Borgarstjórn - 4.6.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 4. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Páll Hjalti Hjaltason, Margrét Kristín Blöndal, Erna Ástþórsdóttir, Sigurður Björn Blöndal, Björk Vilhelmsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill Ingvarsson, Áslaug Friðriksdóttir og Sóley Tómasdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til fyrri umræðu drög að aðalskipulagi Reykjavíkur, dags. í apríl 2013, samkvæmt meðfylgjandi uppdráttum (þéttbýlisuppdráttur og Kjalarnes) og greinargerð (borgin við sundin, skapandi borg, vistvænni samgöngur, græna borgin, borg fyrir fólk, miðborgin, landnotkunarákvæði og inngangur), ásamt umhverfisskýrslu og öðrum fylgigögnum. Einnig lögð fram umsögn Siglingastofnunar, dags. 8. maí 2013, umsögn Kópavogsbæjar, dags. 10. maí 2013, bréf Skipulagsstofnunar, dags. 22. maí 2013, og umsögn sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 30. maí 2013, ásamt athugasemdum og ábendingum. Jafnframt er lagður fram listi yfir breytingar og lagfæringar við fyrirliggjandi tillögu, kort sem sýnir afmörkun götusvæða í miðborginni, minnisblað frá Minjasafni Reykjavíkur og samantekt á athugasemdum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júní sl.

- Kl. 15.35 tekur Einar Örn Benediktsson sæti á fundinum og Margrét Kristín Blöndal víkur sæti.

- Kl. 16.35 tekur Oddný Sturludóttir sæti á fundinum og Hjálmar Sveinsson víkur sæti.

Borgarstjórn samþykkir með 13 atkvæðum fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 (apríl 2013, með framlögðum breytingum og lagfæringum) sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ásamt umhverfisskýrslu sbr. 7. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Samþykkt að senda tillöguna, ásamt umhverfisskýrslu, til athugunar hjá Skipulagsstofnun og í kjölfar þess í auglýsingu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Ýmsir veigamiklir kaflar aðalskipulagsins eru ítarlegir og vandaðir. Tekið er undir þakkir til starfsmanna borgarinnar sem unnu að gerð þess á umhverfis- og skipulagssviði og öðrum sviðum borgarinnar. Aðalskipulag er þó fyrst og fremst pólitísk stefna sem nær til flestra þátta borgarsamfélagsins. Ekki er hægt að fallast á þá einhæfni sem einkennir uppbyggingu íbúðarbyggðar fram til ársins 2030 eins og hún er sett fram í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur. Höfuðborg landsins verður að bjóða upp á fjölbreytta valkosti fyrir ungar barnafjölskyldur jafnt sem eldri borgara en skipulagið tekur ekki mið af því. Þétting byggðar hefur verið stór þáttur í uppbyggingu og endurnýjun borgarinnar frá miðri síðustu öld. Stefnan í aðalskipulaginu um þéttingu byggðar er þó færð út í öfgar sem sést til dæmis á því að góð úthverfi borgarinnar, þar sem meira en helmingur borgarbúa býr, eru í texta skipulagsins ítrekað kölluð áratugalöng „gegndarlaus útþensla“. Aðalskipulagið ætti að svara þeirri óheillavænlegu þróun að ungar fjölskyldur kjósa frekar að hefja sinn búskap í öðrum sveitarfélögum en í Reykjavík. Það er hins vegar ekki gert og líklegt að verið sé að ýta undir þá þróun frekar en að snúa henni við.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir, leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er mikið fagnaðarefni að nú liggi fyrir drög að aðalskipulagi Reykjavíkur sem unnið hefur verið að síðan 2006. Mjög hefur verið vandað til skipulagsins sem unnið er af öllum flokkum i borgarstjórn, lengst af undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Drögin byggja á nokkrum meginþáttum sem munu bæta borgarumhverfið og auka lífsgæði borgarbúa. Þéttari byggð er lykilþáttur. Með þéttingu byggðar verður hægt að nýta betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum auk þjónustu. Einnig mun samgöngukostnaður borgarbúa lækka þar sem vegalengdir milli vinnu, þjónustu og heimila styttast. Draga mun úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem mengun. Betri forsendur verða fyrir verslun og þjónustu í hverfunum og almenningssamgöngur og aðrir vistvænir ferðamátar eflast. Með skipulaginu er einnig verið að mæta eftirspurn eftir fleiri íbúðum miðsvæðis. Eitt af þremur lykiluppbyggingarsvæðunum er Vatnsmýrin. Það er trú okkar að við lok aðalskipulagstímabilsins árið 2030 eigi í Vatnsmýrinni að vera blönduð byggð íbúða, háskóla- og atvinnustarfsemi, en ekki flugvöllur. Úttektir hlutlausra aðila sýna fram á að hagræn áhrif af því að nýta Vatnsmýrina undir blandaða byggð og finna flugvellinum nýjan stað eru of mikil til að horft sé framhjá þeim. Í aðalskipulagsdrögunum sem fyrir liggja hefur ekkert breyst varðandi flugvallarmálið frá fyrra skipulagi enda samráð ríkis og borgar engan árangur borið. Lykilatriði er að ríki og borg hefji markvissa vinnu málsins þegar í stað og setji fram verkefnaáætlun um tímaramma og staðsetningarkosti flugvallar út frá skipulagsóskum borgarinnar. Borgin á að okkar mati að ganga samningsfús og lausnamiðuð til þeirra viðræðna þar sem meðal annars dagsetningar á brottflutningi flugvallarins geta verið undir. Ljóst er að einnig opnast tækifæri til að vinna enn betur að framtíðarstaðsetningu flugvallar, og rýna betur staðsetningar eins og Hvassahraun, Löngusker, Bessastaðanes og fleiri, þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verður endurskoðað, en sú vinna hefst að lokinni aðalskipulagsvinnunni. Nú fer aðalskipulag Reykjavíkur til umsagnar borgarbúa, hagsmunaaðila og allra þeirra sem láta sig framtíðarskipulag varða og við hlökkum til að fá viðbrögð þeirra og taka þátt í frjóum og skapandi umræðum um framtíð borgarinnar okkar. Í því ferli koma upp ýmsar athugasemdir sem nauðsynlegt verður að meta og greina og gætu leitt til breytinga þegar lokatillaga verður lögð fram. Það er okkar trú að í meginatriðum verði sú stefna sem dregin er hér upp heillaskref fyrir framtíð Reykjavíkur. Aðalskipulag horfir til langrar framtíðar og við teljum að lífsgæði borgarbúa aukist með þeim skrefum sem stigin eru í þessum drögum.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar fagna þeirri tillögu að aðalskipulagi sem nú fer í formlega kynningu meðal borgarbúa. Aðdragandi hennar er langur og hún markar tímamót í tvennum skilningi. Hún hefur verið unnin undanfarin sex ár af fulltrúum allra flokka, embættismönnum og sérfræðingum. Slíkt pólitískt samráð við gerð aðalskipulags hefur ekki tíðkast áður. Jafnframt hefur verið staðið fyrir umfangsmiklu samráði í hverfum borgarinnar, gagnvart hagsmunaaðilum og fagfólki. Þessi vinnubrögð styrkja tillöguna. Í öðru lagi markar tillagan tímamót að því leyti að með henni er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi.

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Vinstri grænna fagnar tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur sem er róttækt og kjarkmikið með hagsmuni heildarinnar og komandi kynslóða í fyrirrúmi. Skynsamleg þétting byggðar er forsenda þess að hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Tillaga að aðalskipulagi er heildstæð stefna um framtíðarborgina sem mun hafa áhrif á fleira en bara hús og götur. Þéttingin mun stuðla að breyttum samgönguháttum og færri og styttri bílferðum, auðvelda eflingu almenningssamgangna og fjölga hjólandi og gangandi vegfarendum, en fleira mun breytast til hins betra. Þróun hverfaskipulags með áherslu á blandaða byggð, félagslegan fjölbreytileika og eflingu nærþjónustu mun hafa mikil áhrif til hins betra á mannlíf og lifnaðarhætti, samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, tækifæri fólks á vinnumarkaði, sköpunarkraft og grósku. Flutningur Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri er forsenda þess að hægt verði að þétta byggð, styrkja sjálfbæra lifnaðarhætti og bæta mannlíf í borginni, en nauðsynlegt er að finna innanlandsflugi annan stað á höfuðborgarsvæðinu hið fyrsta. Tillagan er málamiðlun þeirra sem komið hafa að vinnunni og því eru þar fyrirætlanir sem borgarfulltrúi Vinstri grænna hefði kosið að sjá öðruvísi. Tvennt ber þar hæst; uppbygging í jaðri Elliðaárdals og landfyllingar sem þó eru færri og smærri en áður hefur sést. Borgarfulltrúinn hefði gjarnan viljað fella þetta út, en ekki náðist samstaða um það. Engu að síður greiðir borgarfulltrúinn atkvæði með tillögunni, bindur vonir við líflegar umræður og samþykkt á nýju og bættu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar með haustinu.

2. Lögð fram til seinni umræðu samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt breytingartillögum forsætisnefndar, dags. 31. maí 2013.

Framlagðar breytingartillögur í fjórum liðum samþykktar með 15 samhljóða atkvæðum.

Samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar svo breytt, samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að gera tillögur um hvernig draga megi úr útgjöldum og ná fram varanlegri hagræðingu og sparnaði í rekstri Reykjavíkurborgar.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

4. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Kjartan Magnússon taki sæti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í borgarráði og að Gísli Marteinn Baldursson taki sæti Kjartans sem varamaður í ráðinu.

5. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Marta Guðjónsdóttir taki sæti Þóreyjar Vilhjálmsdóttur í mannréttindaráði.

6. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir taki sæti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í stjórn Faxaflóahafna og að Kjartan Magnússon taki sæti Þorbjargar sem varamaður í stjórninni.

7. Lögð fram styrkbeiðni Samhjálpar ásamt fylgigögnum, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs dags. 30. maí sl.

Samþykkt með 14 atkvæðum gegn 1 að veita Samhjálp styrk af styrkjalið borgarráðs að fjárhæð kr. 10.000.000.- .

Borgarfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Vinstri grænna er mótfallinn því að styrkja Samhjálp um 10 milljónir króna til viðbótar við stóraukin framlög til samtakanna undanfarin ár. Styrkumsóknin er afar óljós og rökstuðningur meirihlutans sömuleiðis, en ljóst er af umsögnum fjármálaskrifstofu og velferðarsviðs að verið er að bjarga samtökunum frá gjaldþroti eftir langvarandi fjárhagsvanda. Við slíkar aðstæður hefði verið skynsamlegra að taka yfir rekstur þjónustunnar sem nú er í höndum Samhjálpar en hún ætti að mati Vinstri grænna að vera rekin af borginni í öllum tilfellum.

8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. maí.

Svohljóðandi tillaga lögð fram, sbr. 24. lið fundargerðarinnar:

Borgarstjórn samþykkir að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 2.800.000.000 kr. til 21 árs í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir. Er einföld ábyrgð þessi veitt skv. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir borgarráð lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð skv. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að endurfjármagna uppgreiðslu á skuldabréfaflokki FEL97, sem fellur undir lánshæf verkefni sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Borgarstjórn skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki félagið að neinu leyti til einkaaðila.

Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni fjármálastjóra, kt. 200249-2169, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar veðtryggingar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu tryggingar þessarar.

Samþykkt með 10 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Svohljóðandi tillaga lögð fram, sbr. 25. lið fundargerðarinnar:

Borgarstjórn samþykkir að veita einfalda og hlutfallslega ábyrgð miðað við eignarhluti 31. desember 2012 í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. vegna 254.000.000 kr. lántöku byggðasamlagsins hjá Lánasjóði sveitarfélaga til 21 árs í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir. Er einföld og hlutfallsleg ábyrgð þessi veitt skv. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og veitir borgarstjórn Lánasjóði sveitarfélaga veð í tekjum sínum til tryggingar ofangreindri ábyrgð skv. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til byggingar á nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut í Mosfellsbæ, sem fellur undir lánshæf verkefni sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Borgarstjórn skuldbindur hér með sveitarfélagið sem einn af eigendum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. til að selja ekki félagið að neinu leyti til einkaaðila.

Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut sinn í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Jafnframt er samþykkt að veita Birgi Birni Sigurjónssyni fjármálastjóra, kt.200249-2169, fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Reykjavíkurborgar veitingu ofangreindrar veðtryggingar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu tryggingar þessarar.

Samþykkt með 10 atkvæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

28. liður fundargerðarinnar, tillaga um viðbótarfjármagn vegna yfirvinnu á velferðarsviði, samþykktur með 10 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 3. júní.

10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 21. apríl og 31. maí, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. og 29. maí og velferðarráðs frá 27. maí.

Fundi slitið kl. 18.50

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Karl Sigurðsson     Áslaug Friðriksdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 04.06.2013 - prentvæn útgáfa