Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2014, þriðjudaginn 6. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.03. Voru þá komnir til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Yeoman, Karl Sigurðsson, Sigurður Björn Blöndal, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Hjálmar Sveinsson, Eva H. Baldursdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Kristbjörg Stephensen.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fram fari sérstök athugun á fátækt barna í Reykjavík. Að athugun lokinni verði gerð áætlun um hvernig fátækt meðal barna í borginni verði útrýmt á þremur árum. Niðurstöður liggi fyrir ekki síðar en 1. september nk. þannig að ný borgarstjórn geti strax hafist handa við að útrýma fátækt barna í Reykjavík.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með með öllum greiddum atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að beina því til Orkuveitu Reykjavíkur að vinna varaáætlun um orkuöflun og orkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar. Áætlunin taki til ólíkra sviðsmynda varðandi þá stöðu sem upp kann að koma, gangi áætlanir um tengingu borhola í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun ekki eftir.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 15.03 tekur Áslaug María Friðriksdóttir sæti á fundinum.
Samþykkt með 14 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Tenging borholanna í Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjum getur vel orðið til þess að virkjunin standi undir þeirri 303 MW raforkuframleiðslu sem henni er ætlað til langrar framtíðar. Um það hefur þó enginn fullyrt, enda væri það óábyrgt. Jarðvarmavirkjanir eru ýmsum duttlungum háðar og reynslan hefur sýnt að fjöldi fyrirséðra og ófyrirséðra vandamála fylgir rekstri þeirra. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa í þágu almennings og umhverfis í nútíð og framtíð að gerð verði varaáætlun um viðbrögð ef tengingin skilar ekki áætluðum árangri. Allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir til að hægt sé að gera kröfu um gerð varaáætlunarinnar: Það er staðreynd að ekki er víst að tengingin skili árangri og jafnframt að það er engin varáætlun í gangi. Það sætir því furðu að meirihlutinn skuli ekki treysta sér til að samþykkja tillöguna, heldur vísi henni til borgarráðs til frekari umfjöllunar. Borgarstjórn Reykjavíkur ber pólitíska og lýðræðislega ábyrgð á rekstri Orkuveitunnar og henni ber að gera kröfur um fyllstu varúð í allri starfsemi fyrirtækisins. Það er synd að borgarfulltrúar annarra flokka treysti sér ekki til að axla þá sjálfsögðu ábyrgð nú þegar.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar telja farsælast að fá stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur til að gera grein fyrir því í borgarráði hvernig bregðast megi við þeirri stöðu að ónóg orka verði til staðar fyrir Hellisheiðarvirkjun, umfram þær ráðstafanir sem þegar hafa verið ákveðnar. Í framhaldi af því er svo eðlilegt að taka ákvörðun um það hvort og þá hvernig skuli standa að gerð varaáætlunar um orkuöflun og orkuframleiðslu.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
Borgarstjórn skorar á heilbrigðisráðherra að standa án tafar við viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis með 88 hjúkrunarrýmum við Sléttuveg.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan samþykkt með 15 atkvæðum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Borgarstjórn Reykjavíkur felur borgarstjóra að óska eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi.
- Kl. 16.18 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Eva H. Baldursdóttir víkur af fundi.
- Kl. 16.30 tekur Páll Hjaltason sæti á fundinum og Eva Einarsdóttir víkur af fundi.
Samþykkt með 10 atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar að borgarstjórn hefði átt að samþykkja fyrirliggjandi tillögu í stað þess að vísa henni til borgarráðs. Í umræðum á fundinum hefur komið fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Ómálefnalegt er að stilla málum upp með þeim hætti eins og talsmenn borgarstjórnarmeirihlutans hafa gert að þeir, sem styðja framkvæmdir á gatnakerfinu í þágu umferðaröryggis séu á móti eflingu reiðhjólaumferðar eða almenningssamgangna. Sem fyrr styður Sjálfstæðisflokkurinn að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað er að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Í 5. tölulið 11. greinar sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fjöldi aðalmanna í sveitarstjórn skuli vera 23-31 í sveitarfélagi með fleiri en 100.000 íbúa. Umrætt ákvæði, sem taka á gildi í síðasta lagi í lok næsta kjörtímabils borgarstjórnar, leggur þær skyldur á herðar Reykjavíkurborgar að fjölga kjörnum borgarfulltrúum um 53-107%. Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að endurskoða umrætt lagaákvæði í því skyni að borgarstjórn hafi sjálfdæmi um hvort borgarfulltrúum verði fjölgað eða ekki.
Samþykkt með 9 atkvæðum að vísa tillögunni til forsætisnefndar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fyrirliggjandi tillögu hefði átt að bera upp til atkvæða á fundinum í stað þess að vísa henni inn í nefndakerfi borgarinnar. Greinilegt er að borgarfulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins/Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna líta sem fyrr með velþóknun til þess að borgarfulltrúum í Reykjavík verði fjölgað úr fimmtán í 23-31 eða um 53-107%. Kostnaðaraukning vegna slíkrar fjölgunar gæti numið hundruðum milljóna króna á ársgrundvelli.
Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn samþykkti samhljóða í febrúar sl. óbreyttan fjölda borgarfulltrúa til ársins 2018. Engin afstaða hefur verið tekin til ákvæða laga um fjölgun borgarfulltrúa á vettvangi borgarstjórnar og telur meirihlutinn rétt að það bíði nýrrar borgarstjórnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara þó óvenjulegu leið að gera öðrum upp skoðanir í bókun sinni. Færi betur á því að þeir létu duga að bóka eigin afstöðu.
6. Fram fer umræða um stöðuna á leigumarkaði í Reykjavík.
7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 2. maí.
- 31. liður fundargerðarinnar; tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun vegna nýgerðra kjarasamninga, er samþykktur með 15 atkvæðum.
- 41. liður fundargerðarinnar; borgarstjórnarkosningar 2014 – umboð til borgarráðs, er samþykktur með 15 atkvæðum.
8. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. apríl, menningar- og ferðamálaráðs frá 14. og 28. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. og 30. apríl og velferðarráðs frá 30. apríl.
Fundi slitið kl. 19.38
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
Elsa Yeoman
Einar Örn Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 06.05.2014 - prentvæn útgáfa