Borgarstjórn - 9.1.2018

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2018, þriðjudaginn 9. janúar, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að hafist verði handa við skipulagningu nýs hverfis í Úlfarsárdal í því skyni að draga úr lóðaskorti í Reykjavík og standa við áður gefin fyrirheit um uppbyggingu svo hverfið verði sjálfbært varðandi margvíslega þjónustu. Leitast verði við að tryggja gott framboð af íbúðum á hagstæðu verði til einstaklinga, sem vilja festa kaup á fyrstu íbúð, t.d. með samstarfi við félög og samtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Einnig verði áhersla lögð á úthlutun til félaga sem leggja áherslu á hagkvæma uppbyggingu og rekstur leiguhúsnæðis án hagnaðarsjónarmiða. Í skipulagsvinnu verði áhersla lögð á gott samstarf við íbúasamtökin í Grafarholti og Úlfarsárdal sem og Knattspyrnufélagið Fram. Miðað verði við að úthlutun lóða í hinu nýja hverfi geti hafist á næsta vetri.

R18010154

-     Kl. 14.05 taka Áslaug Friðriksdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.

Tillagan er felld með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur óháðs borgarfulltrúa. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi leggja fram svohljóðandi bókun: 

Við hörmum að borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna kjósi að fella tillögu um skipulagningu nýs hverfis í Úlfarsárdal. Tillögunni er ætlað að draga úr því ófremdarástandi sem ríkir í húsnæðismálum í Reykjavík með því að auka framboð íbúða og lækka þannig íbúðaverð, ekki síst í þágu þeirra sem eru að kaupa fyrstu íbúð. Með fjölgun íbúa í Úlfarsárdal verður stuðlað að margvíslegri þjónustu í Grafarholti-Úlfarsárdal, t.d. verslun og velferðarþjónustu, sem og öflugu íþrótta- og skólastarfi. 

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillöguna enda er hún í samræmi við tillögu okkar sem lögð var fram í borgarráði 20. ágúst 2015 sem varð grunnurinn að því að samþykkt var að endurskoða deiliskipulag Úlfarsársdals og fjölga þar íbúðum. Þó meirihlutinn hafi tekið skorpu í að úthluta lóðum síðustu mánuðina þá hefur reynslan sýnt að skipulagsvinna tekur tíma og það þarf að vera búið að skipuleggja íbúðabyggð tímanlega svo ekki komi upp sá skortur sem verið hefur síðustu árin í borginni þar sem lóðaúthlutanir fyrir fjölbýlishús fyrir fleiri en 5 íbúðir voru alltof fáar fyrstu 3 ár kjörtímabilsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ekki er skortur á úthlutunum lóða í Reykjavík og til marks um það var úthlutað lóðum fyrir 1.691 íbúð í Reykjavík á síðasta ári, sem er um það bil heildarfjöldi íbúða sem fyrir eru á Seltjarnarnesi. Metár standa nú yfir í uppbyggingu íbúða í Reykjavík, bæði á almennum markaði en ekki síður hjá uppbyggingarfélögum sem starfa án hagnaðarsjónarmiða, þar sem Reykjavík eitt sveitarfélaga dregur vagninn. Sjálfbærni Úlfarsárdals er nú þegar tryggð en þar hefur íbúðum verið fjölgað ár frá ári í skipulagi og uppbyggingu. Þar rís nú grunnskóli, leikskóli, menningarmiðstöð, bókasafn og sundlaug auk umfangsmikillla íþróttamannvirkja fyrir íþróttafélagið Fram. 

2.    Fram fer umræða um mengunarvalda í borginni. R18010156

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Svifryksmengun hefur ítrekað verið yfir heilsuverndarmörkum. Nauðsynlegt er að taka það alvarlega og bregðast við. Vöktun á loftgæðum er mikilvæg sem og þrif á götum. Í fréttum RÚV 11. júní 2017 er haft eftir dr. Larry G. Anderson, bandarískum sérfræðingi, að það veki furðu og þarfnist rannsóknar að svifryksmengun í Reykjavík sé mun meiri en í stórri iðnaðarborg í Bandaríkjunum. Hann telur að ýmsar orsakir geti verið fyrir hendi en nagladekkjanotkun sé ekki ástæðan fyrir fína rykinu því frá þeim komi gróft svifryk. Bendir hann á að það verði að rannsaka hvað valdi menguninni og ákveða hvernig eigi að vinna gegn henni. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Loftmengun í Reykjavík er almennt ekki mikil miðað við margar stórborgir heims en fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma getur svifryk samt sem áður reynst afar hættulegt heilsu þess. Þegar innihaldsefni svifryks eru skoðuð kemur í ljós að um helmingur þess er malbik og um þriðjungur þess er sót. Yfir 80% svifryks í andrúmslofti er því vegna bílaumferðar. Með því að draga úr notkun nagladekkja, lækka hraða umferðar og hafa færri bíla á götunum mætti minnka svifryk mikið. Borgin hefur lagt áherslu á ofangreint auk þess að þrífa göturnar til að binda það ryk sem myndast. Ekki er æskilegt að þvo götur þegar miklir þurrkar hafa verið í borginni eins og verið hefur undanfarnar vikur. Ekki er heldur unnt að þrífa götur borgarinnar þegar frost er úti en hentugast að gera það í hæfilegri bleytu. Í dag eru þó hagstæð skilyrði og því fer nú fram svokölluð aukahreinsun á götum borgarinnar, sem mun draga úr svifryki.

3.    Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara. R17120086

4.    Fram fer umræða um málefni Breiðholts. R16020038

5.    Samþykkt að taka kosningu í hverfisráð Breiðholts á dagskrá. Lagt er til að Guðrún Eiríksdóttir verði kosin í hverfisráð Breiðholts í stað Nichole Leigh Mosty og verði jafnframt formaður ráðsins. R14060116

Samþykkt.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins. 

6.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 21. og 22. desember 2017. R17010001

- 2. liður fundargerðarinnar frá 22. desember, Gufunes – áburðarverksmiðja, sala fasteignar, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, óháðs borgarfulltrúa. R17120121

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Verð byggingarréttarins í Gufunesi byggir m.a. á verðmati sem gert var og samningaviðræðum við GN studios um kaupin en alls mun fyrirtækið greiða um 1,7 milljarða í heild fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld. Veittur var 10% afsláttur frá verðmatinu vegna umfangs viðskiptanna, frumkvæðis stúdíósins og þess mikla frumkvöðlastarfs í skapandi greinum sem fyrirtækið sinnir ásamt þeirri framsýnu klasauppbyggingu í kvikmyndagerð sem er að verða að veruleika í Reykjavík. Auk þess er um afar viðamikla fjárfestingu á svæðinu að ræða, þrátt fyrir að deiliskipulag fyrir svæðið hafi ekki enn verið samþykkt. Það er allra hagur að upp byggist í Gufunesi sannkallað Fríríki frumkvöðlanna eins og vinningstillaga hollensku arkitektastofunnar JvantSpijker kallaði Gufunes framtíðarinnar. Gufunesið verður því ekki lengur undir áburðarverksmiðju og úrgang, heldur fyrir íbúa, það verður heimili lítilla og meðalstórra fyrirtækja í fjölbreyttum atvinnugreinum og ekki síst vagga íslenskrar kvikmyndagerðar.

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framsókn og flugvallarvinir eru fylgjandi uppbyggingu á svæðinu í þágu skapandi greina og íbúðaruppbyggingar og styðja uppbyggingu kvikmyndaþorps. Hins vegar hafa lóðir verið takmörkuð auðlind síðustu árin og gæta verður jafnræðis og hagsmuna borgarbúa í hvívetna þegar eignir Reykjavíkurborgar eru seldar. Því eru athugasemdir gerðar við það að almennt útboð hafi ekki farið fram á sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhúsnæði í Gufunesi heldur samið við einn ákveðinn aðila fyrir um helming þeirra íbúða sem til stendur að byggja á svæðinu. Verðmöt frá tveimur fasteignasölum liggja fyrir en við söluna er sú leið farin að miða við lægra verðmatið og veita að auki 10% afslátt af því. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, leggja fram svohljóðandi bókun: 

Kvikmyndaþorp í Gufunesi er spennandi hugmynd og verðugt verkefni. Fullur stuðningur var við þróun kvikmyndaþorps strax í upphafi verkefnisins enda hafði áður verið auglýst eftir samstarfsaðilum og umræddir aðilar valdir úr. Því miður er þó ekki ekki er hægt að samþykkja þau vinnubrögð sem meirihlutinn í Reykjavík bíður upp á í máli þessu. Á einu ári var ljóst að samningaviðræður höfðu farið þó nokkuð frá því sem upphaflega var rammað inn án nokkurs samráðs við minnihluta borgarstjórnar og án viðhlítandi skýringa meirihlutans. Mikill byggingaréttur hafði bæst við það sem fyrirhugað var í upphafi. Afar mikilvægt er að gæta þess að úthlutun gæða borgarinnar sé gerð á jafnréttisgrundvelli eða annars afar vel rökstudd og gegnsæ. Þetta gerir meirihlutinn ekki og því ekki hægt að samþykkja tillöguna sem fyrir liggur. Óskiljanlegt er af hverju meirihlutinn leggur það til að semja um verð sem styðst aðeins við eitt verðmat en ekki fleiri eins og jafnan er gert þegar verð er ekki vitað. Enn og aftur skal tekið fram að með þessari ákvörðun er ekki verið að kasta rýrð á þá starfsemi sem til stendur að byggja upp í kvikmyndaþorpinu og að fulltrúarnir lýsa yfir fullum stuðningi við menningarverkefni af þessu tagi. Þá vilja fulltrúarnir ítreka að við deiliskipulagsgerðina verði tekið mið af þeim ábendingum og athugasemdum sem fram hafa komið um útfærslu byggðarinnar á svæðinu, sem lúta meðal annars að því 20 hæða turn verði lækkaður.

7.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 5. janúar, menningar- og ferðamálaráðs frá 18. desember, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 18. desember, velferðarráðs frá 14. desember. R18010074

8.    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í maí 2016 gerði Reykjavíkurborg samning um tímabundið lóðavilyrði í Gufunesi í tengslum við menningar- og/eða kvikmyndaþorp. Þá var ætlunin að byggja atvinnuhúsnæði á svæðinu. Haustið 2017 breyttust forsendur verkefnisins þegar viðaukasamningur var gerður um íbúðaruppbyggingu á svæðinu. Á fundi borgarráðs 21. september sl. bókuðu fulltrúar meirihlutans að söluverð umræddra lóða yrði markaðsverð, byggt á mati tveggja ótengdra og óháðra fasteignasala. Þegar meirihlutinn lagði sölusamninginn fram til samþykktar á síðasta reglulega borgarráðsfundi ársins var hins vegar lagt til að farið yrði eftir því verðmati, sem var mun lægra, og að veittur yrði 10% afsláttur að auki. 1. Eru fordæmi fyrir því við sölu lóða hjá borginni að leitað sé eftir verðmati frá tveimur fasteignasölum en síðan ákveðið að miða við það verðmat sem er mun lægra? 2. Eru fordæmi fyrir því við sölu lóða í grónum hverfum hjá borginni að veittur sé 10% magnafsláttur af verðmati? 3. Óskað er eftir skýringum á því af hverju því var haldið fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að við umrædda sölu hafi verið miðað við verðmat tveggja fasteignasala þegar hið rétta er að miðað var við lægra verðmatið og síðan veittur 10% af því þannig að endanlegt verð varð 27% lægra en efra verðmatið. Verður umrædd fréttatilkynning leiðrétt? R18010157

Vísað til borgarráðs. 

Fundi slitið kl. 20.12

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Marta Guðjónsdóttir    Kristín Soffía Jónsdóttir

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 9.1.2018 - Prentvæn útgáfa