No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 7. október var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Magnús Már Guðmundsson, S. Björn Blöndal, Líf Magneudóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Borgarstjórn samþykkir að skipa starfshóp til að endurskoða hjólreiðaáætlun borgarinnar. Í starfshópnum sitji fulltrúar allra flokka sem sæti eiga í borgarstjórn og með honum starfi sérfræðingur frá umhverfis- og skipulagssviði. Vinnunni verði lokið fyrir 1. apríl 2015.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 14.40 tekur Sóley Tómasdóttir sæti á fundinum og Líf Magneudóttir víkur sæti.
Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Að Reykjavíkurborg sýni frumkvæði um eflingu hjólreiða til og frá vinnu þannig að efnt verði til átaks meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar um að nýta sér hjólreiðar á tímabilinu 1. desember 2014 til 1. maí 2015. Samhliða átakinu verði gerð könnun á því hve margir starfsmenn borgarinnar nýti sér þennan ferðamáta. Með þessu móti sýnir Reykjavíkurborg gott frumkvæði sem einn stærsti vinnustaður borgarinnar og greinargóðar upplýsingar ættu að fást um notkun þessa ferðamáta yfir vetrartímann.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata samþykkt með 14 atkvæðum gegn 1.
Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun:
Endurskoðun á afbragðsgóðri hjólreiðaáætlun borgarinnar frá febrúar 2010 er allsendis óþörf á þessum tímapunkti, óréttlætanlegur kostnaður er því samfara og mikilvægara er að borgarfulltrúar einbeiti sér frekar að brýnum málefnum borgarinnar, eins og lausn húsnæðisvandans. Þá hefur ekki verið lagður fram rökstuðningur fyrir því að endurskoða eigi núverandi hjólaáætlun, hvorki með framlagningu gagna né umræðu.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Í þeim tilgangi að draga úr slysahættu gangandi og hjólandi vegfarenda er lagt til að gert verði sérstakt átak í því að auka öryggi á gangbrautum í borginni en þar er mesta hætta á slysum. Aukning hefur orðið á alvarlegum slysum, einkum á hjólreiðafólki, og er nauðsynlegt að bregðast við því með öryggisráðstöfunum. Áhersla verði lögð á að samræma hönnun gangbrauta í Reykjavík, endurgera þær þar sem það reynist nauðsynlegt, auka lýsingu og bæta merkingar. Þá verði lögð áhersla á að gera sebrabrautir á vegum þar sem það á við, með gangbrautarskiltum báðum megin akbrauta eins og lýst er í handbók um umferðarmerki sem Vegagerðin og Reykjavíkurborg gáfu út á síðasta ári. Horft verði til þess að skapa samræmi í umferðarmerkingum á höfuðborgarsvæðinu og leitað eftir samstarfi við önnur sveitarfélög um það. Fræðsla meðal almennings og í grunnskólum borgarinnar um það hvernig hjólandi og gangandi þvera akbrautir á sem öruggastan máta verði hluti af þessu átaki. Leitað verði eftir samstarfi við frjáls félagasamtök, lögregluna og Strætó. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að móta áætlun sem lögð verði fyrir borgarráð og miðast við að átakið klárist á tveimur árum eða skemur ef hægt er.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs.
3. Fram fer umræða um mikilvægi þess að fjárfesta í nýsköpun, tækni og rannsóknum í velferðarmálum.
- Kl. 17.00 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
4. Fram fer umræða um aðild að sáttmála sveitarfélaga um aðlögun að loftslagsbreytingum, sbr. samþykkt borgarráðs frá 2. október sl.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að Reykjavíkurborg hefji viðræður við ríkið um að nemendum í efstu bekkjum grunnskólans standi til boða á nýjan leik að stunda nám í framhaldsskólaáföngum í fjarnámi samhliða námi sínu í grunnskóla sér að kostnaðarlausu. Markmiðið er að þessum aldurshópi standi til boða fjölbreyttara námsval í því augnamiði að koma enn betur til móts við einstaklingsmiðað nám. Grunnskólar gætu jafnframt nýtt þennan möguleika til að bjóða upp á fjölbreyttara val í 10. bekk og aukin samfella myndi skapast milli skólastiga.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
6. Lagt er til að Áslaug María Friðriksdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Hildar Sverrisdóttur.
Samþykkt.
7. Samþykkt að taka kosningu í lýðræðis- og stjórnkerfisráð á dagskrá. Lagt er til að Auður Alfífa Ketilsdóttir taki sæti Sóleyjar Tómasdóttur sem varaáheyrnarfulltrúi í ráðinu.
Samþykkt.
8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. september og 2. október 2014.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. október, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. september, mannréttindaráðs frá 9. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 22. september, skóla- og frístundaráðs frá 17. september og 1. október, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 15. og 17. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. og 24. september og 1. október og velferðarráðs frá 18. og 23. september.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 17. september:
Framsókn og flugvallarvinir vilja hvetja til þess að inn í kennslu í lífsleikni í grunnskólum borgarinnar verði aukið vægi lagt á kennslu ungmenna á „kerfið“, með því að kenna gerð skattframtala, mun á launþega og verktökum, þar sem ungt fólk lendir oftar en ekki því að vera ráðið inn sem verktakar, og að innri stjórnsýsla verði kynnt fyrir ungmennum, svo sem embætti sýslumanns, umboðsmanns borgarbúa, umboðsmanns Alþingis, umboðsmanns barna og Neytendastofu.
Fundi slitið kl. 17.38
Sóley Tómasdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Skúli Helgason
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.10.2014 - prentvæn útgáfa