Borgarstjórn - Aukafundur borgarstjórnar 9.5.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 9. maí, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram að nýju ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2022, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 2. maí 2023, ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 13. apríl 2023, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2022, dags. 13. apríl 2023, greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 13. apríl 2023, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2022, dags. 27. apríl 2023, umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2022, dags. 24. apríl 2023, og yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 13. apríl 2023. Jafnframt er lagt fram sjóðstreymisyfirlit fjármála- og áhættustýringarsviðs, ódags.

    -    Kl. 13:02 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
    -    Kl. 14:30 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur af fundi.
    -    Kl. 15:15 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur sæti.

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2022 er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins árita ársreikninginn með fyrirvara. FAS23020020

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verðbólga, hækkandi vextir og vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks hafa áhrif á ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022. Vegna rekstrarhalla og þessara erfiðu aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi fór Reykjavíkurborg í umtalsverðar aðgerðir strax síðasta haust. Brugðist var við með samdrætti í fjárfestingum og þar með lántökuþörf, gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi verðbólgu og samræmdar reglur settar um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára áætlun, fyrir árin 2023-2027, sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember sl., tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu. Borgin er þó jafnframt í örum vexti. Haldið verður áfram að fjárfesta í uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, viðhaldi og nýbyggingum fyrir grunn- og leikskóla og stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Fjármálastefna Reykjavíkurborgar 2023-2027 var samþykkt samhliða fjárhagsáætlun síðasta haust en í henni er lögð áhersla á að hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verði mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélags til lengri tíma en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma. Með markvissum aðgerðum í rekstri er stefnt að jákvæðri niðurstöðu A-hluta frá 2025.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 dregur fram dökka mynd af rekstri borgarinnar. Rekstrarhalli nam 15,6 milljörðum, sem er 13 milljörðum verri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samhliða jukust skuldir borgarsjóðs um 30 milljarða milli ára en skuldir samstæðunnar um nær 40 milljarða. Hlutfall launakostnaðar af samanlögðum útsvars- og jöfnunarsjóðstekjum nam 89%, og hefur starfsmönnum A-hluta fjölgað um 25% á fimm ára tímabili, langt umfram lýðfræðilega þróun. Það vekur ugg að Reykjavíkurborg hafi reynst eitt hinna sex sveitarfélaga sem féllu á öllum þremur lágmarksviðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Þetta er áfellisdómur yfir stærsta sveitarfélagi landsins, sem hefur fordæmalausa tekjuöflunarmöguleika í samanburði við önnur sveitarfélög. Jafnframt er sú villa sem fram hefur komið í ársreikningi milli umræðna verulega alvarleg en hún leiðir til þess að veltufé frá rekstri reynist neikvætt sem nemur tveimur milljörðum króna. Reykjavíkurborg þarf að reiða sig á lánsfé svo standa megi undir skuldbindingum og er rekstur höfuðborgarinnar ósjálfbær. Þetta lýsir alvarlegri stöðu í rekstri höfuðborgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvandanum. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, ráðast í eignasölu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eftir fyrri umræðu ársreiknings kom í ljós að verðbætur í sjóðstreymi voru oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Þetta hefur neikvæð áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri. Fjárhagsstaða borgarinnar kallar á breyttar áherslur. Sósíalistar tala fyrir mikilvægi þess að tekjustofnar borgarinnar verði efldir en á sama tíma þarf að ráðstafa fjármagni með réttlátum hætti þar sem tekið er mið af ólíkum þörfum borgarbúa. Fjárfesta þarf í grunnþjónustunni því það skilar sér margfalt til baka. Niðurskurður á henni er ekki lausn, heldur mun kostnaðurinn vinda upp á sig. Dæmi um slíkt var niðurskurður á viðhaldi skólabygginga eftir hrun, sem hefur leitt til þess að borgin situr uppi með enn meiri kostnað vegna vanrækslu og myglu. Fórnarkostnaðurinn var mikill til framtíðar, hið sama má segja um margar boðaðar hagræðingartillögur meirihlutans frá lokum árs 2022 sem höggva í þjónustu við börn og ungmenni. Borgarfulltrúar ættu að byrja á því að líta inn á við og lækka eigin ofurlaun, í stað þess að skerða mikilvæga grunnþjónustu við börn og ungmenni. Að sama skapi þarf að ríkja launastefna fyrir borgina og fyrirtæki í eigu hennar, þannig að eðlilegra bil sé á milli hæstu og lægstu launa.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er það slæm að í raun þarf mun meira að koma til en aðgerðir núverandi meirihluta. Það virðist vera sem meirihlutinn skilji ekki vandann til fulls og hefur þess vegna ekki burði til að bregðast við sem skyldi. Rekstur A-hluta borgarinnar stefnir í enn meira óefni innan nokkurra ára ef ekkert af viti verður að gert. Í ofanálag kom í ljós milli umræðna að skekkja er í reikningnum. Við endurskoðun reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Meirihlutinn segir að þetta hafi engin áhrif. Ekki er það trúverðugt. Alveg ljóst er orðið að núverandi meirihluti hefur ekki það sem þarf til þess að leysa úr þeim fjárhagsvanda sem fulltrúar hans sjálfs hafa komið borginni í með óráðsíu undanfarinna ára. Sú óráðsía heldur áfram athugasemdalaust, samanber glórulausan fjáraustur meirihlutans á milljörðum í stefnulausa tilraunaleiki þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Þegar svona er komið og rekstraraðilar sýna ekki meiri skilning á vandamálinu en raun ber vitni, er besta lausnin að kalla eftir aðkomu eftirlitsaðila með sérþekkingu á hallarekstri sveitarfélags af þessari stærðargráðu. Þessi meirihluti mætti stíga til hliðar og sýna þannig ákveðna auðmýkt.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar þarf að fara í saumana á þeirri fjármálastefnu sem þegar hefur verið samþykkt. Aðgerða er þörf og ekki liggur ljóst fyrir hvað meirihlutinn hyggst gera til að snúa við af þeirri hallastefnu sem ársreikningur Reykjavíkur 2022 sýnir svart á hvítu. Mælskubrögð og útúrsnúningar borgarstjórnarmeirihlutans gera lítið gagn þegar viðsnúnings í rekstri borgarinnar er þörf. Auðmýkt, aðhald og ráðdeild ætti frekar að vera í fyrirrúmi ásamt skýrum áætlunum hvernig auka megi viðnámsþrótt Reykjavíkur án þess að ganga nærri mikilvægri grunnþjónustu.

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarnefndar frá 27. apríl, stafræns ráðs frá 26. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. maí og velferðarráðs frá 28. apríl. MSS23010061

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið í fundargerð stafræns ráðs: 

    Þrátt fyrir að búið sé að úthluta milljörðum í þjónustu- og nýsköpunarsvið og margar gagnadeildir hafi orðið til, hafa fullkláraðar lausnir ekki skilað sér í samræmi við það. Nýjustu glærukynningar sviðsins í stafrænu ráði, snúast um allskyns gagnavinnslu. Þarna er ekki mikið verið að kynna langt komnar lausnir um gagnamál, heldur eru hér mestmegnis á ferðinni einhverskonar vangaveltur um gögn almennt. Þessi auglýsingamennska sviðsins á almennum fyrirbærum stafrænna umbreytinga virðist því oft þjóna þeim tilgangi að reyna sanna að sviðið sé markvisst að gera eitthvað þrátt fyrir að tilbúnar lausnir hafi skilað sér bæði seint og illa. Eitt dæmi af mörgum um skilningsskort sviðsins á forgangsröðun stafrænna lausna kemur fram í kynningu undir lið 4. um hagnýtingu gagna. Þar sést að miklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í allskyns mælaborð og flóknar upplýsingar um sorphirðu. Einnig kemur fram að nú ætlar sviðið að leggjast í miklar notendarannsóknir til að komast að því hvaða gagnasögur borgarbúar eru mest spenntir að fá birtar á vef Reykjavíkurborgar. Á sama tíma þurfa foreldrar leikskólabarna enn að handskrifa sjö pappírsblaðsíður til þess að klára umsókn fyrir hvert barn í leikskóla. Þangað er stafræn vegferð komin.

    Fylgigögn

  3. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjóra er falið að ganga til samtals og samstarfs við borgarbúa. Hann skal halda íbúafundi í öllum hverfum borgarinnar þar sem hann gerir grein fyrir þeirri alvarlegu fjárhagsstöðu sem borgin stendur frammi fyrir. Borgarstjóri skal skýra fyrir borgarbúum hvaða tillögur hann og meirihluti borgarstjórnar hyggst leggja fram til lausnar og hvaða þjónustuskerðingar kunni að hljótast af. Íbúafundir skulu skipulagðir með þeim hætti að öllum fundargestum gefist kostur á að tjá sig um efni fundarins. Þá skulu fundirnir vera vettvangur fyrir borgarbúa að koma fram með hugmyndir og tillögur til lausnar á vandanum. MSS23050065

    Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ljóst er að meirihluti borgarstjórnar hefur lítinn vilja til að greina borgarbúum frá þeirri alvarlegu fjárhagsstöðu sem sem borgin stendur frammi fyrir, hvað þá að eiga samtal og samráð við þá til lausnar vandans.

Fundi slitið kl. 16:00

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 9. maí 2023 - prentvæn útgáfa