No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2016, þriðjudaginn 4. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Magnús Már Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarstjórnar:
Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að lögfesta NPA, tryggja sveitarfélögum nægilegt fjármagn til að stuðla að fullnægjandi þjónustu og setja leiðbeinandi reglur um þjónustuna með jafnræði að markmiði. Hér er um að ræða þjónustu sem er fötluðu fólki ákaflega mikilvæg og byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Staðið hefur til síðan í lok árs 2014 að lögfesta NPA í kjölfar tilraunaverkefnis sem hófst árið 2011. Framlenging tilraunaverkefnissins rennur út um áramótin og ljóst að margir búa nú við óvissu sem nauðsynlegt er að bregðast við. Þess vegna skorar borgarstjórn á Alþingi að klára málið tafarlaust.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
2. Fram fer umræða um húsnæðismál ungs fólks með fötlun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hlutfall ungs fólks með fötlun sem býr hjá foreldrum hefur hækkað síðustu ár og biðlistar eftir húsnæði nær tvöfaldast. Reykjavíkurborg hefur ekki brugðist nógu vel við vandanum og glímir nú við uppsöfnun og mikið álag. Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa ítrekað lagt fram tillögur um aukna og örugga stuðningsþjónustu við fólk með fötlun í velferðarráði en þeim tillögum hefur verið vísað inn í fjárhagsáætlunargerð með takmörkuðum árangri síðustu 2 ár. Engu að síður virðist ekki pólitískur ágreiningur innan borgarstjórnar um málið. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að borgaryfirvöld taki á sig rögg og viðurkenni skýlausan rétt fatlaðra til stuðningsþjónustu við athafnir daglegs lífs. Slíkt kallar á talsverðar viðhorfsbreytingar til þjónustunnar eins og þær að ekki verði lengur sjálfsagt að vísa fólki í þörf fyrir þessa þjónustu á biðlista.
- Kl. 15.35 tekur Elsa Hrafnhildur Yeoman sæti á fundinum og Ilmur Kristjánsdóttir víkur sæti.
3. Fram fer umræða um borgarlínuna.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Þær hugmyndir um borgarlínu sem kynntar hafa verið eru mjög áhugaverðar og eru Framsókn og flugvallarvinir á því að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem verða framkvæmd á næsta kjörtímabili, að öllu óbreyttu. Áskorun sú sem í ákvarðanatökunni felst er að velja ásættanlega fjármögnunarleið þannig að rekstrar- og fjárfestingaraáhættu borarinnar sé haldið í lágmarki, en á sama tíma þá sé haldið í trúverðugleika verkefnisins, uppbyggingu þess og eftirfylgni í hvívetna.
4. Fram fer umræða um reglur Reykjavíkurborgar um stofnframlög, tækifæri fyrir Reykjavíkurborg
5. Fram fer umræða um skýrslu starfshóps um sjálfbæran Elliðaárdal.
Samþykkt að taka staðfestingu skýrslunnar á dagskrá.
Lagt er til að skýrsla starfshóps um sjálfbæran Elliðaárdal og meðfylgjandi aðgerðaráætlun verði staðfest.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. Fram fer umræða um plastpokalausa Reykjavík.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir umræðu um plastpokalausa Reykjavík. Umræðan varð reyndar víðfeðmari enda ljóst að notkun plasts er meiri en ef eingöngu er horft til plastpoka. Ljóst er aðf umræðunni lokinni að meirihlutinn getur ekki gert skýra grein fyrir því í hvaða aðgerðir eigi að fara í til að sporna gegn notkun plast. Mjög er vísað til þess hversu mikið hefur verið gert í sambandi við meðhöndlun úrgangs sem er vel. Áfram stendur þó að fátt er um svör þegar kemur að til hvaða aðgerða hafi verið, eða verði gripið á næstunni til að færa Reykjavíkurborg enn nær takmarkinu að verða plastpokalaus eða auka vitund um lágmörkun notkunar einnota umbúða.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að gerðar verði ráðstafanir til að takmarka innkaup á vörum sem innihalda plastagnir.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Gríðarlegt magn óumhverfisvænna plastagna berast í sjó við Ísland. Reykjavíkurborg ber þar mikla ábyrgð sem stærsta sveitarfélagið og sem stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur umsjón með fráveitumálum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem lagt er til að undirbúningur verði hafinn að því að lágmarka það magn sem berst út í gegnum skólphreinsistöðvar. Í samræmi við það er eðlilegt að Reykjavík sem kaupir inn vörur fyrir milljarða hvert ár taka skýra afstöðu til þess að takmarka kaup á þeim vörum sem innihalda plastagnir.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Borgarráði er falið að vinna að málinu og skila tillögum hvernig staðið verði að slíku verkefni fyrir 1. febrúar nk.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsókn og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Samhljóða tillaga hefur verið lögð fram tvisvar áður á fundi borgarstjórnar. Fyrst 2. október 2012 og var hún þá samþykkt einróma. Síðan 16. september 2014 þar sem henni var vísað frá, þar sem hún hafði áður verið lögð fram og samþykkt. Tillögur um hvernig staðið verði að málinu hafa einnig verið lagðar fram og samþykktar í stjórnkerfis- og lýðræðisráði, borgarráði og borgarstjórn. Á fundi borgarráðs þann 23. júní sl. var t.d. samþykkt að stofna rafræna þjónustumiðstöð sem meðal annars er falið að stuðla að opnun rafrænnar gagnagáttar um fjármál borgarinnar og utanumhald og eftirfylgni með opnun annarra ópersónugreinanlegra gagna. Einnig var samþykkt á fundi borgarráðs þann 25. ágúst sl. að skipa starfshóp um innleiðingu hugbúnaðar fyrir stjórnendaupplýsingar sem mun jafnframt hafa umsjón með innleiðingu rafrænnar gagnagáttar um fjármál. Frá Fjármálaskrifstofu liggja fyrir skýrar tillögur um hvernig staðið verði að verkefninu. Engin ástæða er til annars en að vísa tillögunni frá í annað sinn þar sem hún bætir engu við það sem áður hefur verið samþykkt í málinu og á að vera borgarfulltrúum fullkunnugt. Hafi borgarfulltrúar eitthvað við ferli áður samþykktra mála að athuga er það undarleg leið til að fylgja þeim eftir að leggja þau fram ítrekað í borgarstjórn.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Sjálfstæðisflokksins sem borgarstjórn samþykkti einróma 2. október 2012, um að upplýsingar um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með almennum hætti á netinu, hefur ekki enn komist til framkvæmdar. Á þeim fjórum árum, sem liðin eru frá samþykkt tillögunnar, hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins margoft óskað eftir því að tillagan komist til framkvæmdar en allt komið fyrir ekki. Ljóst er að pólitískan vilja skortir hjá meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna við að framfylgja málinu og vekur það upp spurningar um hvort það sé eitthvað í rekstri borgarinnar sem þolir ekki dagsins ljós.
9. Lagt er til að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir taki sæti sem varamaður í borgarráði í stað Jónu Bjargar Sætran,
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
10. Lagt er til að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Stefaníu Ingibjargar Sverrisdóttur.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
11. Lagt er til að Auður Alfífa Ketilsdóttir taki sæti sem varamaður í mannréttindaráði í stað Eyrúnar Eyþórsdóttur.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
12. Lagt er til að Hermann Valsson taki sæti í skóla- og frístundarráði í stað Lífar Magneudóttur.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
13. Lagt er til að Ingimar Karl Helgason taki sæti í ofbeldisvarnarnefnd í stað Sóleyjar Tómasdóttur.
Samþykkt.
14. Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti sem varamaður í stjórn Sorpu bs. í stað Sóleyjar
Tómasdóttur.
Samþykkt.
15. Lagt er til að Álfheiður Ingadóttir taki sæti í almannavarnarnefnd í stað Sóleyjar Tómasdóttur.
Samþykkt.
16. Lagt er til að Ragnar Karl Jóhannsson taki sæti í hverfisráði Grafarholts og Úlfarsársdals í stað Hermanns Valssonar. Jafnframt er lagt til að hann verði formaður ráðsins.
Samþykkt.
Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.
17. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. og 29. september
- 10. liður fundargerðarinnar frá 22. september, breyting á gjaldskrá akstursþjónustu eldri borgara samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- 22. liður fundargerðarinnar frá 22. september, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016 vegna a ferlinefndar fatlaðs fólks, lækkunar aldursmarka gjaldfrelsis í sund og framlags til ÍTR vegna hátíðahalda 17. júní samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.
18. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. september, mannréttindaráðs frá 27. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 26. september, skóla- og frístundaráðs frá 14. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 19. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september og 28. september, velferðarráðs frá 15. september og 22. september 2016
Fundi slitið kl. 20.39
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.10.2016 - Prentvæn útgáfa