Borgarstjórn - 3.3.2020

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 3. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Dóra Magnúsdóttir, Sabine Leskopf, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Þórdís Pálsdóttir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir og Ólafur Kr. Guðmundsson. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Samþykkt að taka á dagskrá umræðu um hættustig almannavarna vegna kórónaveiru COVID-19. 

Borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20030002

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í gær var haldinn sérstakur fundur í borgarráði þar sem rætt var um COVID-19 en daglega berast upplýsingar um málið frá sérfræðingum sem halda samfélaginu eins vel upplýstum og hægt er. Borgarfulltrúi vill nefna þá bókun sem gerð var í borgarráði í gær en til fundarins var sérstaklega boðað til að ræða COVID-19. Í bókun samin af meirihlutanum var fyrri hluti bókunarinnar um COVID-19, eitthvað sem allir geta tekið undir. Síðari hluti bókunarinnar var hins vegar um afleiðingar verkfallsins. Í þann hluta bókunarinnar var laumað inn ásökunum í garð Eflingar eins og það sé þeim, láglaunafólkinu í borginni, að kenna að öryggi vegna sorpmála sé ógnað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins harmar að varaborgarfulltrúi sem sótti fundinn hafi sett nafn sitt við slíka bókun, þann hluta sem snýr að orðræðu meirihlutans um verkfallið. Það er borgarstjóri sem ber ábyrgð á slakri stöðu sorpmála í borginni og öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem orðnar eru af verkfallinu. Þetta verkfall er á hans ábyrgð en hann reynir samt að gera Eflingu að sökudólgi, fólk sem óskar eftir að fá laun sem möguleiki er að lifa af.

2.    Lögð fram ferðamálastefna Reykjavíkurborgar 2020-2025 ásamt fylgiskjölum sbr. 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar sl. R18100018

Frestað.

3.    Samþykkt að fresta umræðu um dótturfélög Reykjavíkurborgar. R20030035

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Til þess að enginn í borginni þurfi að búa við svengd og bjargarleysi er lagt til að Reykjavíkurborg komi upp matarbanka fyrir þá sem eru í þörf fyrir mat. Staða margra er oft þannig að þeir eru í þörf fyrir mat vegna fátæktar, atvinnuleysis, tímabundinna erfiðleika eða annarar stöðu sem gerir það að verkum að viðkomandi á ekki fyrir mat. Þrátt fyrir að hjálparstofnanir veiti mataraðstoð, þá er þörfin mikil og aðstoð þeirra dugar ekki alltaf til. Það er nauðsynlegt að bregðast við stöðunni og tryggja að enginn í borginni sé án matar. Velferðarsviði verði falið að setja upp matarbankann og leita ráðgjafar og/eða samstarfs hjá félagasamtökum sem hafa reynslu af umræddu málefni. Æskilegt er að matarbankarnir verði á fleiri en einum stað í borginni svo að borgarbúar þurfi ekki að ferðast langar vegalengdir til að nálgast matinn og að þeir verði í nálægð við samgöngumiðstöðvar. Lögð er áhersla á að í matarbankanum sé fjölbreytt, næringarríkt fæði sem þjóni mismunandi þörfum. Áhersla verði á að einstaklingar geti sjálfir valið í matinn, eftir því sem er í boði. Í matarbankanum verði einnig nauðsynjavörur til heimilishalds líkt og klósettpappír, hreinlætisvörur til einkanota, bleyjur og dósaopnarar sem einstaklingar geti tekið með sér.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20030036

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fátækt og matarskortur hefur gríðarlega slæmar afleiðingar á fólk og nauðsynlegt er að við sem sveitarfélag bregðumst við. Það er því mjög slæmt að tillaga til að mæta þörfum þeirra í erfiðri stöðu hafi verið fellld. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Á vegum velferðarráðs hefur starfað stýrihópur um aðgerðir gegn sárafátækt frá því í mars 2019. Hlutverk hans var að yfirfara reglur og úrræði á vegum velferðarsviðs til að draga verulega úr sárafátækt og gera tillögur um markmið og aðgerðir, s.s. breytingar á reglum og frekari úrræði eða annað, sem stutt getur íbúa Reykjavíkur sem búa við sárafátækt. Í þeim hópi á fulltrúi Sósíalistaflokksins sæti. Hópurinn skilaði áfangatillögum í desember og áætlar lokaskil á næstu vikum. Velferðarráð hefur þegar ákveðið tilteknar breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð enda er það okkar helsta verkfæri til að styðja við fólk sem þarf stuðning til framfærslu. Það kerfi má skoða betur og styrkja. Matarhjálp má fá hjá fjölda félagasamtaka víða um borgina í dag og velferðarráð styrkir þá með mismunandi hætti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins samþykkti tillögu um að komið verði upp matarbanka í Reykjavík enda er slík hugmynd sambærileg tillögu sem lögð var fram í borgarráði 3. október 2019 og hljóðaði svo: „Lagt er til að Reykjavíkurborg komi upp aðstöðu/matartorgi miðsvæðis í Reykjavík fyrir fyrirtæki sem eiga matvæli í lok dags og vilja koma þeim áfram ókeypis í neyslu til að minnka matarsóun.“ Í greinargerð með tillögunni voru tvær hugmyndir sameinaðar til að minnka matarsóun hér á landi og að koma til móts við fólk sem býr við sára fátækt og á ekki fyrir mat. Matartorgið átti að vera hrein viðbót við þær hjálparstofnanir sem þegar starfa og úthluta mat. Að auki var það tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins við aðra umræðu af 5 milljónir færu í að stofna matartorgið og átti það að taka til starfa 1. febrúar 2020. Sú tillaga var felld af meirihlutanum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki eins og hér er lagt til þarfnast yfirbyggingu og utanumhald. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins vill styðja þessa tillögu því hún er lögð fram af hug sem samræmist stefnu Flokks fólksins. Ef framhaldið verður að fólk fái kort til að kaupa sér sjálft mat þá væri það það allra besta.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins: 

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins leggja það til að borgarstjórn samþykki að vísa skýrslu innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100 - braggans og skýrslu borgarskjalavarðar um sama efni til héraðssaksóknara og lögreglu annars vegar til að rannsaka hvort embættisbrot hafi verið framið, héraðssaksóknari, og hins vegar hvort brot í opinberu starf hafi verið framið, lögregla.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20030037

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er með ólíkindum að tillaga um að vísa skýrslu innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100 - braggans og skýrslu borgarskjalavarðar um sama efni til héraðssaksóknara og lögreglu til rannsóknar hvort embættismannabrot og brot í opinberu starfi hafi verið framin, hafi verið vísað frá í borgarstjórn. Í báðum skýrslum er sýnt fram á óhyggjandi lögbrot og er það dæmalaust að meirihlutinn hafi ekki vísað skýrslunum rakleiðis til rannsóknar. Sveitastjórnarlög voru brotin og lög um opinber skjalasöfn voru brotin. Málið fer núna á næsta stig. Þessi lögbrot verða ekki liðin.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins telur það sérstakt að borgarstjórn hafi ekki áhuga á að fá lúkningu í braggamálið en til þess að svo megi verða þarf að vísa því til héraðssaksóknara og lögreglu eftir atvikum. Málinu er vísað frá. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn lögðu fram sambærilega tillögu árið 2019 og var sú tillaga þá felld. Þá lá skýrsla borgarskjalavarðar ekki fyrir. Sú skýrsla kom út nýlega og segir í niðurstöðum að eftir að innri endurskoðun hefði fjallað um málið í fyrra, hefðu starfsmenn Reykjavíkurborgar gerst sekir um að brjóta lög um skjalavörslu. Með tilkomu seinni skýrslunnar er enn ríkari ástæða til að fá málið í heild sinni fullrannsakað og fullupplýst. Óumdeilt er að málið allt er klúður og illa hefur verið farið með fé skattgreiðenda. Á þessu vill meirihlutinn ekki axla ábyrgð. Það er mjög mikilvægt að báðar þessar skýrslur fari í opinbera rannsókn, annars vegar til héraðssaksókna og hins vegar lögreglu, til að rannsaka hvort framið hefur verið embættisbrot og/eða brot í opinberu starfi. Það er eins og borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilji helst að þetta mál gleymist sem fyrst, segja það einstakt tilvik. En er það einstakt tilvik? Borgarstjóri vill að borgarlögmaður rannsaki málið en sú rannsókn og niðurstöður munu aldrei geta orðið trúverðugar. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Skýrslu borgarskjalavarðar um Nauthólsveg 100 hefur verið vísað til borgarlögmanns til athugunar og er málið því þegar í því ferli. Í því ljósi er tillögunni vísað frá. Vaninn er þar að auki að vísa kærum til lögreglunnar en ekki skýrslum, sem byggja á skýrum lögfræðilegum rökstuðningi. Borgarlögmaður mun athuga hvort tilefni sé til að vísa efni skýrslunnar áfram.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Það sem kom fram í skýrslu innri endurskoðanda og borgarskjalavarðar vegna braggamálsins svokallaða á Nauthólsvegi 100 er grafalvarlegt og nauðsynlegt að tryggja að þeir ámælisverðu þættir sem áttu sér stað þar geti ekki átt sér stað aftur. Borgarfulltrúum er frjálst að senda skýrslurnar til héraðssaksóknara til nánari skoðunar óski þeir eftir því. Fulltrúi sósíalista getur ekki séð að það sé hlutverk borgarstjórnar að ræða nú hvort það eigi að vísa skýrslunum til viðeigandi aðila. Það er vel hægt að gera slíkt án staðfestingar borgarstjórnar. Það er nauðsynlegt að borgarstjórrn líti inn á við og skoði hvernig hún geti tryggt að fjármunum sé best varið í þágu borgarbúa og hugi þar að því að vinna gegn framúrkeyslum í verkefnum sem snúa ekki að grunnþörfum borgarbúa o.s.frv.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins: 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn SORPU að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað SORPU við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað. Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því að ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum eins og segir í rökum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þessar reglur hvetja ekki fólk í orkuskipti. Á sama tíma er SORPA, sem er byggðasamlag, að brenna metan á báli í stórum stíl. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af, og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í virkni. Til að selja metan á hinn almenna bílaflota í Reykjavík þarf það að vera samkeppnishæft við aðra örkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Það er betra að fá lítið fyrir það en ekki neitt og þurfa að brenna því. Að nota metan sparar auk þess innflutning á jarðefnaeldsneyti.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20030038

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillagan um að söluverð metans verði lækkað og miðist við flutningsverð hefur verið felld. Ofgnótt er af metani, á því er offramleiðsla. Hvað varðar þennan orkugjafa hefur borgarmeirihlutinn þessi og síðasti haldið einstaklega illa á málum. Í stað þess að finna leiðir til að nýta metan hefur því verið brennt á báli til að menga ekki andrúmsloftið. Hvar er forsjálni og fyrirhyggja þeirra sem stýrt hafa borginni og SORPU. Í engu tilliti hefur verið reynt að markaðssetja metan nema síður sé. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins að það sé selt á flutningsverði í þeirri von að það leiði til fjölgunar metanbíla á götum. Með þessari aðgerð er vel hugsanlegt að stórt stökk verði tekið í orkuskiptaferlinu. Nú blasir við að SORPA er í slæmum fjárhagsvanda sem rekja má til lélegrar stjórnunar. Hvorki metan né molta mun bjarga SORPU sem skuldar 4.1 milljarð. Það yrði en ein vond ákvörðunin að ætla að fara að verðleggja metan hátt, það mun einfaldlega þýða að engin mun kaupa það. Betra er að nánast gefa það en sóa því á báli. Hugsa þarf út fyrir boxið og muna að SORPA er í eigu borgarinnar að stórum hluta og það er Strætó bs. líka sem gæti haft einungis metanvagna og nýtt metanið frá SORPU.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan er vanhugsuð. Með henni er borgarfulltrúi Flokks fólksins að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Það er engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni.

7.    Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Breiðholts á dagskrá. Lagt er til að Egill Þór Jónsson taki sæti í íbúaráði Breiðholts í stað Jórunnar Pálu Jónasdóttur. R19090034

Samþykkt.

8.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20. og 27. febrúar. R20010001

14. liður fundargerðarinnar frá 20. febrúar, deiliskipulag borgargarðs í Elliðaárdal er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R20020144

20. liður fundargerðarinnar frá 27. febrúar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er borinn upp í þrennu lagi: 

1. Tilflutningur á fjárheimildum á velferðarsviði er samþykktur.

2. Tekjubreyting velferðarsviðs skv. fjárlögum 2020 er samþykktur með fimmtan atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

3. Flutningur á afgangi og halla frá 2018 samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.R20010161

21. liður fundargerðarinnar frá 27. febrúar, samþykkt á tímabundinni lántöku SORPU er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. R19090009

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar frá 20. febrúar: 

Með deiliskipulaginu sem nú er verið að auglýsa stendur til að styrkja og festa í sessi stöðu Elliðaárdalsins sem borgargarðs, vernda og varðveita náttúrufar í dalnum um leið og tækifæri til útivistar í dalnum aukast enn frekar. Endurbætt stígakerfi fjölgar fjölbreyttum göngu og hjólaleiðum í dalnum og bætir þannig möguleika borgarbúa til að njóta dalsins á umhverfisvænan hátt. Ekki er gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu og þá aðallega í tengslum við mögulega sögu- og tæknisýningu. Tillagan fer nú í auglýsingu og til umsagnar hagaðila. Við hlökkum til framhaldsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar frá 27. febrúar: 

Hér er enn og aftur verið að farið fram á að veðsetja útsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo SORPA geti fengið lán vegna framúrkeyrslu upp á einn og hálfan milljarð króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast alfarið gegn því að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins og greiða atkvæði gegn því.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar frá 20. febrúar: 

Sósíalistar hefðu viljað sjá aukna hverfisvernd yfir Elliðarárdalinn en samkvæmt deiliskipulagi er hluti dalsins undir hverfisvernd. Þá hefðu sósíalistar einnig viljað sjá Stekkjarbakka Þ73 skilgreindan sem hluta af Elliðarárdalnum en ekki utan marka hans en í huga og augum margra tilheyrir það svæði Elliðarárdalnum. Jákvætt er að sjá að ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu í Elliðarárdalnum en að hugað verði að göngu- og hjólastígum inn í dalinn jafnt sem brúm. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar: 

Stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt fram fyrirspurn til borgarstjóra um samkomulag ríkisins við Reykjavíkurborg um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Er vísað í samkomulag sem borgarstjóri og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu þann 28. nóvember sl. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið verði að undirbúningi og byggingu nýs flugvallar þannig að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn. Í samkomulaginu lýsir Reykjavík yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Lýsir stjórnin yfir miklum áhyggjum um að samkomulagið haldi ekki því í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi í Skerjafirði sem hefur áhrif á athafnasvæði flugvallarins og vísað er í breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur. Óskað er eftir að borgarstjóri staðfesti sameiginlegan skilning hans og ráðherra um að flugvöllurinn verði tryggður í Vatnsmýrinni. Í loðnu svari borgarstjóra er vísað í „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkissins við Skerjafjörð“ sem gert var 1. mars 2013 þar sem borgin „skuldbatt“ sig til að hraða skipulagi og uppbyggingu umrædds svæðis. Miklar áhyggjur nefndarinnar eru fullkomlega réttmætar og ljóst að ekkert traust ríkir í garð borgarstjóra um að samkomulagið haldi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. og 21. lið fundargerðarinnar frá 26. febrúar: 

Borgarstjóri og samninganefndin í hans umboði bera ábyrgð á verkfallinu og hvernig komið er nú þegar afleiðingar eru farnar að hafa áhrif á öryggi. Er borgarmeirihlutinn að bíða eftir að öryggisstigið nái slíkum hæðum að sett verði lög á verkfallið? Það er tvískinnungsháttur í orðræðu borgarmeirihlutans þegar hann segist hafa áhyggjur af öryggi vegna þess að ekki er þrifið þar sem rekin er þjónusta fyrir þá viðkvæmustu. Ganga á að kröfum Eflingar enda eru þær hóflegar og sanngjarnar. Verkfallið hefur staðið í á þriðju viku og spurt er í hvað mikla hættu ætlar borgarstjóri að stefna borgarbúum í þegar kemur að öryggisatriðum vegna umönnun þeirra viðkvæmustu og sorphirðu? Í bókun borgarráðs 2. mars sl. má lesa að borgarstjóri vill kenna starfsfólki um, gera Eflingu að sökudólgi um hvernig komið er, fólki sem nær ekki endum saman um mánaðamót.

Borgarbúar munu bera hitann og þungann af greiðslu lána. Nú er beðið um 600 milljóna skammtíma lán til viðbótar við 500 milljónir sem þegar er heimild fyrir. Heildarskuld er 4.1 mkr. Stjórn ætlar að sitja áfram þrátt fyrir áfellisdóm sem lesa má í skýrslu innri endurskoðunar. Framkvæmdarstjórinn rekinn en sagt að hann hafi ekkert saknæmt gert. Meðal bjargvætta eru stjórnarformaður Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóri. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hæfi þeirra í þessu máli?

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 27. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 25. febrúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. febrúar og velferðarráðs frá 19. febrúar.R20010285

2. liður fundargerðar forsætisnefndar, endurskoðaðar reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörf utan borgarstjórnar eru samþykktar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. R17080118 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 26. febrúar:

Í deiliskipulagsbreytingunni felst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breytt notkun efri hæða fyrir íbúðir. Algjörum forsendubresti er lýst hvað varðar Orkureitinn því þegar samningar við borgina voru gerðir varðandi hann þá var loforð þess efnis að Skeifan myndi fara í hægagang í uppbyggingu. Bent er á að rammaskipulag er ekki lögformleg skipulagsákvörðun og hefur því ekkert gildi. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli nota það í skipulagsvinnu sinni. Samkvæmt fyrri ákvörðunum var ekki gert ráð fyrir íbúðum á Grensásvegi 1 en nú er allt í einu breytt um stefnu og verið að gefa leyfi fyrir 200 íbúðum fyrir þennan reit. Skipulagsmál verða að vera í fasta til að lóðarhafar viti að hverju þeir ganga. Í einni umsögninni er varað við að fordæmi verði sett með því að víkja megi frá ákvæði aðalskipulags um hæðir húsa, að gera ráð fyrir íbúðum á svæði þar sem ekki var gert ráð fyrir íbúðum í rammaskipulagi og að verið er að gefa heimild til að skipta skipulagsreitum í minni skipulagseiningar sem einungis taki til einnar lóðar. Tekið er undir þungar áhyggjur hvað varðar skólamál og bent er á að ekki er búið að útkljá hvaða grunnskólar tilheyri hverfinu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið 7. fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. febrúar og lið 15 fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. febrúar: 

Liður 7 í fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. febrúar: Flokkur fólksins tekur undir bókun Miðflokksins að draga eigi umrædda ályktun meirihlutans til baka vegna atviks í sundlaug Grafarvogs sem sagt var frá í fréttum. Það má teljast dómgreindarbrestur að meirihlutinn í mannréttindaráði sameinist í að ráðast á starfsmann borgarinnar þegar aðeins hefur verið birt önnur hliðin á málinu og það í einum fjölmiðli. Flokkur fólksins í mannréttindaráði reyndi að vara við þessu og benti á að skortur væri á staðfestum upplýsingum en náði ekki eyrum formanns mannréttindaráðs.

Liður 15, í fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. febrúar: Umræða um meðferð trúnaðargagna. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir því að kynningar og skýrslur sem ekki hafa að gera með persónugreinanleg gögn eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar séu skráð sem trúnaðarmál á fundi mannréttindaráðs. Það er mat Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Flokkur fólksins gerir einnig athugasemd við hvað fundargerðir mannréttindaráðs berast seint, jafnvel allt að viku eftir fund. Þetta gerir þeim sem sátu fundinn erfitt fyrir að yfirfara afgreiðslu mála að loknum fundi ef rifja þarf upp afgreiðslur og bókanir þ.m.t. hvaða mál voru mögulega trúnaðarmál.

Fundi slitið kl. 17:53

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudóttir                                        Hjálmar Sveinsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 3.3.2020 - prentvæn útgáfa