skoðun. Því kýs borgarfulltrúinn gegn því að vísa tillögunni til frekari vinnslu í borgarráði og hefði að öllu óbreyttu fellt hana hefði hún verið borin upp til atkvæða.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að koma á fót samráðs- og samvinnuvettvangi með verkalýðshreyfingunni sem hittist með reglulegu millibili, til dæmis mánaðarlega. Tilgangur hans væri að vinna saman gegn því að komist sé upp með brot gegn starfsfólki þeirra fyrirtækja sem borgin kaupir þjónustu af, undirverktaka þeirra eða annarra í virðiskeðjunni. Hann væri skipaður fulltrúum þeirra stéttarfélaga sem semja um þau störf sem um ræðir, eða í þeim tilfellum sem félögin sjálf óska eftir því, heildarsamtaka sem félag veitir umboð til setu á fundum fyrir þeirra hönd. Skrifstofu borgarstjórnar væri falið að tilnefna fulltrúa Reykjavíkurborgar í samstarfið.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar borgarráðs. MSS24090173

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur lengi beitt sér fyrir því að koma í veg fyrir misnotkun á vinnuafli. Í innkaupareglum Reykjavíkur er ákvæði um keðjuábyrgð og ákvæði um sektarúrræði og möguleika á riftun samnings ef aðalverktaki bregst ekki við tilkalli um skil á gögnum eða upplýsingum er varðar hvort starfsmenn samningsaðila, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar sem og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs sinnir eftirliti í ákveðnum málaflokkum, m.a. heilbrigðiseftirliti, eftirliti á vegum byggingarfulltrúa og eftirliti vegna leyfisveitinga og framkvæmda í borgarlanlandi. Við teljum okkur standa framarlega varðandi þessi mál og viljum því vísa tillögu um aukið samráð til borgarráðs til meðferðar.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna tekur undir áhyggjur tillöguflytjanda af vinnumansali og brotum á réttindum verkafólks í samfélaginu og vill að tryggt sé að slík vinnubrögð líðist aldrei hjá verktökum eða undirverktökum sem vinna fyrir Reykjavíkurborg. Keðjuábyrgð var tekin upp hjá Reykjavíkurborg m.a. fyrir áeggjan Vinstri grænna á sínum tíma og afar mikilvægt er að grannt sé fylgst með framkvæmd hennar.
     

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um aukið álag á starfsfólk leikskóla eftir að stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmdar.

    -    Kl. 17:45 víkur Sabine Leskopf af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur þar sæti.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2021 var ákveðið að fara í styttingu vinnuvikunnar. Framkvæmdin hefur ekki verið til góðs fyrir alla. Aðgerðinni var eðlilega fagnað því með styttingu vinnutíma eykst almenn starfsánægja. Því miður hefur stytting vinnutímans valdið auknu álagi á sumar stéttir. Síðan hún tók gildi í leikskólum hefur álag á starfsfólk aukist sem þó var mikið fyrir. Vinnutímastyttingin bættist ofan á þá manneklu og langtímaveikindi sem lengi hafa hrjáð starfsemi leikskólanna í Reykjavík. Mikið ósamræmi er milli leikskóla hvernig styttingin er útfærð sem skapað hefur óöryggi og jafnvel úlfúð. Sums staðar er um tvenns konar útfærslu að ræða á vinnutímastyttingu á sama leikskóla, annars vegar hjá faglærðum leikskólakennurum og hins vegar hjá ófaglærðu starfsfólki. Á sumum vinnustöðum þarf starfsfólk að taka af styttingunni sinni ef það þarf t.d. að fara til læknis. Það veldur óánægju þegar það gilda ekki sömu reglur fyrir alla á vinnustaðnum. Finna þarf leiðir til að auka samræmingu. Meirihlutinn ítrekaði strax í upphafi að stytting vinnuvikunnar mætti ekki kosta borgarsjóð neitt. Það var auðvitað fráleitt og fullkomlega óraunhæft eins og komið hefur á daginn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað upplýsinga um kostnað en ekki fengið svör frá mannauðs- og starfsumhverfissviði um kostnað við að bæta í mönnunargöt í dagvinnu.

    -    Kl. 18:20 víkur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir af fundinum. SFS22110169
     

    Fylgigögn

  5. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um deilibíla sbr. 7. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 17. september sl.
    Frestað. MSS24090079

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir tillögu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um mörk þess verndarsvæðis sem fyrirhugað er að friðlýsa í Grafarvogi. Samkvæmt tillögu ráðuneytisins er lagt til að verndarsvæðið fylgi göngustíg í norðanverðum Grafarvogi en teygi sig jafnframt inn í skógræktarsvæðið við Funaborg. Þaðan fylgi mörkin göngustíg í átt að Stórhöfða en síðan lóðamörkum meðfram götunni til og með Stórhöfða 45. Þaðan með Stórhöfða að Grafarlæk, síðan meðfram læknum (50-100 metra), og síðan með göngustíg.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram tillögu um að málinu verði frestað.
    Frestunartillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. MSS24090174

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við hörmum að borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins um að rýmka mörk þess verndarsvæðis, sem fyrirhugað er að friðlýsa í Grafarvogi, en hingað til hefur verið miðað við af hálfu Reykjavíkurborgar. Um er að ræða afar stórt skipulagsmál, sem snertir íbúa í Grafarvogi og nærliggjandi hverfum enda er vogurinn afar vinsælt útivistarsvæði. Þessi afstaða meirihlutans gengur í berhögg við afstöðu Íbúaráðs Grafarvogs, Íbúasamtaka Grafarvogs sem og afstöðu flestra þeirra Grafarvogsbúa, sem hafa tjáð sig um málið. Afgreiðsla málsins sýnir að háleitar yfirlýsingar vinstri meirihlutans um umhverfisvernd eru innantómar og merkingarlausar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Málið hefur þegar farið í opið umsagnarferli og mun gera það aftur. Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs er í meginatriðum samhljóða áliti Náttúrufræðistofnunar. Í umsögninni er lagt til að haldið verði áfram með þau áform um friðlýsingu Grafarvogs sem lagt var upp með en ekki fallist á tillögu ráðuneytisins um verulega stækkun marka friðlýsingarsvæðisins. Við styðjum umsögnina og undirstrikum um leið mikilvægi Grafarlæks í samhengi við skipulagsvinnu Keldnalandsins.
     

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. september.
    4. liður fundargerðar borgarráðs frá 19. september; Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag – breyting á deiliskipulagi vegna gatnamóta við Katrínartún, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. september:

    Full ástæða er til að endurskoða skipulagningu beggja viðburða í ljósi þeirra alvarlegu ofbeldistilvika sem átt hafa sér stað á Menningarnótt síðustu ár, nú síðast hnífaárásar sem leiddi til dauða ungrar stúlku. Það er mat margra án efa að Menningarnótt sé komin úr böndunum og er sannarlega komin langt frá því sem hún var hugsuð í upphafi sem var fyrst og síðast að vera fjölskylduhátíð. Þegar líða tekur á kvöldið á Menningarnótt er fátt sem minnir á fjölskylduhátíð. Eins og fulltrúi Flokks fólksins sagði í ræðu sinni í borgarstjórn í umræðu um ofbeldistilvik á Menningarnótt er kominn tími til að breyta skipulagi Menningarnætur. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi í ræðu sinni að stytta þyrfti dagskrá t.d. þannig að henni yrði lokið kl. 22 og þá verði hafist handa við að rýma bæinn. Það þýðir eðli málsins samkvæmt að engin verði flugeldasýningin. Flugeldasýning er þess utan umdeilt fyrirbæri þar sem mengun hlýst af slíkri sýningu. Það þykir því einhverjum ekki mikill missir af henni. Öryggi borgaranna þarf að vera í fyrirrúmi og áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir en ekki einungis að slökkva elda þegar skaðinn er skeður.
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 27. september, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. september, skóla- og frístundaráðs frá 23. september, stafræns ráðs frá 25. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. september og velferðarráðs frá 18. september. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 24. september:

    6. liður: Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvort skjölum hafi verið eytt hjá Borgarskjalasafni, frá 7. mars 2023. Fram kemur í svari að búið sé að eyða sýnishornum fylgiskjala fjárhagsbókhalds samkvæmt eldri reglum og finnst fulltrúa Flokks fólksins það einkennilegt. Fram kemur einnig að þann 31. janúar 2024 voru allmörg gögn grisjuð í samræmi við reglur en nokkuð er óljóst hvað felst í orðinu „grisjun“ í þessu sambandi. Ekki kemur fram hverjar reglur séu um grisjun skjala sem hafa verið til varðveislu á opinberu safni eins og Borgarskjalasafni. 7. liður: Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvort það sé rétt sem fullyrt hefur verið af heimildarmönnum að vínkælir sé til staðar á upplýsingatækniskrifstofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á 5. hæð í Borgartúni í rými sem var kallað Vínstofan, nú Bríetarstofa. Spurt er vegna gruns um spillingu á þjónustu- og nýsköpunarsviði síðustu ár. Segir í svari að nokkrir kælar séu á sviðinu og einn í fundarherbergi á 5. hæð þar sem geymdir eru drykkir sem keyptir hafa verið m.a. vegna fagnaða, starfsloka, sem eru æði tíð, og annarra viðburða. Sviðið átti viðskipti við Ölgerðina á níu mánaða tímabili árið 2023 sem fullyrt er að sé algengt á vinnustöðum. Fulltrúi Flokks fólksins dregur það stórlega í efa.
     

    Fylgigögn

  9. Samþykkt að taka svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á dagskrá:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að farið verði í neyðaraðgerðir, í samráði við Vegagerðina, til að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstakri snjallgangbraut verði komið fyrir á gatnamótunum. Snjallgangbrautir virka þannig að þær skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbrautina. Þá kviknar LED göngulýsing sem lýsir upp gangbrautina og vegfarendur á meðan gengið er yfir götuna. Í annan stað er lagt til að gatnamót þessi verði snjallvædd með nýjustu tækni í snjallljósastýringum, en umferðarljósin á gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar sýna svo ekki verður um villst, að þeim er stýrt með klukku þar sem græna ljósið varir aðeins í 15 sekúndur þegar gengið er yfir götuna og er þar af leiðandi ekki snjallvætt. Snjallljós skynja umferð akandi, gangandi og hjólandi, besta umferðarflæðið og eykur til muna öryggi allra vegfarenda.

    Frestað.
    Unnur Þöll Benediktsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins. 
     

Fundi slitið kl. 18:51

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 1. október 2024 - Prentvæn útgáfa