Borgarstjórn - 6.1.2009

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2009, þriðjudaginn 6. janúar, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Svandís Svavarsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson, Björk Vilhelmsdóttir, Oddný Sturludóttir, Dagur B. Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Óskar Bergsson og Jórunn Frímannsdóttir.

Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Fjárhagsáætlun 2009; síðari umræða.

Lagt fram að nýju frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 ásamt greinargerð, starfsáætlunum og greinargerðum fagsviða, miðlægrar stjórnsýslu, B-hluta fyrirtækja og fjármálaskrifstofu. Jafnframt lagðir fram eftirtaldir liðir úr fundargerð borgarráðs frá 5. janúar: 11. liður, viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega; 16. liður, breytingatillögur borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun, merktar BDSV01-11 og BD01-05, og tillögur borgarstjóra að leiðréttingum á frumvarpi að fjárhagsáætlun; 17. liður, tillögur borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunar; og 18. liður, breytingatillögur Ólafs F. Magnússonar við frumvarp að fjárhagsáætlun.

- Kl. 14.20 víkur Þorleifur Gunnlaugsson af fundi og Sóley Tómasdóttir tekur þar sæti.

- Kl. 15.28 tekur Þorleifur Gunnlaugsson sæti á fundinum og Sóley Tómasdóttir víkur af fundi.

- Kl. 17.15 víkur Svandís Svavarsdóttir af fundi og Hermann Valsson tekur þar sæti.

- Kl. 17.50 tekur Svandís Svavarsdóttir sæti á fundinum og Hermann Valsson víkur af fundi.

- Kl. 18.17 er gert hlé á fundi.

- Kl. 18.55 er fundi fram haldið.

- Kl. 20.40 víkur Þorleifur Gunnlaugsson af fundi og Sóley Tómasdóttir tekur þar sæti. Jafnframt víkur Dagur B. Eggertsson af fundi og Dofri Hermannsson tekur þar sæti.

- Kl. 21.00 víkur Jórunn Frímannsdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

- Kl. 22.40 víkur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi og Ragnar Sær Ragnarsson tekur þar sæti.

- Kl. 23.20 tekur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum og Ragnar Sær Ragnarsson víkur af fundi.

- Kl. 23.50 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Áslaug Friðriksdóttir tekur þar sæti.

- Kl. 00.18 víkur Sigrún Elsa Smáradóttir af fundi og Stefán Jóhann Stefánsson tekur þar sæti.

- Kl. 00.30 víkur Svandís Svavarsdóttir af fundi og Hermann Valsson tekur þar sæti.

- Kl. 01.00 tekur Svandís Svavarsdóttir sæti á fundinum og Hermann Valsson víkur af fundi. Jafnframt víkur Kjartan Magnússon af fundi og Ragnar Sær Ragnarsson tekur þar sæti.

- Kl. 01.18 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Ragnar Sær Ragnarsson víkur af fundi. Jafnframt tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Oddný Sturludóttir víkur af fundi.

- Kl. 01.50 víkur Sóley Tómasdóttir af fundi og Hermann Valsson tekur þar sæti.

Ekki eru gerðar tillögur um aðrar breytingar á frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 en að framan greinir.

Tekinn er til afgreiðslu 11. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar, viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega.

Breytingatillaga Ólafs F. Magnússonar felld með 8 atkvæðum gegn 1.

Tillaga borgarstjóra að viðmiðunartekjum til lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

Er þá gengið til atkvæða um þær breytingatillögur við frumvarp að fjárhagsáætlun ársins 2009 sem fyrir liggja, sbr. 16. og 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar.

Tillögur borgarstjóra að leiðréttingum á frumvarpi að fjárhagsáætlun ársins 2009, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar, III. undirliður, samþykktar með 8 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-01 varðandi frístundaklúbba 10-12 ára barna, samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-02 varðandi greiningu á sóknarfærum í ferðamannaþjónustu, samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-03 varðandi skólamáltíðir, samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-04 varðandi innri leigu vegna framhaldsskóla, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-11 varðandi innri leigu eignasjóðs vegna framhaldsskóla, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga Ólafs F. Magnússonar, merkt ÓFM-02 varðandi unglingasmiðjurnar Stíg og Tröð, felld með 8 atkvæðum gegn 1.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-05 varðandi unglingasmiðjur, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-06 varðandi hverfisráð, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-07 varðandi Nýsköpunarsjóð námsmanna, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-08 varðandi styrki borgarráðs, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-09 varðandi liðinn ófyrirséð útgjöld, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna merkt BDSV-10 varðandi stofnframlag til framhaldsskóla, samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, merkt BD-01 varðandi gerð styttu af Tómasi Guðmundssyni, samþykkt með 8 atkvæðum gegn 4.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, merkt BD-02 varðandi menningarminjar við Grímsstaðavör, samþykkt með 10 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, merkt BD-03 varðandi styrki menntaráðs, samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, merkt BD-04 varðandi framlag til stefnumótunar í menntamálum, samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, merkt BD-05 varðandi liðinn ófyrirséð útgjöld, samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.

Breytingatillaga Ólafs F. Magnússonar, merkt ÓFM-01 varðandi niðurfellingu fargjalda í Strætó bs., felld með 8 atkvæðum gegn 1.

Þá eru teknar til afgreiðslu tillögur borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunar, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, merkt SV-01 varðandi launajöfnuð, til meðferðar borgarstjóra og aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, merkt SV-02 varðandi samráð, til meðferðar borgarstjóra og aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, merkt SV-03 varðandi forgangsröðum framkvæmda, til borgarráðs og aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, merkt SV-04 varðandi aðgerðir í atvinnumálum og félagslegan kostnað atvinnuleysis, til aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar og starfshóps borgarráðs um viðbrögð við atvinnuleysi.

Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, merkt SV-05 varðandi hagræðingu í húsnæðismálum, til meðferðar borgarstjóra og aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar.

Þá er gengið til atkvæða um frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 með áorðnum breytingum.

Hér á að vera atkvæðagreiðsla fjárhagsáætlunar, sem er í töfluformi og sést í pdf-skjalinu, hér við hliðina.

Borgarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fjárhagsáætlun ársins 2009 endurspeglar ábyrgð í rekstri Reykjavíkurborgar við erfiðar aðstæður. Reykjavíkurborg fer ekki varhluta af breyttu efnahagsumhverfi í íslensku samfélagi en mætir þeirri stöðu með aðhaldi, hagræðingu og sparnaði og með því að standa vörð um grunnþjónustu, verðskrár og störf.

Með samstilltu átaki borgarfulltrúa, fulltrúa í ráðum og nefndum, stjórnenda, starfsmanna og þverpólitískri vinnu í aðgerðahópi borgarráðs er fjárhagsáætlun lögð fram í fullu samræmi við aðgerðaáætlun borgarstjórnar sem samþykkt var einróma síðasta haust. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að A-hlutinn verði rekinn hallalaus, útsvar verður óbreytt (13,03#PR) og fasteignaskattar verður ekki hækkaðir. Útgjöld til velferðarmála eru aukin. Hagrætt verður verulega í stjórnsýslunni og alls staðar þar sem því er hægt að koma við, án þess að skerða grunnþjónustu. Þetta er meðal annars gert með því að endurskoða öll rekstrarútgjöld, stórfelldu aðhaldi í innkaupum, endurskoðun samninga og með því að draga úr styrkveitingum. aun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda verða lækkuð um 10#PR og kostnaður vegna yfirvinnu endurskoðaður, samhliða því sem dregið verður úr nýráðningum.

Fjárhagsáætlun ársins 2009 endurspeglar ný vinnubrögð og stóraukna samvinnu borgarfulltrúa meirihlutans og minnihlutans, sem er mikilvægt við þessar aðstæður. Til marks um það eru flestar breytingatillögur milli umræðna fluttar sameiginlega af fulltrúum meirihluta og minnihluta. Þessi nýju vinnubrögð við fjárhagsáætlunargerðina hafa reynst farsæl og eru vonandi komin til að vera á vettvangi borgarstjórnar, enda fela þau í sér nýjar lausnir og aukna sátt um mikilvæg verkefni í þágu borgarbúa.

Vegna sérstakra aðstæðna í íslensku efnahagsumhverfi verður eftirlit með fjárhagsáætlun meira en vanalega, auk þess sem áætlunin verður endurskoðuð og rædd aftur á vettvangi borgarstjórnar í mars. Sú vinna sem framundan er mun áfram verða unnin af ábyrgð og festu til að tryggja að Reykjavíkurborg verði hér eftir sem hingað til borg tækifæra, velferðar og lífsgæða.

Borgarfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar ítrekar fyrirvara sína við óútfærðan 2,4 milljarða króna niðurskurð á launum, þjónustu og starfsemi borgarstofnana sem borgarstjóri lagði til á lokaspretti undirbúnings að fjárhagsáætlun ársins 2009. Sú óvissa sem af þessu leiðir skapar erfið starfsskilyrði fyrir öll svið borgarrekstrarins. Samfylkingin dregur raunhæfni þess að ná öllum þessum niðurskurði fram í efa, án þess að ganga gegn þeim skýru yfirlýsingum sem ítrekað hafa verið gefnar um að standa vörð um grunnþjónustuna, koma í veg fyrir uppsagnir og gjaldskrárhækkanir. Líklegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn sé fyrst og fremst að ýta á undan sér erfiðum ákvörðunum sem engin sátt verður um. Hækkun útsvars er augljóslega viðkvæmt mál innan meirihlutans sem virðist kjósa frekar að reka borgarsjóð með fyrirsjáanlegum halla og meðfylgjandi lántökum og fjármagnskostnaði.

Við útfærslu viðbótarniðurskurðarins leggur Samfylkingin þunga áherslu á að sérstakt tillit verði tekið til starfsfólks Reykjavíkurborgar sem er með heildarlaun undir 300.000 kr. á mánuði. Þannig að það verði alla jafna undanskilið þeim stórfellda niðurskurði á yfirvinnugreiðslum sem fyrirhugaður er. Vill Samfylkingin jafnframt ítreka það og aðrar sameiginlegar tillögur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um launajöfnuð, nauðsynlegt samráð við stéttarfélög, starfsfólk, samstarfsaðila og þjónustuþega, aðgerðir í atvinnumálum, uppstokkun framkvæmdaáætlunar og hagræðingu í húsnæðismálum, sem lagðar voru fram við afgreiðslu áætlunarinnar og var vísað til frekari úrvinnslu.

Málflutningur, barátta og bókanir fulltrúa Samfylkingarinnar og annarra fulltrúa minnihlutans í ráðum og nefndum borgarinnar hafa leitt til þess að drög að fjárhagsáætlun tók breytingum til hins betra. Því ber að fagna. Hæst ber að í kjölfar rökstuddrar gagnrýni fékkst eftirfarandi fram:

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verður hækkuð um 16,35#PR- og kemur hækkun útgjalda til fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta ekki til lækkunar á fjárhagslegu svigrúmi velferðarsviðs.

- Heimildagreiðslur vegna barna hækka um sama hlutfall.

- Starfsemi unglingaathvarfa á Stíg og Tröð verður tryggð fyrri hluta árs á meðan unnar verða tillögur að framtíðarskipulagi starfseminnar.

- Þjónustusamningar Kvennaathvarfs, Stígamóta og Rauða krossins fá sérstakar álagsgreiðslur vegna ástands efnahagsmála.

- Framlög til framkvæmda við ferlimál fatlaðra verða hækkuð um 10 milljónir.

- Dregið verður úr niðurskurði til tónlistarskóla um 50 milljónir, sem er fagnaðarefni þótt niðurskurðurinn sé enn áhyggjuefni.

- Stefnt er að því að hámarksfjárhæð skólamáltíða verði 250 krónur og endurgjaldslaust verði fyrir þriðja systkini.

- Framlög til atvinnumála ungs fólks verða hækkuð um 50 milljónir í stað þess niðurskurðar sem ráðgerður var.

- Nýsköpunarsjóður námsmanna verður hækkaður úr 12 milljónum í 20 milljónir í stað þess að vera skorinn niður í 0 kr.

- Forvarna- og framfarasjóður verður 50 milljónir í stað þess að vera lagður af eins og upphafleg drög gerðu ráð fyrir.

Jafnágæt og samstaða um ofangreindar viðbætur er verður að telja sorglegt að meirihlutinn skuli halda dauðahaldi í ráðagerðir um pólitísk gæluverkefni eins og myndastyttugerð á komandi ári. Óskiljanlegt er hvernig það getur samræmst því meginverkefni að laða starfsfólk og borgarbúa til sátta og samstarfs um að draga saman og skera niður í mikilvægri starfsemi, verkefnum og launum. Á ögurstundu eiga duttlungar stjórnamálamanna ekki að þvælast fyrir því sem þarf til að standa vörð um mikilvæga grunnþjónustu.

Borgarfulltrúar Vinstri grænna óska bókað:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 er lögð fram hér við afar sérstakar aðstæður. Hún hefur verið unnin með nýstárlegum hætti, og einkennist af þrengri efnahag en sést hefur um langt skeið. Áætlunin byggir í meginatriðum á aðgerðaáætlun sem var samþykkt þegar í haust þar sem var sammælst um tilteknar meginreglur, að standa vörð um störfin, hækka ekki gjaldskrár og verja grunnþjónustuna.

Á þeim sviðum þar sem minnihlutinn hefur komið með virkum hætti að gerð fjárhagsáætlunarinnar sjást þess skýr merki. Eins hefur verið samþykktur fjöldi breytingatillagna þar sem full samstaða er í aðgerðahópnum og ber að þakka fulltrúum hans lokasprettinn, þar sem mikill vilji var til að koma til móts við þau sjónarmið sem helst höfðu verið uppi í vinnunni. Þessi staðreynd er afar mikilvæg fyrir það yfirbragð sem er á niðurstöðunni.

Þau atriði sem bera hæst í þeim árangri sem náðist í þeim málefnum sem Vinstri græn og aðrir fulltrúar minnihlutans náðu á lokasprettinum eru eftirfarandi:

- Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verður hækkuð um 16,35#PR - og kemur hækkun útgjalda til fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta ekki til lækkunar á fjárhagslegu svigrúmi velferðarsviðs. Liðurinn verður bundinn.

- Heimildagreiðslur vegna barna hækka um sama hlutfall. Sá liður verður jafnframt bundinn.

- Starfsemi unglingaathvarfa á Stíg og Tröð verður tryggð óbreytt fyrri hluta árs á meðan unnar verða tillögur að framtíðarskipulagi starfseminnar.

- Þjónustusamningar Kvennaathvarfs, Stígamóta og Rauða krossins fá sérstakar álagsgreiðslur vegna ástands efnahagsmála.

- Framlög til framkvæmda við ferlimál fatlaðra voru hækkuð um 10 milljónir.

- Dregið var úr niðurskurði til tónlistarskóla um 50 milljónir, sem er fagnaðarefni þótt niðurskurðurinn sé enn áhyggjuefni.

- Stefnt er að því að hámarksfjárhæð skólamáltíða verði 250 krónur og endurgjaldslaust verði fyrir þriðja systkini.

- Framlög til atvinnumála ungs fólks voru hækkuð um 50 milljónir í stað þess niðurskurðar sem ráðgerður var.

- Framlög til frístundastarfs fyrir börn í 5.-7. bekk voru hækkuð um 10 milljónir.

- Samþykkt var við gerð fjárhagsáætlunar ÍTR að frístundaheimilin yrðu fullgildur aðili að frístundakortinu.

- Framlag til frístundaheimila á heilsársgrunni er 35 milljónir.

- Framlag til atvinnumála ungs fólks voru hækkuð um 50 milljónir.

- Fjöldi barna á hvern starfsmann í frístundaheimilum helst óbreyttur, en til stóð að fjölga þeim úr 12 í 13.

Borgarfulltrúar Vinstri grænna geta þó ekki samþykkt fjárhagsáætlunina í heild sinni, enda er hún byggð á grunnforsendum sem ekki geta talist ásættanlegar. Tvennt ber þar hæst, áhersla meirihlutans á hallalausan rekstur og ákvörðun um að nýta ekki lagaheimild til útsvarshækkunar.

Hallalaus rekstur borgarsjóðs í árferði sem þessu er með öllu óraunhæfur. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 2,5 milljarða króna óskilgreindri hagræðingu. Þessum niðurskurði verður ekki náð án þess að farið verði á svig við meginreglur aðgerðaáætlunarinnar. Vinstri græn telja nauðsynlegt að borgarsjóður verði rekinn með halla á árunum 2009 og 2010, en á sama tíma verði unnin sérstök áætlun um hvernig sá halli verði greiddur til baka.

Jafnframt er það átalið að meirihlutinn nýti ekki heimild til útsvarshækkunar. Þess var ekki freistað að ræða þann ágreining fram til niðurstöðu heldur lá það einfaldlega fyrir af hendi meirihlutans að þessar 680 milljónir í tekjur yrðu ekki nýttar. Tillaga Vinstri grænna um að nýta heimildina til fulls var felld á síðasta borgarstjórnarfundi, af flokkum sem gera ráð fyrir 2,5 milljarða króna óskilgreindri hagræðingu inn á árið 2009. Þarna skipar Reykjavíkurborg sér í sveit með sveitarfélögum þar sem gróin hægri pólitík hefur ráðið ríkjum um árabil.

Þótt ekki náist samstaða um fjárhagsáætlunina í heild, er hún til marks um að samráð meiri- og minnihluta getur skilað árangri í þágu borgarbúa. Fyrir liggur samt sem áður að vandasöm verkefni eru næst á dagskrá bæði að því er varðar launahagræðingu og annan niðurskurð en jafnframt endurskoðun áætlunarinnar þegar í marsmánuði. Vinstri græn munu koma að þeirri vinnu hér eftir sem hingað til þar sem það er okkar einlægur vilji að koma okkar áherslum á framfæri í þágu borgarbúa.

- Kl. 02.17 tekur Sóley Tómasdóttir sæti á fundinum og Hermann Valsson víkur af fundi.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur 21. október sl. lagði undirritaður fram svohljóðandi bókun:

„Forgangsröðun í þágu velferðarþjónustu og starfsemi borgarinnar, frestun ýmissa framkvæmda ásamt styrkri og aðhaldssamri fjármálastjórn hefur verið boðuð af undirrituðum frá upphafi þessa árs. Sú forgangsröðun hefur mætt litlum skilningi hjá borgarfulltrúum annarra flokka þar til nú, þegar afleiðingar einkavinavæðingar og fjármálaóstjórnar gömlu ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, blasa við. Sú aðgerðaáætlun sem nú hefur verið samþykkt í borgarstjórn er í raun staðfesting á því sem lagt var upp með í tíð síðasta meirihluta, þ.e. forgangsröðun í þágu velferðarþjónustu og starfsemi Reykjavíkurborgar og fólksins í borginni. Aðstæður eru hins vegar orðnar þannig að áður áformuð fjárfestingaævintýri ýmissa borgarfulltrúa í nýjum meirihluta geta ekki orðið að veruleika. Helstu embættismenn sem vinna að fjármálum borgarinnar bentu á það þegar í upphafi árs að af slíkum fjárfestingaævintýrum gæti ekki orðið og þörf væri á ítrasta aðhaldi í fjármálastjórn borgarinnar. Jafnframt hefur undirritaður beitt sér fyrir því að dregið væri úr yfirbyggingu í stjórnkerfi borgarinnar og að dregið væri úr ferða-, dagpeninga-, risnu- og veislukostnaði en mikið hefur vantað á að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru tilbúnir í þá vegferð. Loks skal bent á að núverandi meirihluti hóf sitt samstarf með því að fresta borgarráðsfundi vegna ferðalaga helstu lykilmanna í borgarráði. Nú fyrst er verið að snúa við blaðinu og því ber að fagna. Ég segi því loksins, loksins.“

Full ástæða er til að hnykkja á þessari bókun nú um leið og harmað er að tillögur mínar eru felldar um frítt í Strætó og hækkun tekjumarka vegna niðurfellingar fasteignagjalda ellilífeyris- og örorkuþega, auk tillögu sem beint er gegn niðurskurði í þjónustu unglingasmiðjanna Traðar og Stígs. Sú staðreynd ber vitni um að F-listinn er í fararbroddi innan borgarstjórnar vegna verndunar velferðarkerfisins í borginni. Jafnframt vísar undirritaður í svohljóðandi bókun í borgarráði frá 18. des. 2008, þar sem mótmælt er ólýðræðislegum vinnubrögðum meirihlutans með fulltingi borgarfulltrúa VG og Samfylkingar:

„Undirritaður mótmælir harðlega þeim ólýðræðislegu og óvönduðu vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð við undirbúning fjárhagsáætlunar. Borgarráð er framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar og á sem slíkt að undirbúa fjárhagsáætlun enda hefur verið svo um langt árabil. Þessi hefð hefur nú verið rofin og meirihlutafulltrúarnir í borgarstjórn hafa, með vitund og vilja borgarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, hunsað aðkomu borgarráðs og þar með aðkomu allra framboða í borginni að þessari þýðingarmiklu vinnu. Sú staðreynd að undirrituðum, sem fyrrverandi borgarstjóra hefur verið haldið utan við undirbúning fjárhagsáætlunar er skaðleg fyrir borgarbúa. Undirritaður vann ötullega að fjámálastjórn borgarinnar í borgarstjóratíð sinni. Eini borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem gaf sér tíma til að vinna með undirrituðum að fjármálum borgarinnar var þáverandi formaður borgarráðs, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sinntu þeirri vinnu einfaldlega ekki. Borgarfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna voru á þeim tíma uppteknir við pólitískan skæruhernað gegn meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar. Svo virðist sem borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafi lagt niður rófuna við síðustu meirihlutaskipti og ákveðið að vinna alfarið með nýjum meirihluta gegn því að fá dúsur í starfshópum hjá meirihlutanum. Raunar mætti orða þetta þannig að flestir borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilji „alcoa” með meirihlutanum.“

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. janúar.

9. liður fundargerðarinnar, þjónustusamningur heilbrigðisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um tilraunaverkefni um rekstur heimahjúkrunar til þriggja ára, samþykktur með 14 samhljóða atkvæðum.

3. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. og 17. desember, framkvæmda- og eignaráðs frá 18. desember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. og 17. desember, leikskólaráðs frá 16. desember, mannréttindaráðs frá 10., 16. og 22. desember, menningar- og ferðamálaráðs frá 11. og 16. desember, menntaráðs frá 16. og 19. desember, skipulagsráðs frá 17. desember, umhverfis- og samgönguráðs frá 9. desember, og velferðarráðs frá 12., 16. og 23. desember.

Fundi slitið kl. 02.23

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Björk Vilhelmsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir