No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2022, þriðjudaginn 5. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragna Sigurðardóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Ólafur Kr. Guðmundsson og Sabine Leskopf.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar minntist borgarstjóri þeirra Öddu Báru Sigfúsdóttur, Guðrúnar Helgadóttur og Elínar Pálmadóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa.
1. Lögð fram atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. mars sl. MSS22010337
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í nýrri atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur til 2030 eru sex kjarnaáherslur. Gott samtal á milli borgar og atvinnulífs. Blómstrandi atvinnulíf og nýsköpun innan borgarinnar. Að Reykjavík hvetji til nýrra stoða verðmætasköpunar. Að kynna atvinnulíf og nýsköpun í borginni, bæði innan lands og utan. Grænn vöxtur atvinnulífs í borginni. Og áhersla á að fagna fjölbreytileikanum í samfélaginu með því að virkja hæfileika allra og tryggja mannréttindi á vinnumarkaði. Er þetta jafnframt fyrsta nýsköpunarstefna borgarinnar. Stefnan var unnin út frá umfangsmiklu samráðsferli og í góðu samstarfi fulltrúa borgarstjórnar, atvinnulífs og nýsköpunarumhverfisins með það að markmiði að leggja til framtíðarsýn fyrir atvinnugreinar, atvinnuhætti og nýsköpunarumhverfi Reykjavíkurborgar. Reykjavík hefur alla burði til þess að bjóða upp á alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi fyrir skapandi atvinnulíf, menningu og nýsköpun. Nýjar áherslur í atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar munu hjálpa okkur að búa til frjóan farveg þar sem ólíkir straumar sameinast og laða til sín hugmyndaríkt og atorkusamt fólk. Markmið borgarinnar er að gera Reykjavík að framúrskarandi vettvangi fyrir kröftugt grænt atvinnulíf og framtakssemi. Reykjavíkurborg vill ýta undir fjölbreytta atvinnuþróun og þar með styrkja hlutverk sitt sem höfuðborg Íslands og forystuafl. Við viljum að Reykjavík sé alþjóðlega viðurkennd sem miðstöð sköpunargleði, menningar og nýsköpunar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að skapa umhverfi þannig að gott sé að vinna hér í borginni og að nýsköpun geti þrifist hér þar sem fólk hefur gott umhverfi til að vinna með sínar hugmyndir. Þegar fjallað er um atvinnulíf er mikilvægt að líta til þarfa starfsfólks til að geta búið hér við góð starfsskilyrði. Þar telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að líta til þátta sem þarf að ávarpa líkt og keðjuábyrgð, launastefnu og mismunandi starfsaðstæður líkt og harkhagkerfi (e. gig economy). Mikilvægt er að nýsköpunarmöguleikar borgarbúa verði studdir, t.a.m. á grundvelli samvinnufélaga.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Atvinnu- og nýsköpunarstefna þarf að rúma allt fólk án tillits til aldurs, menntunar, reynslu og fötlunar. Við erum fjölmenningarsamfélag. Tæknibylting er boðin velkomin en tækni kemur aldrei í staðinn fyrir mannlega hugsun og tilfinningar. Tækni er aðeins hjálpartæki í þjónustu mannsins. Stefnan sem hér er lögð fram er í raun stefna um stafræna umbreytingu en minna fer fyrir „atvinnumálum“. Ekki er lögð mikil áhersla á atvinnustoðir í öllum hverfum og almennt er ímynd borgarinnar óljós þegar kemur að atvinnumálum. Fram hefur komið að þetta er með ráðum gert. Ekki er fjallað um kolefnisspor og vaxandi ójöfnuð og fátækt. Megininntak skjalsins er lýsing á kostnaðarsömum tilraunum, þróun og uppgötvun á stafrænum lausnum, fjölmörgum sem hafa aðeins skemmtana- og afþreyingargildi. Ítrekað kemur fram að „það sé í lagi að gera tilraunir og prófa sig áfram með alls konar“. Það er eins það gleymist að verið er að sýsla með útsvarfé borgarbúa. Það er eins og að Reykjavíkurborg sé að stofna sitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki og vilji vera á alþjóðamarkaði. Flokkur fólksins hefur kvartað yfir því að nauðsynlegar stafrænar lausnir voru ekki settar í forgang. Mikið álag er á starfsfólki vegna vöntunar á virkum nauðsynlegum rafrænum lausnum. Flokkur fólksins situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
- Kl. 15:00 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti.
2. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn ályktar að hvetja Orkuveitu Reykjavíkur til að kanna til hlítar virkjanamöguleika á starfssvæði OR. Í þessu samhengi má nefna starfssvæði OR á Hellisheiði, Borgarfirði, Ölfusi og víðar. Orkuveita Reykjavíkur er einn stærsti raforkuframleiðandi landsins og býr yfir sjálfbærum grænum orkuauðlindum sem unnt er að nýta betur. Í dag er orkuskortur á Íslandi og hefur þurft að skammta raforku víða um land. Framundan eru orkuskipti sem kalla á mun meiri raforkuframleiðslu auk þess sem bætt orkuöryggi er enn brýnna í ljósi alþjóðamála. OR getur gegnt mikilvægu hlutverki í að auka raforkuframleiðslu og bæta þannig raforkuöryggi allra landsmanna. Orkuverð hefur hækkað gríðarlega undanfarið í heiminum öllum og þar er Ísland ekki undanskilið. Ísland kaupir bensín og olíu fyrir meira en eitt hundrað milljarða á ári hverju. Hærra orkuverð leiðir til kaupmáttarrýrnunar og er Ísland í einstöku færi á að fara í orkuskiptin þar sem við höfum greiðan aðgang að grænum orkugjöfum í formi jarðhita og vatnsafls. MSS22040080
Vísað til meðferðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sendi skýr skilaboð til Orkuveitu Reykjavíkur um að kanna til hlítar virkjanamöguleika á starfssvæði OR, enda er fyrirtækið að mestu í eigu borgarinnar. Í þessu samhengi má nefna starfssvæði OR á Hellisheiði, Borgarfirði, Ölfusi og víðar. Orkuveita Reykjavíkur er einn stærsti raforkuframleiðandi landsins og býr yfir sjálfbærum grænum orkuauðlindum sem unnt er að nýta betur. Í dag er orkuskortur á Íslandi og hefur þurft að skammta raforku víða um land. Framundan eru orkuskipti sem kalla á mun meiri raforkuframleiðslu auk þess sem bætt orkuöryggi er enn brýnna í ljósi alþjóðamála. OR getur gegnt mikilvægu hlutverki í að auka raforkuframleiðslu og bæta þannig raforkuöryggi allra landsmanna. Orkuverð hefur hækkað gríðarlega undanfarið í heiminum öllum og þar er Ísland ekki undanskilið. Ísland kaupir bensín og olíu fyrir meira en eitt hundrað milljarða á ári. Hærra orkuverð leiðir til kaupmáttarrýrnunar og er Ísland í einstöku færi á að fara í orkuskiptin þar sem við höfum greiðan aðgang að grænum orkugjöfum í formi jarðhita og vatnsafls.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að nota þá orku sem hægt er að ná í í náttúru landsins ef ekki er gengið á aðra þætti svo sem önnur mikilvæg náttúrugæði. Hæpið er að lækka megi orkukostnað með því að ganga að grænum orkugjöfum í formi jarðhita og vatnsafls. Benda þarf á að ef rafmagni er breytt í rafeldsneyti er orkunýtingin innan við 20% og verðið mun taka mið af því. Væri ekki rétt að byrja á að nota það vistvæna eldsneyti, afurð sem Reykjavíkurborg/SORPA framleiðir, sem nú er brennt á báli, metanið?
- Kl. 15:45 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Valgerður Árnadóttir tekur sæti með rafrænum hætti. Einnig tekur Jórunn Pála Jónasdóttir sæti á fundinum að nýju og aftengist fjarfundabúnaði.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að endurnýja ekki samning Reykjavíkurborgar við innheimtufyrirtækin Momentum og Gjaldheimtuna sem rennur út í árslok 2022. Reykjavíkurborg samþykkir einnig að hætta notkun á starfsemi innheimtufyrirtækja í framhaldinu af því. Öll innheimta reikninga fari fram innan Reykjavíkurborgar þar sem áhersla verði lögð á lausnir sem henta borgarbúum í viðkvæmri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Frá og með 1. janúar 2023 fari öll innheimta fram innan Reykjavíkurborgar þar sem ekki er stuðst við utanaðkomandi fyrirtæki. Fjármála- og áhættustýringarsviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að undirbúa yfirfærslu verkefnisins yfir til Reykjavíkurborgar. Leitað verði til annarra sviða hjá borginni ef þörf þykir. Með Reykjavíkurborg er átt við sveitarfélagið Reykjavíkurborg og fyrirtæki og byggðasamlög í meirihlutaeigu þess. Lagt er til að fyrirtæki og byggðasamlög í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar sjái einnig um innheimtu reikninga innanhúss í stað þess að leita til utanaðkomandi fyrirtækja. Fjármála- og áhættustýringarsviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að leiða þá undirbúningsvinnu í samvinnu við fyrirtækin og byggðasamlögin.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22040081
- Kl. 16:16 víkur Björn Gíslason af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að endurskoða þarf reglur og gjaldskrá innheimtumála hjá Reykjavíkurborg. Í mörgum tilfellum er farið með mál í löginnheimtu með gríðarlega hærri kostnaði fyrir greiðendur. Í sumum tilfellum er um að ræða lágar fjárhæðir sem geta margfaldast í innheimtuferlinu. Í þeim tilfellum þar sem greiðandi hefur einfaldlega ekki möguleika á að greiða skuldina gagnast lítið að hún hækki verulega í innheimtuferlinu. Þetta þarf að lágmarka og gæta þess að sýna mildi í innheimtumálum hjá borginni og dótturfélögum hennar. Ekki er víst að ný innheimtudeild sem kæmi í stað útvistunar myndi bæta ástandið eða spara fé. Réttara er að endurskoða reglur borgarinnar og dótturfélaga hennar áður en farið er í ný útboð og samninga við innheimtufyrirtæki.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er vikið að máli sem borgarkerfið gæti vel sinnt, sérstaklega ef stafrænar lausnir hefðu verið þróaðar til að auðvelda verkið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það almennt mjög erfitt að hugsa til þess að sendar skuli vera innheimtukröfur til lögfræðinga vegna skuldar fólks sem upp til hópa hefur ekki nægt fjármagn milli handanna til að greiða fyrir nauðsynjar, t.d. sem tengjast börnum þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins vill að samið verði við fólk og í öllum tilfellum sé allt gert til að mæta erfiðri stöðu fólks sem býr við bág kjör. Sýna á sveigjanleika og umburðarlyndi og umfram allt manngæsku í málum af þessu tagi. Það er ekkert grín að vera svo illa staddur fjárhagslega að geta ekki greitt húsaleigu, skólamat fyrir barnið sitt eða frístund svo dæmi sé tekið. Í desember 2021 fékk fulltrúi Flokks fólksins svar við fyrirspurn um viðbrögð við vanskilum vegna áskrifta á skólamat. Fram kom þá að af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til Momentum og voru 1,5% ennþá ógreiddir þann 1. nóvember 2021. Það segir sig alveg sjálft að þarna er á ferð hópur foreldra sem nær engan veginn endum saman um mánaðamót. Við bætast svo dráttarvextir sem elta fátæka foreldra jafnvel ævilangt.
4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði og velferðarsviði að framkvæma úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla og til að bæta skólasókn. Vísbendingar eru um að hópur þeirra nemenda sem glíma við þennan vanda fari stækkandi. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Í kjölfarið var teymi um skólaforðun sett á laggirnar sem lagði m.a. til að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tímabært sé að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur/viðmiðunarkerfið um skólasókn hafi nýst til að fylgjast með fjölda mála er lúta að skólaforðun og til að bæta skólasókn. MSS22030023
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:16 víkur Pawel Bartoszek af fundinum og Geir Finnsson tekur sæti með rafrænum hætti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skólaforðun er grafalvarlegt mál. Málinu er vísað til skóla- og frístundaráðs og er það vel. Það er gott að búa til góðar viðmiðunarreglur en það þarf einnig að ganga úr skugga um að þær virki. Það er þess utan forvitnilegt að fá upplýsingar um hve margir skólar hafi stuðst við þær og hvort skólastjórnendum finnist þær gagnlegar eins og þær eru eða myndu vilja breyta þeim eitthvað. Vísbendingar eru um að skólaforðun fari vaxandi. Hér er framtíð barna í húfi, sjálfsvirðing þeirra og félagslegt sjálfstraust. Leiða má líkum að því að skólaforðun hafi aukist með COVID og fleiri börn bæst í þann hóp sem forðast skólann sinn vegna COVID og afleiðinga þess. Börn hafa verið meira heima undanfarin misseri vegna COVID, mörg meira við tölvu og eiga e.t.v. enn erfiðara með að fara aftur í rútínu. Mikilvægt er að standa vaktina í þessum málum enda fjölmörg mál það alvarleg að tilkynna þarf þau til Barnaverndar Reykjavíkur. Árið 2021 var 46 málum vísað til Barnaverndar vegna vanrækslu varðandi nám og 72 málum var vísað til Barnaverndar vegna þess að skólasókn var áfátt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Skólaforðun hefur verið talsvert til umfjöllunar á undanförnum misserum og veruleg vinna hefur verið lögð í að greina fyrirbærið og móta verklag um aðgerðir til að mæta og draga úr vandanum. Sú vinna skilaði ítarlegu verklagi árið 2019 sem unnið hefur verið eftir síðan. Talið er að góð vitneskja sé um verklagið í skólasamfélaginu og unnið sé eftir því. COVID faraldurinn hefur hins vegar tekið sviðið undanfarin tvö ár og því eðlilegt að skoða hvernig til hefur tekist við innleiðinguna og meta hvort þörf sé á sérstakri úttekt í því sambandi. Ljóst er að innleiðing samstarfsverkefnisins betri borg fyrir börn skapar grundvöll fyrir markvissari vinnubrögðum við greiningu og stuðning við börn í viðkvæmri stöðu sem allar líkur eru á að muni nýtast vel í þessu efni við að vinna gegn og lágmarka skólaforðun.
5. Fram fer umræða um vaxtagreiðslur Reykjavíkurborgar. MSS22040082
- Kl. 16:50 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Elín Jónsdóttir tekur sæti með rafrænum hætti. Einnig víkur Þordís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Frá árinu 2013 til ársloka 2021 hefur Reykjavíkurborg/A-hlutinn greitt tæplega 30,8 milljarða í vexti og verðbætur af skuldum og skuldbindingum. Samstæðan öll hefur á sama tíma greitt tæpa 95 milljarða. Að afloknu spátímabili til ársloka 2026 er áætlað að A-hlutinn hafi greitt rúma 59 milljarða í vexti og verðbætur og samstæðan öll 170 milljarða frá árinu 2013. Í árslok 2026 er áætlað að skuldir borgarsjóðs verði 240 milljarðar og að samstæðan öll skuldi um 480 milljarða gangi bjartsýnustu spár eftir.
6. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í skipulags- og samgönguráði. Lagt til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti Katrínar Atladóttur í ráðinu. MSS22020042
Samþykkt.
7. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í umhverfis- og heilbrigðisráði. Lagt til að Katrín Atladóttir taki sæti Jórunnar Pálu Jónasdóttur í ráðinu. MSS21120109
Samþykkt.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 17. mars. MSS22010003
8. liður fundargerðarinnar; græna planið – heildarstefna Reykjavíkur til 2030 og sóknaráætlun 2022-2023, er samþykktur. MSS22020278
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
14. liður fundargerðarinnar; borgarstjórnarkosningar 14. maí 2022 – kjörstaðir í Reykjavík, er samþykktur. MSS21110010
15. liður fundargerðarinnar; borgarstjórnarkosningar 14. maí 2022 – umboð til borgarráðs, er samþykktur. MSS21110010
16. liður fundargerðarinnar; borgarstjórnarkosningar 14. maí 2022 – þóknanir til kjörstjórna, er samþykktur. MSS21110010
Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 31. mars.
3. liður fundargerðarinnar; nýi Skerjafjörður – deiliskipulag, er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. MSS22030246
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
36. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022, er borinn upp í níu liðum: FAS22010035
1. Arnarskóli – fjölgun nemenda er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.
2. Saman gegn ofbeldi er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.
3. Kjaranefndarraðaðir stjórnendur – hækkun launa er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. Hækkun fjárheimilda til íbúaráða er samþykkt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.
5. Styrkur til Stockfish er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. Frestun á breytingum á gjaldskrá Veitna ohf. er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
7. Kjarasamningar FÍH og FT eru samþykktir. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins.
8. Ljósaverk eftir Ólaf Elíasson – styrkur er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
9. Lífeyris- og rekstrarskuldbindingar Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru samþykktar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
37. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2022, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22030040
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 31. mars:
Um er að ræða ýmsar breytingar vegna nýja Skerjafjarðar. Stærsta breytingin felst í því að hjúkrunarheimili á lóð 10 verður að almennu fjölbýlishúsi. Aðrar breytingar felast í uppskiptingu lóða, staðsetningu dreifistöðva, djúpgáma, tilfærslum á staðsetningum stíga og annað slíkt. Við styðjum nýja byggð í Skerjafirði sem fyrr og hlökkum til að sjá hana rísa.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 31. mars:
Fram hefur komið í fjölmiðlum að framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia hafi haft áhyggjur af uppbyggingunni í Skerjafirði og telur uppbygginguna þar hafa umtalsverð áhrif á rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. „Við höfum áhyggjur af þessu. Öll þétting byggðar í kringum flugvelli hefur áhrif á aðstæður á braut, á vindafar á braut,“ sagði framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla í fréttum Stöðvar 2, þann 3. janúar sl. Ennfremur kom fram í bréfi frá innviðaráðuneytinu, dags. 2. mars, til borgarinnar að það sé engum vafa undirorpið að hverskyns framkvæmdir eða aðrar aðgerðir af hálfu Reykjavíkurborgar sem skerða rekstraröryggi flugvallarins séu í andstöðu við 5. grein samkomulags sem gert var við borgina árið 2019. Innviðaráðuneytið hefur óskað eftir því að Reykjavíkurborg upplýsi með hvaða hætti borgin hyggist tryggja að framkvæmdir á svæðinu hafi hvorki áhrif á flugöryggi né rekstraröryggi vallarins. Þá stöðvi borgin allar slíkar framkvæmdir þar til staðfest sé að öryggi vallarins sé tryggt. Óskaði ráðuneytið fyrir hönd Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra eftir svari fyrir 25. mars sl. en borgin óskaði eftir fresti til 5. apríl til að svara bréfi ráðuneytisins en sá frestur rennur út í dag 5. apríl. Á fundinum var það upplýst að svarið frá borginni væri ekki enn tilbúið.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 31. mars:
Verið er að breyta deiliskipulagi í hinum svokallaða „nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati. Ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum og Isavia hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við uppbygginguna. Umferðarmál eru óleyst. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga í för með sér sem hlýst af stórum vörubílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Minnt er á að olíumengun er í jörð á þessu svæði og sú dælustöð sem nú er á svæðinu ræður ekki við hlutverk sitt og ljóst er að byggja þarf nýja. Engin áform hafa verið birt um hvar ný dælustöð á að vera og ljóst að málið er allt vanreifað, óskipulagt, illa unnið og er í andstöðu við samkomulag við ríkið eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar frá 17. mars:
Í kynningunni komu fram fjölmargar fullyrðingar sem eru hæpnar og sumar eru beinlínis rangar. Of mikið sjálfshól er ekki til bóta. Gagnrýnin hugsun þarf stundum að komast að. Efast má stórlega um eftirfarandi fullyrðingar ef horft er á aðgerðir meirihlutans síðustu ár: „Vel er farið með náttúruauðlindir, þjónustu vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni með sjálfbærri landnotkun“. Minnt er á að meirihlutinn felldi tillögu Flokks fólksins um að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli í samráði við nágrannasveitarfélög til að kolefnisjafna höfuðborgarsvæðið. Á því svæði eru Hólmsheiði, Mosfellsheiði, Nesjavallaleið en ekki Svínahraun né önnur nýrunnin friðuð hraun eins og borgarstjóri lét hafa eftir sér. Í Facebook-færslu hans mátti sjá að borgarstjóri kaus að misskilja tillöguna og ruglaði þessu svæði saman við svæðið milli Heiðmerkur og Bláfjalla. Og svo er sagt: Unnið verður að friðlýsingu svæða í Grafarvogi, Blikastaðakró og Skerjafirði en hið rétta er að verið er að eyðileggja fjörur í Skerjafirði og við Laugarnes. Viðaukar 37 sem eru tilfærslur í hinum ýmsum málaflokkum. Erfitt er að átta sig á hvort þessar tilfærslur séu af hinu góða, þess vegna situr fulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu liðarins.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. apríl, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. og 17. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. og 28. mars, skipulags- og samgönguráðs frá 23. og 30. mars, skóla- og frístundaráðs frá 11., 22. og 29. mars, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 16. og 30. mars og velferðarráðs frá 18. mars. MSS22010217
9. liður fundargerðar forsætisnefndar; síðari umræða um tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna umdæmisráðs barnaverndar og kjaranefndar. MSS21120197
Samþykkt.
10. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 19. apríl 2022 og boða aukafund borgarstjórnar þriðjudaginn 26. apríl 2022, er samþykkt. MSS22010060
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6., 9. og 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars og 8. og 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 29. mars:
Fundargerð skóla- og frístundaráðs 22. mars, liður 6: Ekki er vitað hvar 40 börn með lögheimili í Reykjavík eru með skólavist. Það er sláandi og er lögð áhersla á að fundið verði hið snarasta út hvar þessi börn eru niðurkomin og hvernig þau eru stödd. Liður 9: Fram kemur að verkefnið kveikjum neistann hafi fengið skoðun. Nýbreytni verkefnisins er fólgin í aukinni hreyfingu með hreyfitíma í upphafi dags og auknu vali í lok dags í list- og verkgreinum, eitthvað sem mætti vel taka upp í reykvískum grunnskólum. Liður 11: Innheimtur stafrænna lausna sem sviðið hefur kynnt eru frekar rýrar. Sagt er að nýja skjalastjórnunarkerfið „Hlaðan“ sé komið í fulla notkun. Var ekki verið að innleiða hana að hluta til fyrir fáeinum vikum á skrifstofu borgarstjórnar? Fundargerð skóla- og frístundaráðs 29. mars, liður 8: Rennt er blint í sjóinn á hverju ári með pláss. Ferlið er flókið, elstu börnin ganga fyrir, yngri mæta afgangi. Þessi árlega óvissa er erfið og eiginlega ólíðandi. Liður 9: Lág laun eru ein stærsta ástæða fyrir manneklu en einnig álag í starfi. Minnst er á nokkra þætti s.s. úrelta auglýsingaherferð og ruglingslega síðu sem auglýsir störf. Af úrræðum sem eru nefnd snúa fæst að starfsfólkinu sjálfu.
Fundi slitið kl. 18:25
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Alexandra Briem
Ellen Jaqueline Calmon Kolbrún Baldursdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.4.2022 - prentvæn útgáfa