No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2022, þriðjudaginn 18. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar, auk borgarstjóra, tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Rannveig Ernudóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson.
Fundarritari var Ebba Schram.
Þetta gerðist:
Í upphafi fundar kveður borgarstjóri sér hljóðs og flytur minningarorð um Örnu Schram og Egil Skúla Ingibergsson.
- Kl. 14:05 tekur Aron Leví Beck sæti á fundinum með rafrænum hætti.
1. Fram fer umræða um þjónustu Reykjavíkurborgar og neyðarstig almannavarna vegna COVID-19. MSS22010216
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur frá upphafi gagnrýnt að Reykjavíkurborg hafi verið höfð á „neyðarstigi“ og reksturinn hafður undir sérstakri svokallaðri neyðarstjórn allt frá því að COVID-19 skaut upp kollinum hér á landi. Líkja má þeirri ákvörðun við valdatöku gegn kjörnum fulltrúum sem eru kosnir til að reka borgina. Neyðarstjórnina skipa borgarstjóri, framkvæmdastjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu auk sviðsstjóra fagsviða. Einungis einn aðili hefur verið kosinn af Reykvíkingum í þessum hópi og er það borgarstjóri. Í fleiri, fleiri vikur á þessu tveggja ára tímabili hefur alls ekkert neyðarástand ríkt í landinu. Borgarfulltrúum hefur verið haldið frá Ráðhúsinu á grunni sóttvarnarreglna. Það er fáránlegt á grunni þess að í Ráðhúsinu eru margar vistarverur. Minnt er á að borgarfulltrúar eru 23 á meðan þingmenn eru 63. Þingfundir hafa gengið eðlilega fyrir sig í mun minna húsnæði. Þessi valdataka borgarstjóra er í besta falli vafasöm og til efs að hún standist lög.
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að horfið verði frá þéttingu við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar í ljósi mikillar andstöðu við skipulagsáformin þar, eins og skýrt kom fram í könnun Gallup sem gerð var fyrir borgaryfirvöld. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir enn fremur að fallið verði formlega frá þeim áformum sem kynnt hafa verið í hverfaskipulagi Háaleitis og Bústaða varðandi þéttingu við Bústaðaveg.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010212
Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það lýsir miklu kjarkleysi af hálfu meirihlutans að þora ekki að taka þessa tillögu til afgreiðslu. Sú ákvörðun að vísa tillögunni frá sýnir vel að meirihlutinn er kominn upp við vegg í þessu máli. Stórar breytingar í skipulagi ber að taka í borgarstjórn. Íbúar eiga heimtingu á að fá hreinar línur varðandi þéttingu við Bústaðaveg og við gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar sem mikil andstaða íbúa er við en ⅔ þeirra sem tóku afstöðu voru á móti þeim. Fréttatilkynning um breytt áform hefur ekkert formlegt eða efnislegt gildi. Íbúar eru skildir eftir á flæðiskeri og mega búast við að áfram verði þrengt að grónum hverfum borgarinnar ef þessi meirihluti fær sínu framgengt áfram.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var meðal íbúa hverfisins sýna að 60% svarenda voru hlynntir hugmyndum um fjölgun íbúða við gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar ýmist almennt eða ef Miklabraut yrði lögð í stokk á umræddum kafla. Um 25% voru því andvíg óháð útfærslu. Til mikils er vinna ef hægt er að finna lausnir sem milda ásýnd Miklubrautar á þessum kafla og eðlilegt er að vinna úr niðurstöðum samráðsins og móta út frá þeim framtíðarsýn í sem breiðastri sátt. Könnunin gefur til kynna að það er vel gerlegt en er verkefni til lengri tíma. Eðlilegt fyrsta skref er að vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa í umsagnarferlinu. Varðandi hugmyndir við Bústaðaveg þá liggur fyrir bókun meirihluta í skipulags- og samgönguráði um að frá þeim skuli fallið og þarf því ekki að falla frá þeim aftur.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikil gagnrýni hefur komið fram á nýtt hverfaskipulag Háaleitis-Bústaða. Mikill hitafundur var haldinn þar sem hæst bar að embættismaður borgarinnar gaf þá yfirlýsingu að fólk á aldrinum 60 ára+ væri ómarktækt í skoðunum í málinu. Nýlega var gerð skoðanakönnun sem tekin var 15.-30. nóvember sl. Skoðanakönnunin er borgaryfirvöldum ekki í hag því tæplega 45% svaranda leist illa á tillögurnar, hvorki vel né illa 24,5% og þeim sem leist vel á tillögurnar voru tæp 31%. Því hefur meirihlutinn fallið frá hugmyndum sínum enda kosningar í nánd.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í kjölfar birtingar niðurstöðu Gallup var send út fréttatilkynning þar sem fram kom að borgarstjórn hafi ákveðið að leggja til hliðar hugmyndir um þéttingu byggðar við Bústaðaveg vegna mikillar óánægju og leita eigi nýrra leiða. Þetta er sannarlega nýjung að gerist á þessu kjörtímabili en allir vita að kosningar eru í nánd. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort átt sé við allar vinnutillögurnar sem snúa að Bústaðavegi eða aðeins sumar. Þetta er óljóst. Er hætt við allt eða bara sumt? Mikil óánægja kom einnig fram með aðrar tillögur sem snúa að Múlum, Háaleiti, Gerðum, Hvassaleiti og Smáíbúahverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins skilur vantraust fólks í garð skipulagsyfirvalda í ljósi sögunnar á þessu kjörtímabili. Rauði þráðurinn er ótti fólks við að þétta eigi of mikið og ekki sé gert ráð fyrir nægjanlegu svigrúmi fyrir fólkið sem þarna býr og mun búa í framtíðinni. Það þarf að taka mið af þörfum allra en ekki bara sumra. Umfram allt á fólk að geta ráðið sínum lífsstíl í samgöngumálum. Þeir eru ansi margir sem upplifa að verið sé að þrýsta þeim inn í einhvern samgöngumáta sem hentar þeim ekki en sem meirihlutinn vill að sé viðhafður. Endurvinna þarf hverfisskipulagið frá grunni með athugasemdirnar að leiðarljósi að mati fulltrúa Flokks fólksins.
- Kl. 17:15 aftengist Heiða Björg Hilmisdóttir fjarfundarbúnaði og Þorkell Heiðarsson tekur sæti með rafrænum hætti.
3. Fram fer umræða um framtíðarfyrirkomulag íbúaráða að loknu tilraunaverkefni. MSS21120181
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tilraunaverkefni um nýtt fyrirkomulag íbúaráða hefur verið starfrækt síðan 2. maí 2019 þegar endurskoðað fyrirkomulag var samþykkt í borgarstjórn, með ýmiss konar jákvæðum breytingum sem voru til þess fallnar að auka aðgengi íbúa í hverfunum að ákvarðanatöku. Hefur tilraunaverkefninu verið fylgt eftir af stýrihópi um innleiðingu íbúaráða sem hefur nú, í kjölfar víðtæks samráðsferlis, lokið störfum. Samráðsferlið fól í sér, auk opinna funda í öllum hverfum borgarinnar við vinnslu núverandi fyrirkomulags, tvær umferðir af fundum fulltrúa stýrihópsins með öllum íbúaráðum Reykjavíkur auk funda með einstökum ráðum um sértæk umfjöllunarefni, fundi með starfsfólki Reykjavíkurborgar frá öllum sviðum sem best þekkir til, auk opins umsagnarferlis og umsagnarferlis innan fagráða og nefnda Reykjavíkurborgar. Niðurstaðan er heildstætt fyrirkomulag íbúaráða sem byggir á núverandi fyrirkomulagi en felur í sér breytingar sem sníða eiga af þá vankanta sem komu fram í samráðsferlinu. Að auki fylgja fimm tillögur um almenna umgjörð ráðanna og vinnu sem fari fram samhliða innleiðingu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á kjörtímabilinu hefur meirihlutanum mistekist að nýta ráðin til raunverulegs samráðs við íbúana.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Margar breytingar sem lagðar eru til eru góðar en ná kannski ekki nógu langt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að öll íbúaráðin séu framhandleggur íbúa hverfisins inn í „kerfið“ og borgarstjórn og gæti þess ávallt að rödd fólksins heyrist. Þetta hefur reyndar ekki verið upplifun af íbúaráðum sem eru jú reyndar afar misjöfn. Stundum hefur þurft að berjast fyrir að koma máli sem brennur á íbúum á dagskrá íbúaráðs. Þetta mátti sjá með mál eins og þriðja áfanga Arnarnesvegar. Ítrekað var óskað eftir að íbúaráð Breiðholts fjallaði um málið. Þar leit svo út sem formaðurinn reyndi hreinlega að hindra að málið kæmist á dagskrá. Sjá mátti í færslu formannsins að málið væri komið í góðan farveg og allir gætu verið glaðir. Lagningu Arnarnesvegar sem kljúfa mun Vatnsendahvarf, aðgerð sem byggð er á 18 ára umhverfismati, hefur verið mótmælt harðlega af mörg hundruð manns, af þeim sem vilja standa vörð um náttúru og dýralíf og vilja ekki mengandi hraðbraut ofan í Vetrargarðinn, leiksvæði barna. Íbúaráðin hvorki mega né eiga að vera smærri útgáfa af borgarstjórn þar sem meirihlutinn ræður dagskránni. Sennilega er of mikil tenging við borgarstjórn. Á þessum vettvangi á að ræða mál í þaula og forðast allt hóplyndi og meðvirkni. Íbúðaráðin eru ekki saumaklúbbar.
Borgarfulltrúi Sósíalistafólks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hlutverk íbúaráðanna er að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa, styrkja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan hverfisins. Í því ljósi hefðu sósíalistar vilja sjá fleiri slembivalda fulltrúa í ráðunum til að leitast við að ná fram fjölbreyttum röddum þeirra sem eru síður líklegir til að taka þátt í ráðum og sem stuðningur við aðra slembivalda í ráðunum. Miðað við núverandi fyrirkomulag er slembivalinn fulltrúi einn meðlimur í ráðinu en sex manns sitja í einu íbúaráði. Þá telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að íbúaráðin fái að kjósa formann en það er í höndum borgarstjórnar. Eins og staðan er nú þá er helmingur íbúaráðsins kjörinn af borgarstjórn, þar af að lágmarki tveir úr hópi borgarfulltrúa eða varaborgafulltrúa. Þó að það sé mikilvægt að hafa tengsl við borgarstjórn telur fulltrúi sósíalista mikilvægt að íbúar sem ekki komi úr borgarstjórn hafi meira vægi í ráðinu. Þá þarf einnig að skoða launamál og tryggja að það sé ekki meira greitt fyrir setu í ráðinu ef viðkomandi er kjörinn fulltrúi. Að lokum væri eðlilegt að íbúaráðin væru tíu miðað við núverandi hverfaskiptingu.
- Kl. 17:49 aftengist Skúli Helgason fjarfundarbúnaði og Sigríður Arndís Jóhannesdóttir tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka tafarlaust birtustig götulýsingar í 50 lúx.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120298
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um ljósvistarstefnu Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík er dimm og drungaleg á veturna. Alveg sama hvert er litið, hvort það eru göturnar, lýsingar við gangstéttar, lýsingar á hjólastígum, inn í hverfum borgarinnar, við skólabyggingar, á Laugaveginum og nágrannagötum hans. Í raun er Reykjavíkurborg stórhættuleg þeim sem eru á ferðinni eftir myrkur. Það er þreifandi myrkur í allri borginni. Norska vegagerðin áætlar að það sé 1,5-2,0 sinnum meiri slysahætta á því að keyra í myrkri en í birtu. Osló hefur það meginmarkmið í ljósvistarstefnu sinni að tryggja umferðaröryggi og almennt öryggi fyrir íbúana með götu- og vegalýsingu. Lýsingin er notuð til að draga úr fjölda slysa vegna slæms skyggnis á dimmustu tímum sólarhringsins. Ekki síst er markmið góðrar lýsingar að íbúarnir upplifi öryggi á ferðum sínum um borgina. Reynslan þar og tölfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að góð lýsing dregur úr hættu á slysum, óæskilegum athöfnum og glæpum. Ekkert slíkt markmið er að finna í drögum að ljósvistarstefnu Reykjavíkur. Tillögu minni var vísað til starfshóps um ljósvistarstefnu Reykjavíkur. Ég skora á hópinn að láta þýða ljósvistarreglur Oslóarborgar sem finna má hér. Það er ánægjulegt að til standi að klára ljósvistarstefnu Reykjavíkur fyrir kosningar að teknu tilliti til tillögu minnar.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Reykjavíkurborg felur Félagsbústöðum að fara í fjárfestingu til að útvega húsnæði fyrir fólk sem nú bíður eftir húsnæði hjá borginni. Tæplega 900 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir húsnæði hjá borginni sé litið til félagslegs leiguhúsnæðis, húsnæðis fyrir fatlað fólk, húsnæðis fyrir heimilislausa einstaklinga og þjónustuíbúða fyrir aldraða. Miklu fleiri eru að bíða eftir húsnæði sem hentar þeirra þörfum ef börn þessara einstaklinga eru talin með. Samkvæmt grófri áætlun myndi það kosta um 24 milljarða að kaupa húsnæði til að vinna upp biðlista vegna húsnæðis í Reykjavík, fyrir lok kjörtímabilsins. Það er nauðsynlegt að útrýma biðlistum eftir húsnæði og vinna gegn húsnæðiseklunni sem bitnar harðast á þeim sem verst standa í samfélaginu. Húsnæði og öruggt húsaskjól er grunnforsenda velferðar og fjárfesting í þágu húsnæðisuppbyggingar ætti að vera efst á forgangslista borgarinnar. Hver íbúð mun skila borginni leigutekjum sem getur farið í afborgun af lántöku vegna húsnæðisuppbyggingar. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra efni tillögunnar í samvinnu við Félagsbústaði og velferðarsvið.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010213
Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tæplega 900 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir húsnæði hjá borginni sé litið til félagslegs húsnæðis, húsnæðis fyrir fatlað fólk, húsnæðis fyrir heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúða fyrir aldraða. Nákvæm tala er 883 umsóknir og á bak við þær eru manneskjur. Af þeim bíða 531 eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, þar bíða 117 barnafjölskyldur, þar af 94 einhleypir foreldrar. Tillagan fól í sér að Reykjavíkurborg fæli Félagsbústöðum að fara í fjárfestingu til að útvega húsnæði fyrir fólk sem nú bíður eftir húsnæði hjá borginni. Það yrði gert í samvinnu við fjármála- og áhættustýringarsvið og velferðarsvið. Reykjavíkurborg getur ekki skorast undan ábyrgð gagnvart þeim einstaklingum sem bíða eftir húsnæði hjá borginni og eiga rétt á því. Húsnæði og öruggt húsaskjól er grunnforsenda velferðar og fjárfesting í þágu húsnæðisuppbyggingar ætti að vera efst á forgangslista borgarinnar. Það er óboðlegt að fólk sé látið bíða til lengdar eftir húsnæði á viðráðanlegu verði.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Framlög borgarinnar til húsnæðismála árin 2021-2025 eru áætluð um 86 milljarðar kr. eða rúmir 17 milljarðar kr. árlega. Hér er verið að leggja til að leggja eigi 24 milljarða í viðbót sem telst afar varlega áætluð tala. Reykjavík hefur dregið vagninn í húsnæðisuppbyggingu fyrir tekjuminni hópa á undanförnum árum. Um það er ekki deilt. Eins og fram hefur komið er hlutdeild Reykjavíkurborgar í framboði félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu yfir 78%. Ef sveitarfélögin í kraganum myndu í jöfnu hlutfalli við Reykjavík bjóða upp á félagslegar íbúðir, væru engir biðlistar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Kostnaðarmatið upp á 24 milljarða er fengið frá fjármála- og áhættustýringarsviði.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Flestum er ljóst að húsnæðisvandinn í Reykjavík er heimagerður og byggist á stórkostlegu vanmati á húsnæðisþörf og fjölgun í landinu. Lausnin sem hér er boðuð nær ekki að bæta úr framboðsskorti og mun auka enn á miðstýrð einsleit úrræði. Leysa þarf málið með almennum hætti með því að koma í veg fyrir skort á húsnæði. Það verður best gert með því að skipuleggja hagstætt byggingarland, en skortur á því hefur valdið húsnæðiskreppu í Reykjavík. Stækkandi félagslegt húsnæðiskerfi er einkenni á undirliggjandi húsnæðisvanda sem er mjög víðtækur í Reykjavík.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Biðlistinn eftir félagslegu húsnæði er ólíðandi. Hann hefur jú styst en samt bíða tæplega 900 einstaklingar og fjölskyldur eftir húsnæði hjá borginni sé litið til félagslegs leiguhúsnæðis eins og segir í tillögu Sósíalistaflokksins. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu þessa tillögu að fjárfesta gegn húsnæðiskreppu. Reykjavíkurborg þarf að sjá til þess að allir hafi öruggt skjól, húsnæði sem hægt er að kalla heimili sitt. Gera þarf betur, taka þarf á þessu meini sem biðlistar almennt eru í Reykjavík. Sjá þarf til þess að byggð sé blönduð og til séu fjölbreyttar eignir svo allir hafi þak yfir höfuðið. Af hverju hefur þessi meirihluti, góður hluti hans sem ríkt hefur í á annan tug ára, ekki endurreist verkamannabústaðakerfið? Meirihlutinn hefur rómað það kerfi og skammast yfir að það hafi verið lagt niður en hefur síðan ekkert gert til að endurreisa það. Sífellt er bent á önnur sveitarfélög, hvað þau standi sig illa. Skammast er út í ríkið. En hvað eiga minnihlutafulltrúar að gera til að snúa upp á hendur annarra sveitarfélaga? Hefur borgarstjóri tekið samtal við nágrannasveitarfélögin um þetta, alvöru samtal? Af hverju er málið ekki rætt á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga? Þar hefur borgarstjóri gullið tækifæri til að skipa öðrum stjórnum sveitarfélaga að girða sig í brók. Á borgarstjóri aldrei samtal við ríkisvaldið þar sem hann getur sagt þeim að girða sig í brók? Það er ekki nóg að skammast í minnihlutafulltrúum fyrir að koma með tillögur til úrbóta en klappa síðan bara nágrannasveitarfélögum og ríkisvaldinu á „öxlina“.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í innleiðingarferli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi. Í kjölfarið verði stefnt að því að fá afhenta viðurkenningu og vera þar með komin í hóp barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013 og hefur hann lagagildi hér á landi og bein réttaráhrif. Reykjavíkurborg ber því að fara að ákvæðum sáttmálans við ákvörðunartöku og í athöfnum sínum. Það er mikilvægt að vinna ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. Nokkur brýn mál þarfnast úrbóta. Þau snúa m.a. að aðbúnaði barna og öryggi í leik- og grunnskólum, rétt þeirra til sálfræði- og talmeinaþjónustu og þátttöku þeirra í ákvörðunum er varða þau sjálf þar sem þess er kostur. Innleiðing Reykjavíkur á Barnasáttmálanum skiptir sköpum þegar kemur að málefnum barna, sérstaklega nú þegar fátækt fer vaxandi og kannanir sýna aukna vanlíðan barna. Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda hefur fjölgað.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010214
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Miðflokksins, að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað þurfi til til að Reykjavík geti farið í innleiðingaferli á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna líkt og gert var í Kópavogi hefur verið vísað til borgarráðs. Tillagan gengur út á að skipa starfshóp en erindinu er vísað inn í lægra sett stjórnvald sem er borgarráð og þar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðisrétt. En eins og kom fram í ræðu fulltrúa Flokks fólksins þá liggur erindi í borgarráði frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs sem átti að leita liðsinnis velferðarsviðs við gerð umsagnarinnar. Fram kemur hjá meirihlutanum að erindið sé ekki „ofan í skúffu“ en samt hefur ekki bólað á neinni ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að taka þátt í verkefninu. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum berist hið snarasta. Faglegast hefði verið að samþykkja þessa tillögu og vísa erindi UNICEF í þann hóp. Það er undarlegt að Reykjavík skuli vera eftirbátur mun minna sveitarfélags í þessu mikilvæga máli. Staðreyndin er sú að ákvæði Barnasáttmálans eru brotin víða í málefnum barna Reykjavík.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í Reykjavík er víða unnið eftir hugmyndafræði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í starfi með börnum. Sérstaklega í skóla- og frístundastarfi. Af sérstökum verkefnum má nefna réttindaskóla og réttindafrístund auk þess sem starf Reykjavíkurráðs ungmenna er starfrækt í anda Barnasáttmálans. Borgarráði hefur borist bréf UNICEF um að Reykjavíkurborg verði fyrsta höfuðborg í heimi til að koma í hóp barnvænna sveitarfélaga og er málið þar í vinnslu.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Miðflokksins greiðir atkvæði á móti því að tillögunni verði vísað til borgarráðs sem er lægra sett stjórnvald í stað þess að fara með með málið í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn. Slíkt valdaframsal er óheimilt samkvæmt sveitastjórnarlögum.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opna í úthverfi Reykjavíkur grænt svæði, almenningsgarð með afþreyingu, svo sem kaffihúsi, þar sem frætt verður um umhverfisgildi ræktunar og að minnka sóun. Núverandi meirihluta er tíðrætt um „græna borg“ sem er af hinu góða. Ekki veitir af. Fulltrúi Flokks fólksins vill efla og styrkja Reykjavík sem græna borg og þá ekki bara með grænum þökum á þéttingarsvæðum. Lagt er til að í almenningsgarðinum verði tré og runnar merkt og þar skrifaðar upplýsingar um gildi plantnanna; hvaða áhrif þær hafa á umhverfið. Í kaffistofu (græn kaffistofa) yrðu upplýsingaspjöld og leiðbeiningar sem unnar yrðu af fagfólki m.a. um gildi náttúrunnar í umhverfismálum og hvernig minnka mætti sóun. Taka mætti hér undir svæði í Elliðaárdal, jafnvel við Landbúnaðarskóla Íslands á Keldnaholti og þar sem væri líklega hægt að fá leiðsögn um slík svæði, allt út frá umhverfissjónarmiðum, skógi og fallegu umhverfi. Hafa mætti samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur eða jafnvel íþróttafélög auk samráðs við íbúana á hverjum stað. Þetta framtak myndi opna skemmtilegt útivistarsvæði í nærumhverfi ytri byggðar og minnka þannig þörf á því að sækja afþreyingu annað með tilheyrandi kolefnisspori.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010215
Frestað.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 6. janúar.MSS22010003
- 12. liður fundargerðarinnar; gjaldskrá fyrir gjöld á bílastæðum í Reykjavíkurborg, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22010011
- 13. liður fundargerðarinnar; gjaldskrá fyrir gjöld í bílahúsum Reykjavíkurborgar, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS22010011
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. og 13. lið fundargerðar borgarráðs:
12. liður: Stækka á gjaldsvæði 1 sem er dýrasta gjaldskyldusvæðið. Verið er að þrengja sífellt meira að þeim sem þurfa að nota bíl til að fara ferða sinna. Fólk getur ekki lengur valið sér þann ferðamáta sem því hentar, svo erfitt er þeim gert fyrir af meirihlutanum. Nóg er komið af álögum á borgarbúa sem í þessu tilfelli koma verst niður á þeim sem búa fjarri miðbænum og langar að heimsækja miðbæinn endrum og sinnum. 13. liður: Hækkun gjalda bílastæðahúsa mun hafa frekari fælingarmátt. Mörg eru nú þegar vannýtt, sérstaklega á ákveðnum tímum. Lækka ætti frekar gjöldin og reyna að gera bílastæðahúsin meira aðlaðandi, t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu sem myndi laða að eldra fólk en margt eldra fólk forðast bílastæðahús, finnst þau dimm og greiðslukerfið flókið. En hvað sem öllu þessu líður hlýtur það að vera markmiðið að fá sem flesta bíla inn af götunni. Óttast er að með því að hækka gjöldin fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólki sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. janúar, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. desember 2021, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. janúar, skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 11. janúar og velferðarráðs frá 15. desember 2021. MSS22010217
B-hluti fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar er samþykktur með 22 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22010010
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. janúar:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst svarið við fyrirspurnum um sviðsmyndir framtíðarskipan skóla í Laugarness- og Langholtshverfi frekar útþynnt. Vísað er í fund sem var haldinn 1. desember. Þar kom fram að foreldrafélagið hafi til 1. febrúar til að skila umsögnum. Vita foreldrar af því? Varðandi leikskólann Hof þarf að koma betri staðfesting á að taka eigi í alvöru tillit til umsagna foreldra varðandi þá þróun. Standa þarf vörð um góða sátt og samstarf milli stjórnenda Hofs og Lauganesskóla (LNSK) enda er ákvörðun um stækkun Hofs og framtíðarþróun LNSK órjúfanleg. Eins hefur komið fram að ekki allir eru sáttir við breytt skipulag. Hvað varðar íþróttahúsið þá líður íþróttastarfið í hverfinu fyrir endalausa töf. Reynslan hefur sýnt að íþróttaiðkun barnanna þarf endurtekið að víkja úr húsunum fyrir íþróttakeppnum, tónleikum og viðburðum í Laugardalshöll. Varðandi frístundina finnst fulltrúa Flokks fólksins að gert sé lítið úr gönguleiðinni því þetta er erfið ganga fyrir börn með þungar töskur sem þurfa að ferðast til/frá æfingum og annarri iðju, þá fá þau ekki fylgd. Annað sem ekki liggur fyrir varðandi þessa sviðsmyndir er kostnaðargreining en ein af ástæðunum fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og líka faglegt. Ef horft er til Dalheima þá hefði verið lag að sjá hlutfall nemenda eftir aldri. Þátttaka nemenda í 4. bekk Laugarnesskóla er t.d. lítil.
Fundi slitið kl. 21:12
Forsetar gengu frá fundargerð
Sabine Leskopf
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.1.2022 - Prentvæn útgáfa