Borgarstjórn - 4.6.2019

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2019, þriðjudaginn 4. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Pawel Bartoszek, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Egill Þór Jónsson, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Jórunn Pála Jónasdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn skorar á Alþingi að afnema einokun ríkisins á áfengissölu, ekki síst vegna þess að aukið frelsi í smásöluverslun með áfengi mun styðja við hverfisverslun og efla nærþjónustu í hverfum Reykjavíkur. Styður slík þróun við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi en verslun með áfengi í hverfisverslunum mun gera umhverfi daglegrar verslunar hverfisvæddara með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. R19060050

-    Kl. 17:45 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Ólafur Kr. Guðmundsson tekur sæti. 

Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni til umsagnar skipulags- og samgönguráðs, velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sjálfstæðisflokkurinn harmar afgreiðslu málsins. Um er að ræða einfalt prinsippmál um afnám á einokunarstöðu ríkisins á áfengismarkaði. Málið varðar Borgarstjórn Reykjavíkur enda mun aukið frelsi í smásölu með áfengi óhjákvæmilega styðja við markmið aðalskipulags um sjálfbær hverfi og tryggja að borgarbúar geti í auknum mæli sótt verslun innan hverfis, fótgangandi eða hjólandi. Málið varðar skipulag borgarinnar. Það varðar borgarhverfin, samgöngur og loftslagsmál. Besta og árangursríkasta leiðin til að vinna gegn óhóflegri neyslu áfengis er forvarnir, forvarnir en ekki forræðishyggja, enda hefur forvarnarstarf gefið verulega góða raun, sérstaklega á grunnskólastigi. Þó áfengissala færist til einkaaðila og meira inn í hverfin má setja einkaaðilum sanngjarnar skorður með vel útfærðri löggjöf. Vel má setja skilyrði um takmarkaðan afgreiðslutíma, tiltekið aldurstakmark, magn vínanda og áfram mætti telja. Öllum breytingum fylgir óvissa og almennt mæta breytingar andstöðu. Þeim sem tala fyrir breytingum í takt við breyttan tíðaranda er gjarnan mætt með úrtöluröddum og bölsýni. Það er nákvæmlega það sem gerðist þegar rætt var um afnám bjórbannsins eða þegar frelsi í útvarpssendingum var leitt í lög. Dómsdagsspár urðu þó aldrei að veruleika. Nýleg könnun MMR sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill geta keypt bjór og léttvín í matvöruverslunum. Fólk vill meira frelsi.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Að leyfa áfengissölu í smásölu hefur ekkert að gera með eflingu nærþjónustu í hverfum Reykjavíkur, styrkingar hverfaverslana, sjálfbær hverfi né gera daglega verslun hverfisvæddari með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Það þarf mikið ímyndunarafl til að blanda saman markmiði aðalskipulags Reykjavíkur og frekara frjálsu aðgengi að áfengi. Nú þegar eru útsölustaðir í Reykjavík í öllum hverfum borgarinnar. Áfengisverslanir eru í Austurstræti, Borgartúni, Stuðlahálsi, Skeifunni, Kringlunni, Skútuvogi, Stekkjarbakka og Spönginni og falla því vel inn í aðalskipulag Reykjavíkur. Að auki er áfengisverslun á Eiðistorgi sem heita má áfengisverslun Vesturbæjar. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar setti Miðflokkurinn málefni vímuefnaneyslu og afleiðingar hennar á oddinn. Við búum við höfuðborgarvandamál í þessum málaflokki og töluðum um að Reykjavíkurborg og velferðarsvið yrðu að viðurkenna aukin vandamál vegna vímuefnaneyslu og fjölgun heimilislausra af þeim sökum. Við fórum fram á að Reykjavíkurborg myndi óska eftir samstarfi við SÁÁ og aðra fagaðila í samráði við ríkið og önnur sveitarfélög til að sporna við vandamálum sem af neyslu leiða. Velferðarsvið þarf að koma á fót enn frekari virkniúrræðum fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð og stórauka forvarnir. Þessi tillaga á ekkert skylt við frelsi. Frelsi til áfengiskaupa er nú þegar til staðar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ástæða til að rugga bátnum að óþörfu þegar kemur að aðgengi að áfengi og vill því ekki styðja þessa tillögu enda ekki málefni borgarinnar. Borgarfulltrúi, eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi mál, telur að með þessari breytingu á fyrirkomulagi muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum og minnkandi unglingadrykkju vera stefnt í voða. Aukið aðgengi gæti leitt til aukinnar neyslu. Fyrir suma unglinga er áfengi fyrsta efni sem neytt er áður en farið er út í sterkari efni. Margir foreldrar eru uggandi um velferð barna sinna þegar kemur að vímuefnum og neyslu þeirra. Þessi mál eru í ágætum farvegi eins og þau eru og er því engin nauðsyn að hefja sölu áfengis í hverfisverslunum. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að við sem stjórnmálamenn sem eigum að vera góðar fyrirmyndir gætum okkar á því hvað við leggjum til er varðar mögulega heilsu og velferð barna. Við eigum ávallt að hafa hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Börnin koma fyrst og fullorðna fólk svo. Okkar verkefni er að sinna forvörnum af kappi og gæta þess að gera ekki neitt sem mögulega getur komið börnum og unglingum illa.

-    Kl. 18:45 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ragna Sigurðardóttir tekur sæti.

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Lagt er til við borgarstjórn að málaður verði varanlegur regnbogi, til dæmis á gangbraut eða annars konar gönguþverun, göngustíg, vegg eða öðrum áberandi stað í miðborg Reykjavíkur. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gera tillögu að staðsetningu og nánari útfærslu og leggja fyrir skipulags- og samgönguráð með það fyrir augum að framkvæmd geti átt sér stað sumarið 2019.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19060051

Samþykkt.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessi tillaga er svo sjálfsögð að borgarfulltrúa Miðflokksins finnst óþarfi að ræða hana í borgarstjórn. Skipulags- og samgönguráð hefði getað afgreitt þetta á einum funda sinna án athugasemda. Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi hvað varðar réttindi hinsegin fólks og sama á við löggjafann hér á landi. Á hverju ári er haldin hátíð í Reykjavík, Hinsegin dagar. Dregur hátíðin til sín fólk alls staðar úr heiminum sem tekur þátt í gleðigöngunni og ríkir karnivalstemmning í borginni sem lífgar mjög upp á annars litlausa borg. Gleðigangan og viðhorfið til hinsegin fólks er orðin samofin íslensku samfélagi á fordómalausan hátt. Borgarfulltrúi Miðflokksins styður þessa tillögu og vonar að hún komi sem fyrst til framkvæmda.

3.    Fram fer umræða um ástand skólahúsnæðis og byggingar- og viðhaldsþörf skóla í Reykjavík. R19060052

-    Kl. 20:25 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur sæti.

-    Kl. 20:55 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Diljá Mist Einarsdóttir tekur sæti. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stórauknu fjármagni hefur verið varið til viðhalds og endurbóta á fasteignum borgarinnar undanfarin ár með sérstakri áherslu á skólahúsnæði. Þannig hafa framlög til almenns viðhalds skólahúsnæðis nær þrefaldast á undanförnum þremur árum; farið úr 590 milljónum í 1.550 milljónir. Á þessu ári er 2,5 milljörðum króna varið til almenns viðhalds á fasteignum borgarinnar, þar af 60% til skólahúsnæðis. Hins vegar er rétt og satt að með hruninu 2008 voru opinberir aðilar, þar með talið ríki, borg og önnur sveitarfélög, nauðbeygðir til að draga úr viðhaldi húsnæðis og það tekur tíma að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf eftirhrunsáranna. Það gengur þó hraðar á allra síðustu árum og vísbendingar eru um að staðan sé almennt betri nú eftir myndarlega innspýtingu sl. 3 ár.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrir liggja óteljandi ábendingar og athugasemdir um slæmt ástand skólahúsnæðis í Reykjavík sem rekja má til slaks viðhalds og uppsafnaðs viðhaldsleysis. Þessar athugasemdir og ábendingar stafa frá opinberum eftirlitsaðilum, sérfræðingum, starfsfólki starfsstöðva skóla- og frístundasviðs, frá foreldrum og jafnvel frá skólabörnum sjálfum. Slíkt ber að taka alvarlega og bregðast við með áþreifanlegum hætti. Þótt fram hafi komið að fjárveitingar til viðhaldsverkefna hafi verið auknar á síðustu misserum, er enn langt í land svo búið sé að uppfylla gríðarlega uppsafnaða viðhaldsþörf síðustu ára. Slæmt ástand mannvirkja bitnar verst á skólabörnum og starfsfólki skólanna og þarfnast sérstakrar athygli. Hvatt er til þess að aukinn þungi verði settur í viðhaldsverkefni svo vinna megi upp þessa miklu uppsöfnuðu viðhaldsþörf. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja nota þetta tækifæri til að þakka öllu því góða og öfluga starfsfólki borgarinnar, hvort sem er á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs eða þeim sem starfa á framkvæmdasviði borgarinnar, en starfsfólkið hefur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður í þágu húsnæðismála skólabarna í Reykjavík.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fullkomið skilnings- og viljaleysi birtist hjá borgarstjóra og meirihlutanum um ástand skólahúsnæðis og byggingar- og viðhaldsþörf skólanna í Reykjavík. Gripið er í gamla margtuggna frasa sem halda ekki vatni í rökræðunni. Örfáir borgarfulltrúar meirihlutans tóku til máls í umræðunni, auk borgarstjóra, og fluttu margendurunnar ræður um að hér hafi orðið bankahrun og því væri ástand skólahúsnæðis í borginni eins og það er. Það er aumkunarvert yfirklór því ekki hefur verið sparað fjármagn til gæluverkefna. Reykjavíkurborg hefur sparað sér til tjóns í viðhaldi skólabygginga í Reykjavík. Það er grafalvarlegt mál en allir vita hvar ábyrgðin liggur: hjá borgarstjóra og meirihlutanum. Borgarstjóri gat ekki flutt fram sannfærandi rök fyrir því hvers vegna hinni svokölluðu fimm skóla skýrslu, sem skrifuð var árið 2018, er haldið leyndri fyrir öðrum kjörnum fulltrúum. Borgarfulltrúi Miðflokksins bendir því fjölmiðlum á að nálgast hana á grunni upplýsingalaga.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lýsir miklum áhyggjum af stöðu húsnæðismála margra skóla í borginni. Síðustu ár hefur forgangsröðun verið kolröng hér í borg. Borgaryfirvöld hafa hvorki tekið ábyrgð á að halda við húsnæðiskosti skólanna né að sjá til þess að byggt verði nægjanlega. Tugir barna og kennara eru veikir vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Ekki er tekin ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu um aðbúnað og stjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar hafa ekki fengið viðunandi áheyrn eða verið teknir alvarlega. Sífellt er verið að boða til sóknar í skólamálum engu að síður. Haldnir hafa verið fundir þar sem meirihlutinn reynir oft að sneiða hjá að svara fyrir hið slæma ástand. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið að einhverjum málum en oft vísar hver á annan. Flokkur fólksins krefst þess að málefnið verði sett í algeran forgang. Það er grafalvarlegt að skóla- og frístundaráð og borgarstjóri láti sjúkdómseinkenni barna sem rakin eru til skólahúsnæðisins um vind og eyru þjóta. Haldinni er leyndri fyrir borgarfulltrúum hinni svokölluðu 5 skóla skýrslu sem sagt er að sé vinnuplagg borgarstjóra. Flokkur fólksins krefst þess að fá að sjá skýrslu sem borgarstjóri segir vera hluta af fjárfestingaáætlun næsta árs. Fyrstu skólarnir voru skoðaðir 2017 og síðan Hagaskóla og einn annar 2018.

4.    Fram fer umræða um framtíðina í borginni og borgina í framtíðinni, loftslagsmál, landnýtingu, samgöngur, snjalltækni, nýsköpun og rýmið í borginni. R19060049

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavík fylgir framsækinni stefnu í skipulags- og umhverfismálum líkt og aðrar höfuðborgir Norðurlandanna. Markmið borgarinnar er að horfa til framtíðar og skapa forsendur fyrir umhverfisvæna og lífvænlega borg. Grundvöllur stefnunnar var lagður í nýlegu aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Í báðum tilvikum náðist þverpólitísk sátt um róttæka stefnubreytingu sem felur í sér betri landnýtingu, samgöngumiðaða uppbyggingu, minni mengun, skilvirkari vistvænni samgöngur og betra umhverfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Að auki hafa mikilvægar stefnur um loftslagsmál, líffræðilegan fjölbreytileika, og grænt net sem tengir saman græn svæði innan borgarlandsins, verið samþykktar. Vinna við undirbúning borgarlínu er á fullum krafti. Ríkisstjórnin er sem betur fer með okkur íbúum höfuðborgarsvæðisins í því mikilvæga verkefni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutanum er tíðrætt um bílaumferð og mengun en gerir samt lítið til að sporna við henni þar sem það er hægt. Sífellt er borgin borin saman við Osló en sú síðarnefnda getur státað af góðu almenningssamgöngukerfi sem Reykjavík getur ekki. Á annan klukkutíma tekur stundum að komast milli staða í Reykjavík með strætó. Væri borgaryfirvöldum alvara að bæta loftgæði hefði ekki eina ívilnun til að hvetja fólk að aka vistvænum bíl verið tekin af. Flokkur fólksins hefur lagt til að biðljós verði fjarlægð og sett í stað göngubrú þar sem myndast miklar umferðarteppur með tilheyrandi mengun. Biðljós á Miklubraut loga lengi eftir að gangandi vegfarandi er kominn yfir og eru síðan virkjuð samstundis aftur. Þessu vill meirihlutinn ekki breyta. Sú herferð sem meirihlutinn er í gegn fólki sem kýs og þarf einkabílinn er komin út yfir öll mörk. Er ekki rétt að byrja á byrjuninni, laga strætókerfið áður en tafagjöld verða sett á bílana? Hvernig farið hefur verið með rekstraraðila á Laugavegi er mál þessu tengt. Lokað fyrir umferð án samráðs á sama tíma og státað er af lýðræði og samráði. Aðeins meira um umhverfið, af hverju hefur borgin ekki tekið upp þriggja tunnu flokkunarkerfi eins og mörg önnur sveitarfélög?

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurgreiði útsvar til tekjulægstu borgarbúanna á mánaðarfresti. Miðað skal við að þeir sem eru einungis með mánaðartekjur upp á 300.000 krónur eða minna fyrir skatt fái útsvarið að fullu endurgreitt. Endurgreiðslan skal skerðast með auknum tekjum með það að markmiði að tryggja að sem fæstir séu með lægri ráðstöfunartekjur en 300.000 krónur á mánuði. Miðað er við að endurgreiðsla útsvars falli niður þegar því takmarki er náð. Hér er þó rétt að nefna að mánaðartekjur margra ná ekki 300.000 þúsund krónum og þar er miðað við fulla endurgreiðslu útsvars. Þar má nefna einstaklinga sem eru á fjárhagsaðstoð til framfærslu, eftirlaunafólk með lágar tekjur, eldri borgara og öryrkja með lítinn sem engan lífeyrissjóðsrétt og lífeyrisþega með skertar greiðslur frá almannatryggingum vegna fyrri búsetu erlendis. Allt eru þetta dæmi um borgarbúa sem greiða skatt til Reykjavíkurborgar og lifa við knöpp kjör og er þessi tillaga lögð fram til að bæta fjárhagsstöðu þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verið falið að útfæra efni tillögunnar og koma henni í framkvæmd. Þá er einnig lagt til að endurgreiðsluviðmið þróist í takt við upphæðir lægstu launa og tekna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19060053

Frestað.

6.    Umræðu um tafa- og mengunargjöld sem fela munu í sér aukna gjaldtöku á umferð og auknar álögur á borgarbúa er frestað. R19060054

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að SORPA hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti, t.d. á metanvagna Strætó bs.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19060055

Frestað.

8.    Umræðu um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins er frestað.  R19050071

9.    Lagt er til að Ragna Sigurðardóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. R18060086

Samþykkt.

10.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 16. maí. R19010002

24. liður fundargerðarinnar; svar borgarstjóra við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.R19030231

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí:

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skilaði svartri skýrslu um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar árið 2015 með 30 ábendingum um úrbætur. Starfshópur var skipaður og var áfangaskýrslu skilað sumarið 2018. Þá voru langflest atriði óleyst sem IER taldi ábótavant. Tuttugu og fjögur af þrjátíu atriðum voru óleyst þremur árum eftir niðurstöðu IER. Erindi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga er beint til borgarstjórnar. Það er því óeðlilegt að svarbréfið sé skrifað af borgarstjóra sem ber ábyrgð á SEA og úrbótum þeim sem ekki var sinnt. Í svarbréfinu er vikist undan því að svara hvers vegna ekki var brugðist við meirihluta ábendinga IER.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá16. maí:

Hinn 18. mars sl. sendi eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga Borgarstjórn Reykjavíkur erindi um eftirlit og eftirfylgni með virkni innra eftirlits Reykjavíkurborgar, vegna skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkur um Nauthólsveg 100, (bragginn). Innri endurskoðun Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ef Reykjavíkurborg hefði farið að ábendingum sem birtust í skýrslu embættisins frá 2015 hefði braggaskandallinn aldrei orðið. Drög að svari borgarstjóra til eftirlitsnefndarinnar eru algjörlega óviðunandi og gerð er tilraun til að svara einungis þeim þremur tölusettu spurningum en svarar ekki hvaða gildandi verklagsreglur sem heimila tilfærslu fjárheimilda milli fjárfestingaverkefna og gerð viðauka. Vísar borgarstjóri í minnisblað fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 13. maí 2019, og gerir að svari sínu en efni þess hefur þegar verið hrakið. Sveitarstjórnarlög og lög um opinber skjalasöfn voru brotin og farið var gegn reglum frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga sem eru svohljóðandi: Leiðréttingar á fjárhagsáætlun með gerð viðauka undir lok árs, vegna útgjalda eða fjárfestinga sem stofnað hefur verið til án samþykkis sveitarstjórnar, samræmast þannig ekki reglum um viðauka. Nú blasir við hvers vegna meirihlutinn barðist hatrammlega á móti tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa braggaskýrslunni til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar en tillagan var felld á fundi borgarstjórnar hinn 15. janúar sl.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. maí:

Það er athyglisvert að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur séð ástæðu til að spyrja nánar um braggamálið og skýrslu innri endurskoðunar um braggann. Nefndin spyr: 1. Hver var eftirfylgni innri endurskoðunar með því að brugðist yrði við umræddum ábendingum um atriði sem betur máttu fara? 2. Bárust endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendum Reykjavíkurborgar þessar ábendingar innri endurskoðunar? 3. Hver voru viðbrögð og eftirfylgni endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við ábendingum IE og því að ekki var brugðist við ábendingum? Allar spurningar eru í takt við bókanir Flokks fólksins um af hverju var ábendingum ekki fylgt og af hverju gekk IE ekki röskar fram í að fylgja þeim eftir. Í bókun Flokks fólksins 4.4.2019 segir: Fram hefur komið hjá endurskoðunarnefnd að allt of langur tími (2-4 ár) líður oft frá því að úttekt er gerð af IE og þar til skrifstofan fylgir eftir eigin ábendingum. En gott er til að vita að eftirlitsnefnd er með puttann á púlsinum og kallar væntanlega eftir ítarlegri svörum frá borgarstjóra ef þörf þykir. Borgarfulltrúa fannst hluti þessa mál aldrei vera nægjanlega upplýstur. Málið í heild sinni átti sannarlega erindi í frekari rannsókn til þar til bærra yfirvalda en sú tillaga M- og F-flokksins var felld af meirihlutanum, Sósíalistaflokki og hluta Sjálfstæðisflokks.

12.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 31. maí, mannréttinda- og lýðræðisráðs frá 16. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. apríl og 13. og 27. maí, skóla- og frístundaráðs frá 28. maí, skipulags- og samgönguráðs frá 15. og 29. maí, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 8., 10. og 17. maí og velferðarráðs frá 22. maí. R19010073

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. maí:R19010004

Það er engin hemja hvernig fundir forsætisnefndar eru oft hvað varðar fundarsköp. Síðasti fundur var óhemju slæmur. Fyrir fundinum lágu 11 dagskráliðir en sjö af þeim var frestað eftir að dólað hafði verið með fyrstu málin. Til að forðast nokkra umræðu um frestun mála flýtti formaðurinn sér að slíta fundi. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og telur þetta enn eitt dæmið um valdníðslu meirihlutans á fundum. Sambærilegir hlutir hafa oft gerst áður. Svona getur þetta varla átt að vera. Þetta veldur pirringi og gremju þar sem aldrei er þess freistað að ná samkomulagi með eitt eða neitt við fulltrúa minnihlutans t.d. að semja um hvaða málum skuli frestað. Allt sem heitir samvinna og samkomulag finnst ekki á fundum forsætisnefndar og stundum ekki heldur á öðrum fundum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki boðlegt og krefst þess að annar háttur verði hafður á í framtíðinni og borin sé einhver lágmarks virðing fyrir minnihlutafulltrúum og málum þeirra sem lögð eru fram á fundinum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 6. og 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. maí:

Fundi forsætisnefndar 31. maí var slitið korteri eftir að auglýstum fundartíma átti að ljúka. Það er sameiginleg ábyrgð allrar forsætisnefndar að virða fundartíma. Stundum setur forseti margt á dagskrá ef ske kynni að umræða gangi greitt fyrir sig. Ef svo er ekki verður að fresta málum svo málin fá tilhlýðilega umræðu og rými. Það er heimild fyrir því að fresta og eðlileg vinnubrögð að reyna að halda fundartíma af virðingu við tíma allra viðstaddra.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. maí: R19010020

Innritun kann að ganga vel í laus pláss leikskóla en brúin milli fæðingarorlofs og leikskóla með dagforeldra sem millilið er langt því frá að vera brúuð. Borgaryfirvöld hafa ekki hlúð nægjanlega að dagforeldrastéttinni. Horfa verður á þessi mál í samhengi. Með tali um ungbarnaleikskóla eins og þeir væru handan við hornið hefur verið sáð fræjum óöryggis í stétt dagforeldra með þeim afleiðingum að flótti hefur verið úr stéttinni, a.m.k. hundrað hafa hætt og fleiri munu bætast í þann hóp. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verða orðnir nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni. Nú eru enn 48 börn 18 mánaða og eldri á biðlista. Jafnframt eru 259 börn fædd frá 1. mars til 30. júní 2018 á biðlista eftir leikskólavist, þ.e. börn sem verða 14-17 mánaða 1. september nk. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi ef þeir eiga ekki að flýja úr stéttinni.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 3. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. maí:

Góð staða er á innritun barna í leikskóla borgarinnar fyrir haustið. Búið er að bjóða langstærstum hluta þeirra barna sem verða 18 mánaða 1. september næstkomandi eða rúmlega fimmtán hundruð börnum pláss í leikskóla. Einungis 48 börn sem eru 18 mánaða og eldri eru á biðlista skv. nýjustu tölum. Þá er byrjað að bjóða yngri börnum pláss, sem verða 14-17 mánaða í haust og hefur þegar rúmlega 100 börnum verið boðið í leikskóla, sem sagt meirihluta barna sem eru með umsókn á þessum aldri. Betur gengur að fylla laus pláss á leikskólum borgarinnar samhliða úrbótum á vinnuumhverfi, s.s. að fækka börnum á hvern starfsmann.

llra viðstaddra.

Fundi slitið kl. 22:45

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð

 

Dóra Björt Guðjónsdóttir

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Vigdís Hauksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.6.2019 - Prentvæn útgáfa