Borgarstjórn - 20.12.2016

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2016, þriðjudaginn 20. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Skúli Helgason, Dóra Magnúsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Jóna Björg Sætran, Halldór Halldórsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Marta Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar minnist Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, Steinunnar Finnbogadóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa, sem lést 9. desember sl.

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að til að bæta stöðu reykvískra nemenda í Pisakönnuninni verði efnt til víðtæks samstarfs og greiningarvinnu til að styrkja kennsluhætti í þeim þremur námsgreinum sem könnunin nær til. Í því skyni verði hafnar viðræður við menntamálaráðuneytið, menntastofnanir sem sinna rannsóknum á þessu sviði sem og alla hagsmunaaðila skólasamfélagsins; kennara, skólastjórnendur, foreldra og foreldrasamtök um leiðir til úrbóta. Skóla- og frístundasviði verði falið að hefja þessa vinnu sem fyrst.

- Kl. 14.30 tekur Magnús Már Guðmundsson sæti á fundinum og Dóra Magnúsdóttir víkur.

Samþykkt að vísa tillögunni til frekari meðferðar hjá skóla- og frístundasviði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

PISA könnunin er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi og gefur áreiðanlegar og sambærilegar upplýsingar um þróun yfir tíma og því mikilvægt mælitæki sem á að nýta í þeim tilgangi að bæta frammistöðu nemenda. Niðurstöður úr nýbirtri Pisa könnun gefa vísbendingar um að íslenskir nemendur séu heilu skólaári á eftir jafnöldrum sínum í öðrum löndum auk þess sem Ísland skipar neðsta sætið af Norðurlöndunum. Þessi staða er óásættanleg og bregðast verður við henni með því að hefja átak strax til úrbóta. Önnur sveitarfélög eins og Reykjanesbær hefur gert það með góðum árangri og sömuleiðis önnur lönd eins og Noregur. Það ætti því að vera keppikefli að Reykjavík, stærsta sveitarfélagið, geri slíkt hið sama og verði leiðandi í skólaþróun.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Eins og margir fræðimenn hafa bent á er PISA könnunin hvorki algildur né sérlega nákvæmur mælikvarði á gæði skólastarfs en niðurstöðurnar gefa vísbendingar sem mikilvægt er að taka alvarlega jafnt á landsvísu sem og í borginni í því augnamiði að bæta þurfi námsárangur í lestri, náttúruvísindum og stærðfræði. Litlar breytingar eru á stöðu reykvískra nemenda frá 2012 en árangur nemenda er þó heldur lakari, sérstaklega ef horft er yfir lengra tímabil. Gripið hefur verið til markvissra aðgerða í borginni til að bæta stöðuna varðandi læsi og lesskilning ekki síst með tilkomu Miðju máls og læsis og áform eru um að nýta þann nýja stuðningsvettvang til að bæta stærðfræði- og náttúrufræðilæsi með öflugri fræðslu og ráðgjöf við kennara í leik- og grunnskólum. Þessu til viðbótar er mikilvægt að ná samstöðu á landsvísu um markvissar aðgerðir til að efla náttúrufræðilæsi og stærðfræðimenntun í grunnskólanum. Þar er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög vinni þétt saman með aðkomu nemenda og foreldra og ekki síst háskóla sem mennta kennara í viðkomandi greinum.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstöður PISA könnunar frá 2015 gefa okkur ákveðnar vísbendingar um hvar íslenskir nemendur eru staddir þekkingarlega séð og hvernig þeim gengur að nýta sér þekkingu sína í nýju samhengi. Þar má sjá að all nokkurn hóp íslenskra nemenda skortir mikið á lesskilning og hefur alvarlega takmarkaðan grunnskilning á stærðfræði og náttúruvísindum og hlýtur slíkt að kalla á snör viðbrögð af hálfu stjórnenda kennslu- og menntamála. Brýnt er að skoða hvar sé að ganga vel, hvaða þættir það eru í kennslu og skólastarfinu sem virðast skila góðum árangri og hvar og hvernig þarf að hlúa sérstaklega að kennsluháttum. Því er nauðsynlegt að opinbera niðurstöður PISA en gera það með þeim hætti að niðurstöðurnar verði ekki nýttar til neikvæðrar umræðu í skólasamfélaginu. Bættur lesskilningur virðist vera sterkur undirliggjandi þáttur til að bæta árangur nemenda í námi bæði í stærðfræði og náttúruvísindum og því er brýnt að leggja mun meiri áherslu en í dag er á lestur í víðum skilningi ekki síst á miðstigi og efsta stigi grunnskólans.

- Kl. 14.45 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur.

2. Fram fer umræða um þjónustustefnu Reykjavíkurborgar.

- Kl. 15.15 víkur Hildur Sverrisdóttir af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg hefur nú í fyrsta sinn sett sér heildstæða þjónustustefnu sem leggur grunninn að samræmdri faglegri þróun á þjónustu borgarinnar til framtíðar. Með stefnunni skilgreinir Reykjavíkurborg sig sem framsækinn þjónustuaðila og í henni eru sett metnaðarfull markmið um fagmennsku í þjónustuveitingu, þar sem markvisst er horft til þarfa notenda þjónustu þegar ákvarðanir eru teknar um hvernig á að haga henni. Eitt af mikilvægustu markmiðunum er að þjónustu skal veita eins nálægt notendum og kostur er á. Þannig er skýrt kveðið á um að sjálfsafgreiðsla í gegnum rafræna þjónustu til hægðarauka fyrir notendur sé ávallt fyrsti kostur. Ánægjulegt er að þverpólitísk samstaða ríkir um þessi markmið enda er mikilvægt að stórar og metnaðarfullar breytingar af þessu tagi séu gerðar í víðtækri sátt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að stigin hafi verið skref í þá átt að gera þjónustu borgarinnar betri og skilvirkari. Þrátt fyrir ágæti svona stefnu á þó enn eftir að taka mikilvægar ákvarðanir um dreifingu þjónustu og stjórnkerfis borgarinnar, eins og til dæmis varðandi þjónustumiðstöðvar og hverfisráð borgarinnar og hvort ástæða sé til að hverfa frá svo dreifðri þjónustu til að einblína betur á að efla miðlæga þjónustu. Einnig er vert að minna á að þó að metnaðarfull stefna sé sett um betri þjónustu liggur í engu fyrir hvort að fjármagni verði forgangsraðað svo að hægt verði eftir atvikum að koma henni í framkvæmd.

3. Fram fer umræða um skýrslu stýrihóps um málefni miðborgarinnar og miðborgina.

- Kl. 15.30 tekur Kristbjörg Stephensen við ritun fundarins.

4. Fram fer umræða um nýtt fjárhagsupplýsingakerfi Reykjavíkurborgar um útgjöld og tekjur fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu á vefnum.

Borgarfulltrúar  Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að verið sé að birta upplýsingar um útgjöld og tekjur fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á vefnum. Það er þó vonum seinna því í október 2012 samþykkti borgarstjórn einróma tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar yrðu gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu en þá var gert var ráð fyrir því að tillagan gæti komið til framkvæmda á árinu 2013. Sú birting upplýsinga um útgjöld og tekjur fagsviða, sem nú er verið að ráðast í, er tvímælalaust til bóta en Reykjavíkurborg á þó enn langt í land með að framkvæma til fulls þá tillögu Sjálfstæðisflokksins sem borgarstjórn samþykkti einróma fyrir fjórum árum. Er borgarstjóri hvattur til að bæta þarna úr og sjá til þess að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar sem fyrst á vef borgarinnar.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Opnun nýs svæðis á vefsíðu borgarinnar, Opin fjármál Reykjavíkurborgar, er mikið fagnaðarefni. Þetta er varða á þeirri leið að uppfylla stefnumörkun borgarstjórnar um gagnsæi fjármálaupplýsinga borgarinnar og upplýsingamál almennt. Lausnin sem er notast við til að birta upplýsingarnar er heildstæð hugbúnaðarlausn sem býður upp á rafrænar, gagnvirkar skýrslur og mælaborð sem veita góða heildaryfirsýn yfir upplýsingar á aðgengilegu formi. Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum þann 17. desember 2015 að fara ætti í útboð á slíkri hugbúnaðarlausn og nú hefur sú fjárfesting skilað sér í  þessari fyrstu afurð, sem er fyrsta útgáfan af rafrænni gagnagátt um fjármál borgarinnar. Á næsta ári eru framundan stöðugar viðbætur við þessa fjármálagátt, sem og opinber birting ýmissa annarra upplýsinga sem borgin býr yfir, enda er lausnin öflug og býður upp á mjög mikla möguleika á samþættingu og birtingu upplýsinga.

5. Lagt er til að Jóna Björg Sætran taki sæti í mannréttindaráði og Sveinn Hjörtur Guðfinnsson taki sæti varamanns í stað Snædísar Karlsdóttur.

Samþykkt. 

Halldór Auðar Svansson situr hjá við afgreiðslu málsins.

6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. desember.

4. liður fundargerðarinnar frá 15. desember, synjun borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 á breytingu á deiliskipulagi Skuggahverfis vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg, samþykktur með 10 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina gegn 4 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Líf Magneudóttir vék af fundi undir afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Húsið við Veghúsastíg 1 var metið ónýtt árið 2011. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mat húsið óíbúðarhæft í byrjun árs 2012 og Minjastofnun affriðaði húsið á árinu 2014 vegna bágs ástands þess. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við niðurrif þess. Vegna þessa er eðlilegt að fallast á þá deiliskipulagsbreytingu sem auglýst hefur verið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Gamla timburhúsið við Veghúsastíg 1 hefur ótvírætt varðveislugildi. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina hafnar deiliskipulagstillögu um að heimilt verði að rífa það eða fjarlægja.

9. liður fundargerðarinnar frá 15. desember, samþykkt borgarráðs á því að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út 2. áfanga gatnagerðar vegna uppbyggingar á Hlíðarenda, samþykktur með 12 atkvæðum. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Marta Guðjónsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.

24. liður fundargerðarinnar frá 15. desember, tillaga borgarstjóra um að borgarstjórn samþykki sölu eftirtaldra eigna eignasjóðs til Félagsbústaða: Álfaland 6, Árland 9, Ásvallagata 14, Eikjuvogur 9, Holtavegur 27, Laugarásvegur 39, Miklabraut 18-20, Njálsgata 74, Seljahlíð og Snorrabraut 52 fyrir kr. 1.703.429.000, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

25. liður fundargerðarinnar frá 15. desember, tillaga um að borgarstjórn samþykki að veitt verði veðheimild í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð á lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. lagður fram með svohljóðandi bókun:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Félagsbústaða hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að nafnvirði 1.500 m.kr. en að útgreiðslufjárhæð 1.352 m.kr. til 39 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til að fjármagna kaup á félagslegu húsnæði og til uppgreiðslu óhagstæðra lána Félagsbústaða hf. sem tekin voru til kaupa og viðhalds á félagslegu húsnæði, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn Reykjavíkurborgar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Félagsbústaða hf. til að selja ekki eignarhlut sinn í Félagsbústöðum hf. til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut í Félagsbústöðum hf. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu. Jafnframt er Birgi Birni Sigurjónssyni, kt. 200249-2169, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja, f.h. Reykjavíkurborgar, veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

26. liður fundargerðarinnar frá 15. desember, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2016, samþykktur með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

7. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. desember, íþrótta- og tómstundaráðs frá 2. desember, mannréttindaráðs frá 9. og 13. desember, menningar- og ferðamálaráðs frá 28. nóvember og 2. desember, skóla- og frístundaráðs frá 14. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. desember og velferðarráðs frá 1. desember.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar sem halda skal þann 3. janúar 2017 með vísan til heimildar í 2. mgr. 14. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 139/2011. Þess í stað skal haldinn aukafundur 10. janúar 2017.

Samþykkt með 15 atkvæðum.

Fundi slitið kl. 18.20

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Líf Magneudóttir

Skúli Helgason Kjartan Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20.12.2016 - prentvæn útgáfa