Borgarstjórn - 25.4.2006 aukafundur

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

Ár 2006, þriðjudaginn 25. apríl, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Stefán Jón Hafstein, Anna Kristinsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2005; fyrri umræða. Jafnframt lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton endurskoðunar, dags. í apríl 2006.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar ásamt endurskoðunarskýrslu til síðari umræðu.

2. Fram fer umræða um Sundabraut.

- Kl. 15.10 víkur Stefán Jón Hafstein af fundi og Sigrún Elsa Smáradóttir tekur þar sæti.

- Kl. 15.30 víkur Árni Þór Sigurðsson af fundi og Guðný Hildur Magnúsdóttir tekur þar sæti.

- Kl. 15.35 víkja Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon af fundi og Benedikt Geirsson, Marta Guðjónsdóttir og Bolli Thoroddsen taka þar sæti.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar:

Borgarstjórn samþykkir að fela borgarráði að afgreiða til fullnaðar eftirtalin verkefni vegna borgarstjórnarkosninga, sem fram eiga að fara 27. maí n.k.:

Að staðfesta kjörskrá og úrskurða um breytingar á kjörskrá, ákveða skiptingu borgarinnar í kjörhverfi, ákveða kjörstaði, skipa hverfisstjórnir og undirkjörstjórnir og ráða til lykta öðrum málum, sem kunna að heyra undir verksvið borgarstjórnar í sambandi við kosningar.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að horfið verði frá fyrirætlunum um brottflutning Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Reykjavíkurflugvöllur er í senn miðstöð innanlands-, sjúkra- og öryggisflugs í landinu og nauðsynlegur varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Borgarstjórn vill tryggja staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýri í næsta nágrenni við stærsta sjúkrahús landsins og þá háskóla- og nýsköpunarstarfsemi, sem þar á að rísa.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Forseti ákveður að beiðni Ólafs F. Magnússonar að atkvæðagreiðsla um tillöguna fari fram með nafnakalli.

Já segir: Ólafur F. Magnússon

Nei segja: Stefán Jóhann Stefánsson, Bolli Thoroddsen, Sigrún Elsa Smáradóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Benedikt Geirsson, Anna Kristinsdóttir, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Dagur B. Eggertsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Alfreð Þorsteinsson.

Tillaga Ólafs F. Magnússonar er því felld með 14 atkvæðum gegn 1.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarfulltrúar greiða atkvæði gegn tillögu Frjálslynda flokksins. Í framhaldi af yfirlýsingu borgarstjóra og samgönguráðherra, sem undirrituð var í febr. 2005 eiga sér nú stað viðræður milli fulltrúa borgar og samgönguráðuneytis um framtíð innanlandsflugsins í Vatnsmýri eða á öðrum stað í Reykjavík eða næsta nágrenni. Nauðsynlegt er að niðurstaða þeirra viðræðna liggi fyrir sem fyrst. Afstaða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks er sú að Vatnsmýri fari að mestu undir íbúða- og atvinnusvæði og fundið verði nýtt flugvallarstæði fyrir innanlandsflugið í Reykjavík eða næsta nágrenni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja ekki að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ljóst er að afstaða kjörinna fulltrúa í borgarstjórn til flugvallarins í Vatnsmýri er í litlu samræmi við þann mikla fjölda Reykvíkinga sem vill halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Annað býður þeirri hættu heim að flugvöllurinn verði lagður niður og fluttur til Keflavíkur. Það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samgöngu- og öryggismál í Reykjavík og á landinu öllu.

5. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. apríl.

6. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 19. apríl, framkvæmdaráðs frá 3. og 10. apríl, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. og 30. mars, skipulagsráðs frá 5. og 12. apríl og umhverfisráðs frá 3. apríl.

B-hluti fundargerðar skipulagsráðs frá 12. apríl samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið kl. 16.37

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Alfreð Þorsteinsson

Björk Vilhelmsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson