Borgarstjórn - 2.3.2021

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2021, þriðjudaginn 2. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Kristín Soffía Jónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoega og Örn Þórðarson.  Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek og Egill Þór Jónsson. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. febrúar 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. febrúar 2021 á tillögu um aðgerðir til að bæta íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku, ásamt fylgiskjölum, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021.

-    Kl. 14:05 tekur Ellen Jacqueline Calmon sæti á fundinum. R20120136

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ný aðgerðaáætlun í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku leggur áherslu á að efla til muna íslenskukunnáttu þessa hóps. Með henni er lögð rík áhersla á að jafna tækifæri þessara barna og jafnaldra þeirra til menntunar enda er íslenskufærni grundvallaratriði varðandi lýðræðislega þátttöku og jafnrétti í skóla- og frístundastarfi og samfélaginu öllu. Aðgerðirnar fela í sér aukið fé í íslenskukennslu í grunnskólum, markvissari íslenskukennslu barna sem koma ný inn í reykvíska grunnskóla, aukna kennslufræðilega ráðgjöf og stuðning við kennara í íslensku sem öðru tungumáli, fjölgun brúarsmiða sem sinna tengslum við foreldra og fjölskyldur barnanna og aukið framlag í fjölmenningarlegt leikskólastarf þar sem framlögin hafa næstum þrefaldast frá 2017. Framlög til íslenskukennslu þessa barnahóps hækka um tæpan helming eða 143 milljónir á ári næstu þrjú árin eða 429 milljónir króna alls.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Hér er á ferðinni tillaga sem hefur fengið jákvæðar móttökur í öllum ráðum og nefndum sem um þessi mál fjalla. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa á öllum stigum málsins greitt atkvæði með tillögunni enda góður skilningur á mikilvægi tillögunnar. Umsagnaraðilar hafa sömuleiðis fagnað tillögunni þar sem hún hefur verið lögð fram. Miðað við þá sátt sem ríkt hefur um málið hefði mátt teljast eðlilegra að borgarstjórn í heild legði fram tillöguna í stað þess að þeir flokkar sem mynda meirihluta borgarstjórnar reyndu að eigna sér hana. Samhljóða samþykkt tillögunnar í borgarstjórn ber vott um þá miklu samstöðu sem ríkir um málið og tillöguna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna samþykkt hennar enda ljóst að grettistaki hafi þurft að lyfta í málaflokknum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Sú viðbót sem hér er veitt fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku er góð og er í samræmi við tillögu Flokks fólksins sem nýlega var lögð fram í borgarstjórn. Í þeirri tillögu var einnig nefnt að gera þarf meira, finna ólíkar leiðir til að hjálpa börnum af erlendum uppruna til að komast hraðar og betur inn í samfélagið. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi í grundvallaratriðum eins og tungumálakennslu. Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Börn innflytjenda eru mörg einangruð. Þau hafa ekki verið að fá næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskort árum saman eins og sjá má í skýrslu innri endurskoðunar frá 2019. Fleira þarf að koma til, þar með talið faglegur stuðningur við starfsfólk og nauðsynlegar fjárveitingar.

2.    Fram fer umræða um Sundabraut. R21020085

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Loksins, loksins er Sundabrú komin á dagskrá. Þessi vegtenging var eitt af stóru kosningamálum Miðflokksins í Reykjavík. Ábyrð Reykjavíkurborgar er mikil í málinu og óskiljanlegt að borgarstjóri finni Sundabrú allt til foráttu. Minnt er að á hans vakt var nú síðast farið í blokkaruppbyggingu í Gufunesi í veghelgunarsvæði Sundabrautar og smáhýsin voru reist í vegstæði hennar. Allt hefur verið gert til að hindra rúmlega 20 ára loforð Samfylkingarinnar um Sundabraut sem var forsenda sameiningar Reykjavíkur og Kjalarness að sögn þáverandi borgarstjóra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ljóst er að ef reynir á ákvæði 3. mgr. 28 gr. vegalaga nr. 80/2007 sem hljóðar svo: „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn“ er ljóst að Reykjavíkurborg þarf að greiða fleiri, fleiri milljarða vegna hindrunar komu Sundabrautar. Fyrst var lokað fyrir hagkvæmastu leiðina þegar leyfi var veitt fyrir uppbyggingar á Kirkjusandi, síðar í Vogabyggð og nú síðast í Gufunesi. Öryggismálum í Reykjavík er illa sinnt og lítið gert með rýmingaráætlun borgarinnar. Sundabraut er öryggisventill Reykvíkinga og mikil samgöngubót fyrir landsmenn alla.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Kynnt hefur verið skýrsla starfshóps Vegagerðarinnar um kosti Sundabrautar. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að Sundabraut þarf að vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar og að gangandi og hjólandi geti notað hana. Ef vel tekst til með hönnun brúa sem byggja þarf getur Sundabraut, með glæsilegum brúarmannvirkjum, orðið prýði í borginni.

-    Kl. 17:00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti með fjarfundarbúnaði.

3.    Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. febrúar 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 9. febrúar 2021 á tillögu að aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árin 2021-2025, ásamt fylgiskjölum, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar 2021 og 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. janúar 2021. R21010216

-    Kl. 18.00 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur sæti. 

Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Valgerður Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason og Egill Þór Jónsson ásamt borgarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur litið dagsins ljós. Hún er viðamikil, metnaðarfull og róttæk. Aðgerðir þessa áratugar sem nú gengur í garð skera úr um hvernig framtíð okkar lítur út. Í stórum dráttum eru helstu áskoranir borgarinnar í loftslagsmálum á sviði samgangna og úrgangs. Brugðist er við með fjölbreyttari samgöngumátum, orkuskiptum í samgöngum og stóraukinni flokkun á sorpi. Orðum verða að fylgja efndir og nú tekur tímabil margvíslegra loftslagsaðgerða við. Mörg lögðu á árarnar við gerð áætlunarinnar og er fjölbreyttum hópum fólks, félagasamtökum og fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum, þakkað kærlega fyrir gagnlegar ábendingar og frumkvæði. Þá er starfsfólki stýrihópsins sérstaklega þakkað fyrir að halda afar vel utan um margslungna og umfangsmikla vinnu og árangurinn af henni sem blasir nú við okkur í nýrri aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Valgerður Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Örn Þórðarson, Björn Gíslason og Egill Þór Jónsson leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg þarf að ganga lengra í að auðvelda orkuskipti í samgöngum enda hefur hún verið í fararbroddi í notkun endurnýjanlegrar orku síðan hitaveitan leysti kolakyndingu af hólmi. Jafnframt þarf að bæta og fjölga hjólastígum. Þá er kolefnisbinding CarbFix framfaraskref á heimsvísu. Eitt stærsta framlag Reykjavíkurborgar gæti verið að miðla af þekkingu sinni. Í stefnunni er rafvæðing hafna óraunhæft markmið fyrir árið 2025 en mjög takmarkað fjármagn er í áætlunum borgar og ríkis. Orkuskiptin eru stórlega vanmetin og þar þarf að gera betur. Raforkuframleiðsla hér á landi er endurnýjanleg og rafvæðing því augljós valkostur í samgöngum. Þá gengur 2% árleg fækkun bílastæða ekki upp með hliðsjón af íbúafjölgun sem er yfir 2%. Ekkert er minnst á notkun nagladekkja í borgarlandinu. Áform um að ganga á græn svæði í borginni svo sem í Elliðaárdal og Laugardal og fleiri svæðum eru í ósamræmi við stefnuna. Við viljum skýr markmið í skógrækt enda er hún hagkvæm og náttúruleg binding. Þá viljum við nefna fækkun olíutanka í Örfirisey en samþykkt var í borgarráði að fækka þeim um 50%. Reykjavík framtíðarinnar á að byggja á sjálfbærum hverfum, þar sem hvert hverfi samanstendur af sterkum innviðum og þjónustu með öflugum og tíðum almenningssamgöngum innan hverfis, sem tengist síðan stærra samgöngukerfi borgarinnar. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir leggja fram svohljóðandi bókun: 

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst skýrum vilja til að vera leiðandi í aðgerðum og breytingum sem nauðsynlegar eru svo bregðast megi við vandanum. Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks kemur fram að taka beri alvarlega þá náttúruvá sem stafar af loftslagsbreytingum. Íslendingar eigi að sýna frumkvæði og framfylgja alþjóðlegum sáttmálum og aðgerðum sem hafa verið ákveðnar á sviði loftslags- og umhverfismála. Loftslagsráð Sjálfstæðisflokks hefur jafnframt fjallað um þau fjölmörgu tækifæri sem felast í því að vera leiðandi í baráttunni og leitinni að nýjum lausnum. Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir á fimmtán meginaðgerðum sem mikilvægt er að þverpólitísk sátt ríki um, svo sem markmiðum um þróun sjálfbærra hverfa, hjólaborg á heimsmælikvarða, orkuskipti í samgöngum, endurheimt votlendis og grænan byggingariðnað. Undirmarkmið stefnunnar eru sum óútfærð en verða lögð til lokaafgreiðslu fagráða þegar útfærslu og kostnaðarmati er lokið. Það eru fjölmörg tækifæri fyrir Reykjavíkurborg að vera leiðandi á heimsvísu í baráttunni við loftslagsvána, til dæmis með nýrri tækni á borð við CarbFix, orkuskiptum og markvissri þekkingarmiðlun. Flestar framsæknar borgir heims vinna nú eftir loftslagsáætlunum sem leggja eiga lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Reykjavíkurborg getur ekki látið sitt eftir liggja.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista telur almennt mikilvægt að hverfa frá kapítalísku hagkerfi og leiðum nýfrjálshyggjunnar í baráttunni við lotlagsvána. Fulltrúi sósíalista tekur í grunninn undir aðgerðaáætlunina en hefði viljað sjá stærri skref og að gengið yrði lengra, t.d. með eflingu núverandi almenningssamgangna. Hvað varðar samstarf við atvinnulíf er mikilvægt að draga mengandi fyrirtæki til ábyrgðar. Samfélagsábyrgð er til umfjöllunar í áætluninni, í samhengi við Festu og samstarf við atvinnulífið. Fulltrúi sósíalista gerir alvarlegar athugasemdir við það ef unnið verði með Creditinfo varðandi að veita fyrirtækjum viðurkenningar vegna samfélagslegrar ábyrgðar en þau hafa unnið með Festu í því. Creditinfo setur saman upplýsingar um lánshæfismat einstaklinga og slæmt mat getur haft neikvæðar afleiðingar, t.a.m. torveldað leigjendum að taka íbúð á leigu á almennum leigumarkaði. Það er ekki samfélagslega ábyrgt að tengja sig við fyrirtæki sem jaðarsetja fátækt fólk í viðkvæmri stöðu. Þegar unnið er að því að koma skilaboðum um loftslagsmálin til ólíkra hópa innan samfélagsins, líkt og fjallað er um í meðfylgjandi jafnréttismati þarf einnig að tryggja að ólíkir hópar geti komið skilaboðum um hvað má bæta, áleiðis til stjórnvalda. Með fjölbreyttum röddum tryggjum við bætt og réttlátt samfélag. Tekið er sérstaklega undir umsögn ASÍ um mikilvægi þess að einblína á réttlát umskipti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins sem á sæti í stýrihópi um loftslagsstefnu Reykjavíkur þakkar starfsmönnum stýrihópsins fyrir vel unnin störf við gerð stefnunnar. Því er fagnað að tekið var tillit til sjónarmiða borgarfulltrúa Miðflokksins, m.a. það að notast við eins nýjar upplýsingar og til voru. Vinna hópsins tafðist um nokkra mánuði vegna þessa en töfin leiddi það af sér að vinna hópsins bætti faglega niðurstöðu skýrslunnar. Auðvitað er það eðlilegt að sjónarmið aðila í stýrihópnum skarast vegna mismunandi pólitískra skoðana. Í heildina er tekið undir margt sem kemur fram í loftslagstefnunni en nokkur atriði er ekki hægt að skrifa undir eins og t.d. meginmarkmið kolefnisbindingar um endurheimt votlendis um 60% og tölusett markmið um loftslagsskóga. Ekki hafa komið fram rök byggð á vísindum sem sanna að plöntun skóga dragi úr losun. Hér er slóð á skýrslu frá IPCC, Intergovernmental Panel on Climate Change sem sannar mál mitt vegna ummæla Lífar Magneudóttur, borgarfulltrúa á borgarstjórnarfundinum að ég færi með staðlausa stafi: https://www.ipcc.ch/srccl/chapter/chapter-2/ Borgarfulltrúi Miðflokksins gerir formlegan fyrirvara á skýrsluna og situr hjá við afgreiðslu hennar. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Í loftlagsáætluninni er margt gott en þar eru einnig atriði sem ekki tengjast beint loftslagi svo sem að efla skuli flóðvarnir meðfram strandlengjunni til að búa til útivistarsvæði og strandgarða. Þýðir þetta að bráðum verði ekkert eftir að náttúrulegum fjörum? Allt er að verða manngert og fátt að verða um náttúruleg útivistarsvæði í borgarlandinu. Steypa á kostnað náttúru. Fjallað er um tæknilausnir og um einfaldar leiðbeiningar um bætta hegðun en ekki tekið á aðalmálunum sem er orkuskiptin og notkun metans í stað þess að brenna því. Auðvitað á að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti en nota innlenda orkugjafa í staðinn, metanið. Talað er um urðun. Vandséð er að það að hætta urðun bæti loftgæði. Hringrásarhagkerfið stuðlar að því að minnka sóun náttúrugæða, en ekki að bæta loftgæði sérstaklega. Það liggur í augum uppi að draga á úr allri sóun og endurnýja sem mest. Draga á úr ferðum erlendis. Ekki var hlustað á að auka ívilnanir fyrir raf- og metanbíla til að flýta fyrir orkuskiptum. Ekki var hlustað á að hvetja til að styrkja björgunarsveitir án skoteldakaupa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft rætt hjólastíga en þeir eru víða í borginni stórhættulegir enda ekki hannaðir sem slíkir og því varla alvöru viðbót við samgöngukerfið.

-    Kl. 18:36 víkja Skúli Helgason og Diljá Ámundadóttir af fundinum og taka sæti með fjarfundarbúnaði.

-    Kl. 18:36 víkja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur þar sæti og Rannveig Ernudóttir tekur sæti með fjarfundarbúnaði.

4.    Fram fer umræða um almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu. R21030034

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Á borgarráðsfundi þann 16. maí 2019 bókaði borgarfulltrúi Miðflokksins við kynningu á rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. „Loksins, loksins er komin rýmingaráætlun. Þann 22. maí 2012 lagði ég fram á Alþingi fyrirspurn um rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið kæmi upp vá eins og t.d. eldgos. Svar innanríkisráðherra var birt þann 10. september 2012 og er að finna á þessari slóð https://www.althingi.is/altext/140/s/1712.html. Í stuttu máli má segja að engin rýmingaráætlun var til. Gleðilegt er að sjá að ýmislegt í þessari fyrirspurn er að skila sér í rýmingaráætluninni. Mikið áhyggjuefni er að Sundabraut er ekki löngu komin og ekki er búið að festa flugvöllinn í Vatnsmýri í sessi.“ Umræðurnar á borgarstjórnarfundinum voru gagnlegar en margt vantar í rýmingaráætlunina ef stórtækir atburðir gerast á höfuðborgarsvæðinu sem kalla á víðtæka rýmingu. Ekki eru til sviðsmyndir af verstu hugsanlegu atburðum. Aðferðin til að koma upplýsingum áleiðis til fólks eins og að senda SMS, senda upplýsingar á fjölmiðla og samfélagsmiðla eru á veikum grunni reystar því í hamförum fer rafmagnið oft fyrst. Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í stórkostlegt kynningarátak og sendi vandaðan upplýsingabækling á hvert einasta lögheimili í Reykjavík til að upplýsa um hvernig fyrstu viðbrögð eigi að vera þegar alvarleg vá steðjar að. 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning að menningarmiðstöðvum í hverfum borgarinnar fyrir börn og ungmenni. Menningarmiðstöðvarnar verði gjaldfrjálsar þar sem börnum og ungmennum gefist kostur á að taka þátt í skipulagðri starfsemi og viðburðum þeim að kostnaðarlausu. Menningarmiðstöðvar eru stofnanir sem standa fyrir fjölþættri menningarstarfsemi, s.s. leiksýningum, myndlistarsýningum, tónleikum, kvikmyndasýningum, fyrirlestrum og námskeiðum. Í menningarmiðstöðum er einnig oft að finna bókasafn og aðstöðu til fundahalda. Menningarmiðstöðvarnar verði opnar alla virka daga og um helgar þar sem áhersla er á skipulagða dagskrá. Opnunartími miðist við að börn og ungmenni geti sótt í menningarmiðstöðvarnar að skóladegi loknum. Áhersla verði á gjaldfrjálsan aðgang og dagskrá sem er hönnuð fyrir börn og ungmenni, af börnum og ungmennum, þar sem fjölskyldur geta fengið að vera með. Leiðarljósið verði að þar geti börn og ungmenni hist og verið saman óháð efnahag og lagt stund á uppbyggilegt félagsstarf hvort sem það er í gegnum listsköpun, kvikmyndaáhorf og umræður eða aðra viðburði. Starfsemin þróist í takt við áherslur þeirra sem sækja menningarmiðstöðina. Menningu sem höfði til barna og unglinga verði gert hátt undir höfði og margbreytni fagnað, hér má t.a.m. nefna mikilvægi þess að leggja áherslu á mikilvægi þvermenningar í starfsemi. Þá verði foreldrum og fjölskyldum einnig boðið að taka þátt í félagstarfinu eftir því sem hentar. Menningar- og ferðamálasviði ásamt velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar með tilliti til staðsetningar og útfærslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R21030035

-    Kl. 19.40 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur sæti.

Tillagan er felld með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér var lagt til að koma á fót menningarmiðstöðvum fyrir börn og unglinga þar sem dagskrá væri í boði alla virka daga og um helgar. Foreldrum og fjölskyldum yrði einnig boðið að taka þátt eftir því sem hentar. Matið á þörf fyrir þessu byggir m.a. á því að hér eru fátæk börn og fjölskyldur þeirra hafa ekki alltaf kost á því að taka þátt í viðburðum sem kosta og það er staðreynd að listsköpun, leiklist og annað sem fellur undir hatt barna- og unglingamenningar kostar sitt. Borgin býður upp á ýmsa áhugaverða og gjaldfrjálsa viðburði en tillagan fól í sér að starfsemin yrði efld og slíkt fest í sessi með því að tryggja að aðgangur að menningarviðburðum, væri í boði alla daga. Áhersla var lögð á gjaldfrjálsan aðgang og dagskrá sem er hönnuð fyrir börn og ungmenni, af börnum og ungmennum. Lagt var til að menningar- og ferðamálasviði ásamt velferðarsviði yrði falið að útfæra efni tillögunnar með tilliti til staðsetningar og útfærslu. Fullltrúi sósíalista kom inn á það að vel gæti farið á því að mennningarmiðstöðvarnar gætu átt heima í menningarhúsum borgarbókasafnanna. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í tilllögunni er lagt til að hafinn verði undirbúningur að stofnun menningarmiðstöðva fyrir börn og unglinga í hverfum borgarinnar. Þær skuli vera gjaldfrjálsar. Vandinn við tillöguna eins og hún er sett fram er að hún boðar eina lausn sem byggir ekki á heildstæðu mati. Spyrja má hvort ekki sé nærtækara að efla stofnanir borgarinnar sem sjá um menningarstarf fyrir börn og unglinga. Æskilegt er að menningar- og ferðamálasvið, skóla- og frístundasvið og velferðasvið meti hvernig er hægt að efla menningarstarf fyrir börn og unglinga.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reykjavíkurborg á margvíslegt húsnæði sem nýst getur undir menningu, má í þessu sambandi nefna skólabyggingar, bókasöfn og annað húsnæði s.s. Iðnó og Hörpu.

6.    Fram fer umræða um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík. R21030036

-    Kl. 20.10 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum og aftengist fjarfundabúnaði. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins er nú bara í áfalli yfir að enginn úr meirihlutanum sýndi umræðunni um sveigjanleg starfslok áhuga. Ærandi þögn og áhugaleysi gagnvart málefninu er þrúgandi. Enginn setti sig á mælendaskrá frá meirihlutanum. Hvernig á að skilja þetta? Borgin ætti að hætta að nota aldursviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Einnig segir að ákvörðun um ráðninguna skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns viðkomandi stofnunar.“Þetta minnir á  bænaskjal eins og Íslendingar sendu til einvaldskonungana í Kaupmannahöfn fyrr á öldum. Borgin hlýtur að geta gert betur en þetta í stað þess að losa sig við fólk úr störfum aðeins vegna þess að það hefur náð ákveðnum aldri og vill síðan ekki einu sinni ræða málið í borgarstjórn.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því ber að halda til haga að borgarfulltrúarnir Rannveig Ernudóttir og Alexandra Briem tóku báðar til máls undir þessum lið.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Þeir tveir fulltrúar meirihlutans sem tóku loks til máls í umræðunni um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík komu upp í andsvari. Fulltrúi Flokks fólksins man ekki eftir að nokkurn tímann hafi verið sýnt eins mikið áhugaleysi og kuldi gagnvart máli hér í borgarstjórn eins og þessari umræðu Flokks fólksins um atvinnumál aldraðra í Reykjavík.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því ber að halda til haga að Alexandra Briem kom upp í andsvari en Rannveig Ernudóttir fór á mælendaskrá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það eigi að klappa fyrir því?

7.    Fram fer umræða um húsnæði Fossvogsskóla. R21030038

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þau alvarlegu og viðvarandi vandamál sem upp hafa komið í húsnæði Fossvogsskóla. Foreldrar barna í skólanum hafa nú staðið í ágreiningi við Reykjavíkurborg yfir þriggja ára tímabil um heilsuspillandi ástand skólahúsnæðisins. Yfir lengri tíma hafa börn og starfsfólk upplifað alvarleg veikindi sem að líkum má rekja beint til ástandsins. Það er frumskylda borgarinnar að tryggja sérhverju grunnskólabarni heilnæmt skólahúsnæði. Sú frumskylda hefur ekki verið uppfyllt. Þrátt fyrir umfangsmikil fjárútlát við endurbætur skólans hefur viðeigandi árangri ekki verið náð. Niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands og minnisblöð Verkís sýna að enn finnast hættulegar tegundir myglu og varasamar sveppategundir í skólahúsnæði Fossvogsskóla. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar kemur fram að í húsnæðinu finnist verulega eitruð efni sem jafnvel geti reynst krabbameinsvaldandi. Niðurstöður þessar lágu fyrir í desember 2020 en voru ekki birtar á vef Reykjavíkurborgar fyrr en í lok febrúar 2021. Niðurstöðurnar hafa ekki verið kynntar foreldrum og heildarskýrslan hefur ekki verið birt opinberlega. Foreldrar hafa sýnt fádæma þolinmæði og verið samvinnufúsir um lausnir. Þolinmæðin virðist þó eðlilega að þrotum komin. Skólahúsnæðið er heilsuspillandi og ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans. Börn eiga ávallt að njóta vafans og þeim verður undir öllum kringumstæðum að tryggja heilnæmt skólahúsnæði. Lausn málsins þarf að setja í forgang.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsnæðismál Fossvogsskóla hafa verið í umræðunni vegna myglu sem fannst í skólanum og hefur mikil vinna verið lögð í að gera upp þá hluta skólans þar sem voru skemmdir vegna raka. Nýjasta sýnataka frá því í desember sem kynnt var á dögunum leiddi í ljós að þörf var á frekari aðgerðum varðandi frágang í rakasperru, hreinsun o.fl. og er þeim verkáfanga lokið. Næstu skref verða að taka frekari sýni til að ganga úr skugga um að þær hafi skilað tilætluðum árangri. Samhliða þarf að huga að líðan þeirra barna sem hafa fundið fyrir einkennum og fara í gegnum leiðir til að mæta sem best þeirra þörfum í samstarfi við forráðamenn þeirra. Þau samskipti standa yfir og verður fram haldið þar til viðeigandi lausnir liggja fyrir. Fulltrúar meirihlutans ítreka mikilvægi þess að tryggja börnum og starfsfólki heilsusamlegt umhverfi og leggja áherslu á að áfram verði unnið að því að komast til botns í þessu máli þangað til það er tryggt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Staðan í Fossvogsskóla er með öllu óásættanlegt. Þarna eru börn látin vera við afar mengandi aðstæður. Ákalli hefur ekki verið sinnt. Minnist borgarfulltrúi Flokks fólksins þess að hafa fengið skammir frá Heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Fulltrúi Flokks fólksins var sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum pirringi þegar verið er að ganga erinda borgarbúa og spyrja spurninga. Reynt var að þagga málið og sagt að viðgerð væri lokið. Fengið var verktakafyrirtæki til að gera við húsið. Þegar litið er yfir ferlið er ekki annað hægt en að komast að þeirri niðurstöðu að verkið var ekki unnið með viðhlítandi hætti. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Hver ber ábyrgð á þessu? Myglu- og rakavandi í skólum er stórt vandamál, afleiðingar áralangrar vanrækslu á viðhaldi með tilheyrandi mygluskemmdum. Þetta ástand hefur haft djúpstæð áhrif á börn, foreldra og starfsfólk, líkamlega og andlega. Margir hafa veikst og sumir ekki náð sér að fullu og munu kannski seint gera ef nokkurn tímann. Hvernig ætlar borgarmeirihlutinn að taka á þessu alvarlega máli og öðrum sambærilegum?

8.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 18. febrúar. R21010001

1. liður fundargerðarinnar; aðalskipulag Reykjavíkur – nýi Skerjafjörður – breytt landnotkun er samþykktur með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins; Valgerðar Sigurðardóttur, Mörtu Guðjónsdóttur, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Arnar Þórðarsonar, Björns Gíslasonar og Egils Þórs Jónssonar ásamt borgarfulltrúum Miðflokksins og Flokks fólksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. R11060102

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

Með aðalskipulagsbreytingu sem tekur til nýs Skerjafjarðar er útfært markmið um að skapa sjálfbæra, blandaða íbúðarbyggð í Skerjafirði með grænu yfirbragði. Breytingin er forsenda þess að öflugur hverfiskjarni og grunnskóli verði í hverfinu og með henni er núverandi byggð styrkt til muna. Tenging nýja Skerjafjarðar við atvinnukjarna, háskóla og vistvæna samgöngumáta gerir hann að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Í breytingunni er dregið verulega úr umfangi landfyllingar og fyrirhugaðrar smábátahafnar og er landfyllingin færð út fyrir skilgreint hverfisverndarsvæði við Ægisíðu. Beðið verður með skipulagsvinnu við síðari áfanga uppbyggingar (þ.e. útfærslu deiliskipulags) í Skerjafirði þar til yfirstandandi umhverfismatsferli við landfyllingu er lokið en fyrri áfangi er óháður landfyllingu. Tekið er fram að niðurstaða umhverfismats geti haft þau áhrif að breytingu þurfi að gera á ný á aðalskipulagi vegna frekari minnkunar landfyllingar eða breyttrar afmörkunar hennar. Byggingarmagn breytist einnig óverulega miðað við gildandi aðalskipulag en heildar byggingarmagn íbúðarhúsnæðis eykst á kostnað atvinnuhúsnæðis.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanleg ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Í fyrsta lagi eru áformaðar landfyllingar komnar í umhverfismat sem er ólokið og því algerlega óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Í öðru lagi hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Verið er að breyta aðalskipulagi í hinum svokallaða „nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar vel rökstuddar og grafalvarlegar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati. Ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum. Umferðarmál í Skerjafirði eru óleyst. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefna skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga á framkvæmdatíma í för með sér sem hlýst af stórum vörbílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Minnt er á að olíumengun er í jörð á þessu svæði og sú dælustöð sem nú er á svæðinu ræður ekki við hlutverk sitt og ljóst er að byggja þarf nýja. Engin áform hafa verið birt hvar ný dælustöð á að vera. Að auki er nú þegar búið að úthluta lóðum á þessu svæði og er það algjörlega fáheyrt. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 9. lið fundargerðarinnar:

9. liður; starfshópur um börn innflytjenda skilaði skýrslu sinni og ágætum tillögum í maí 2020. Veigamesta tillagan var hins vegar hunsuð af meirihlutanum en hún er sú að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili. Grípa þarf til sértækrar aðgerðar eins og að tekjutengja gjöld ef hægt á að vera að auka jöfnu. Of mörg dæmi eru um að efnalitlir foreldrar séu nauðbeygðir til að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða gjald frístundaheimilis og þar með notar barnið ekki kortið í íþróttir. Rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. 1. liður aðalskipulag Reykjavíkur, nýr Skerjafjörður; Með þetta mál hefði átt að bíða enda liggja ekki öll gögn fyrir. Það er mikil andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Fjörur í Reykjavík eru í útrýmingarhættu vegna landfyllinga meirihlutans. Fjörur eru ekki einkaeign skipulagsyfirvalda borgarinnar. Ef markmið með þéttingu byggðar Nýs Skerjafjarðar er eyðilegging á núverandi Skerjafirði þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.

9.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 26. febrúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. febrúar, skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 17. febrúar og velferðarráðs frá 17. og 24. febrúar. R21010063

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Sjálfsagt er að uppfæra og endurnýja þjónustustefnu eftir því sem tækninni fleygir fram. En hér er gengið of langt í fjáraustri. Milljarðar streyma frá sviðinu til einkafyrirtækja hérlendis og erlendis fyrir alls konar hugmynda- og nýsköpunarverkefni sem aðeins þröngur hópur sérfræðinga skilur til hlýtar. Þjónustu hefur verið útvistað án þess að sýna fram á betri þjónustu. Í opnu bókhaldi sviðsins má sjá að aðkeypt þjónusta til Capacent og Gartner group er 90 milljónir og er farið langt fram úr áætlun. Í gögnin vantar greiðslur til Advania, Opinna kerfa og Origo. Í yfirliti yfir stafræna umbreytingu 2021 á að setja rúma 3 milljarða. Ekki er séð að verið sé að reyna að hagræða. Er t.d. ekki hægt að sameina eitthvað af skrifstofum s.s. „skrifstofu þjónustuhönnunar“ og „skrifstofu gagnaþjónustunnar“ og „stafræn Reykjavík“ - á þetta ekki allt heima undir upplýsingatækniskrifstofu? Varla er hagræðing í að brjóta þetta upp í margar skrifstofur? Flokkur fólksins vill að innri endurskoðun rýni í þessar tölur. Reykjavík hefur boðist til að vera leiðandi í upplýsingatækni fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sveitarfélögin. Borgin kostar þessa vinnu og færir Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hana á silfurfati. Hafa borgarbúar samþykkt að borga brúsann fyrir önnur, sum hver stöndug sveitarfélög?

Fundi slitið kl. 00:36

Forsetar gengu frá fundargerð

Sabine Leskopf

Hjálmar Sveinsson    Örn Þórðarson

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 2.3.2021 - prentvæn útgáfa