Borgarstjórn - 2.5.2002

Borgarstjórn

3

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2002, fimmtudaginn 2. maí, var haldinn reglulegur fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarsson, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Pétursson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Alfreð Þorsteinsson, Ólafur F. Magnússon, Kjartan Magnússon, Guðrún Pétursdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 23. apríl. 6. liður fundargerðarinnar, umboð til borgarráðs vegna borgarstjórnarkosninga, samþykktur með samhljóða atkvæðum.

2. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. apríl.

- Kl. 16.06 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Kristján Guðmundsson tók þar sæti.

Sú leiðrétting var gerð við 17. lið fundargerðar borgarráðs að bréfi allsherjargoða var vísað til umsagnar borgarlögmanns.

- Kl. 17.15 vék Helgi Pétursson af fundi og Anna Geirsdóttir tók þar sæti. Jafnfram vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Bryndís Þórðardóttir tók þar sæti. - Kl. 17.17 vék Alfreð Þorsteinsson af fundi og Guðrún Erla Geirsdóttir tók þar sæti.

16. liður fundargerðar borgarráðs, samþykkt fyrir fræðsluráð samþykktur með 15 samhljóða atkvæðum. Samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum að vísa 18. lið fundargerðar borgarráðs, breyting á lögreglusamþykkt Reykjavíkur til síðari umræðu.

Samþykkt samhljóða að fresta 12. lið dagskrár, samþykkt fyrir kirkjubyggingasjóð; síðari umræða. Jafnframt samþykkt samhljóðar að taka á dagskrá sem 12. lið fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 24. apríl.

3. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 17. apríl.

4. Lögð fram fundargerð félagsmálaráðs frá 24. apríl.

5. Lögð fram fundargerð fræðsluráðs frá 22. apríl.

6. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. apríl.

7. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 24. apríl.

8. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 15. apríl.

9. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 22. apríl.

10. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 26. apríl.

11. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 24. apríl. B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

12. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 24. apríl.

- Kl. 17.47 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Kristján Guðmundsson vék af fundi. - Kl. 18.00 var gert hlé á fundi. - Kl. 18.32 var fundi fram haldið og vék þá Guðlaugur Þór Þórðarson af fundi og Pétur Friðriksson tók þar sæti.

13. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001; fyrri umræða. Áður en umræða hófst tilkynnti forseti að fallið verði frá takmörkun á ræðutíma.

- Kl. 20.05 vék Anna Geirsdóttir af fundi og Pétur Jónsson tók þar sæti. - Kl. 20.17 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Júlíus Vífill Ingvarsson tók þar sæti.

Samþykkt með samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2001 til síðari umræðu.

14. Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi tillögu:

Með vísan til samþykktar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. júní 2001 um arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar og þeirrar leyndar og undanbragða sem hafa verið uppi í tengslum við fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun lýsir Borgarstjórn Reykjavíkur yfir andstöðu sinni við þátttöku Reykjavíkurborgar í þessari framkvæmd.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Helgi Hjörvar lagði fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Að gefnu tilefni ályktaði Borgarstjórn Reykjavíkur 21. júní sl. með eftirfarandi hætti um virkjunaráform Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. “Forsenda þess að virkja megi er að fyrir liggi ítarlegar rannsóknir á umhverfisáhrifum framkvæmda, þær hafi verið kynntar almenningi og kostur gefinn á athugasemdum, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum. Einnig að fyrir liggi vandaðir arðsemisútreikningar fyrir hverja einstaka framkvæmd, svo vega megi og meta efnahagslegan ávinning hverrar framkvæmdar andspænis þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi og náttúru”. Stefna borgarstjórnar í virkjunarmálum liggur því fyrir og eru engar ákvarðanir um virkjanir á dagskrá borgarstjórnar. Ekkert liggur fyrir á þessu stigi um stóriðju eða virkjanaáform á Austurlandi. Tillaga Ólafs F. Magnússonar er því óþörf og er henni því vísað frá.

Árni Þór Sigurðsson óskaði bókað:

Í umfjöllun í borgarstjórn um virkjunaráform norðan Vatnajökuls hef ég lýst þeirri skoðun minni að málefni Landsvirkjunar eigi fullt erindi inn í borgarstjórn þar sem borgin er 45% eignaraðili í fyrirtækinu. Sem fulltrúi Reykjavíkur í samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hef ég ekki stutt þá breytingu á miðhálendisskipulagi sem leiðir af áformum um Kárahnjúkavirkjun. Sú tillaga sem Ólafur F. Magnússon hefur lagt fram þjónar að því er virðist pólitískum hagsmunum borgarfulltrúans einum en ekki málinu sjálfu og er það miður. Enda þótt ég hafi stutt samþykkt borgarstjórnar 21. júní sl. og telji hana mikilvægt framlag borgarstjórnar til vandaðra og lýðræðislegra umræðna um Kárahnjúkavirkjun tel ég engu að síður eðlilegt að taka tillögu Ólafs F. Magnússonar til efnislegrar afgreiðslu og styð ég því ekki framkomna frávísunartillögu.

Nafnakall fór fram um frávísunartillögu Helga Hjörvar. Já sögðu: Pétur Friðriksson, Hrannar Björn Arnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Pétursdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Sigrún Magnúsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Bryndís Þórðardóttir, Pétur Jónsson og Helgi Hjörvar. Nei sögðu: Árni Þór Sigurðsson, Ólafur F. Magnússon og Guðrún Erla Geirsdóttir. Frávísunartillagan var því samþykkt með 12 atkvæðum.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Frávísun tillögu minnar um að Reykjavíkurborg taki ekki þátt í Kárahnjúkavirkjun ber vott um það, að borgarfulltrúar láti pólitíska hagsmuni ganga fyrir augljósum hagsmunum Reykvíkinga. Ljóst er að Reykjavíkurborg getur orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna þátttöku í þessari framkvæmd. Tillögu minni er ætlað að koma í veg fyrir það.

Fundi slitið kl. 21.02.

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Helgi Hjörvar

Hrannar Björn Arnarsson Kjartan Magnússon